12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

165. mál, ríkisborgararéttur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 783 till. um, að veittur verði ríkisborgararéttur tveimur mönnum. Hv. allshn. hefur tekið annan þennan aðila inn í sínar till., og er ég henni þakklátur fyrir það, en eftir atvikum mun ég taka till. um hann til baka og einnig hina fyrri till., þannig að þskj. í heild er tekið aftur.

En ég vildi hins vegar leyfa mér að flytja hér brtt. um nýjan aðila, þýzka konu, sem gift er íslenzkum ríkisborgara, og ég verð að bera hana fram skriflega, þar sem ekki hefur unnizt tími til að ganga frá henni í tæka tíð, en hún er um það, að frú Friede Gertrud Block Jónsson, húsfrú í Reykjavík, sem er fædd í Þýzkalandi 1. ágúst 1920, verði bætt við 1. gr. frv. Kona þessi mun ekki uppfylla þá kröfu, sem hv. allshn. vill gera til erlendra kvenna, sem giftast íslenzkum ríkisborgurum, um að hafa verið gift í 3 ár.

Ég viðurkenni það fúslega, að það er eðlilegt, að hv. n. reyni að leita sér að einhverri reglu til að fara eftir, en ég held satt að segja, að þessi þriggja ára hjúskaparregla sé nokkuð óeðlileg og það sé ekki raunverulega hægt að segja, að það sé neitt meiri ástæða til að halda, að konan dvelji hér á landi áfram, þó að hún hafi verið gift hér í þrjú ár, heldur en hafi hún dvalið kannske 4–5 ár ógift, ef hún á annað borð er gift, þegar um það er að ræða, hvort hún fær ríkisborgararétt eða ekki.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur það verið meginreglan, þangað til hin nýju l. um ríkisborgararétt gengu í gildi, að erlendar konur, sem giftust íslenzkum ríkisborgurum, öðluðust af sjálfu sér ríkisborgararétt, án þess að þurfa sérstaklega um hann að sækja. Þessi breyting, sem gerð var á l., hefur í för með sér margvíslega erfiðleika fyrir þær konur, sem giftast íslenzkum ríkisborgurum, bæði fyrir þær sjálfar og menn þeirra, þar sem konur þessar eru réttlausar varðandi þau hlunnindi, sem íslenzkar konur njóta, á meðan þær hafa ekki fengið ríkisborgararétt. Það kann að vera full ástæða til þess, að löggjafinn ákveði, að breytt sé þeirri reglu, sem áður gilti um, að kona fái ríkisborgararétt, ef hún giftist íslenzkum ríkisborgara. En ég held nú samt, að það eigi að sýna nokkurt frjálslyndi í þessum efnum, ef ekki eru einhverjar sérstakar ástæður fyrir hendi, sem benda til þess, að það sé af tylliástæðu einni, sem konan hafi gengið í hjúskap og ætli sér með því einu að ná ríkisborgararétti, sem hún geti að einhverju leyti haft gagn af á öðru sviði.

Kona sú, sem hér um ræðir, hefur dvalið hér á Íslandi svo að segja óslitið síðan snemma árs 1949, hún hefur að vísu ekki verið gift nema í eitt ár, en það standa þannig sakir, að það er áreiðanlega engin ástæða til þess að halda, að hún muni á næstunni flytja af landi brott eða hafa nokkra sérstaka ástæðu til þess að sækjast eftir íslenzkum ríkisborgararétti af tylliástæðum, þannig að það sé þörf á að gjalda varhug við að veita henni þessi réttindi. Hún hefur ekkert af sér brotið hér, — það liggja fyrir vottorð um það, — og ekkert bendir til þess, að hún geti ekki verið fullgildur og góður íslenzkur borgari.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta, en vildi aðeins leyfa mér að vænta þess, að hv. d. sæi sér fært að veita konu þessari ríkisborgararétt.