12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

165. mál, ríkisborgararéttur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Á þskj. 813 er till., sem ég flyt um það, að Meckle, Olga, húsmóðir á Reynivöllum í Austur-Skaftafellssýslu, fái íslenzkan ríkisborgararétt. Þessi kona kom hingað til landsins að ég ætla árið 1947 í allstórum hóp af þýzku fólki, sem þá kom til þess að vinna landbúnaðarstörf hér í sveitum landsins. Hún kom þá beint á þetta heimili, að Reynivöllum í Austur-Skaftafellssýslu, og hefur dvalið þar samfleytt síðan. Nú er hún fyrir nokkru gift manni, sem hefur alizt upp á þessu heimili, og mér er ekki kunnugt um, að þessi hjón hugsi til bústaðaskipta framvegis. Þessi kona hefur því valið sér stöðu húsmóðurinnar á þessu sveitaheimili og getið sér góðan orðstír í hvívetna, bæði sem húsfreyja á heimilinu og í viðskiptum öllum innan sveitarinnar.