12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að fjölyrða mikið um þessar till., sem fyrir liggja. Ég gerði grein fyrir því af hálfu n., hvaða reglum hún hefði fylgt í till. sínum, og þarf ekki að endurtaka það. Þær till., sem fyrir liggja og fluttar eru af hv. þm., uppfylla allar eða nær allar a. m. k. ekki þau skilyrði, sem n. setti sér, og þess vegna getur n. ekki mælt með því við hv. d., að þær verði samþ.

Ég skal lítillega minnast á brtt. hv. þm. Siglf., sem er á þskj. 791. Það kom mjög til orða um þennan umsækjanda í n., og verð ég að láta það í ljós, að nm. ýmsir, máske allir, höfðu í sjálfu sér samúð með að veita þessum manni þegnrétt, og stafar það af því, að hann er búinn að vera hér nokkuð lengi búsettur, er kvæntur íslenzkri konu, og þau giftust 1943, eiga 3 börn, sem eru hér með móður sinni, og þegar maðurinn hefur nokkurt frí frá störfum, þá dvelur hann hér með fjölskyldu sinni, en hann hefur verið í siglingum, eins og hv. þm. Siglf. réttilega drap á, og mun nú vera slitinn úr tengslum gersamlega við sitt heimaland, svo að í raun og veru er líklega þannig ástatt um hann, að hann á nú ekkert föðurland. Það er þess vegna erfitt í raun og veru að geta ekki orðið við óskum þessarar fjölskyldu, og ég verð nú að láta það í ljós, — það segi ég nú persónulega fyrir mig, — að þó að þessi till. hv. þm. Siglf. yrði samþykkt, þá mun það nú tæpast geta talizt mikið frávik frá því, sem n. setti sér með sínum till., og það er sakir þess, hve maðurinn er búinn að vera hér lengi öðru hverju og fjölskylda hans er hér. Hingað kom hann 1942 og hefur í raun og veru ekki verið síðan í sínu heimalandi. Hans atvinna hefur verið í siglingum víðs vegar um höfin, en fjölskyldan verið lengi búsett hér. Þetta eru nokkuð sérstakar ástæður og því í raun og veru margt, sem mælir með því, að þessi till. yrði samþ. En það er þá líka eina till. af þeim, sem fyrir liggja, sem þannig er ástatt um.

Hv. 1. þm. Rang. (IngJ) minntist hér á brtt. þær, sem hann flytur hér á þskj. 822. Það eru tvær till. Körner, Anneliese Ruth, húsfrú, kom hingað 1949 um vorið, giftist árið sem leið, eftir því sem skjölin herma, en þau hjón eiga víst tvö börn. Um nr. 2 á þessu sama þskj., Warncke, Martha Emma Johanna, húsfrú, þá kom hún hingað einnig 1949, hefur verið við landbúnaðarstörf og giftist í vetur. (Gripið fram í.) Nei, það er nú í sjálfu sér ekki, en í skjölunum stendur, að þau hafi gift sig í febrúar. Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta, það er svo langt frá því, að þetta fullnægi því, sem við höfum haft að leggja til grundvallar, að n. getur ekki mælt með slíku.

Þá er till. frá hv. 8. landsk. Ég vil taka það fram í eitt skipti fyrir öll, af því að hann lagði einna mesta áherzlu á það, að þetta væri mjög vönduð og góð kona, að það efast ég ekkert um. En við viljum gersamlega leiða hjá okkur að dæma nokkuð um slíkt og hafa af þeim ástæðum á móti fólkinu. Við einmitt vonum, að svo sé, og þá munu þær innan ekki mjög langrar stundar, ef fylgt verður þessari reglu, sem nefndirnar hafa nú sett sér, öðlast ríkisborgararétt. Þessi kona kom hingað 1946, giftist árið sem leið, að haustinu. Hún var við nám 1949-'50, eftir því sem skjölin sýna, og þá hefur hún slitið í sundur sína dvöl hér eða heimilisfang, og ekki styrkir það vitaskuld aðstöðuna til þess að öðlast réttinn. Hv. þm. drap á, að það þyrfti ekki að óttast, að þessi kona notaði sinn ríkisborgararétt, þó að hún fengi hann nú, landinu til óhagræðis; það efast ég ekki um. Hennar ríkisborgararéttur, sem er núna í Noregi, hefur sitt fulla gildi, þó að hún hugsaði sér að fara til dvalar eitthvað annað, og um það þarf vafalaust ekki að fjölyrða.

Hv. þm. Ak. tók sína till. aftur, þar sem n. líka hafði tekið hana upp.

Hv. þm. A-Sk. (PÞ) mælti með sinni brtt. og gaf þessari húsmóður hið bezta orð. Það efast ég ekkert um, að þannig sé það. Hún kom hingað 1949, eins og ég ætla að hann hafi tekið fram, en giftist í fyrra, og fyrir þá sök hefur n. ekki getað mælt með samþykkt þeirrar till.

Hv. 11. landsk. hefur ekki mælt neitt með sinni brtt., en það er eins ástatt með þá konu. Hún kom hingað til lands í fyrra og giftist á árinu og uppfyllir því hvergi nærri þessi skilyrði.

Þá var hv. 2. þm. Eyf. (MJ) með skrifl. brtt. Hann gat þess, að sú kona, sem hér á hlut að máli, hafi aðeins verið gift í eitt ár, kom hingað 1949, og stendur því eins á um hana og ýmsar aðrar, að hún uppfyllir ekki þessi skilyrði. Hv. þm. sagði, að sér fyndist, að þetta ætti ekki að vera algild regla, hún gæti verið ósanngjörn, væri tæpast vert að halda sér mjög fast við hana. Ég skal ekki bera á móti því. En ég vil beina því til hv. þm., að það getur verið það alvarlegur hlutur, að það sé full ástæða til þess að gæta varúðar í þessum efnum. Einhverja reglu verða menn að hafa, og þó að segja megi, að reynslutíminn sé ekki langur, þrjú ár, þá gefur þó sá tími nokkra hugmynd um, hvernig háttað muni vera um þetta fólk. sem sækir þá um íslenzkan ríkisborgararétt, og vissulega er nokkru meiri trygging fyrir því, að það taki sér bólfestu til frambúðar, að það stofnar til fjölskyldu og myndar heimili, og er það engan veginn lítilvægt, þegar nokkur stund er liðin. Hitt höfum við vitneskju um, að það er til, að erlent fólk, sem hingað hefur komið, hefur ætlað sér að fá ríkisborgararétt til þess að auðvelda sér leiðina til annarra landa. Og þess ber okkur að gæta að fara varlega í þær sakir, því að ríkisborgararéttur okkar og það álit, sem þjóðin kann að fá frá þeim þegnum sínum, er engan veginn lítilvægt, hvernig það kann að gefast.

N. getur því ekki mælt með þessum brtt. hv. þm. En ég get lýst yfir fyrir mitt leyti, ég geri það ekki f. h. nefndarinnar allrar, að helzt væri það þá till. sú, er hv. þm. Siglf. flytur.