13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2420)

165. mál, ríkisborgararéttur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta, að þetta mál verði að þessu sinni tekið út af dagskrá. Við síðustu umr. þessa máls í d. voru margir umsækjendur settir inn í frv., sem uppfylltu ekki þau skilyrði eða þær reglur, sem farið hefur verið eftir í þinginu undanfarið. Eins og hv. frsm. hér í deildinni gat um, hafa báðar deildir þingsins undanfarið farið eftir föstum reglum um veitingu ríkisborgararéttar, og ef út af þeim reglum á að bregða, þýðir ekki að vera að setja þetta mál í nefnd og láta nefndirnar aðskilja umsækjendur samkv. þeim reglum, sem þingið hefur sett í þessu máli. N. vill því fá tíma til þess að athuga málið frekar, hvort hún vill breyta afstöðu sinni í samræmi við þann vilja, sem hefur komið fram í d. Um það get ég ekkert sagt. En hvað sem því liður, þá mun hún óska að fá að athuga málið betur, áður en það fer út úr deildinni.

Ríkisborgararéttur er talinn af flestum mjög dýrmætur réttur, og það er víst engin þjóð í heiminum, sem lætur hann á mjög auðveldan hátt. Ríkisborgararéttur hér á Íslandi er að sumu leyti verðmætari fyrir marga en borgararéttur ýmissa annarra ríkja, þar sem t. d. íslenzkir borgarar eiga tiltölulega auðvelt með að fá aðgang að borgararétti í Bandaríkjunum og Kanada. Það verður því að gjalda varhuga við því, að útlendingar, sem hér sækja um borgararétt, fái hann alveg að óathuguðu máli og dvelji hér kannske í eitt, tvö eða þrjú ár og fari svo í burtu héðan, en slíks munu dæmi. Ég veit, að hv. þm. eru sammála mér um, að slíkt beri að forðast.