13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

165. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem tekið var fram, að þingfundum í þessari hv. d. er nú að ljúka, og að biðja um frest á einu máli nú er það sama og að biðja um, að málið verði ekki afgr.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir um veitingu ríkisborgararéttar, hefur verið til umr. og athugunar hér í þessari hv. d. og hjá hv. allshn. Hv. allshn. bar hér fram till. í gær um að bæta nokkrum mönnum við frv. Hins vegar voru teknir nokkrir fleiri inn í frv. en þeir, sem allshn. vildi mæla með. Sé þetta nú athugað, þeir ágætu menn, sem n. mælti með, og hinar heiðvirðu húsfrúr víðs vegar í sveitum landsins, sem voru teknar inn í frv. þrátt fyrir mótmæli allshn., þá geri ég ráð fyrir því, að þessi hv. d. hafi ekki breytt um skoðun síðan í gær og hún vilji, að þessar konur, sem voru teknar hér inn, verði áfram á frv. og fái sinn borgararétt afgreiddan á yfirstandandi þingi.

Það er alveg rétt, að íslenzkur ríkisborgararéttur er mikils virði. Það mun einnig vera rétt, sem hv. form. allshn. sagði hér áðan, að það má benda á dæmi þess, að íslenzkur ríkisborgararéttur hafi verið misnotaður þannig, að einstaklingur eða einstaklingar, a. m. k. örfáir, hafi, eftir að þeir hafi fengið íslenzkan ríkisborgararétt, notað sér hann til þess að komast til Bandaríkjanna eða annarra landa, sem þeir hefðu ekki getað, ef þeir hefðu ekki áður öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt. En nú vil ég spyrja hv. þm.: Dettur þeim í hug, að þessar konur, sem voru teknar hér inn í frv. í gær og eru búsettar úti í sveitum landsins, giftar íslenzkum mönnum og farnar að ala börn þar, fari nú að taka sig upp og strjúka til Bandaríkjanna? Ég held, að slíkt komi alls ekki til greina. Þær eru þegar fastar hér og eiga ekki heimangengt. Ég vil þess vegna mótmæla því, að þetta frv. verði stöðvað. Ég sé ekki ástæðu til þess að mótmæla því, að hv. n. taki frv. til athugunar, ef hún lofar því, að sú athugun taki stuttan tíma og að frv. geti orðið til umr. og afgreiðslu á næsta fundi þessarar d., sem sennilega verður í kvöld.