13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

165. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Hv. 3. þm. Reykv. virðist hafa sviðið eitthvað undan höggunum, sem hæstv. forsrh. veitti honum í ræðu sinni áðan, og það get ég vel skilið, það mátti vel undan þeim sviða.

Ég tek algerlega undir þau skörulegu ummæli, sem hæstv. forsrh. viðhafði í sinni ræðu áðan um þetta mál. Það er rétt, að þessi hugmynd hv. 3. þm. Reykv. um að skylda menn til þess að skipta um nöfn er einhver alfáránlegasta hugmynd, sem fram hefur komið á þingi langa lengi og hlotið hefur staðfestingu í lögum. Þess eru engin dæmi í löggjöf nágrannalanda, að slík og þvílík ákvæði séu sett. Það eru engin dæmi þess meðal þjóða, sem á annað borð hylla lýðræðishugsjónina, að svo nærri sé gengið persónuleika manna eins og gert er með því að skylda þá til þess að afsala sér nöfnum sínum, sem þeir hafa borið frá því að þeir hlutu skírn. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að slíkt er siðleysi, fullkomið siðleysi. Það minnsta, sem hægt er að gera í þessu máli, er að leyfa mönnum að halda ættarnöfnum sínum, meðan þeir lifa, en tryggja það, að tungan sé ekki skert, á þann hátt, að fornöfnunum sé breytt og niðjarnir kenni sig við þessi fornöfn áfram. (BÓ: Hver tryggir það?) Það á ríkisvaldið að tryggja. Sé misbrestur á því, getur hv. þm. átt það við sjálfan sig. Hann hefur verið menntmrh. í þrjú ár, og hafi nafnalögunum verið illa framfylgt, þá hefur hann gerzt þar brotlegur við skyldu sína. (BÓ: Það heyrir undir dómsmálin.)

Hv. þm. sagði, að það væru mikil rangindi, ef þessum reglum yrði nú breytt, vegna þess að þær hefðu gilt um tvo flokka nýrra ríkisborgara. Það er auðvitað alger misskilningur, að til mála geti komið að halda endalaust í vitleysu, sem einhvern tíma kann að hafa slæðzt inn í lög. Því fyrr sem hún er aftur numin úr lögum, því betra.

Ég leit yfir þau 37 nöfn manna, sem nú er gert ráð fyrir að hljóti íslenzkan ríkisborgararétt. 8 af þessum nöfnum eru þannig, að þau eru þegar borin af tugum ef ekki hundruðum manna, sem eru íslenzkir ríkisborgarar. Þau eru m. ö. o. algerlega lögleg samkv. íslenzkum nafnalögum og öðrum íslenzkum rétti. Þetta eru eftirfarandi nöfn, með leyfi hæstv. forseta: Christensen, Clausen, Hansen, Jacobsen, Jensen, Jörgensen, Petersen, Thorberg. M. ö. o.: 8 af 37 nöfnum — eða meira en fimmta hvert nafn á skránni — eru þegar lögleg íslenzk nöfn. Hvernig getur nú hv. þm. rökstutt, að það sé fjarstæða að heimila þessu fólki að halda nöfnum sínum til dauðadags eins og öðrum íslenzkum borgurum, sem nú njóta fullsréttar í þessu þjóðfélagi? Sjá ekki allir hv. þm., að hér er fjarstæða á ferðinni? Hvernig geta nöfnin Christensen, Clausen, Hansen, Jaeobsen verið stórhættuleg á 8 nýjum íslenzkum ríkisborgurum, ef þau eru ekki hættuleg á hundruðum manna, sem nú þegar bera þau? Hér er um þvílíka fjarstæðu að ræða, að ég satt að segja furða mig á því, að jafnvel hv. 3. þm. Reykv. skuli gerast málsvari annars eins og þessa. Ef hann teldi þessi nöfn stórskaðleg, þá ætti hann auðvitað að beita sér fyrir því, að alls enginn íslenzkur ríkisborgari bæri þau. Hann ætti að bera fram brtt. við nafnalögin um það, að allir, sem nú bera útlend nöfn, skuli skipta um nöfn. Það hefur honum aldrei dottið í hug, því að það væri fullkomin ókurteisi og siðleysi gagnvart þeim borgurum, sem borið hafa nöfnin langa lengi. Hitt finnst hv. þm. sæmandi, að svo að segja níðast á þeim mönnum, sem sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, nota það, að þeir eiga undir löggjafarvaldið að sækja, til að skylda þá til þess að segja skilið við þennan helga rétt, sem í eiginnafninu felst. Ef hv. þingmaður ber eins mikla umhyggju fyrir íslenzkri tungu og hann vill vera láta, hví stingur hann ekki upp á því, að ríkisborgarinn skuli kunna íslenzku? Það er ekkert ákvæði í frv. eða nokkrum lögum, sem tryggir það, að ríkisborgararnir kunni íslenzka tungu, og vissulega væri meiri hætta af því fyrir tunguna, ef þeir fengju ríkisborgararéttinn og gætu ekki talað mál sinnar þjóðar, heldur en þótt þeir fái að halda nafni sínu til dauðadags.

Ég orðlengi þetta ekki frekar, þótt margt fleira mætti um þetta segja, til þess að tefja ekki afgreiðslu málsins, en ég vil undirstrika það, — þó að um stór orð sé að ræða, — sem hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni áðan, að það eru engir mannasiðir að samþ. lög eins og þau, sem hér er um að ræða.