31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

189. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Eins og segir í grg. fyrir þessu frv., hefur málið legið fyrir þessari hv. d. og raunar fyrir Alþ. öllu fyrr. Ég held, að það hafi verið á árinu 1951, sem flutt var í fyrra sinni frv. til l. um stofnun prófessorsembættis í líffæra- og lífeðlisfræði. Þessi hv. d. samþ. þá eftir till. frá mér, að prófessorsembætti skyldi stofna samtímis í röntgenfræðum, og fór frv. þannig frá þessari hv. d. til Nd., en í það sinn reyndist það ekki verða útrætt þar.

Ég hef því hugsað mér að bera fram brtt. við frv., sams konar og þá, sem hv. Ed. samþ. á árinu 1951, en get bætt því við, að hvað röntgenfræði snertir, þá er ekki lengur, eftir því sem mér er hermt, um það að ræða, að nokkur kostnaðarauki verði af stofnun þess embættis umfram það, sem er af þeirri kennslu, sem nú er haldið uppi í röntgenfræðunum. Sá yfirlæknir, sem hefur með þá kennslu að gera, er líklegur til þess að verða skipaður prófessor, ef þetta yrði fært í l. Og mér finnst, að þar sem prófessorsnafnbót er tengd við aðra lækna, sem stunda kennslu í háskólanum og hafa sérgreinar, ýmist skurðlækningar eða meðalalækningar, með höndum að öðru leyti á landsspítalanum, þá sé ekki nema rétt og sanngjarnt, að röntgendeildin og röntgenfræðin og sá, sem stendur fyrir þeim fræðum, njóti sömu aðstöðu og sömu virðingar og þeir, sem eru ýmist orðnir prófessorar eða lagt er til að verði það. — Ég mun því flytja þessa brtt. og vonast til, að hv. n., sem fær þetta mál athugi það með vinsemd og kynni sér þá málavexti, sem að því liggja, að farið er fram á, að yfirlæknirinn, sem kennir röntgenfræðina, hljóti og prófessorsnafnbót.