31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

189. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Frv., að nokkru leyti um sama efni og þetta, hefur legið fyrir tveim undanförnum þingum og ekki náð afgreiðslu. Það fjallar um stofnun prófessorsembættis í læknadeild Háskóla Íslands í lífeðlis- og lífefnafræði. Það var í bæði skiptin samþykkt hér í þessari hv. d., en fékk ekki afgreiðslu í Nd.

Þegar rætt var um stofnun prófessorsembættis við lagadeildina í þessari d. hér fyrr á þinginu, þá hafði ég orð á því í sambandi við það mál, að ég teldi ekki síður nauðsynlegt að fjölga prófessorum í læknadeildinni. Nú er komið fram frv. um þetta efni, og hefur n. fallizt á einróma að mæla með frv. í þeirri mynd, sem það er. Í frv. eru nú þau ákvæði, sem voru í fyrra frv., um að bæta við einum prófessor í læknadeildina í þeim greinum, sem ég hef nú skýrt frá. En til viðbótar því er lagt til í 2. gr. frv., að við Háskóla Íslands skuli starfrækja rannsóknarstofu, sem vinni að rannsóknum í líffæra- og lífeðlisfræði og öðrum skyldum verkefnum. Skal hún heita Rannsóknarstofa háskólans í líffæra- og lífeðlisfræði og lúta læknadeildinni. Þetta er veruleg breyting frá því, sem verið hefur. Það hefur verið talið nauðsynlegt og er það sjálfsagt í sambandi við kennslu stúdenta í þessum fræðum, að rannsóknarstofa væri til, sem starfaði í sambandi við háskólann. Þessi rannsóknarstofa hefur verið rekin af próf. Jóni Steffensen, sem hefur séð um rekstur hennar og forstöðu á eigin ábyrgð. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að horfið verði frá þessu fyrirkomulagi og deildin sjálf taki nú að sér rekstur rannsóknarstofunnar. N. er sammála um, að það sé eðlilegra, að þessi háttur sé á hafður, og ég veit ekki annað en að fullkomið samkomulag sé um það milli þeirra, sem starfa við deildina, og hjá háskólaráði í heild sinni, að þessi breyting sé gerð. Og eins og áður er sagt, mælir n. með því, að frv. verði samþykkt.

Í bréfi frá próf. Steffensen, sem hefur rekið rannsóknarstofuna til þessa, er þess getið, að megintekjur rannsóknarstofunnar hafi til þessa komið frá Tryggingastofnun ríkisins og sjúkrasamlögum á landinu, en mjög litlar aðrar tekjur af þessu orðið. Þetta er rétt, og það er sjálfsagt eðlilegt, að samið verði framvegis um þessi störf milli læknadeildarinnar annars vegar, sem nú annast reksturinn, og trygginganna og samlaganna hins vegar. Hér stendur í bréfi prófessorsins um þetta efni, sem fylgir sem greinargerð með frv., með leyfi hæstv. forseta: „Eðlilegast finnst mér, að sjúkrarannsóknirnar greiddu allan kostnað utan húsnæðis, ljóss og ræstingar, nýrra áhalda og viðhalds en væntanlega yrði þetta reglugerðaratriði.“ Ég vil taka það fram, að ég er ekki alls kostar samþykkur því, sem þarna er sagt. Það fer eftir því, hvert verkefni rannsóknarstofunnar verður og að hve miklu leyti hún vinnur fyrir tryggingarnar, og hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir samningum milli þessara aðila, en verður ekki ákveðið einhlíða með reglugerð. Mér þótti rétt að taka þetta fram, vegna þess að þetta stendur í bréfi prófessorsins.