13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

27. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Reykv., á þskj. 27, um að breyta lögunum um áburðarverksmiðju þannig að fella niður 13. gr. og breyta bráðabirgðaákvæði í samræmi við það, er sannarlega ekki flutt á Alþingi að ófyrirsynju.

Meðferð þessa máls. eins og hún varð í Alþingi við lok málsins, þegar það var lögfest, hefur vakið svo mikla athygli og andúð almennings í landinu, alls þess almennings, sem hefur virkilega fengið að skilja, hvað þar var um að ræða, að samþykkt þessa frv. mundi áreiðanlega vekja mjög mikla ánægju hjá stórum fjölda af almennum kjósendum landsins, vegna þess að ef það væri samþ., þá mundu þeir sjá, að Alþingi hefði þó a. m. k. einhvern vilja til þess að lagfæra það, sem það hefur áður illa gert. En til þess að sýna dálítið betur fram á, hversu óviðfelldin þessi aðferð var, sú breyt. að gera áburðarverksmiðjuna að hlutafélagi, í stað þess að láta hana vera að fullu í eign ríkisins, þá er rétt að rifja ofur lítið upp sögu þessa máls frá byrjun.

Þegar áburðarverksmiðjufrv. var samþ. hér á Alþingi í maímánuði árið 1949, var það búið að vera á dagskrá með þjóðinni í hálfan annan áratug. Í raun og veru var byrjað að ræða um þetta mál fyrir alvöru árið 1934. Þá sat á rökstólum nefnd sem hét skipulagsnefnd atvinnumála, illa séð af sumum og kölluð „rauðka“. Hún rannsakaði mjög margt viðvíkjandi atvinnulífi landsmanna og framtíðarhorfum á nýjum framleiðslugreinum, og eitt af því sem hún rannsakaði mjög ýtarlega, var það, hvort koma mundi til mála, að það borgaði sig að framleiða tilbúinn áburð hér á Íslandi. Niðurstaða hennar, sem birt var í hennar nál., er mjög ýtarleg og hún var þannig, að þessi framleiðsla væri líkleg til þess að geta borið sig vel.

Það var samt ekki fyrr en árið 1944, sem frv. var flutt á Alþingi af þáverandi ríkisstj., utanþingsstjórninni, rétt áður en hún fór frá, frv. um að byggja aðeins litla áburðarverksmiðju, sem hefði ekki framleitt nema rúmlega 1000 tonn af hreinu köfnunarefni, og eingöngu skyldi hún miðuð við framleiðslu þeirrar áburðartegundar. Það kom fljótt í ljós, að ekki mundu vera tök á því þá fljótlega að byggja jafnvel þessa verksmiðju, vegna þess að ekki væri nægilegt rafmagn til þess að reka hana. Alþingi 1944 gekk því þannig frá þessu máli, að það vísaði frv. til nýbyggingarráðs og fól því frekari rannsókn málsins og athugun.

Ég þarf ekki að fara langt út í það mál næstu árin nema það er kunnugt, að nýbyggingarráð lét fara fram ýtarlega rannsókn á málinu öllu í fyrsta lagi því, hversu stóra áburðarverksmiðju þyrfti að reisa, til þess að hugsanlegt væri, að hún gæti borið sig fjárhagslega, enn fremur, hversu mikið rafmagn þyrfti til þess að reka hana, og annað í sambandi við það. Á grundvelli þessara rannsókna var síðan haustið 1948 flutt frv. af þáverandi ríkisstj., þar sem gert var ráð fyrir, að reist yrði áburðarverksmiðja til framleiðslu köfnunarefnis, sem gæti framleitt 2500 tonn af hreinu köfnunarefni á ári. Þetta frv., sem flutt var á þinginu 1948, varð ekki útrætt þá, var flutt aftur um haustið og varð að lögum rúmlega hálfu ári síðar, eða vorið 1949, þar sem það var samþykkt, að reist skyldi áburðarverksmiðja, sem gæti framleitt 5000–10000 tonn af hreinu köfnunarefni á ári. Þá var málið komið á þetta stig, að verksmiðjan skyldi verða 5–10 sinnum stærri en upphaflega var áætlað, og búnar að fara fram mjög ýtarlegar rannsóknir, sem höfðu staðið yfir meira og minna frá því 1934.

Athyglisvert er, að í allri þessari meðferð málsins í 15 ár virtist engum manni hafa komið til hugar annað en að íslenzka ríkið ætti að eiga þetta fyrirtæki, sem allir sáu eftir því sem leið á rannsóknirnar, að mundi verða eitt stærsta eða jafnvel allra stærsta iðnaðarfyrirtæki á Íslandi, þegar það væri reist. Allan þennan 15 ára tíma virtist engum hafa komið til hugar, að nokkur annar en íslenzka ríkið ætti að eiga þetta fyrirtæki. Frv., sem að lokum varð að lögum, var flutt í Nd. Alþingis, og það var mestallan þann vetur, 1948–49, í meðferð Nd., án þess að nokkur till. kæmi fram um öðruvísi eignarrétt eða öðruvísi rekstrarfyrirkomulag á áburðarverksmiðjunni heldur en það, að ríkið skyldi eiga hana, enda stóð og stendur enn í 3. gr. l., að áburðarverksmiðjan skuli vera sjálfseignarstofnun og lúta sérstakri stjórn. Það er fyrst þegar málið er til 3. umr. í Ed., eftir að vera búið að fara gegnum þrjár umr. í Nd. og samþykkt af henni, síðan samþykkt við tvær umr. í Ed. þannig óbreytt, að flutt var till. af hv. þm. Birni Ólafssyni, þar sem gert var ráð fyrir, að verksmiðjan skyldi gerð að hlutafélagi, eða eins og sagt er, að hún skyldi rekin sem hlutafélag, ef 4 millj. kr. fengjust í hlutafé, og ríkið skyldi þar síðan bæta við 6 millj., til þess að hlutaféð næði 10 millj. Ég er alveg hárviss um það, að a. m. k. allmargir þeirra þm. sem samþykktu þessa till. í Ed. þá, og eins allmargir þeirra þm., sem aftur í önnum síðustu þingdaga í Nd. samþykktu frv. eins og það var komið frá Ed., hafa alls ekki gert sér ljóst, að þarna væri verið í raun og veru að stefna að því, að eignarréttinum yfir áburðarverksmiðjunni yrði náð úr höndum ríkisins yfir í hendur annarra aðila sem ættu á þann hátt að eignast stóran hlut í fyrirtæki. sem ríkið algerlega reisir og ætti vitanlega að eiga. Ég er sannfærður um það, að meginhluti þm. hefur þá litið á ákvæði 3. gr., sem þar standa enn þá. að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun og lúti sérstakri stjórn sem hin raunverulegu ákvæði um eignarrétt verksmiðjunnar, sem yrðu látin gilda og skoðuð sem hin einu réttu. Og það er ekki fyrr en þetta allt er um garð gengið, á næstu þingum eftir að þetta hefur gerzt, að þá kemur það fyrir að ráðherrar fara að gefa hér yfirlýsingar um, að ríkið eigi ekki að eiga verksmiðjuna, hún eigi ekki að vera sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins, heldur eigi hún að vera eign þessa hlutafélags. sem stofnað hefur verið samkv. 13. gr. um rekstur hennar.

Það þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um þetta mál hér, vegna þess að þm. er þetta mál svo kunnugt frá umr., sem hafa verið um það á síðustu þingum. En ég vil benda á, að það er sannarlega farið að færa skörina upp í bekkinn, þegar ráðh. leyfa sér að gefa yfirlýsingar, sem koma beint í bága við ákveðin lagaákvæði, og þegar þær yfirlýsingar eru svo mikils verðar, að þær virðast stefna að því að afhenda fyrirtæki, sem kostar á annað hundrað millj. kr., að verulegu leyti í hendur annarra aðila en ríkisins, þótt ríkið hafi lagt fram svo að segja allt fjármagn til þess að reisa þau og þó að það standi í lögum um stofnun þessara fyrirtækja, að þau séu sjálfseignarstofnanir og lúti þannig sérstakri stjórn, sem ætti að vera kosin af Alþingi. Ef litið er á það, hvernig hér hefur verið farið að, þá er ekki hægt að segja annað en hér hafi verið hafðar í frammi stórkostlegar blekkingar, í fyrsta lagi gagnvart fjölda þingmanna, sem ég er alveg viss um að hafa ekki gert ráð fyrir, að þessi yrði þróun þessa máls, þegar þeir létu sig henda það að samþykkja það ákvæði, að ef tækist að afla 4 millj. kr. hlutafjár, þá skyldi ríkið leggja fram 6 millj. á móti og síðan skyldi verksmiðjan rekin sem hlutafélag, eins og stendur í 13. gr. l. Þetta stangast algerlega við 13. gr. laganna, sem var látin standa þrátt fyrir þetta og kveður svo á, að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun og lúti sérstakri stjórn. Ég þori að fullyrða, að það hefur ekki verið meining fjölda þeirra þm., að síðan yrðu ráðherrayfirlýsingar látnar nægja til þess að ræna þessu fyrirtæki úr eigu ríkisins.

Ég vil enn fremur benda á, að síðan þessi ákvæði voru samþ. hafa gerzt stórar breyt. í verðlagsmálum hér á landi, og t. d. á þessu sviði munar það svo miklu, að áburðarverksmiðjan er meira en helmingi dýrari í reynd heldur en gert var ráð fyrir, þegar lögin um hana voru samþykkt. Nú er fullyrt og hefur raunverulega verið upplýst af þeim. sem bar eru mjög kunnugir, að áburðarverksmiðjan muni kosta ca. 125 millj. kr., og má vafalaust gera ráð fyrir. að það verði ekki minna. Af þessum 125 millj. kr. eiga einstakir hluthafar, sem hafa fengið að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu. að leggja fram 4 millj.. 121 milljón á ríkið að leggja fram, 6 millj. sem hlutafé og hitt allt, 115 millj., hefur það lagt fram sem lánsfé, sem annaðhvort er fé mótvirðissjóðs eða erlend lán, sem tekin hafa verið utan hans og ríkið stendur í skuld fyrir erlendis. Nú liggur í augum uppi, að eigi að fylgja yfirlýsingum ráðherranna og halda sér við það, að verksmiðjan eigi að vera eign hlutafélagsins, þá þýðir það það, að á 20 árum, en á þeim tíma eiga þessi lán að greiðast upp, þá eiga þeir hluthafar, sem fengu að kaupa 4 millj. kr. hlutabréf í áburðarverksmiðjunni, að eignast hreinlega 50 millj. kr. virði í fyrirtækinu, miðað við kostnaðarverð. Það er því ekki hægt að segja annað en að með þessu sé verið að raka saman fjármunum úr eigu ríkisins yfir í hendur einstaklinga.

Það liggja enn fremur fyrir yfirlýsingar um það, enda beint tekið fram í lögunum, að áburðarverksmiðjan skuli rekin þannig, að framleiðslan geti borið sig, þ. e., að kaupendur áburðarins eiga að greiða bæði lánsféð og vexti þess upp í áburðarverðinu á 20 árum, og þá liggur enn þá ljósara fyrir, hvað hér er um takmarkalausa fjárplógsstarfsemi að ræða, fjárplógsstarfsemi. sem á að réttlæta á þann hátt, að þm. eru í fyrsta lagi blekktir til þess á síðustu stigum málsins hér í þinginu að samþykkja það, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag, og síðan koma ráðh. og þm. þar á eftir og gefa yfirlýsingar um, að verksmiðjan sé nú eign þessa hlutafélags, þótt í lögunum standi, að hún sé sjálfseignarstofnun og lúti sérstakri stjórn. Það er þetta, sem er greinilegt dæmi þess, hvernig farið er að því að reka svo takmarkalausa fjárplógsstarfsemi sem þessa.

Ég vil enn leyfa mér að minna á ummæli núv. framkvæmdastjóra Framkvæmdabanka Íslands á síðasta þingi, þegar hann mætti á fundi fjhn. Ed. í sambandi við frv. um Framkvæmdabanka og lýsti þar yfir, að það væri hugmyndin að selja hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni síðar meir. Að vísu var komið í veg fyrir það þá, að þau ákvæði yrðu sett inn í frv. um Framkvæmdabanka, að hann skyldi fá hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni, svo að í bili hefur ef til vill verið komið í veg fyrir þessa hugmynd, en þetta sýnir bara það, að þá var alvarlega farið að ræða þá hugmynd innan stjórnarflokkanna að selja einkaaðilum hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni og láta sér ekki nægja að afhenda einkaaðilum á næstu 20 árum 50 millj. af þeim 125 millj., sem hún kostar, heldur allar 125 millj.. sem hún kostar.

Ég hef orðið mjög var við það úti um byggðir landsins, að þar sem almenningur hefur virkilega skilið þær aðferðir, sem hér er um að ræða, til þess að reka fjárplógsstarfsemi á kostnað ríkisins til hagnaðar fyrir vissa einstaklinga, þá hefur fólki almennt blöskrað þessar aðfarir, og ég þori að fullyrða, að það yrði mjög vel séð af almenningi, að þetta frv. yrði samþ. Það gerir ráð fyrir að 13. gr. laganna falli niður. og sömuleiðis, að hlutabréf almennra hluthafa. sem hafa keypt hlutabréf í félaginu, skuli ríkið innleysa.

Ég vil aðeins leyfa mér að minna á það líka. að það hefur verið gerð tilraun til þess að reyna að réttlæta þessar aðferðir með því að fá bændasamtökin til þess að gerast aðili að einhverjum smávegis hlutabréfakaupum og gerast þannig einhvers konar skjöldur fyrir þessa fjárplógsstarfsemi. Í sambandi við það vil ég fyrst og fremst benda á. að þeir aðilar, sem hafa aðallega með mál bændanna að gera. eins og Samband ísl. samvinnufélaga og Stéttarsamband bænda. eða bændasamtökin yfirleitt, hafa sannarlega öðrum og miklu nauðsynlegri verkefnum að gegna í þágu landbúnaðarins heldur en að vera að skipta sér af þessu fyrirtæki. sem komið er í höfn á vegum hins opinbera. Ég vil benda á það, að svo illa stendur á núna, að það vantar svo mikið af geymslum fyrir framleiðslu landbúnaðarins, að við liggur, að hún eyðileggist, svo að milljónum kr. skiptir í verðmætum. Nú er svo komið, að ástandið í afurðasölumálum landbúnaðarins er orðið svo slæmt hvað garðávaxtaframleiðsluna snertir, að það liggur við, að mikið góðæri sé litlu betra fyrir landbúnaðinn heldur en slæmt ár hvað þá uppskeru snertir. Og það er miklu nauðsynlegra verkefni fyrir bændasamtökin og Samband ísl. samvinnufélaga að hugsa um að leysa þessi verkefni heldur en að vera að gerast þátttakendur í að leggja fé í áburðarverksmiðjuna til þess að gerast skjöldur þeirrar fjárplógsstarfsemi, sem um er að ræða í sambandi við þetta mál allt saman.

Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og landbn.