09.10.1953
Neðri deild: 6. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2485)

28. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er alveg óþarft að hafa langar umr. á Alþingi til þess að skýra efni þessa frv. fyrir hv. þm. það hefur verið flutt hér þing eftir þing og liggur hér nú fyrir í sama formi og áður. Efni þess er það, að lögfest verði 12 stunda hvíld á botnvörpuskipum með þeim hætti, að sólarhringnum verði skipt í fjórar 6 stunda vökur og helmingur háseta vinni í einu, en hinn helmingurinn njóti hvíldar. Það hefur áunnizt við baráttu stéttarfélaga sjómanna, að 12 stunda lágmarkshvíld er nú umsamin á saltfisksveiðum, en á öðrum veiðum ekki. Mér er ekki kunnugt um annað en að útgerðarmenn telji sig hafa hlotið góða reynslu af þessu samningsákvæði og hef a. m. k. ekki heyrt þá kveinka sér undan því á nokkurn hátt, síðan það kom til framkvæmda. Ég get því ekki ætlað annað en að þeir hafi viðurkennt, að hér hafi verið stefnt í rétta átt, og býst þannig ekki við, að málið strandi lengur á andstöðu útgerðarmannanna. Það eru þá einhverjir hér á Alþingi, sem vilja standa betur í ístaðinu fyrir hagsmuni útgerðarmannanna en þeir sjálfir, ef einhverjir fyrirfinnast á Alþingi enn, sem vilja standa í vegi fyrir lögfestingu slíks frv. sem þessa.

Menn segja, að það sé eðlilegra. að þetta atriði sé leyst með samningum milli útgerðarmanna og sjómanna, ég tel það ekki vera, tel það ranga skoðun. Ég tel, að það sé ekki rétt að hafa þetta mál sem stríðs- og baráttumál milli útgerðarmanna og sjómanna. Ég sé ekki annað en að reynslan sé búin að staðfesta það, að rétt hafi verið stefnt með fyrri aðgerðum Alþingis í þá átt að lögfesta hvíldartíma togarasjómanna. Þegar fyrst var farið fram á það við Alþingi, að slíkt væri gert, þá var hamazt á móti því og sagt, að það mundi drepa alla togaraútgerð í dróma og það mundi jafnvel ekki vera hægt að gera út botnvörpuskip á Íslandi. Þá var fyrst farið fram á 6 stunda hvíld til handa togarasjómönnunum. Það þótti of mikið, það þótti stefna togaraútgerðinni í háska. Þá var farið fram á 8 stunda hvíld, og loks fengust svo lágmarkskröfurnar samþykktar, og í lögum landsins er ekki enn þá búið að komast lengra en það, að 8 stunda hvíld er lögfest. Nú hafa aðrar vinnandi stéttir fengið viðurkenningu á því, að vinnutími þeirra þurfi ekki að vera nema 8 stundir, en hvíldartíminn þá þar af leiðandi 16 stundir. Sjómannastéttin ein virðist ekki fá viðurkenningu Alþingis á því, að hún skuli hvílast hálfan sólarhringinn. Mér finnst það stórkostlegur blettur á Alþingi að neita aðalframleiðslustétt þjóðarinnar, sjómannastéttinni, um 12 stunda hvíld, og ég trúi því ekki, að Alþingi, af þrjózku eða einhverjum enn þá röklausari ástæðum, geri það enn á ný. Það á ekki að vera áfram baráttumál, það á ekki að þurfa að vera áfram baráttumál sjómanna að fá löghelgaða 12 stunda hvíld á sólarhring. Það eiga allir Íslendingar að líta á það sem sjálfsagt mál. og Alþingi á auðvitað að lögfesta efni þessa frv.

Það er nýtt vandamál, sem nú blasir við og öll þjóðin, kannske að undanteknum nokkrum alþm., verður áreiðanlega að taka til greina, og það er það, að útgerðarmenn fá ekki lengur menn til starfa á íslenzk fiskiskip. Það hefur margur togari orðið að fara úr höfn á árinu 1953 án þess að vera með fulla áhöfn. Og nú eru útgerðarmennirnir og samtök þeirra farin að biðja um að fá flutta inn útlendinga til starfa á skipunum. Skyldu íslenzkir útgerðarmenn vera þeirrar skoðunar, að þeir geti komizt af án íslenzkra sjómanna? Ég læt mér ekki detta það í hug. Ég veit, að þeim er ljóst, að þeir reka ekki íslenzka togaraútgerð með útlendum hásetum. Það er sama og að stofna þessum atvinnuvegi í fullan háska. Það er stefnt að því að leggja hann niður, ef menn halda áfram að halda svo á málum, að Íslendingar fáist ekki til þess að stunda sjómennsku. Hér er blika komin á loft, sem útgerðarmenn fyrst og fremst og þeir, sem unna þeirra hag, ættu ekki að láta fram hjá sér fara, og það ætti að stuðla að því, að þeir flýttu sér að lögfesta þetta frv, og koma sem allra fyrst til móts við óskir og réttindakröfur sjómanna um bætt kjör.

Svo legg ég til, að málinu verði vísað til sjútvn.