08.10.1953
Neðri deild: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

29. mál, orlof

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Með myndun fyrsta íslenzka félagsmálaráðuneytisins árið 1939 hefst fyrst fyrir alvöru hreyfing í þá átt, að íslenzkir launþegar geti ákveðinn tíma ársins tekið sér frí frá störfum, án þess að laun þeirra séu skert, með landslögum. Ráðuneytið safnaði gögnum og upplýsingum um orlofslöggjöf nágrannalandanna og þó sér í lagi um löggjöf Norðurlandanna í þessum efnum.

Það þótti og rétt í framhaldi þessarar rannsóknar, að Alþingi hæfist handa í þessu máli. Alþfl. flytur árið 1941 þáltill. um undirbúning orlofslöggjafar, og fylgdi till. ýtarleg grg. um framkvæmd laganna á Norðurlöndum, þar sem þá hafði þegar verið samþykkt orlofslöggjöf áður. Þáltill. þessi var samþykkt, og 17. okt. 1941 skipaði þáverandi félmrh., Stefán Jóh. Stefánsson. fimm manna n. til undirbúnings málinu. Nefndin skilaði að loknu starfi frv., sem allir nm. mæltu með, að einum undanskildum. Þannig hafði hæstv. Alþingi sagt sitt fyrsta orð varðandi l. um orlof, og ég minnist á þetta upphaf málsins til þess að sýna, að hæstv. Alþingi hefur þegar tekið afstöðu varðandi þetta mál, sem þó hafði sífellt verið klifað á af hálfu verkalýðsfélaganna í samningaviðræðum við atvinnurekendur. Því hafði þá verið — og heyrist stundum enn haldið fram, að slík mál eigi að vera samningsatriði vinnuþega og vinnuveitenda hverju sinni. Þetta er að mínu áliti röng stefna, þar sem hlutverk hæstv. Alþingis ætti fremur að verða að forða vinnudeilum um slík réttlætis- og mannréttindamál eins og orlofslögin og hvíldartíma sjómanna á botnvörpuskipum, á sama hátt og Alþingi hefur talið rétt að setja lögin um almannatryggingar og gildandi lög um orlof frá 26. febr. 1943.

Á fyrra Alþingi 1942 var frv. flutt, eins og meiri hluti fyrr nefndrar milliþn. hafði gengið frá því, og var Sigurjón Á. Ólafsson flm. þess, en frv. dagaði uppi á því þingi. Á Alþingi 1943 var frv. flutt að nýju af Guðmundi Í. Guðmundssyni með lítils háttar breyt. og var þá samþ. sem lög frá Alþingi 10. febr. 1943 með 19:5 atkv. Þannig hafði meiri hluti Alþingis samþykkt íhlutun löggjafarvaldsins um slík mál. Á sama hátt verður að telja, að eðlilegt og sjálfsagt sé, að Alþingi samþykki nú sanngjarna leiðréttingu á þessum lögum, sem farið er fram á með frv. þessu á þskj. 29.

Í framhaldi sinnar fyrri baráttu fluttu þrír af þm. Alþfl. þáltill. á síðasta Alþingi um endurskoðun orlofslögjafarinnar frá 26. febr. 1943, m. a. með það fyrir augum að lengja orlofsréttinn úr tveim vikum í þrjár. Enn fremur var í till. gert ráð fyrir athugun á hentugum og ódýrum orlofsferðum innanlands og utan. Þáltill. þessi hlaut ekki afgreiðslu þingsins, og ber að harma, að slík rannsókn skyldi ekki fara fram.

Flm. þessa frv. telur það höfuðnauðsyn, í fyrsta lagi að orlofsrétturinn verði færður úr tveim vikum í þrjár og að B-liður 1. gr. laganna verði felldur niður, en þar er m. a. gert ráð fyrir, að hlutarsjómenn njóti ekki að fullu þeirra hlunninda, sem lögin veita öðrum launþegum. Nú hafa þessi mál skipazt þannig við lausn hinnar langvinnu vinnudeilu í des. s. l., að fallizt var í samkomulaginu milli verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda á hækkun orlofsfjár og lengingu á orlofsrétti launþega úr 4% í 5%. Þrátt fyrir þennan árangur er vitað af samþykktum fjölmargra verkalýðsfélaga, að þau muni ekki linna baráttunni fyrir framgangi þessara réttinda sinna fyrr en þeim árangri er náð, sem telja verður eðlilegan og sjálfsagðan með tilliti til þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað t. d. á Norðurlöndunum, en þar hefur nú víðast verið lengdur orlofsrétturinn úr tveim vikum í þrjár og tilsvarandi hækkun orlofsfjár. Fullnægjandi réttindi í lögum þessum telja verkalýðsfélögin ekki tryggð fyrr en í fyrsta lagi að orlofsrétturinn hefur verið hækkaður samkv. frv. þessu og í öðru lagi jafnframt tryggt, að þessi mál verði ekki samningsatriði milli vinnuþega og vinnuveitenda hverju sinni, heldur verði gerðar tilsvarandi breytingar á orlofslöggjöfinni, og þá jafnframt í þriðja lagi, að lögin nái til allra launþega. Það er því í senn eðlileg og sjálfsögð þróun þessara mála í nágrannalöndunum og sanngirniskröfur launþegasamtakanna, sem gera það nauðsynlegt, að Alþingi samþykki frv. þetta, um leið og komizt yrði hjá frekari deilum en orðið er um þetta réttlætismál.

Það má og ljóst vera, að framantaldar breyt. eru ekki einhlítar til úrbóta í þessum málum, og með það í huga er 4. gr. frv. sett hér og bráðabirgðaákvæði hennar um, að athugaðir verði möguleikar á, að launafólk geti hagnýtt sér orlofsféð og hvíldartímann á sem heilladrýgstan hátt.

Ég vil að lokum geta þess, að innan þeirra 26 þús. karla og kvenna, sem mynda hin íslenzku verkalýðssamtök, er enginn ágreiningur um framgang þessa máls. Það sýna ljóslega samþykktir undanfarinna alþýðusambandsþinga og einstakra verkalýðsfélaga.

Ég vil svo mega óska þess, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn. og 2. umr. og að afgreiðslu þess verði hraðað svo sem kostur er á.