13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

40. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Við höfum fjórir þm. leyft okkur að flytja þetta mál. Það hefur nú verið flutt hér áður í þingi og ekki hlotið afgreiðslu. Eitt sinn komst það til Ed., en náði þar ekki fram að ganga. Það er að vísu í nokkuð annarri mynd nú, þ. e. a. s. víðtækara efni þess en áður hefur verið. Það er um eflingu veðdeildarinnar og leiðir til þess að afla fjármuna henni til styrktar.

Það er í 1. gr. þessa frv. að því vikið að fé opinberra stofnana og sjóða, þ. á m. Tryggingastofnunar ríkisins og Brunabótafélagsins, Söfnunarsjóðs og annarra opinberra sjóða, sé að nokkru varið til að kaupa verðbréf deildarinnar, og er ætlazt til þess, að ríkisstj. á hverjum tíma meti ástæður þessara stofnana og sjóða til bréfakaupanna. Okkur flm. málsins virðist ekki vera hægt að ákvarða, hvað mikið hver einstakur sjóður kaupir í hvert sinn, heldur verði það að ráðast eftir útkomu hjá þessum stofnunum og sjóðum, sem verður árlega, og ríkisstj. eða sá ráðh., sem stofnanirnar heyra undir, verður að meta ástæðurnar, hvað miklu er hægt að verja af fjármunum sjóðanna til bréfakaupanna.

Ég ætla, að flestir hv. þm. geri sér grein fyrir því, hvað mikil fjárþörf er til þessara hluta, sem hér um ræðir. Ætli menn að byggja eða kaupa jörð eða hefja búskap og afla þess, sem til þess þarf, þá er ekki hægt að koma slíku í kring nema með miklum fjármunum. Það er vissulega rétt, sem hv. þm. A-Húnv. (JPálm) tók fram hér, þegar hann mælti fyrir frv. þeirra félaga, sem það flytja, að fjárþörfin er mikil til þessara hluta, og ef menn meina eitthvað meira með því en aðeins að hafa það á orði, að fólkinu sé gert mögulegt að setjast að, hefja búskap og haldast við í sveitum landsins, þá þarf að leysa þessar þarfir þess.

Síðari ár hefur verið nokkuð gert til þess að auka starfsfé Búnaðarbankans, og hefur Alþingi í þeim efnum sýnt lofsverða viðleitni, en hvergi nærri hafa þeir fjármunir hrokkið til þess að geta sinnt þeirri eftirspurn, sem komið hefur úr byggðum landsins til þeirra viðfangsefna, sem bankanum er ætlað að styrkja. Ég ætla, að mönnum sé það enn ljósara en var um skeið, að upp á afkomu þjóðarinnar og öryggi er nauðsynlegt ekki eingöngu að viðhalda byggðinni úti um landið, heldur að hún aukist. Við höfum vafalaust trú á fólksfjölguninni. að þjóðinni haldi áfram að fjölga hér. Við æskjum allir, að hún eigi við velgengni að búa, en öruggast er, til þess að svo megi verða, að þá haldist við blómleg byggð úti um sveitir landsins. Við búreksturinn er ekki fljóttekinn gróði, og hans sterka hlið er vissulega ekki í því fólgin, en nokkuð öruggur atvinnuvegur og afkoma, ef forsjálega er að því verki unnið. Hvað áhrærir sjávarútveginn eða starfið við sjóinn, þá á það vissulega við — og það sýnir okkar saga — að svipull er sjávaraflinn. Þó að svo sé, hefur hann sína miklu þýðingu fyrir þetta þjóðfélag, og vissulega verður að sinna hans málefnum, en svo bezt getur það náð tilgangi sínum og orðið til að auka þrif hjá þjóðinni, að önnur viðfangsefni hjá þjóðinni gleymist ekki. Þá má vissulega — ekki sízt eins og komið er og hlýtur að verða í framtíðinni — einnig minnast á iðnaðinn og þá þann iðnað, er þjóðin sjálf hefur með höndum og hefur vald á.

Ég vil nú mega vænta þess að hv. Alþingi afgr. þessi mál. Við flm. þessa frv. erum sannarlega til viðtals um breyt. á því og að hægt sé að samræma þær till.. sem fram koma um þetta efni. Til þess erum við fúsir, en aðalatriðið er, að þeim verði sinnt og þær verði afgr. á þann veg, að þær geti orðið til styrktar og farsældar því viðfangsefni, sem till. beinast að og ætlazt er til að styrkja.