13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

41. mál, jarðræktarlög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Við höfum fjórir þm. leyft okkur að flytja þetta frv. Það var flutt á s. l. þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Efni þess er að auka styrki til framræslu í landinu, að í stað helmings rekstrarkostnaðar við skurðgröft og þurrkun komi 7/10 rekstrarkostnaðar.

Með hinum stórvirku og nýju tækjum, sem nú eru notuð til framræslunnar, hefur heppnazt að þurrka ýmis landssvæði, sem áður var lítt mögulegt að þurrka með handverkfærum einum saman sakir dýrleika. Þessi tæki eru vissulega stórvirk og afkastamikil, en þau þurfa sinna muna með og eru alldýr í rekstri. Reyndar má þó segja um þessa starfsemi, að með öðru móti yrði hún alls ekki framkvæmd en með þessum tækjum. Eigi að síður er það svo dýrt, að efnalitlum mönnum reynist gersamlega ókleift að standa straum af þeim kostnaði, sem því er samfara að þurrka landið. Þetta verður þá til þess, að þótt menn leitist við að þurrka landsspildu, þá verður það miklu minna en annars mundi verða, ef menn hefðu meiri fjárráð og betri möguleika á því að taka meira fyrir í einu. En kostnaðurinn við að færa þessi tæki milli staða, bæði tími og beinn kostnaður, er allmikill, svo að ef verkefnið á hverjum stað er mjög lítið, þá verður enn meiri kostnaður hlutfallslega, og þetta er að nokkru leyti tapað fé. Þess vegna er langsamlega æskilegast við slíkar framkvæmdir, að hægt sé að vinna allmikið á hverjum stað. Þá verður rekstrarkostnaðurinn hlutfallslega minni, miðað við afköstin, og það, sem framkvæmt er, þá hlutfallslega ódýrara. Þetta er fátækum mönnum alveg gersamlega ómögulegt og fyrir það hefur svo farið á allmörgum stöðum, að menn hafa tekið lítið fyrir í einu eða það, sem þeir aðeins sáu sér mögulegt að standa straum af, og er þetta í alla staði eðlilegt.

Nú ber þess að gæta í þessu sambandi, hvað þessa vinnu áhrærir, að sá, er hana annast eða ber kostnað af henni, kemur oft til með að njóta lítils hagræðis af þessu verki. Því er þannig varið við þurrkun lands og þá framkvæmd, að ef vel á að vera, þarf landið að standa áður en kemur nokkur arður af því, ein þrjú, fjögur ár og stundum jafnvel lengur. Þegar mýrar eru þurrkaðar, jörð, sem er blautlend, þá þarf hún fyrst að standa ein þrjú ár og síðan eitt til tvö ár eftir að landið er brotið. Þess vegna er það, að menn verða að bíða lengi eftir arði af þeim fjármunum, sem þeir láta af höndum í slíkar framkvæmdir, og fer oft svo, sem eðlilegt er, að sá, er borið hefur kostnaðinn, hefur annaðhvort engan eða lítinn arð af framkvæmdinni. Þessi framkvæmd er nokkurs konar landnám, sem gerð er fyrir framtíðina miklu meira en þann, sem annast verkið. Eigi að síður er það svo þýðingarmikið, þótt það sé fyrir framtíðina gert, að ekki er áhorfsmál fyrir þjóðfélagið að stuðla að slíkum framkvæmdum. Það hefur sýnt sig, og af þeirri reynslu ættum við að geta lært, að þetta hefur gengið miklu seinna en æskilegt hefði verið við þurrkun landsins og verið á mörgum jörðum í miklu minni stíl en hefði þurft að vera. Hafi menn trú á fjölgun býla og vilji stuðla að því, þá er þessi framkvæmd ein stórvægilegt atriði í því máli.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um málið frekara að þessu sinni. Ég vona, að hv. þdm. séu mér og okkur flm. sammála um, að úr þessu þurfi að bæta og að málið nái nú fram að ganga. Ég vil óska þess, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. landbn.