06.11.1953
Neðri deild: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

49. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í frv. þessu felst það, að dvelji bótaþegi almannatrygginga í sjúkrahúsi, á elliheimili eða í annarri hliðstæðri stofnun, þar sem Tryggingastofnunin eða hið opinbera greiðir fyrir hann að nokkru eða öllu leyti, þá skuli allt að 10% af því bótafé, sem Tryggingastofnunin greiðir vegna hans, greiðast til hans sjálfs, en aðeins 90% til þeirrar stofnunar, sem hann dvelur í. Sú regla hefur hingað til verið í gildi, að dvelji slíkur bótaþegi á sjúkrahúsi, elliheimili eða annarri hliðstæðri stofnun, þar sem Tryggingastofnunin greiðir fyrir hann, þá gangi allt bótaféð til greiðslu á dvalarkostnaði hans á elliheimilinu eða á sjúkrahúsinu, þannig að bótaþeginn hefur ekkert fé fengið sjálfur til umráða. Þessu er gert ráð fyrir að breyta þannig, að hann hafi nokkur fjárráð, þótt ekki væru mikil, eftir sem áður, þó að dvalarkostnaðurinn sé greiddur af Tryggingastofnuninni. Þess er að vísu að geta, að sé þannig ástatt, eins og stundum eða oft mun vera, að sveitarfélag greiði þann hluta dvalarkostnaðar, sem ekki fæst greiddur af bótafénu, þá gæti sveitarfélagið, þó að þessi lög yrðu samþykkt, lækkað greiðslu sína vegna bótaþegans sem því svarar, sem Tryggingastofnunin greiðir til hans, þannig að hann væri ekki betur settur en áður. En þess er að vænta, að framkvæmd málsins verði þannig, að þessir bótaþegar fái raunverulega til yfirráða þann tíunda hluta bótanna, sem Tryggingastofnunin mundi ekki greiða sjúkrahúsinu eða elliheimilinu, heldur er ætlaður til þeirra sjálfra. Er það tilætlun n., að framkvæmd málanna verði með þessum hætti.

N. er á einu máli um að mæla með því, að frv. þetta nái fram að ganga. Einn nm., hv. þm. Ak., var að vísu ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í n. Nefndin taldi þó réttara að breyta formi frv. nokkuð, þ. e. a. s. stíla það við gildandi viðaukalög við almannatryggingalögin, en ekki við almannatryggingalögin sjálf, og er það eitt ástæða til þess, að n. hefur flutt brtt. við frv. á þskj. 141. Efnisbreyting felst engin í þessari brtt. En af því leiðir líka, að breyta verður fyrirsögn frv.. þ. e. a. s. stíla fyrirsögnina við viðaukalögin frá 1953, en ekki lögin um almannatryggingarnar sjálf frá 1946. Ég undirstrika, að efnisbreyting er engin í brtt. Þetta er formsbreyting eingöngu.