23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

52. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að það er alveg öruggt, að hæstv. ríkisstj. lætur ekkert til sín heyra í sambandi við þetta mál, því að allir ráðherrastólar eru auðir. En það er ekki nóg með það. Það er dálítið einkennilegt um að litast hér í hv. d., meðan á umr. þessa máls stendur, og getur það þó ekki talizt neitt smámál, og það er það, að það er bókstaflega enginn úr stjórnarflokkunum hér viðstaddur, nema forseti hv. d., sem náttúrlega kemst ekki úr sínum stól, er hér parrakaður, og annar ritarinn honum til aðstoðar, hinn er horfinn, og svo er aðeins einn á þingbekkjunum, segi og skrifa einn, — það er að koma annar úr tveimur stjórnarflokkum hér inn í sal deildarinnar. Það er eins og stjórnarflokkarnir hafi verið reknir í burtu. Það er eins og það séu búnar að fara hér fram fyrstu, aðrar og þriðju göngur og að þeir hafi verið reknir héðan í burtu. Það er engu líkara. Því miður kemur þetta fyrir oftar, en ég held, að það hafi eiginlega aldrei verið eins áberandi og núna. En sannast að segja hefði verið fyllsta ástæða fyrir forseta d. að slíta fundi og fresta umr., því að d. er vitanlega ekki fær um að hafa eitt eða neitt mál til meðferðar, sízt af öllu meiri háttar mál, þegar svona er skipað um fundarsókn og slíkt.

Ég tel, að meginefni þessa frv. stefni í hárrétta átt, það sé alveg sjálfsagður hlutur, að það fé, sem ríkið hefur ráðstafað til aðstoðar við sjávarútveginn gegnum stofnlánadeild Landsbankans, haldi áfram að sirkúlera í þeirri starfsemi, borgist ekki á ný inn til Landsbankans, en sé beint til áframhaldandi lána til viðhalds og eflingar sjávarútveginum. Og það er öllum ljóst, að þörf fyrir þetta fé, þótt það væri margfaldað, er fyrir hendi.

Ég skal svo láta útrætt um málið. Hv. frsm. hefur reifað það í langri og skilmerkilegri ræðu. Ég vil aðeins fyrir hönd Alþfl. taka það fram, að ég tel, að frv. þetta stefni í rétta átt, og hygg, að Alþýðuflokksmenn geti greitt því atkv. hér við meðferðina í þinginu.