23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

58. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leiðrétta örlítinn misskilning varðandi nokkur atriði sem fram komu í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl).

Í fyrsta lagi sagði hann, að þetta frv. mundi ekki flutt í þeim tillangi, að það næði fram að ganga, heldur til að stríða ákveðnum aðilum. Þetta er alger misskilningur og alrangt. Frv. er einmitt flutt í þeim tilgangi, að það nái fram að ganga, og í þeirri von, að svo verði.

Í öðru lagi sagði hv. 2. þm. Reykv., að það mundu verða neytendur, sem borguðu áburðarverksmiðjuna. Í því sambandi vil ég drepa á það, að það er hjá sumum mönnum ákaflega útbreiddur misskilningur, að bændur séu alltaf framleiðendur og aldrei neytendur. En staðreyndin er sú, að bændur eru samkv. opinberum heimildum — og þeirra skyldulið — a. m. k. 20 eða 21% af neytendum landsins, og sem neytendum ber þeim því réttur til að fá tryggðan sinn hlut í þessari verksmiðju — fyrir nú utan það sjónarmið, sem þeir hafa sem framleiðendur.

Í þriðja lagi ræddi hv. þm. um það, að kaupfélög mundu verða skilgreind sem stéttarsamtök eða félagssamtök bænda. Þetta getur ekki verið rétt. Ég efast um, að það sé til nokkurt kaupfélag á landinu, sem er hreint félag bænda. Kaupfélögin eru yfirleitt félagssamtök flestra eða allra stétta þjóðfélagsins.

Í fjórða lagi sagðist hv. þm. óttast það, að Framsfl. mundi fá meiri yfirráð yfir áburðarverksmiðjunni með þessu fyrirkomulagi heldur en því, sem nú er. Um það atriði vildi ég aðeins segja það, að þetta mál á ekki að leysast með tilliti til flokkspólitískra sjónarmiða.