23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

62. mál, brúargerðir

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Þetta mál er gamall kunningi hér í þessari hv. d. Það hefur tvívegis verið borið fram áður, því hefur fylgt grg., og get ég um efni málsins skírskotað til þeirrar grg.

Mönnum í verplássunum eystra er mikið áhugamál, að þessi fyrirhugaða brúarsmíði komist inn á brúalög, og ég vil vona, að hv. þdm. þurfi ekki að skelfast við það aðeins að koma málinu inn á brúalög, því að eftir er það, sem höfuðmáli skiptir, og það er að veita fjármuni til verksins, þegar þar að kemur. Rannsókn hefur farið fram á brúarstæðinu, og er allt það bezta um það að segja, og þarf það ekki að vera því til hindrunar, að þetta frv. nái samþykki.

Við þm. héraðsins erum báðir einhuga um það að gera að vilja umbjóðenda okkar í þessu efni og gera það, sem við getum, til að koma málinu fram.

Starfsemi, sem er að verða í Þorlákshöfn, eykst með hverju ári, og eftir því sem lengra miðar mannvirkinu þar og stærri skip geta fengið afgreiðslu og hafnarsvæðið, þar sem skipin hafa hlé, verður stærra, því meiri verður áreiðanlega starfrækslan á þessum stað.

Það er meira, sem hér er um að ræða, heldur en aðeins í þágu kauptúnanna eystra. Það er fyrir Suðurlandsundirlendi allt, og ég er þeirrar trúar, að þetta geti haft mikla þýðingu, ekki sízt ef hart er í ári, fyrir einmitt kauptúnin hér vestan fjalls, og áreiðanlegt er, að þegar hafnargerð er komin allveruleg í Þorlákshöfn, þá verður það Vestmanneyingum hið mesta skjól í öryggi um tryggingu vegna sjósóknar að geta leitað þarna til hafnar. Hvað áhrærir kauptúnin Stokkseyri og Eyrarbakka, þá munu þau stunda útgerð frá Þorlákshöfn, þegar gæftir eru ekki stöðugar eða ekki góðar, því að það er ólíkt að sækja á fiskimið frá Þorlákshöfn eða frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Skerjaklasinn, sem er fram af þeim kauptúnum, veldur því, að þar er mjög brimasamt, ef nokkur ókyrrð er í sjó, en slíku er ekki til að dreifa í námunda við Þorlákshöfn, þar er aðdýpi mikið og sjórinn hreinn alveg upp að lendingu og dýpkar skjótt. Þetta eru einhver beztu fiskimið í grennd við þessa höfn, eftir því sem þau gerast hér við þetta land. Það eru oft ekki nema fimm mínútur úr höfninni á fiskimiðin og oft og einatt, ef fiskigöngur eru verulegar, á þessum miðum mokafli.

Nú eru íshús á Stokkseyri og Eyrarbakka. Starf þeirra og tilvera byggist á sjósókninni fyrst og fremst. Þess vegna er það, að þótt útgerðin fari fram frá Þorlákshöfn og þaðan sé sótt á miðin, þegar gæftir eru ekki góðar, þá þarf eigi að síður að geta flutt sjávarafla á milli staðanna. Og eins og ég hef hér gert grein fyrir áður og grg. ber með sér, þá er svo mikill munur á vegalengd hvað landflutningana snertir, að þetta kemur til með að muna árlega stórfé, og eftir því sem útgerðin vex og verður meiri, því meiri fjárhæðum má búast við að þetta nemi. Ég vil því vona, að hv. alþm. líti á málið frá þessu sjónarmiði, hve mikilvægt það er, og samþ. nú þetta frv., svo að það geti orðið að lögum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið frekar. Ég vil leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði því vísað til samgmn., — ætla ég, að það hafi farið til hennar áður, — og vil ég nú mega vænta þess, að hv. samgmn. verði fylgin sér í afgreiðslu málsins og harðskeytt, ef einhvers staðar kæmi fram eitthvað, sem benti til þess, að það ætti að hindra framgang málsins.