29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

65. mál, friðun rjúpu

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Um mál þetta, eða réttara sagt um friðun rjúpu, stóðu talsverðar deilur hér í þinginu fyrir þrem árum, ef ég man rétt, og var þá hv. flm. þessa frv., hv. þm. A-Húnv. (JPálm), skeleggastur fyrir því að friða rjúpuna og gegn því að veita heimild til þess að skjóta hana, eins og verið hefur undanfarin ár, vegna þess, eins og hann komst að orði, að rjúpunni getur varla fjölgað því meira sem hún er kappsamlegar drepin.

Það má segja, að þetta sé að vissu leyti öfugmæli, að rjúpnastofninn aukist þrátt fyrir það, að leyft er að skjóta rjúpuna. En því verður ekki neitað, að þær staðhæfingar vísindamanna um þetta efni, að rjúpnadrápið hefði ekki áhrif á vöxt stofnsins, hafa reynzt vera réttar. Það hefur verið heimilt að skjóta rjúpuna á vissum tímum árs undanfarin 3 ár, en þrátt fyrir það hefur stofninn samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja og aflað hefur verið á hverju ári, vaxið mjög mikið, og virðist fjölgun rjúpunnar einna mest nú á þessu ári. Hins vegar heldur sá vísindamaður fram, sem mestan þáttinn átti í því, að friðuninni var kippt burt, að rjúpnastofninn muni fara minnkandi eftir eitt eða tvö ár og minnka mjög skyndilega. Mér finnst ástæða til að bíða þess og sjá, hvort þessar fullyrðingar vísindamannsins geta staðizt jafnvel og þær, sem hann hélt fram upphaflega, að stofninn mundi aukast þrátt fyrir friðunarleysið. Ég gæti því fyrir mitt leyti vel verið því fylgjandi, að rjúpan yrði friðuð næstu 3 ár, til þess að ganga úr skugga um það, hvort stofninn minnkaði, og það kannske stórkostlega, þrátt fyrir að rjúpan væri friðuð. Ef það kæmi í ljós, þá er sýnilegt, að ástæðulaust er að vera að brjóta heilann um, hvort eigi að friða rjúpuna eða ekki, enda er þá líka komið í ljós, að það, sem vísindamennirnir hafa haldið fram í þessu efni, verður að teljast rétt. Hins vegar get ég vel viðurkennt, að það er ekki óeðlilegt, að héruðin eða sýslurnar fái að ráða, hver í sínu umdæmi, hvort friða skuli þau rjúpnalönd, sem menn eiga í þessum sýslum. En mér finnst, að það sé verið að fara yfir lækinn til þess að sækja vatn, ef verið er að reyna að friða rjúpuna með þessum ráðstöfunum, þrátt fyrir það að vísindalega megi sanna, að slíkar ráðstafanir komi ekki að haldi.