29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

65. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég skal nú ekki á þessu stigi ganga langt í því að þræta við hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) um þau einkennilegu vísindi, sem hann var hér að lýsa, en þau vísindi byggjast á því, að rjúpan sé einhver yfirnáttúrlegur fugl og henni ýmist fjölgi af sjálfu sér eða fækki af sjálfu sér og kannske fjölgi einna helzt þeim mun meira sem hún er meira drepin. Þetta er einmitt kenning, sem hefur verið haldið mjög hér á lofti og ekki sízt af þessum hv. þm. Ég er nú einn þeirra, sem leggja ekki mikinn trúnað á hana, enda held ég, að erfitt sé að sanna það, að nokkuð í þessu hafi staðizt, því að það mundi nú ganga illa að telja rjúpurnar. Og rjúpan er auðvitað fugl, sem færir sig nokkuð á milli héraða; þó að henni fjölgi í einu héraði, þá getur henni fækkað í öðru. Það er ekkert undarlegt við það, þó að rjúpu hafi fjölgað núna t. d. í ár, það sé óvenjulega margt af rjúpu í haust, vegna þess að það hafa lifað allir ungar vegna góðrar tíðar í vor, og það er kunnugt, að hver rjúpnahjón, ef allt lifir, eiga tólf unga. En út í þetta skal ég nú ekki mikið fara og legg sem sagt ekki neitt upp úr því og veit ekki til, að það hafi komið fram í því efni neinar sannanir, sem hægt er að byggja á.

Það er út af fyrir sig gott, ef hv. Alþ. vildi ganga inn á það að alfriða rjúpu yfir allt landið í þrjú ár, því að það er, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, rétt spor í áttina, en sem sagt er mín till. þessi, að það sé lagt í vald héraðanna, hvernig með þessi mál er farið, því að það eru sveitahéruðin í landinu, sem þarna hafa hagsmuna fyrst og fremst að gæta. Nú er komið svo ástandi í okkar landi, að yfirgnæfandi meiri hluti af landsfólkinu er orðið í þéttbýli, og það fólk, sem þar elur sinn aldur, á yfirleitt engin lönd, sem rjúpur haldast við í, og hefur ekki annarra hagsmuna að gæta en þeirra, að menn úr þeim byggðarlögum geta fengið aðstöðu til þess að nota sér þessi réttindi, sem eru annarra manna eign. Og eins og tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., þá hefur þótt bera nokkuð mikið á því og fara vaxandi, að kauptúna- og kaupstaðabúar gengju nokkuð langt í því að ganga inn í rjúpnalönd einstaklinga og héraða án leyfis og fara þar að eins og þeir væru þar landeigendur.

Nú er það svo, að ég vænti þess, að hv. landbn., sem fær þetta mál væntanlega til afgreiðslu, taki það til athugunar, og þá kemur í ljós, hvort það verður nokkurt samkomulag um að fara þessa leið, úr því að það hefur ekki á undanförnum árum tekizt að fá samkomulag um það á aðra leið.