29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

65. mál, friðun rjúpu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að landeigendur munu hafa það á valdi sínu, hvort rjúpur eru veiddar í löndum þeirra eða ekki þann tíma, sem rjúpnaveiði er leyfð samkvæmt landslögum. Ég veit ekki betur en það sé þannig, að það sé öllum óheimilt að vaða inn í lönd annarra manna og stunda þar rjúpnadráp án þess að fá til þess leyfi hjá landeigendum, og því þurfi engar samþykktir til þess að koma í veg fyrir slíkt. Þessu vildi ég skjóta fram til athugunar fyrir þá hv. n., sem væntanlega fær málið til meðferðar.

Það heyrast stundum í útvarpi auglýsingar frá mönnum um, að rjúpnaveiði sé bönnuð í löndum þeirra, en ég hygg, að allt slíkt sé óþarft, það sé óþarft að auglýsa það, því að þetta sé óheimilt án leyfis, að stunda rjúpnaveiði eða fugladráp í löndum annarra manna. Ég tel því nokkurt vafamál, að það sé þörf fyrir slíka samþykkt, menn hafi þetta á valdi sínu, þeir sem löndin eiga. Hitt er annað mál, að það getur verið erfitt oft fyrir menn að líta eftir því, að slíkar yfirtroðslur eigi sér ekki stað, en það kann að vera, að það verði erfitt einnig, þó að samþykktir séu gerðar eða samtök um þetta yfir stærri svæði.

Ég vildi aðeins beina þessu til þeirrar hv. n., sem málið fær til athugunar í sambandi við þetta frv.