30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

76. mál, togaraútgerð ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 101 er nú flutt í fjórða sinn. Fyrst flutti ég það einn í hv. Ed., næst flutti ég það í sömu d. ásamt hv. 4. þm. Reykv. (HG), og á síðasta þingi var málið flutt af öllum þm. Alþfl. í þessari hv. d. Að þessu sinni varð að ráði, að ég flytti frv. ásamt hv. þm. V-Ísf. (EirÞ), sem hafði tjáð mér, að hann væri mér sammála um, að þetta frv. benti á rétta leið út úr vanda, sem ekki hefði verið leystur enn til neinnar hlítar. Vil ég taka fram við þetta tækifæri, að mér þykir vænt um fylgi þessa atorkumikla útgerðarmanns við málið.

Vandamálið, sem frv. er ætlað að leysa eða eiga hlut að að leysa, er hið árstíðabundna atvinnuleysi, sem því miður gerir vart við sig á hverju ári á fleiri eða færri stöðum á landinu. Jafnframt er frv. ætlað að stuðla að betri nýtingu og rekstrarafkomu afkastamikilla atvinnufyrirtækja og í þriðja lagi að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar í heild. Nú mundi margur spyrja: Er ekki hægt að gera þetta með einhverju öðru móti? Jú, það hefur vissulega verið leitazt við að gera það, en samt er málið enn þá óleyst. Það hefur verið þráfaldlega reynt að gera þetta með framfærslustyrkjum úr sveitarsjóðunum. Það hefur og verið leitazt við að gera það með svo kallaðri atvinnubótavinnu, sem þá oft hefur lent í því, að verkefnin hafa verið ófrjó, einkum þau, sem hægt var að grípa til á þeirri árstíð, sem þurfti að láta vinna, hvort sem brýn þörf væri fyrir verkið eða ekki, og árangur oft lítill, t. d. klakahögg að mestu leyti að vetri við útivinnu og lítið að hafa þannig sem arð af verkinu í aðra hönd. Nú væri víða í sjóþorpum hægt að bæta úr atvinnuleysi með því að auka vélbátaflota og draga þannig afla að landi, sem yrði síðan grundvöllur fyrir vinnu fyrir hið atvinnulausa fólk í landinu. Þetta er sums staðar hægt að gera, en á öðrum stöðum er það ekki tiltækilegt.

Þá er það, sem við stöldrum við þetta úrræði, sem hér er túlkað í þessu frv., að gera þetta með togaraútgerð og þá togaraútgerð í því formi, að ríkið eigi nokkra togara. Í þessu frv. er lagt til, að ríkið kaupi og geri út fjóra togara og útgerðinni sé hagað á þann hátt, að þessir ríkistogarar leggi afla þar á land, sem atvinnuleysið gerir vart við sig og atvinnutæki eru til á stöðunum, sem ekki hafa nægilegt verkefni. Með þessu er hægt að leysa tvenns konar þörf, taka ónotað vinnuafl til notkunar og taka illa hagnýtt atvinnutæki til betri hagnýtingar. En með því móti, að þessir togarar séu reknir af ríkinu, en ekki af einstaklingum eða einstöku bæjarfélagi, er hægt að ætla sama skipi að leggja upp aflann nú á þessum staðnum og svo á hinum, þar sem hann á að leysa úr atvinnuleysisvanda eða hráefnisþörf ónotaðra atvinnufyrirtækja.

Það er af þessari ástæðu, og henni einni, að lagt er til, að þessir togarar, sem ættu sérstaklega að afstýra atvinnuleysi, séu í ríkisrekstri, — að það rekstrarfyrirkomulag eitt tryggir þann færanleika atvinnutækjanna, sem nauðsynlegur er til þess að þjóna þessu markmiði. Það er ekki af neinni kreddufestu eða af neinni annarri ástæðu, sem lagt er til, að ríkisrekstur sé hér viðhafður, heldur en þessu, að markmiðið útheimtir þetta rekstrarform, eða m. ö. o., að þetta rekstrarform eitt leysir þann vanda, sem hér er stefnt að að leysa. Ég minnist þess t. d., þegar þetta mál komst til n. í hv. Ed. á sínum tíma og þar var fjallað um málið af fulltrúum flokkanna í sjútvn., að hinn reyndi útgerðarmaður Jóhann Þ. Jósefsson, hv. þm. Vestm., sagði, að því yrði ekki á móti mælt, að til þess að leysa þetta hlutverk, sem hér væri um rætt í þessu frv., væri ekkert rekstrarform, sem hentaði, annað heldur en ríkisrekstur, þess vegna teldi hann þessa hugmynd mjög athyglisverða, og hans till. var sú, að ríkisstj. yrði falið að rannsaka möguleika á slíkri útgerð sem hér væri um að ræða. Málið fór þá til 3. umr. í Ed., en var ekki afgr. úr d., enda þá komið nokkuð nærri þinglokum. En þetta var skoðun þess reynda útgerðarmanns einmitt um þetta atriði, sem menn kynnu kannske helzt að hafa á móti frv., þ. e. a. s. rekstrarformið. Annars skil ég nú ekki í því, að hv. alþm. láti slíkt standa í vegi fyrir því, að þeir fylgi slíku máli sem hér er um að ræða, því að vissulega ættu fordómarnir gegn ríkisrekstri að vera farnir að hjaðna nú, þegar ríkisrekstur hefur verið viðhafður árum og áratugum saman hjá þessu ríki í fjöldamörgum fyrirtækjum og stofnunum. Í sjávarútvegi er opinber rekstur ekki heldur nein nýlunda nú orðið. Hafnarfjarðarbær hefur rekið togara um áratugi í opinberum rekstri, og sú reynsla var á þá lund, að Reykjavíkurbær tók upp bæjarrekstur togara og hefur nú stærsta útgerðarfyrirtæki, sem rekið hefur verið á Íslandi undir því rekstrarformi, Akraneskaupstaður sömuleiðis, og er þar vitanlega um annað form á þjóðnýtingu að ræða. Ég geri því, því ekki á fæturna, að menn snúist til andstöðu við slíkt mál sem þetta eingöngu af prinsipsjónarmiðum, af því að þeir séu á móti opinberum rekstri, móti ríkisrekstri í þessu tilfelli, sem hentar betur en bæjarrekstur, þó að það sé annars annað form þjóðnýtingar. Sama má að vísu segja um samvinnurekstur. Það er í raun og veru þjóðnýtingarform út af fyrir sig, og ættu því samvinnumenn að minnsta kosti ekki að þurfa að kippa sér upp við það að verða að grípa til ríkisrekstrar, þegar það bersýnilega hefði yfirburði yfir önnur rekstrarform til þess að ná ákveðnu þjóðinni nauðsynlegu markmiði. Veigameiri mótbára væri vafalaust að segja: Ja, ríkið stofnar sér í fjárhagslega áhættu með því að hefja rekstur fjögurra togara, eins og þarna er lagt til, — og því verður vitanlega ekki neitað, að stórrekstri í sjávarútvegi — í þessu tilfelli togararekstri — fylgir áhætta, og hún er oft og tíðum stórfelld. En á sama hátt má þá segja, að togararekstri fylgi líka allmiklar gróðavonir, og úr því að þjóðin rekur togara, annaðhvort í einstaklingsrekstri, bæjarrekstri eða með öðru móti af þeirri nauðsyn, sem fyrir hendi er, þá verður að líta svo á, að það a. m. k. gangi upp hvort á móti öðru, áhættan við slíkan rekstur og gróðamöguleikarnir, svo að það sé ekki að fráfælast útgerð togara af þeirri ástæðu einni.

Hér er ætlunin sú, að fengin væru nýtízku skip, nýtízku dieseltogarar, til þessa hlutverks, sem ætla mætti að væru ódýrari í rekstri og þar með minni áhætta bundin við útgerðina en eldri skip og afkomumöguleikar betri. En það, sem úr sker í þessu efni, er það, að þrátt fyrir það að áhætta sé fyrir hendi, er áhætta þjóðfélagsins af atvinnuleysinu miklu stórfelldari en öll áhætta í sambandi við rekstur slíkra atvinnutækja. Ef 1000 manns ganga atvinnulausir í 4 mánuði, þá kostar það þjóðfélagið að verðmætum a. m. k. um það bil 12–15 millj. kr. Og það þarf ekkert sérstakt atvinnuleysisár að vera til þess, að það sé staðreynd, að hér gangi um það bil 2000 manns atvinnulausir víðs vegar á landinu flesta vetrarmánuðina, 4–5 mánuði, og þá er þar aldrei um að ræða minna en 25–30 millj. kr. tjón fyrir þjóðfélagið í beinum framleiðsluverðmætum, þó að ekki sé litið á það böl, sem atvinnuleysinu fylgir að öðru leyti.

Ég vil svo að lokum aðeins skýra frá því, að fjöldi manna um allt land, sem ég hef haft tal af og hafa skrifað mér út af þessu frv. fyrr og síðar, hefur látið í ljós, að þeir væru sannfærðir um, að atvinnuleysi, einkanlega árstíðabundið atvinnuleysi, víðs vegar um landið yrði ekki leyst eða úr því bætt á áhættuminni hátt en einmitt með ríkisrekstri togara, sem væru færðir til eftir því, sem atvinnuástandið væri hverju sinni. Í einum landshluta getur verið um aflaleysi og atvinnuleysi að ræða að vori til og á öðrum staðnum að haustinu, þriðja staðnum á útmánuðum, og er ekkert því til fyrirstöðu, að ríkisrekinn togari geti yfir vormánuðina bætt úr atvinnuleysi á einum staðnum þá árstíðina og á allt öðrum stað kannske í öðrum landshluta á öðrum tíma árs. Með þessu væru skipin hagnýtt til fulls og vinnuaflið og atvinnutæki í ýmsum landshlutum betur hagnýtt en nú gerist einmitt undir ríkisrekstrarformi slíkra skipa.

Atvinnumálanefndirnar í kaupstöðum landsins og víða í sjóþorpum hafa einmitt svarað atvinnumálanefnd ríkisins því, þegar spurt hefur verið, hvað væri hér helzt til úrbóta til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, að það væri, að togari eða togarar kæmu og legðu upp fisk til verkunar nokkra túra. Á ýmsum stöðum hafa þeir sagt: Hér þurfum við frá ári til árs að fá slíka togarafarma á land að vorinu, og á öðrum segja þeir: Hér er það frá ári til árs á haustin, — og á ýmsum stöðum er það á útmánuðum, eins og t. d. var rökstutt í frv., sem lá fyrir þinginu s. l. vetur að því er snerti Húsvíkinga; þar sögðu þeir, að þeir gætu ekki náð til afla á útmánuðum og þá þyrftu þeir að fá þar lagðan á land afla af togurum.

Fiskþurrkunarhús eru víða um landið lítt og ekki notuð og þyrftu að fá hráefni til vinnslu. Þegar ekki væri hægt að framkvæma atvinnubótavinnu úti við, sem bæri neinn viðhlítandi árangur, þá væri tilvalið að útvega slíkum vinnustöðum eins og þurrkhúsunum fisk til verkunar og að fólk ynni þar að verðmætisaukningu aflans og skilaði þannig þjóðarbúinu með vinnu sinni auknum þjóðfélagsverðmætum. — Og þannig er það með fiskimjölsverksmiðjurnar og önnur fiskiðjuver, sem ónotuð standa með atvinnulaust fólk í kringum sig. Það er vitanlega óverjandi af þjóðfélaginu að gera ekki ráðstafanir til þess, að þessi tæki ásamt ónotuðu vinnuafli séu hagnýtt betur en gert er.

Atvinnumálanefndirnar hafa því mælt mjög fast með því, að annaðhvort væru fengnir togarar, sem eru í einkarekstri, til þess að leggja upp túr og túr á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi herjar, ellegar þá, eins og augljóst er, að ríkið gerði út slík skip og léti þau inna það hlutverk af hendi að draga úr atvinnuleysinu með því að leggja afla á land þar, sem ónotað vinnuafl og ónotuð vinnutæki bíða eftir þörfum verkefnum.

Ég vona, að augu hv. þm. séu opin fyrir því, að hér er vandamál á ferðinni, sem þjóðfélaginu ríður á miklu að sé vel og viturlega leyst og ekki hefur verið leyst til þessa, og að hér er bent á leið, sem nú er haldið að hv. þingheimi í fjórða sinn, — leið, sem fleiri og fleiri fallast á að sé sú rétta leið út úr þessum ógöngum.

Ég mæli því fastlega með frv. og skora á Alþ. að samþykkja það. Ég legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. sjútvn.