30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

76. mál, togaraútgerð ríkisins

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Atvinnuvegir Íslendinga eru háðari veðráttu og öðrum geðbrigðum náttúruafla en gerist í flestum nágrannalöndunum. Orsakir þess eru alþjóð kunnar. Framleiðslugreinar þjóðarinnar hafa lengst af verið fáar og einhæfar og lengi vel lítið áberandi aðrar en landbúnaður og fiskveiðar. Síðar, eða aðallega á þessari öld, er svo unnt að fara að tala um sem stórar atvinnugreinar iðnað, verzlun og siglingar, auk margháttaðra starfa, sem skapazt hafa samfara uppbyggingu nútíma menningarþjóðfélags.

Frv. það á þskj. 101, er hér liggur fyrir til umr. og við hv. 3. landsk. þm. (HV) erum flm. að, gengur út á það að sjá þeim kauptúnum og kaupstöðum, sem ekki hafa bolmagn til að reka togara sjálf, fyrir nægum fiski til verkunar af togurum, sem ríkið gerir sjálft út, til að jafna atvinnu í þeim á þann hátt, að togararnir leggi þar einkum afla á land, sem atvinnuleysi gerir vart við sig og mest er þörf aukinnar atvinnu hverju sinni. Eins og kunnugt er, hafa hinar stórfelldu framfarir í útbúnaði fiskiskipa valdið því, að fiskurinn hefur gengið til þurrðar í sjónum. Ýmsar góðar verstöðvar eru svo til lagðar niður sem slíkar. Með öllum hugsanlegum veiðitækjum og véltækni nútímans virðast skilyrðin til fiskveiða ætla að þrjóta víða kringum land.

Það virðist ekki vera hægt annað en að gera svona máli fullkomin skil hér á hinu háa Alþingi. Á öllum höfnum landsins hafa verið byggð frystihús og víða fiskimjölsverksmiðjur, sem miðast fyrst og fremst við það, að vinnandi fólk sjávarplássanna geti gert sem mest verðmæti úr aflanum, sem berst á land, og jafnhliða hlotið lífsviðurværi sitt þar af. Þó að vertíð vélbáta, t. d. vestanlands, lukkaðist sæmilega, þá stendur hún ekki nema ca. 4–5 mánuði ársins. Þá er ekki neitt fyrir fólkið, sem vinnur að fiskiðnaði, að gera hina 7–8 mánuðina. Yfirleitt eru vestfirzk sjávarþorp ekki svo sterk fjárhagslega, að þau geti risið undir neinum teljandi töpum af rekstri togara, en á rekstri þeirra hafa viljað verða misbrestir um allt land. Ég get því eigi annað séð en að eitthvað, sem haldgott geti reynzt til úrbóta, þurfi að koma hér til framdráttar þessu mikla vandamáli.

Um það eru allir þjóðhollir Íslendingar sammála, að kauptúnin við firðina og blómlegar byggðir út frá þeim eigi að haldast í hendur. Þar hefur þjóðin, afar okkar og ömmur, háð baráttuna fyrir lífi sínu allt frá landnámstíð. Í nútíma menningarþjóðfélagi ber að bæta þau skilyrði með raunhæfum aðgerðum þings og þjóðar, sem tæknin í krafti menningarinnar hefur tekið af möguleikum íbúanna við túnfótinn, svo að straumfall lífsins megi þar framvegis eins og hingað til halda áfram að snúa hjóli tímans óhindrað þjóðfélaginu til gagns og uppbyggingar.

Ég vildi aðeins gera grein fyrir minni afstöðu til þessa frv., vegna þess að ég kom hér nýr inn í málið. Ég verð að segja það, að ég geri það ekki með flokkinn á bak við mig, heldur á eigin ábyrgð, af því að ég tel, að málið sé rétt.