30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

76. mál, togaraútgerð ríkisins

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það er ekki sízt vegna þess, að hvorki ég né þeir aðrir samflokksmenn mínir, sem sæti eiga í þessari hv. d., taka þátt í nefndarstörfum d., að ég vil við 1. umr. þessa máls lýsa samþykki mínu við það frv., sem hér liggur fyrir. Hér er vissulega á ferðinni eitt af mestu nauðsynjamálum, sem fyrir þessu þingi liggja. Atvinnuleysinu, sem jafnan er nokkurt og árstímabundið í hinum ýmsu sjávarþorpum víðs vegar á landinu, þarf vissulega að bæta úr. Hv. 3. landsk. (HV), 1. flm. þessa frv., hefur hér í framsögu sinni gert allrækilega grein fyrir því, að það, sem þjóðfélagið hefur hvað minnst efni á, er að láta fólkið ganga atvinnulaust, því að það er nærri óhugsandi, að ríkið gæti tapað eins miklu á togaraútgerð og það hlýtur að tapa á atvinnuleysi, ef um það er að ræða. En ég vil til viðbótar því, sem hv. flm. þessa frv. hér hafa sagt um nauðsyn þess og ágæti, bæta því við, að nú um skeið hefur sá háttur verið á, að sárasta atvinnuleysi í sjávarþorpunum hefur leitt til þess, að allmikill fjöldi manna hefur neyðzt til að yfirgefa íslenzk framleiðslustörf, sem líka hafa koðnað fyrir vaxandi áhrifum þess hers, sem nú situr í okkar landi, og flúið á hans náðir suður á Keflavíkurflugvöll. Þetta ástand getur ekki orðið varanlegt, í fyrsta lagi vegna þess, að íslenzka þjóðin vill ekki vera hernumin þjóð og hún mun segja samningnum við Bandaríkin upp. En jafnvel þó að Íslendingar gerðu það ekki, þá er það trúa mín, að svo muni fara, að þær framkvæmdir, sem Bandaríkjaher hefur á prjónunum þar syðra, séu ekkert eilífðarfyrirtæki, þeir muni ekki vinna þar nema upp að vissu marki, og þá leggst sú atvinna, sem Íslendingar hafa sótt þangað, niður. Þann dag, sem það skeður, þá stendur uppi stór hópur manna, sem ekki hefur neins staðar á vísan að róa um atvinnu. Þetta frv. er einmitt ágætt spor í áttina að því, að íslenzkar hendur geti unnið að íslenzkum framleiðslustörfum og þurfi ekki að sækja lifibrauð sitt í það að undirbúa stríð Bandaríkjamanna suður á Keflavíkurflugvelli eða hvar svo á landinu sem þeir nú helzt eru að hreiðra sig niður. Ég vil alveg sérstaklega taka það fram, að það frv., sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi aðeins spor í þá átt, sem ríkisvaldið þarf í miklum mun stærri stíl að hefja á næstunni, en sem skrefi í þá átt lýsi ég yfir samþykki við þetta frv. og þeirri ósk, að það megi fá samþykki þingsins og ganga sem hraðast til framkvæmda.