05.11.1953
Neðri deild: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

83. mál, olíuflutningaskip

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það er alkunna, að saga Íslendinga er að öðrum þræði saga um viðskipti þeirra við sjóinn, enda hlýtur svo að vera, þar sem í hlut á eyþjóð langt norður í höfum. Yfir hafið komu landnemarnir til að taka sér hér bólfestu í árdögum Íslands byggðar. Yfir hafið varð hin unga þjóð að sækja sér margs konar lífsbjörg. Siglingar voru henni nauðsyn til viðhalds og þrifa. Breytingar á skipakosti og siglingum höfðu margvísleg áhrif á þjóðlífið, settu mót á alla menningar- og stjórnmálaþróun. Á þjóðveldisöld voru Íslendingar siglingaríki. Skip þeirra plægðu sæinn, könnuðu ókunn höf, og íslenzkir sægarpar fundu ný lönd, nýja heimsálfu. En þetta blómaskeið stóð ekki lengi. Skipakosturinn rýrnaði, siglingarnar lömuðust, unz þar kom, að Íslendingar urðu öðrum þjóðum háðir um siglingar og verzlun. Þá var illra tíðinda skammt að bíða. Án þess að ég vilji hér rekja siglingasögu Íslendinga, ætla ég aðeins að benda á þá staðreynd, að Íslendingar höfðu naumast átt haffær skip í förum um hálfrar aldar skeið, þegar þeir gengu Noregskonungi á hönd á ofanverðri 13. öld. Norðmenn gátu þröngvað hag Íslendinga með siglingateppu, og þeir gerðu það, með þeim afleiðingum, sem alkunnar eru. Aldir liðu án þess að Íslendingar eignuðust haffæra fleytu. Það er ekki að heitið geti fyrr en á þessari öld, að þjóðin réttir sig úr þeim kút, sem ónógur skipakostur hafði ásamt öðru haldið henni í um langar og erfiðar stundir.

Þegar er þjóðin öðlaðist að nýju nokkurt bolmagn, tók hún að kosta kapps um að taka siglingar æ meir í eigin hendur. Hverjum hugsandi manni var ljóst, að kaupskipafloti hlaut að vera einn af hyrningarsteinum íslenzks sjálfstæðis og almennrar velmegunar. Verður ekki annað sagt en tekizt hafi með næsta undraverðum hraða að koma hér upp góðum siglingaskipaflota. Hefur hin ötula og dugmikla sjómannastétt stuðlað mjög að því, hve giftusamlega hefur til tekizt í þessu efni. Enn eigum við þó nokkuð langt í land til að ná því marki, sem stefna ber að, að Íslendingar verði algerlega einfærir um að flytja á eigin skipum allan varning frá landinu og til þess. Margir ala einnig með sér þá drauma, að Íslendingum megi takast að gera siglingar í þágu annarra þjóða að atvinnuvegi sínum, svo sem frændur okkar Norðmenn hafa lengi gert við mikinn orðstír. Má vel vera, að þar sé um framtíðarmöguleika að ræða, en þó þarf fyrst að ná hinu markinu, að við verðum a. m. k. sjálfum okkur nógir í þessum efnum. Hygg ég, að um það sé enginn ágreiningur, að því beri að ná sem fyrst.

Eftir því sem íslenzku þjóðinni hefur fjölgað og kröfur til lífsins orðið meiri, hefur innflutningur á margs konar erlendum nauðsynjum til landsins vaxið stórlega. Meðal þeirra erlendra vara, sem fluttar hafa verið inn í æ ríkari mæli á undanförnum árum, eru alls konar olíur. Olíunotkun þjóðarinnar er nú komin yfir 200 þús. smálestir á ári, og allar líkur benda til þess, að olíuþörfin haldi óðfluga áfram að vaxa, a. m. k. á meðan ekki verður einhver stórfelld breyting í tækni, sem dregið gæti úr notkun olíu. Enn þá er olía í mörgum tilfellum hagkvæmasti og ódýrasti orkugjafi, sem völ er á, og jafnvel hinn eini, sem hægt er að hafa not af í sambandi við ýmsar vélar. Vélanotkun öll, bæði til sjós og sveita, færist stöðugt í aukana. Olíukynding íbúðarhúsa hefur rutt sér mjög til rúms. Benda því allar líkur til þess, að aðflutningar á olíum til landsins muni enn fara stórlega vaxandi á næstu árum. Við Íslendingar eigum enn sem komið er engan skipakost til olíuflutninga. Höfum við í því efni verið algerlega upp á aðrar þjóðir komnir og orðið að greiða tugi milljóna árlega út úr landinu í farmgjöld til erlendra aðila. Hafa þær fjárfúlgur numið um eða yfir 30 millj. kr. á ári nú síðustu árin. Það er því ekki nema eðlilegt, að vaknað hafi áhugi manna á því, að Íslendingar eignuðust sjálfir olíuflutningaskip, eitt eða fleiri. Slík skip eru að vísu dýr. En það er einnig dýrt að sjá á eftir milljónatugum út úr landinu í farmgjaldagreiðslur til útlendra fyrirtækja. Allar líkur benda til þess, að kaup tveggja olíuflutningaskipa muni verða hagkvæm fyrir þjóðina og spara henni verulegar fúlgur í erlendum gjaldeyri.

Flm. þess frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 113, telja fyllilega tímabært, að gerð sé gangskör að því að rannsaka, hvort ekki muni hagkvæmt að festa hið fyrsta kaup á olíuflutningaskipum, svo að Íslendingar þurfi ekki miklu lengur að vera algerlega háðir öðrum þjóðum um aðflutninga á olíum. Við höfum lagt til, að hv. Alþ. heimili hæstv. ríkisstj. að kaupa eða láta smíða á kostnað ríkissjóðs tvö olíuflutningaskip, 12–16 þús. lestir að stærð, en ætla má, að sú stærð henti okkur Íslendingum einna bezt. Byggingarkostnaður tveggja skipa af þeim stærðum er talinn nema 70–80 millj. kr. Þó að það sé ef til vill og vafalaust myndarlegast að fá spánný skip, er sjálfsagt, að athugaður sé gaumgæfilega hinn möguleikinn, að festa kaup á nýlegum skipum, þar eð þau mundu að öllum líkindum verða allmiklu ódýrari en nýsmíðuð skip. Nú horfir svo við, að flutningsgjöld af olíu, sem hafa verið geysihá allt frá styrjaldarlokum, hafa nýlega lækkað talsvert vegna þess, hve tankskipafloti heimsins er nú stór orðinn, en af þeim sökum mun miklu auðveldara en áður að fá slík skip keypt. Virðist því einmitt nú hið rétta tækifæri til að fá úr því skorið, hvort ekki er kleift að ná góðum samningum um kaup á hentugum olíuflutningaskipum. Rekstur olíuflutningaskipa, þar sem næg verkefni eru fyrir hendi, svo sem hér mundi vera, er talinn svo öruggur og arðvænlegur, að öflun lánsfjár í því skyni að kaupa slík skip mundi að öllum líkindum auðveldari en lánsfjáröflun til margra annarra framkvæmda. Er í frv. þessu gert ráð fyrir heimild handa hæstv. ríkisstj. til að taka allt að 80 millj. kr. lán erlendis í þessu skyni. Sú upphæð er miðuð við það, að horfið verði að því ráði að láta smíða ný skip, en væntanlega mundi þurfa allmiklu minna fé, ef fest yrðu kaup á eldri skipum. Hér er að vísu um háar tölur að ræða, en slík lántaka mundi þó verða mjög hagkvæm fyrir þjóðina, ef rannsókn leiddi í ljós, svo sem allar líkur benda til, að skipin spöruðu mun meiri gjaldeyri en færi til greiðslu vaxta og afborgana af láninu.

Mál þetta er um þessar mundir mjög rætt meðal íslenzkrar sjómannastéttar. Hafa sjómenn látið áhuga sinn á kaupum olíuflutningaskipa í ljós við ýmis tækifæri. Má og á það benda, að við Íslendingar höfum á að skipa mörgum dugandi sjómönnum, og mundu engin vandkvæði vera á því að fá úrvalsskipshafnir íslenzkar til að sigla skipum þessum með myndarbrag um heimshöfin. Áhöfn á olíuflutningaskipi af þessari stærð er um 45 menn. Mundu því, ef keypt yrðu tvö skip, fá þar góða og örugga atvinnu um 90 sjómenn, sem gera mætti ráð fyrir að framfleyttu um 400 manns.

Við flm. töldum ekki ástæðu til að taka upp í þetta frv. að heimildarlögum ákvæði um eignaryfirráð og rekstrarfyrirkomulag olíuflutningaskipa þeirra, sem keypt kynnu að verða. Meginatriðið er að sjálfsögðu það, að undirbúningur sé sem fyrst hafinn til þess, að góð olíuflutningaskip komist í íslenzka eigu. svo að við verðum ekki öllu lengur öðrum háðir á þessu sviði. Fleiri en eitt rekstrarfyrirkomulag koma að sjálfsögðu til mála en fari svo, sem fastlega má vænta, að athugun leiði í ljós að rekstrargrundvöllur skipanna sé tryggður, verður að telja eðlilegast, að ríkið eigi skipin og reki þau.

Ég vil svo óska, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.