13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

85. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. ræddi hér í ræðu sinni mikið um gamansemi. Það var nú sannarlega gaman að heyra margt af því, sem hann sagði, bæði hina augljósu hryggð hans yfir því, hverjir sætu í ráðherrastólunum núna, og það hefði verið sennilega betur skipað á annan veg, og einnig þegar hann var að afsaka hinar hreinu hvatir Alþfl., sem fram kæmu í flutningi þessa frv. og væru einar ráðandi um það, að þetta mál væri fram borið, til þess, að því er hann sagði, að auka lýðræðið í landinu.

Það hefur áður verið á það bent hér, að frv. þetta, sem hér um ræðir, muni að öllum líkindum brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem um sé að ræða ákvæði í þessu frv., sem eðli sínu samkvæmt hljóti að verða að setjast í stjórnarskrá og breyti þeim grundvallarreglum, sem núverandi stjórnarskrárákvæði eru byggð á. Um það mun væntanlega fást úrskurður á sínum tíma.

Það hefur komið fram hjá báðum þeim hv. Alþýðuflokksmönnum, sem um þetta mál hafa rætt, að þeir telja, að það sé einungis borið fram til þess að tryggja, að því er þeir segja, heilbrigða stjórnarhætti í landinu og til þess að stuðla að auknu lýðræði. Hins vegar kom það nú fram hjá hv. 3. landsk., að hann sagði, að það væri auðvitað ekki nema eðlilegt, að Alþfl. stæði að flutningi máls sem þessa, og hlýtur þá í því að felast, að hugsunin, sem á bak við liggur, sé fyrst og fremst sú að hlynna eitthvað að Alþfl. og auka hans áhrif í þjóðfélaginu, sem kjósendurnir með eðlilegu móti hafa ekki verið jafnsammála Alþýðuflokksforingjunum um, að væru æskileg, og með þeim afleiðingum, að aðeins einn af þeim hv. þm. Alþfl., sem hér sitja á Alþingi, er kjördæmakosinn, en hitt eru allt uppbótarþingmenn.

Ég skil ósköp vel, að hv. 3. landsk. hafi orðið hryggur og reiður, þegar farið var að tala hér í þinginu um afturgöngur, og þess vegna skiljanlegt, þótt hann eyddi miklum hluta af sínum ræðutíma nú síðast til þess að hneykslast á því. Það er auðskiljanlegt öllum, sem vita, hversu hann er nú kominn hér inn á þing. Skal ég ekkert nánar um það segja. Uppbótarþingsæti voru á sínum tíma í lög leidd með það í huga að jafna á milli þingflokka, og þau geta átt sinn rétt á sér að því leyti til, en það haggar hins vegar ekki þeirri staðreynd, að þau leiða oft og tíðum til mjög óeðlilegrar niðurstöðu og kjósendur í ýmsum kjördæmum telja, að það sé harla óeðlilegt, að þeir frambjóðendur, sem þeir hafa fellt, skuli svo aftur geta komizt inn á þing með þessu móti, en það er önnur saga.

Hv. flm. þessa máls hafa talið, að með þessu væri verið að stuðla í senn að bættu stjórnarfari í landinu og auknu lýðræði, og hafa haldið því fram, að það væri ekki lýðræði, að frambjóðandi, sem fær flest atkvæði í kjördæmi, nái endilega kosningu, ef tveir aðrir flokkar vilja með þeim hætti, sem hér segir í þessu frv., kveða svo á, að þeir skuli slá saman sínu atkvæðamagni og þannig láta kjósendurna fá þann umbjóðanda, sem þeir hafa ekki óskað eftir. Sannleikurinn er sá, að hvernig svo sem reynt er að afsaka þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá er þar um hreina kjósendaverzlun að ræða milli ákveðinna flokka, hvað sem þeir flokkar annars heita, vegna þess að það verða auðvitað fyrst og fremst flokksstjórnirnar, sem ráða því, hvort slíkum kosningabandalögum verður á komið eða ekki, og það verður því eina leið kjósendans, ef hann vill nota sér sinn rétt til þess að skrifa einhverja ákveðna klásúlu á kjörseðil um, að hann mótmæli þessu kosningabandalagi.

Það hefur verið á það bent hér og tekið fram t. d. af hv. þm. A-Húnv., að það væri auðvitað eðlilegt og ekkert við því að segja, að flokkar hefðu með sér bandalög við kosningar, ef þeir ganga hreint til verks og velja ákveðinn frambjóðanda hver í sínu kjördæmi, þeir geta skipzt á um það. Einn flokkurinn hefur frambjóðandann í þessu kjördæmi og annar í hinu. Það væri eðlilegur máti til þess að fá fólkið til að fylkja sér um einn ákveðinn frambjóðanda. Fram hjá hinu verður ekki gengið, að sá háttur, sem hér er á hafður, er notaður til þess að blekkja fólkið. Hann er notaður vegna þess, að viðkomandi aðilar, sem að þessu máli standa, telja, að ef á að nota hina eðlilegu reglu, að flokkarnir skiptist á um frambjóðendur, þá muni það leiða til þess, að fólkið vilji ekki sætta sig við þá skipan. Þar er þó gengið hreint til verks. Og þess vegna á að fara hina leiðina, að segja við fólkið: Ja, þið getið kosið ykkar eigin frambjóðanda, alveg sjálfsagt, þarna er hann til staðar, — en síðan á svo að koma aftan að því og taka atkv. þessa fólks og leggja allt öðrum frambjóðanda þau til, til að tryggja sigur hans inn á þing. Það er þess vegna alger misskilningur, að það þýði endilega það, að frambjóðandi, sem hefur næsthæsta atkvæðatölu í kjördæmi, hafi raunverulega mest fylgi, þó að þessari kosningabandalagshugmynd sé komið á. Þótt kjósendur þriðja flokksins hafi ekki sett það á sína kjörseðla, að þeir væru andvígir kosningabandalaginu, þá þarf það alls ekki að leiða til þess, að þeir út af fyrir sig séu sérstaklega hrifnir af því, að þessi maður, sem næstmest fylgi fær, hljóti kosningu. (Gripið fram í: Af hverju gerir það það þá?) Af þeirri einföldu ástæðu, að þegar fólkinu er sýnt fram á, að það er að kjósa sinn eigin mann, þá vitum við ósköp vel, að það er miklum mun hægara að blekkja fólkið á þann hátt og leyna fyrir því eðli þess fyrirkomulags, sem um er að ræða, heldur en ef væri gengið hreint til verks. Af hverju er ekki hægt að ganga þá hreint til verks, að flokkar hafi samvinnu á þeim grundvelli að bjóða bara fram einn mann? Þá sýnir sig, hvort fólkið hefur trú á þessu kosningabandalagi eða ekki. Þetta er sá eðlilegi máti, sem hægt er að nota nú í dag og koma hreint og beint fram við kjósendurna í stað þess að taka upp þetta fyrirkomulag og þessa kjósendaverzlun, sem Alþfl. virðist hér vera að innleiða með þessu frv. sínu.

Svo er það nú önnur hlið málsins, að það er auðvitað engin vissa fyrir því, að sá maður, sem með þessari samsteypuaðferð og samlagningarreglum fær flest atkvæði, hafi hreinan meiri hluta. Við getum hugsað okkur, þar sem eru fjórir eða fimm flokkar, sem bjóða fram, að þótt tveir hafi kosningabandalag og nái þannig flestum atkvæðum, þá getur vel verið, að sá, sem hafði flest atkvæðin, og svo hinir flokkarnir, sem ef til vill hafa ekki verið í kosningabandalagi við hann, hafi hreinan meiri hluta, og af þeim sökum á kosningabandalagið þarna engan rétt á sér að þessu leyti.

Mér virðist því, hvernig sem á þetta mál er litið — og það er alveg tilgangslaust að reyna að fegra það, að hér sé vísvitandi gerð tilraun til þess að blekkja kjósendur. Þeir aðilar, sem að þessu frv. standa, þykjast hafa séð reynsluna sýna það, — og það er augljóst af öllu þeirra tali, að þeir miða það fyrst og fremst við reynslu síns eigin flokks, — að það sé ekki giftusamlegt að fá fólkið til að styðja þessa hv. þm. með því að ganga beint framan að því, heldur þurfi að hafa mjög flóknar reglur, sem eigi að beita og valdi því, að fjöldi manns geri sér alls ekki grein fyrir því, hvað þarna er raunverulega um að ræða.

Hitt er allt annað mál, að auðvitað eru allir sammála um, að það sé mjög æskilegt að stuðla að traustara stjórnarfari í landinu, og það er ekkert óeðlilegt, að það geti orðið einhver breyting á flokkaskipan. Það er allt önnur saga. En það á þá að ganga hreint til verks í því efni, og er hægt að fara margar aðrar leiðir en þessa leið.

Það var bent á það hér af hv. 1. flm. þessa máls í gær, að það væri með þessu frv. verið að koma í veg fyrir hrossakaup eftir kosningar. Ég sé nú ekki annað en sú breyting verði þá ein, að hrossakaupin hafi átt sér stað fyrir kosningar í þessu tilfelli, því að auðvitað verða að vera einhverjir samningar milli þessara flokka, sem hér hafa samstarf. Þeir munu kannske svara því til, að fólkinu sé þá gert. ljóst, hvað það sé. En það er nú ekki alveg víst að það liggi ljóst fyrir, hvað raunverulega hefur verið gert í því efni. Það eru nú, ekki alltaf svo ljósar stefnuskrár við kosningar, að það liggi hreint fyrir, hvaða hrossakaup raunverulega hafa átt sér stað, þótt slík bandalög komi til sögunnar. Auk þess er auðvitað engin vissa fyrir því, þó að tveir flokkar geri með sér kosningabandalög, — það virðist hafa verið gert ráð fyrir því í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið hér af talsmönnum þessa máls, — að það sé þá fyrir fram ákveðið, hver verði þingmeirihluti eftir kosningar. Það liggur auðvitað alls ekki í augum uppi, nema því aðeins að kosningabandalögin séu það víðtæk, að það sé útilokað annað en sá meiri hluti verði til staðar, því að það er sem sagt ekki alveg víst, að þó að jafnvel flokkar hafi samið um bandalög, þá verði kjósendur þeirra á sama máli um það.

Hv. 1. flm. þessa máls vék að því í ræðu sinni í gær, að hlutfallskosningar væru alltaf til stuðnings þeim flokki, sem væri stærstur. Þær eru það nú náttúrlega ekki nema að vissu leyti, af því að það liggur í hlutarins eðli, að það eru alltaf fleiri og færri atkvæði, sem falla ógild, vegna þess að það er auðvitað ekki hægt að búta þm. í sundur á milli flokka. Það liggur í hlutarins eðli, og hlutfallskosningar verka þess vegna ekki eins vel, nema því aðeins að kjördæmin séu nokkuð stór. Það er alveg rétt, að því minni sem kjördæmin eru, því verr verka þessar hlutfallskosningar. En það virðist nú ekki alltaf vera til stuðnings þeim flokknum, sem hefur mest fylgi, eftir því sem hér hefur verið tekið fram af þessum sömu mönnum, þar sem þeir hafa bent á það, að t. d. í tvímenningskjördæmum, þar sem eru hlutfallskosningar, geti sá flokkur, sem næstmest fylgi hefur, fengið annan manninn, þótt hann hafi töluvert miklu minna fylgi.

Ef við ætlum að fara að ræða hér þá hlið málsins, hvernig fengið verði hið fyllsta lýðræði, ef aðeins á að horfa á þá hliðina, þá má náttúrlega vel hugsa sér þá reglu, sem mér skilst að hafi verið mjög ofarlega hjá Alþfl. á sínum tíma a. m. k., en það er að gera landið allt að einu kjördæmi. Um þetta er mjög deilt, og það er deilt um það af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess, að það hefur ekki átt sérlega miklu fylgi að fagna úti um landsbyggðina, að þessi skipun væri á höfð, þar sem með því móti væri allt of mikið vald dregið til flokksstjórnanna í höfuðborginni. Í annan stað hefur það þótt mjög óheppilegt, að fólkið úti um land ætti sér ekki sína talsmenn á þingi til þess sérstaklega að beita sér fyrir sínum hagsmunamálum. Þessi skoðun hefur til þessa orðið ofan á og leitt til þess, að fólk hefur ekki almennt og ekki nema að mjög litlu leyti, hygg ég, viljað fallast á þessa hugmynd, að það ætti að afnema alla kjördæmaskipun og taka upp eitt kjördæmi fyrir allt landið. En meðan sú skipun er á, að við höfum einstök kjördæmi víðs vegar um land, þá er það tvímælalaust eðlileg regla, að sá maðurinn, sem fær flest atkvæði, nái þar kosningu og þar sé gengið hreint til verks og fólk kjósi og velji á milli þeirra frambjóðenda, sem í kjöri eru, og sá þeirra, sem ber sigur úr býtum, gangi þar frá með sigurinn, en sé ekki verið að nota einhverjar gerviaðferðir til þess að koma öðrum manni að, sem alls ekki hefur til þess nauðsynlegan styrk með beinum kosningum. Það er staðreynd málsins, sem verður aldrei gengið fram hjá.

Það verður aldrei gengið fram hjá því, að þetta frv. er ástæðulaust að því leyti til, að flokkar geta nú haft með sér bandalög með því að ganga hreint til verks og ákveða fyrir fram skiptingu frambjóðenda í einstökum kjördæmum og styðja þar báðir eða allir sama manninn. Það liggur þegar fyrir með þeirri skipan, sem nú er, og þar er ekki verið að reyna að beita neinum blekkingum. Hér er svo hins vegar sú aðferð höfð að reyna að koma aftan að fólkinu og reyna með alls konar útreikningum eftir á að fá allt aðra niðurstöðu heldur en þorri fólks í viðkomandi kjördæmi hefur óskað eftir.

Það er alveg tilgangslaust að halda því fram, að andstaða Sjálfstfl. gegn þessu frv. byggist einungis á því sjónarmiði, að hann telji, að því sé beint gegn sér. Það liggur að vísu ljóst fyrir, að það virðist svo eftir túlkun þeirra flm. málsins, sem hér hafa talað, að það sé nú fyrst og fremst ætlun málsins, að það sé gert, þar sem það sé borið fram til þess að auka veg og veldi Alþfl. og rétta hans hlut. Ég býst við því, eftir þeirri túlkun, sem þeir hafa hér fram flutt, að það eigi að stuðla að því, að menn skiptist eftir línunum vinstri — hægri, og þá sé naumast gert ráð fyrir, að það bandalag verði milli Alþfl. og Sjálfstfl. Þá liggur það samt í augum uppi, að þetta frv. er sem sagt borið fram á þennan hátt og viðurkennt af flm. þess að vera til þess fram borið. Hins vegar byggist andstaða okkar sjálfstæðismanna gegn málinu ekki eingöngu á þeim grundvelli. Við mótmælum ekki neinum þeim eðlilegu leiðum, sem til þess eru fundnar að auka jafnrétti milli flokka, og teljum okkur ekki hafa sýnt það nokkru sinni með viðhorfi okkar til kjördæmaskipunar, að við vildum gera það, en við mótmælum því, að það sé með gerviaðferðum eins og þessum beinlínis verið að verzla með kjósendurna af tilteknu forustuliði flokka og beinlínis verið að reyna með þessum gerviaðgerðum að blekkja fólkið og ná allt annarri niðurstöðu en kjósendurnir hafa til stofnað.