13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

85. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Af þeim þremur ræðum, sem nú hafa verið fluttar af hálfu hv. Sjálfstfl., ætla ég fyrst að svara ræðu hv. þm. A-Húnv., því að hún var skemmtilegust, en þó jafnframt vitlausust.

Uppistaðan í hans ræðu var mjög skemmtileg og góð saga um kássugerð í heimavistarskóla einum fyrir allmörgum áratugum, og vildi hann heimfæra þá eldamennsku, sem þar hafði verið stunduð, upp á þetta frumvarp og uppbótarkerfið, sem nú gildir samkv. núverandi stjórnarskrá. Ég vek sérstaka athygli hv. þm. á því, að það, sem hann kallar kássureglu, er ekki aðeins reglur þessa frv., heldur einnig þær reglur, sem uppbótarkerfið núgildandi byggist á, því að í báðum tilfellunum geta þeir, sem hann kallaði fallna frambjóðendur komizt að. Fallnir frambjóðendur, í hans merkingu, komast að samkv. uppbótarkerfinu, svo að gagnrýni hans á þessu frv. er einnig gagnrýni á uppbótarkerfinu.

En nú skulum við rifja upp söguna, líta svolítið aftur í tímann og rifja upp fyrir okkur, hvenær uppbótarkerfið komst á og hverjir að því stóðu. Uppbótarkerfið var tekið upp 1933. Þá voru lögleidd ákvæði um 11 uppbótarþingmenn, um 11 afturgöngur, svo að notuð séu orð þessara hv. þm. Þá var m. ö. o. sett í stjórnarskrána ákvæði um það, sem hv. þm. nú kallar kássugerð. Og hverjir börðust fyrir því? Hverjir voru aðalmennirnir í því eldhúsi, sem kokkaði þá kássu, stærstu kássuna, sem elduð hefur verið enn, og miklu meiri kássu en mundi koma út úr samþykkt þessa frv.? Hverjir voru aðalmennirnir í kokkhúsinu þá? Það voru þingmenn Sjálfstfl., sem höfðu forustu um það, sem hv. þm. A-Húnv. nú kallar kássugerð. Og það má mikið vera, ef ekki einmitt hv. þm. A-Húnv. hefur verið yfirkokkur við þá kássugerð. Að minnsta kosti kom hann fyrst inn í þingið upp úr þeirri eldamennsku, sem þá var stunduð. Ég efast ekki um, að honum hafi farið starfið vel úr hendi, honum fara störf yfirleitt mjög sómasamlega úr hendi, enda var árangurinn góður.

Það mál, sem þá var barizt fyrir, vann algeran sigur og hlaut fullkomna viðurkenningu og hefur haft það enn, þangað til þessir þingmenn eru nú farnir að yggla sig eitthvað út úr kássunni, sem þeir sjálfir suðu 1933. En af hverju skyldu þeir vera farnir að yggla sig núna? Það kom nefnilega í ljós, að þeir höfðu góða lyst á kássunni, sem var soðin 1933. Þá fékk Sjálfstfl. nefnilega ýmsa kássuþingmenn upp úr kássugerðinni. En af hverju hafa þeir misst lystina núna? Jú, af því að nú í fyrsta skipti fengu þeir engan uppbótarþingmann kjörinn í síðustu kosningum. Í fyrsta skipti kemur í ljós, að þeir fá fleiri þingmenn í kjördæmum en þeir eiga rétt á samkv. atkvæðatölu sinni. Þannig hefur Sjálfstfl. verið að fara aftur, hvað fylgi kjósenda snertir. Það hallar nú ekkert á hann miðað við Framsfl. Það standa jafnfáir þm. tiltölulega á bak við hvern kjörinn þingmann hans eins og Framsfl., miðað við fylgi hinna þingmannanna, sem stórkostlega hallar á. Þess vegna fengu hinir flokkarnir þrír, Alþfl., Sósfl. og Þjóðvfl., alla uppbótarþingmennina, en Sjálfstfl. engan, og þá allt í einu heita þeir kássuþingmenn, og þá hefur Sjálfstfl. ekki lengur lyst á kássunni.

Þetta er vægast sagt dæmalaus röksemdafærsla. En kássureglan, sem hv. þm. kallar svo, hefur ekki aðeins birzt í uppbótarkerfinu. Hún birtist einnig í stjórnarskrárbreytingunni 1942, þegar lögleitt var að kjósa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. En hverjir stóðu aðallega að því? Það voru enn fremur hv. þm. Sjálfstfl., og hv. þm. A-Húnv. hefur annaðhvort verið yfirkokkur eða undirkokkur við þá kássugerð líka. (Forsrh.: Hver flutti það frumvarp?) Það var samþ. af stórum meiri hluta hér í hv. Alþingi. (Forsrh.: Hver flutti það?) Það var rétt, að til þess gátu legið ýmis rök að gera þá breytingu á stjórnarskránni, sem þá var gerð. Til þess gátu legið ýmis rök, en aftur á móti — (Forsrh.: Hver flutti það?) Ég átti ekki sæti á þingi þá. (Forsrh.: Var það Alþfl., eða var það einhver annar?) Ég veit það ekki. (Forsrh.: Nei, það hlýtur að vera. Annars mundi þingmaðurinn ekki tala svona.) Ég endurtek: Það gátu legið ýmis rök til þess að gera breytingu á kosningatilhöguninni og kjördæmaskipuninni, en við höfum ekki kallað það kássugerð, þingmenn Alþfl., og við höfum ekki tekið upp að fyrra bragði gagnrýni á það skipulag. Sú gagnrýni kemur nú af hálfu hv. Sjálfstfl., sem vill ekki lengur neinar breytingar, eftir að hann er sjálfur hættur að hagnast á þeim.

Í heild var stjórnarskrárbreytingin 1942 spor í réttlætisátt. (Forsrh.: Var hún þá ekki ógeðsleg kássugerð?) Hún var spor í réttlætisátt, en ef þessi breyting, sem stungið er upp á núna með þessu frv., er kássugerð, þá var þetta miklu meiri kássugerð og ógeðsleg kássugerð. Það er mergurinn málsins.

Hugsun þessa frv., sem hér um ræðir, er sú, að stærsti flokkurinn fái ekki að ráða jafnmiklu og hann hefur ráðið hingað til, heldur að sá meiri hluti, sem myndast í kosningum, skuli ráða meiru en stærsti flokkurinn. Það er þetta, sem Sjálfstfl. vill ekki. Ég minnti á það í gær, hvernig ástandið er hér í Rvík. Hér hefur Sjálfstfl. 39% af greiddum atkvæðum. En hver er niðurstaða kosninganna? Hann hefur helming, hann hefur 50% af kjörnum þingmönnum, þ. e. fjóra kjörna af átta, út á 39% af greiddum atkvæðum. Ef þetta er réttlæti, ef þetta eru réttar hugmyndir um lýðræði, þá veit ég ekki, hvað lýðræði raunverulega táknar.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að ræður tveggja þm. Sjálfstfl., sem talað hafa, hv. þm. A-Húnv. og hv. 5. þm. Reykv., beindust báðar gegn uppbótarkerfinu. Þeir fluttu báðir það, sem þeir töldu vera rök fyrir því, að það væri ranglátt og óeðlilegt, sérstaklega hv. þm. A-Húnv. En hvernig mundi ástandið vera, ef uppbótarkerfið væri ekki í gildi? Alþfl. hefur á 13. þúsund atkv. Hann hefur einn þm. kjörinn. Sósfl. hefur líka á 13. þúsund atkv. Hann hefur tvo þm. kjörna. Þjóðvfl. hefur 4600 atkv. Hann hefur einn þm. kjörinn. Sjálfstfl. hefur 29 þúsund atkv. tæp. Hann hefur 21 þm. kjörinn. Og Framsfl. hefur tæp 17 þúsund atkv. og hefur 16 þm. kjörna. Alþfl. og Sósfl., sem hafa báðir á 13. þúsund, hafa einn og tvo þm., en Framsókn, sem hefur tæp 17 þúsund, hefur 16 þm. Þetta er fyrirkomulagið, sem þessir tveir hv. þm. eru að tala fyrir með því að leggja til, að uppbótarþingsætin séu afnumin, og að kalla það kerfi, sem þar er byggt á, kássugerð.

Hv. Sjálfstfl. er stundum dálítið stoltur af þeim sigri, sem hann segist hafa unnið í síðustu kosningum. Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv. En hver var sigur Sjálfstfl. í kosningunum? Hann vann, miðað við síðustu kosningar að aukakosningum meðtöldum, 74 atkv., það var allur stórsigurinn. Og út á þessi 74 atkv. fékk hann 2 nýja þm. Á bak við hvorn hinna nýju þm. Sjálfstfl. standa því 37 atkv. Hvor þessara nýju þm. hefði getað keyrt alla kjósendur sína til Reykjavíkur í einum strætisvagni. Og það hefði satt að segja verið hæfileg sýning á kosningasigri Sjálfstfl. að láta hina tvo nýju utanbæjarþm. koma keyrandi til Reykjavíkur með kjósendur sína í einum strætisvagni. Þá hefðum við séð glæsibraginn á sigrinum, sem búið er að grobba svo mikið af.

Nei, það þarf ekki að fjölyrða, hversu hlægilegt allt stolt Sjálfstfl. er af sigri sínum í síðustu kosningum. Sjálfstfl. tapaði síðustu kosningum. Hann tapaði verulega í hlutfallslegu fylgi, og samt sem áður birti Morgunblaðið stórfyrirsagnir um hina glæstu sigurgöngu Sjálfstfl.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) flutti framsöguræðu, sem hægt er að ræða efnislega séð. Þar var gerð tilraun til þess að flytja efnisleg rök, og er það vissulega metandi, sérstaklega í samanburði við ræðu hv. þm. A-Húnv., sem var algerlega rökrúin. Þó sagði hv. 5. þm. Reykv. eitt, sem tilheyrir ekki alvarlegum rökum, og þess vegna ætla ég að fylgja fyrri reglu og taka það á undan, en geyma mér rök hans þangað til síðast.

Hann sagði, að hann vildi líkja kosningabaráttunni við keppni íþróttamanna, og spurði, hvernig mönnum mundi líka það, ef íþróttamenn væru að keppa og svo ætti ekki að dæma þeim sigurinn, sem yrði fyrstur, heldur ætti að leyfa þeim, sem var nr. 2, að fá hjálp hjá þeim, sem var nr. 3, og dæma honum þess vegna sigurinn. Ég held, að hv. þm. hafi ekki hugsað þessa dæmisögu til enda. Þá mundi hann varla hafa sagt hana. Sannleikurinn er sá, að ef á að líkja kosningabaráttu við íþróttir, ef í því á að vera nokkurt vit, þá má ekki líkja henni við spretthlaup, við einmenningskeppni í 100 m hlaupi. Þá verður að líkja henni við boðhlaup. Við skulum nú hugsa okkur, að tveir íþróttaflokkar eða fleiri færu í boðhlaup. Við skulum hugsa okkur, að hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) væri beðinn um að taka þátt í keppninni og hann væri látinn hlaupa fyrst af stað á móti keppinaut sinum. Ég efast ekki um, að hv. 5. þm. Reykv. yrði á eftir, yrði síðastur í sínum fyrsta riðli, — hann er ekki íþróttamaður, — en samt sem áður gæti hans sveit hæglega unnið með algerlega réttmætum hætti, vegna þess að ef sá, sem hleypur næstur á eftir hv. þm., er það miklu sprettharðari en keppinautur hans, þá bætir hann upp það, sem hv. þm. (JóhH) er seinni að hlaupa, með fullkomnum rétti, þannig að boðhlaupssveit, sem hv. þm. væri í, gæti hæglega unnið með réttu, þó að hv. þm. yrði síðastur á sínum spretti. Þetta er auðvitað rétta reglan, sem miða á við, ef fara á að taka samlíkingar á algerlega óskyldum sviðum, sem ég þó tel að eigi ekki að gera. En segi maður dæmisögur frá öðrum sviðum, þá verður að hugsa þær rétt.

Nú skal ég snúa mér að alvörunni. Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem gefa tilefni til þess að rökræða við hann í alvöru, og þá fyrst og fremst þetta atriði: Eiga ákvæðin um kosningabandalög að vera stjórnarskrárákvæði eða ákvæði í kosningalögum? Það eru auðvitað engin rök fyrir því, að ákvæði um kosningabandalög séu stjórnarskrárákvæði, þó að ég hafi rætt stjórnarskrárbreytingar í framsöguræðu minni. Ég var almennt að gera grein fyrir þeim vanda, sem nú væri á höndum í stjórnarháttum þjóðarinnar, og þess vegna minntist ég á stjórnarskrármálið, en ég tók skýrt fram, að af þeim möguleikum, sem ég nefndi þar og til greina kæmu til þess að leiðrétta ágalla núverandi stjórnkerfis, væru kosningabandalögin eina leiðin, sem fær væri án stjórnarskrárbreytingar, og það skal ég rökstyðja nánar.

Hv. þm. spurði, hverjum hefði dottið í hug að lögleiða uppbótarsæti með breytingum á kosningalögunum á sínum tíma. Auðvitað engum, vegna þess að gildandi ákvæði um uppbótarþingsæti fela í sér breytingar á þingmannatölu, og það er eðlilega stjórnarskrárákvæði. Í stjórnarskránni þurfa að vera ákvæði um tölu þingmanna. Þar þurfa að vera ákvæði um kjördæmaskipun og hvort þingmenn skuli kosnir í kjördæmi eða vera uppbótarþingmenn. Þetta er í stjórnarskránni, og við engu af þessu er raskað í þessu frv. Þess vegna stangast reglur frv. engan veginn við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Til frekari rökstuðnings fyrir því, að ákvæði um kosningabandalög eigi ekki heima í stjórnarskrám, heldur í kosningalögum, má geta þess, sem ég raunar tók fram í framsöguræðu minni, að í þeim löndum, sem eru okkur einna skyldust í stjórnarháttum, Noregi og Svíþjóð, hafa um langan aldur verið í gildi ákvæði um kosningabandalög, og þau hafa verið í kosningalögum, en ekki í stjórnarskrá. Það vill meira að segja þannig til, að ákvæðin í norsku kosningalögunum voru nákvæmlega hliðstæð þeim ákvæðum, sem þetta frv. inniheldur. Vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstutta, fræðilega greinargerð, samda af sérfróðum fræðimanni, um það, hvernig ákvæðin í Noregi um kosningabandalög voru, þannig að menn geti haft það til samanburðar við það frv., sem hér er til 1. umr., en þessi lýsing er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Um kosningabandalög (í Noregi) eru ekki ákvæði í sjálfri stjórnarskránni. Reglur um það efni voru settar inn í kosningalögin með lagabreytingu 1930. Tilgangurinn með þeim reglum var sá að gefa stjórnmálaflokkunum færi á að ganga í eins konar kosningabandalög, þannig, að atkv. greidd listum flokkanna væru lögð saman og að þau þingsæti, sem flokkarnir þannig fengju í sameiningu, skiptust á milli þeirra í hlutfalli við atkvæðatölu hvers þeirra. Með þessum hætti er kjósendum tiltekins stjórnmálaflokks veitt færi á að hafa enn ríkari áhrif á kosningaúrslitin heldur en þeir hefðu, ef þeir kysu aðeins lista flokksins. Hugsanlegt er t. d., að atkvæðamagn einhvers flokkslista sé út af fyrir sig ekki nægilegt til að afla honum þingsætis. Hafi sá flokkur hins vegar myndað kosningabandalag við flokk, sem ef til vill er eins ástatt um, geta flokkarnir til samans hlotið svo mikið atkvæðamagn, að nægilegt sé til að fá þingmann kjörinn. Þingsæti fær þá sá flokkurinn, sem hefur hærri eða hæsta atkvæðatölu. Á sama hátt er auðvitað hugsanlegt, að stjórnmálaflokkur, sem hefur að vísu út af fyrir sig atkvæðamagn til þess að hljóta þingsæti, geti með því að gera kosningabandalag við annan flokk fengið þingsæti til viðbótar, sem hann ella hefði ekki fengið, eða hann með umframatkvæðamagni sínu geti hjálpað öðrum flokki til þess að fá þingsæti, sem sá flokkur hefði ekki annars náð. Það sjónarmið, sem liggur til grundvallar þessari skipun, er það, að margir kjósendur, sem greiða ákveðnum flokki atkv., vilja þó, að atkv. þeirra komi til góða einhverjum öðrum flokki fremur en að það hafi alls engin áhrif á kosningaúrslitin. Reglurnar um kosningabandalög gera kjósendum það í rauninni kleift að kjósa einn flokk aðallega, en annan til vara.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta er stuttorð og frábærlega skýr lýsing á kosningatilhögun í Noregi, meðan kosningabandalögin voru leyfð þar, sem var í meira en tvo áratugi, og það er nákvæmlega sama kerfið og gert er ráð fyrir í þessu frv. (Gripið fram í: Er búið að afnema þetta í Noregi núna?) Það er búið að afnema þetta í Noregi. Það var afnumið núna á síðasta ári, fyrir síðustu kosningar. Vegna þessa innskots, skal ég skjóta hér inn örstuttri skýringu. Um þetta kerfi hafði verið rætt mikið eins og kosningaskipunina í Noregi yfirleitt. Afstaða stærsta flokksins þar í landi var sú, að hann óskaði ekki eftir því, að andstæðingar hans fengju fleiri þm. vegna kosningabandalaganna en ella, en hægri flokkarnir í Noregi, sem eru margir, höfðu alltaf haft með sér kosningabandalög á annan áratug og vildu halda þeim rétti. Niðurstaðan varð sú, að gerðar voru margs konar breytingar á kjördæmaskipuninni, á kosningabandalagaákvæðunum og á aðferðinni við útreikning kjörinna þm. í kjördæmum með hlutfallskosningu. Kjördæmabreytingin var gerð á þann hátt, að hlutur stærsta flokksins af kjörnum þm. var rýrður, en hlutur smærri flokkanna af kjörnum þm. var aukinn. Jafnframt var gerð sú breyting á aðferðinni við útreikning kjörinna þm. í kjördæmum með hlutfallskosningum, að hlutur stærsta flokksins var skertur, en hlutur minni flokkanna aukinn. Vegna þessara tveggja breytinga, sem gerðar voru á stjórnarskránni og kosningakerfinu, þótti rétt og varð samkomulag um að skerða hlut smærri flokkanna með því að meina þeim kosningabandalög. Það játa allir viti bornir menn í Noregi, og ættu auðvitað allir viti bornir menn, hvar sem er, að játa, að kosningabandalagaákvæði í kosningalögum eru gerð til þess að styrkja aðstöðu minni flokka gegn stærsta flokknum, og vegna þeirra breytinga annarra, sem gerðar voru á stjórnarskrá og kosningalögunum í Noregi, þótti rétt að stíga slíkt spor þar. Kjördæmaskipunarbreytingin ein svipti stærsta flokkinn í Noregi, Alþfl., einum 5 eða 6 þingsætum, sem skiptust á milli minni flokkanna, og hinar breyttu reglur um útreikning þingsæta við hlutfallskosningar sviptu hann einnig nokkrum þingsætum. Á móti þessu var þá látið koma, að minni flokkarnir voru sviptir þeim viðbótarþingsætum, sem þeir höfðu fengið í skjóli kosningabandalaganna.

En fyrst á þetta er minnzt, þá vildi ég geta þess til fróðleiks, því að það er líka mjög athyglisvert, að sú regla, sem er hér fylgt við það að reikna út kjörna þm. í kjördæmum með hlutfallskosningu, er engan veginn sú eina, sem til greina kemur að beita, og engan veginn sú, sem talin er sjálfsögð. Sú regla, sem hér er beitt, að reikna út kjörna þm. með því að deila með 2, 3, 4 og 5 o. s. frv., er mjög umdeilanleg. Við síðustu kosningalagabreytingu í Noregi var þessi regla afnumin, og eins var gert í Svíþjóð, um leið og heimild til kosningabandalaga var afnumin þar, eins og gert var á yfirstandandi ári. Nú er beitt annarri reglu, þannig að deilt er fyrst með 1.4 og síðan með 3, 5, 7, 9 o. s. frv. Þessi regla er höfð til þess að styrkja aðstöðu minni flokkanna, en veikja aðstöðu stærsta flokksins.

Ef Sjálfstfl. ætlar sér að vísa sérstaklega til þess, að kosningabandalögin hafi nú á þessu ári verið afnumin í Noregi og Svíþjóð, og ef hann kynni að vilja sækja fyrirmyndir til þessara landa um þá skipun, sem nú gildir, þá datt mér í hug að athuga, hvernig þingkosning í Reykjavík hefði farið á s. l. sumri, ef reglurnar, sem nú gilda í Noregi og Svíþjóð, hefðu gilt hér, og sömuleiðis, hver niðurstaðan mundi verða, ef þessum reglum yrði beitt í næstu bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík. Niðurstaðan er mjög athyglisverð. Hún er nefnilega þannig, að samkvæmt kosningaúrslitum í síðustu þingkosningum hefði Sjálfstæðisfl. fengið 3 þm. kjörna af átta, en ekki 4 eins og hann fékk. Sósfl. hefði fengið tvo, og hver hinna flokkanna, Alþfl., Framsfl. og Þjóðvfl., hefði fengið einn mann kjörinn. Framsfl. hefði m. ö. o. ekki misst sinn þm. hér í Reykjavík, ef þær reglur, sem nú gilda í Noregi og Svíþjóð, hefðu gilt hér í Reykjavík, og ástæðan er auðvitað sú, að Sjálfstfl. hefur ekki nema 39% af greiddum atkv., en fær samt sem áður fjóra kjörna, sem er of mikið. Hann missti þennan fjórða þm. sinn, og hann fer í hendur þess flokks, sem hafði flest atkv. af þeim, sem ekki komu neinum manni að, sem var Framsfl. Með hliðsjón af þessu dreg ég dálítið í efa, að hv. Sjálfstfl. muni stinga upp á því að taka núgildandi fyrirkomulag í Noregi og Svíþjóð til fyrirmyndar. Það mundi líka koma í ljós, að það mundi verða honum enn óhagstæðara en það, að kosningabandalög væru leyfð. Í bæjarstjórnarkosningunum mundi skiptingin verða þannig, miðað við tölur úr síðustu þingkosningum: Sjálfstfl. fengi 6 af 15, Sósfl. fengi 3, Alþfl. fengi 3 og hinir flokkarnir þrír, Framsfl. Þjóðvfl. og Lýðvfl., fengju einn mann kjörinn hver, þannig, að meiri hluti Sjálfstfl. væri gersamlega tapaður hér í bæjarstjórninni í Reykjavík, ef atkv. féllu eins og þau féllu við síðustu þingkosningar og núgildandi kosningaákvæðum í Noregi og Svíþjóð væri beitt.

Ég skal enn fremur láta þess getið, að ákvæðin um það, hvernig reikna skuli út kosningaúrslit í kjördæmum með hlutfallskosningu, eiga ekki heima í stjórnarskrá. Gildandi ákvæði hér eru í kosningalögunum, og þeim væri hægt að breyta með breytingu á kosningalögunum. Þetta tekur einnig af öll tvímæli um það, hvílík fjarstæða það er, þegar hv. þm. eru að halda því fram, að þetta frv. sé ósamrýmanlegt ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það væri hægt að breyta aðferðinni við útreikning kjörinna þm. í kjördæmum með hlutfallskosningu með breytingu á kosningalögunum einum, vegna þess að ákvæðin, sem nú eru í lögum, standa eingöngu í kosningalögunum. Þess vegna mætti auðvitað alveg eins vel taka upp sams konar ákvæði og þau, sem gilda nú í Noregi og Svíþjóð, í kosningalögin, og það mundi þýða, að þm., sem féll í síðustu kosningum, væri kosinn samkvæmt hinum nýju reglum aðeins vegna breytinga á kosningalögunum.

Ég ætla að vona, að þetta dugi til þess, að það heyrist ekki oftar hér, að það, sem gert er ráð fyrir í frv., sé breyting á stjórnarskránni, af því að það muni breyta niðurstöðu kosninganna. Svo fráleitt er það. A. m. k. vona ég, að ég heyri það ekki oftar af munni jafnvel menntaðs lögfræðings og greinds manns og hv. 5. þm. Reykv., því að það er alveg augljóst mál, að þetta er rangt. Breytingar á kosningalögunum einum geta verið þess eðlis, að þær hafi áhrif á niðurstöðu kosninga. Þetta frv. hefur auðvitað áhrif á niðurstöðu kosninga. En það er auðvitað engin sönnun fyrir því, að það sé í ósamræmi við stjórnarskrána.

Þar fyrir utan er allt það, sem þessir þrír hv. þm., ræðumenn Sjálfstfl., sögðu um það, hvern telja ætti fallinn og hvern kosinn. Það er allt út í bláinn, svo sem t. d. má sjá af því, að samkvæmt reglum núgildandi kosningalaga var frambjóðandi Framsfl. í Reykjavík fallinn, en ef nýrri reglu, sem í Noregi og Svíþjóð er talin réttlátari og skynsamlegri, væri beitt, þá hefði hann verið kosinn. Það er og fullkominn misskilningur að telja, að frambjóðandi bandalagsflokks, sem hefur næstflest atkv. í kjördæminu, sé fallinn, ef bandalagsflokkarnir báðir hafa fengið fleiri atkv. til samans heldur sá andstæðingur, sem flest atkv. fékk. Hann er einmitt kosinn, vegna þess að allir kjósendur bandalagsflokkanna hafa greitt sitt atkv. með þeim fyrirvara, að ef atkv. dugi öðrum hvorum frambjóðanda bandalagsflokkanna til þess að fá flest atkv., þá skuli frambjóðandinn talinn kjörinn. Hann er því ekki fallinn, heldur þvert á móti kosinn. Reglurnar eru ákveðnar fyrir fram, og hver einasti kjósandi greiðir atkv. í fullkominni vitneskju um þessar reglur. Hann hefur meira að segja skilyrði til þess að taka fram á kjörseðli sínum, ef hann vill ekki láta reikna öðrum frambjóðanda atkv. sitt en hann sjálfur kýs.

Jafnvel eftir meirihluta-„principinu“ er því sá frambjóðandi bandalagsflokkanna, sem fær fleiri atkv. og fleiri hafa kosið með því fororði, að þeir vildu hann heldur en ákveðinn andstæðing eða alla andstæðinga aðra, kosinn að réttum guðs og manna lögum, og að titla þann frambjóðanda fallinn, er því algerlega rangt, alveg á sama hátt og það er gersamlega út í bláinn að kalla landsk. þm., sem ekki hefur komizt að í kjördæmi sínu, fallinn þm. Hann er kjörinn sem landsk. þm. Af hverju má hann greiða atkv. hér á hinu háa Alþ.? Af hverju situr hann hér, ef hann er ekki kjörinn? Og hvers konar orðaleikur er það að kalla alla slíka þm. fallna þm.? Það er algerlega út í bláinn.

Einhver ræðumanna sagði áðan, að það væri furða, að ekki ógreindari menn en við flm. frv. erum skulum láta okkur detta í hug að sýna slíkt frv. eins og þetta. Ég minni aðeins á þessa setningu eftir það, sem ég er búinn að segja um málið, til þess að menn sjái, hvers konar ummæli hér er um að ræða. Ég er búinn að sýna fram á það, að nákvæmlega sams konar ákvæði og hér er stungið upp á, hafa staðið í áratugi í því landi, sem er okkur skyldast að stjórnarháttum, með þeirri þjóð, sem er okkur skyldust að öllu leyti, í Noregi, og að ákvæði, sem eru í eðli sínu mjög svipuð, hafa líka gilt í áratugi í öðru Norðurlandanna, í Svíþjóð. Hvernig geta menn svo talað þannig, að það skuli vera dæmalaust að sýna slíkt frv.? Þetta er í raun og veru móðgun við þá stjórnvitringa í Noregi og Svíþjóð, sem stóðu að setningu þessara ákvæða fyrir nokkrum áratugum í fyrrnefndum löndum, og þessi ákvæði voru í gildi þar langa lengi, algerlega óumdeilanleg. Voru þá allir norskir og sænskir stjórnmálamenn, sem vildu halda þessum ákvæðum, einhverjir fáráðlingar?

Ég er enn fremur búinn að sýna fram á, að ástæðan til þess í báðum löndunum, að þetta kerfi var afnumið, var sú, að samtímis voru gerðar aðrar breytingar, sem gengu í öfuga átt við þau áhrif, sem afnám kosningabandalaganna hafði.

Hins vegar skal ég segja að síðustu, að ég furða mig ekkert á fjandskap Sjálfstfl. við þetta frv. Hann er ekkert undarlegur í sjálfum sér. Flokkurinn óttast auðvitað, að þetta frv. muni verða til þess, að vinstri öflin í landinu sameinist frekar gegn honum heldur en nú á sér stað. Hann óttast ekkert meira en þetta, og sá ótti er fullkomlega eðlilegur og skiljanlegur. Hann óttast það, að ef frjálslynd öfl í landinu sameinuðust, í stað þess að standa sundruð eins og þau nú gera, gegn hinum sameinuðu íhaldsöflum í Sjálfstfl., ef þau næðu betur saman en nú á sér stað, þá væri mjög hætt við því, að valdaaðstaða Sjálfstfl. minnkaði og að það hrikti svolítið í því valdakerfi, sem hann hefur byggt upp í kringum sig. Það er mannlegt að óttast slíkt, en þá er réttara að segja það hreinlega, að hann óttist þetta og af hverju óttinn stafar.