13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2605)

85. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það hefur nú verið auðheyrt á hv. flm. þessa frv., sem hér hafa talað, 1. landsk. og 3. landsk., að þeim er mikið niðri fyrir. En þá hefur báða hent sama slysið og það sama slys sem kom fyrir í framsöguræðu 1. flm., að þeir eru ýmist að tala um kosningalög eða stjórnarskrá og þó oftast um stjórnarskrá og stjórnarskrárbreytingu, enda er það sannleikurinn, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, gæti því aðeins staðizt, að það væri breyting á stjórnarskránni.

Það var skiljanlegt á hv. síðasta ræðumanni, að honum hafði fundizt hálfleiðinleg samlíking frá minni hálfu með kássugerðina hjá kerlingunni forðum, en þó undirstrikaði hann, að það væri í raun og veru rétt samlíking, því að hann fór að tala um það, að það væri nú fleiri kássugerðir til en þetta, og sannleikurinn er líka sá, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er rétt nefnt kássufrumvarp, og reglan, sem hér er stungið upp á, er ekkert annað en pólitísk kássugerð. Hv. þm. sagði, að líka væri kássugerð stjórnarskrárbreytingin frá 1934 og að ég hefði nú komizt inn á þing upphaflega á þeim tíma, en það var nú ekki komið í gildi, þegar ég komst á þing, því að ég komst inn árið áður. En þetta er einmitt þvert á móti með þá stjórnarskrárbreytingu, því að stjórnarskrárbreytingin og uppbótarsætafyrirkomulagið, sem ég fyrir mitt leyti er nú ekkert hrifinn af og tel hafa reynzt illa, verkaði einmitt þvert á móti því, sem hér er verið að fara fram á. Það verkaði þannig, að þá hætti þessi svo kallaða kássugerð milli þeirra framsóknarmanna og Alþýðuflokksmanna, því að þeir höfðu margsinnis áður í kosningum boðið fram saman. En síðan þetta komst á, þessi stjórnarskrárbreyting og uppbótarsætafyrirkomulagið, hefur þó miklu meiri hvöt og ástæða verið fyrir smáflokkana að halda sínum atkvæðum saman heldur en að kasta þeim yfir á aðra flokka, sem voru þeim óskyldir. Varðandi stjórnarskrárbreytinguna 1942 vildi nú hv. síðasti ræðumaður ekki svara því, hver það var, sem flutti frv. um hana. En það var einmitt Alþfl., sem var þar flutningsaðili að. Og það er ósköp eðlilegt, að Alþfl. vildi það gjarnan, því að það var til hagsbóta fyrir hann. Þegar þessi hv. þm. er nú að tala um, að það sé ólystugri kássa heldur en þessi pestarkássa, sem hann er hér að mæla fyrir, þá þykir mér skörin fara að færast upp í bekkinn, því að báðar þessar stjórnarskrárbreytingar, sem gerðar hafa verið, bæði 1934 og 1942, hafa orðið til þess að gefa Alþfl. og öðrum smærri flokkum möguleika á því að eiga menn á þingi umfram það, sem þeir fá í kosningum.

Það var nú svo að skilja af hv. 3. landsk. eins og hann í öðru orðinu vildi ekki láta aðra menn vera kosna en þá, sem hefðu meiri hluta í kjördæmi, en í öðru orðinu vildi hann þó halda uppbótarreglunni, sem ekki er undarlegt. Hann spurði, hvort mér og öðrum sjálfstæðismönnum fyndist það sanngjarnt, að flokkur með 12 þús. atkv. eins og Alþfl. fengi ekki nema einn mann kosinn. Ja, samkvæmt núgildandi lögum fékk hann nú ekki nema einn mann kosinn, og það hefði orðið, ef það væri komið í lög, sem sumir gjarnan vilja og annars staðar tíðkast í sumum öðrum löndum, að hér væru eintóm einmenningskjördæmi. Þá hefði slíkur flokkur sem Alþfl. auðvitað ekki fengið nokkurn mann kjörinn.

Þegar hv. 3. landsk., form. Alþfl., er að tala um, að það séu nokkurs konar pólitískar afturgöngur okkar hæstv. forsrh. og elzti þm. hér á þingi, hv. þm. Borgf., af því að hvorugur þeirra hafi meiri hluta í sínu kjördæmi, þá er nú farið að ruglast heldur í heilanum á þessum hv. þm. Hann reyndi að verja það, sem ég tók sem dæmi til sönnunar því, hvað þessi kássuregla væri ómöguleg, að jafnvel það gæti átt sér stað samkvæmt henni, að sá maður, sem hér hefur verið lengst, hv. þm. Borgf., hefði fallið í síðustu kosningum og átt að vera utanþings, þó að hann hefði 337 atkv. umfram þann næsta, af því að 2 eða 3 hefðu haft fleiri atkv., ef þeir hefðu verið í bandalagi. Það var á honum að skilja, að þessi hv. þm. væri nú búinn að vera nógu lengi á þingi og það væri þess vegna gott að koma að reglu, sem kæmi honum út. (PO: Það er nú ekki víst, að hún sé nothæf við mig, þessi regla.) Það er ekki alveg víst. (PO: Þeir geta nú allténd misreiknað sig þar.) Ég held það geti skeð.

Varðandi það atriði, hvernig kássureglan hefur gefizt þessum hv. þm., hv. 3. landsk., þá er nú það að segja, að hans pólitíska ket var nú ekki orðið lystugra en það, að Framsóknarkryddið dugði honum ekki neitt. Og það hefði ekki heldur dugað honum neitt, þó að hann hefði getað fengið viðbótarkrydd með því að fá allan Sósfl. á Ísafirði, því þó að kássan hefði orðið slík, þá hefði það ekki dugað honum neitt, vegna þess að hv. þm. Ísaf. var kosinn með hreinum meiri hluta. En ef fylgja á þeirri kenningu, sem skaut upp hjá þessum hv. þm., að það yrðu engir eiginlega löglega kosnir, nema því aðeins að þeir ættu hreinan meiri hluta í sinu kjördæmi, og að þeirra kássuregla miðaði að því að sameina svo marga flokka saman, að það gæti orðið samanlagt meiri hluti gegn hinum, þá fer nú að verða gerbreyting á okkar stjórnarskrá að ætla sér að koma slíku fram með einfaldri kosningalagabreytingu. Það er svo fráleitt, að það er eiginlega furðulegt, að nokkur maður skuli bera það fram á þeim grundvelli.

Þá sagði hv. 3. landsk. þm., að það væri ósatt hjá mér, að það hefði verið kosningabandalag í Ísafjarðarkaupstað, V.-Skaftafellssýslu og Dalasýslu. Í þessu efni er nú reynslan ólygnust. Hún sannar, að svona var. Hún sannar það blátt áfram, svo að það þýðir ekkert fyrir þennan hv. þm. að vera með nein ósannindabrigzl út af því. Hvers vegna var það, að Framsóknarfl. bauð ekki fram í Ísafjarðarkaupstað? Hvers vegna var það, að Alþfl. bauð ekki fram í Dalasýslu? Og hvers vegna var það, að Alþfl. bauð ekki fram í V.-Skaftafellssýslu? Var það ekki bara fyrir það, að það var verið að gera tilraun þarna með kosningabandalag á þeim eðlilega grundvelli, eins og oft hefur áður verið og er ekkert við að athuga? Það er ekkert við það að athuga, þó að tveir flokkar eða fleiri komi sér saman um frambjóðanda, ef þeim þóknast svo. En ef þeir blekkja fólkið með því að þykjast vera tveir flokkar, en ætla svo að renna saman, og ef það á að ákveðast með lögum, að sá skuli kjörinn, sem fær flest atkv. af þeim, þó að hann sé langt fyrir neðan þann, sem flest atkv. fær í kjördæminu, þá fer að verða allt annað upp á teningnum.

Hv. 3. landsk. sagði, að það væri síður en svo, að þessu væri stefnt gegn Sjálfstfl., og var að mótmæla því, sem ég sagði hér áðan um það. Þetta hefur nú tekið sig alveg ljóst út hjá hans félaga og 1. flm. frv. Það kom alveg greinilega fram í hans ræðu í gær og enn greinilegar núna, að frv. er blátt áfram flutt þannig og í þeim tilgangi að stefna því gegn stærsta flokki þjóðarinnar og reyna að koma á bandalagi, svona undarlegu bandalagi, bak við tjöldin milli annarra flokka til þess að reyna að hnekkja atkvæðafylgi Sjálfstfl. á Alþ. Hitt er annað mál, að Sjálfstfl. sé nokkuð hræddur við þetta frv., það er a. m. k. langt frá því, að ég sé það. Ég veit ekki, hvað aðrir þm. Sjálfstfl. kunna að hugsa, en það er svo langt frá því, að ég sé hræddur við svona frv., því að ég mundi halda, að það gæti farið víðar svo eins og fór í Ísafjarðarkaupstað, þó að væri nú eðlilegra bandalag þar en þetta mundi vera, að fólkið sæl í gegnum blekkingavefinn og mundi taka til sinna ráða og forðast pestarkássuna, hvað mikið krydd sem í hana væri látið. Ég held, að það gæti vel komið fyrir.

Hins vegar er utan við þetta ágreiningurinn um það, hvernig heppilegast er að hafa okkar stjórnarskrá. Það skal ég ekki fara langt út í að ræða hér. Ég tel það óviðkomandi þessu kássufrv. þeirra Alþfl.-manna, sem þeir hafa verið að mæla hér fyrir. Það getur ýmislegt komið til greina í sambandi við breytingu á stjórnarskránni, og þegar það verður tekið fyrir, þá er að sjálfsögðu margt, sem til greina kemur. Ég hef í því efni látið í ljós alveg ákveðna skoðun um það, hvernig eigi að haga kjördæmaskipun, og þá þyrftu ekki að vera nein uppbótarsæti og ekki svo mikið bil á milli atkvæðafjölda hjá flokkunum eins og nú er. Þá þyrftu jafnvel ekki Alþfl.-menn eða neinir menn, sem hafa svipaða aðstöðu með smáa flokka, að verða fyrir því ranglæti, sem ég tel að væri, ef þeir hefðu ekki nema einn þm. nú með 12 þús. atkv. Ég teldi það óeðlilegt. Þess vegna held ég, að það sé óþarfi fyrir þessa hv. þm. að vera að brýna okkur sjálfstæðismenn á því, að við séum með ótta út af þessu frv. Það mætti vera eitthvað skynsamlegra heldur en það er, til þess að við værum nokkuð hræddir við það. Hitt er annað mál, að við teljum að sjálfsögðu skylt og eðlilegast, að þessu frv. verði vísað frá, og ég trúi því illa, að það verði látið koma hér undir atkv.