19.11.1953
Neðri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

85. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (HÁ):

Því hefur verið haldið fram, að frv. á þskj. 121, um breyt. á l. nr. 80 7. sept. 1942, um kosningar til Alþingis, feli í sér tillögu um breyt. á stjórnarskránni og beri því að vísa frv. frá samkv. 27. gr. þingskapa, þar sem það er ekki í fyrirsögn nefnt frv. til stjórnarskipunarlaga.

Í 31., 33. og 34. gr. stjórnarskrárinnar eru ákvæði um tölu alþingismanna, kjörtímabil þeirra, kjördæmaskipun, skilyrði kosningarréttar og kjörgengis til Alþingis. Í 31. gr. stjórnarskrárinnar eru enn fremur nokkur fyrirmæli um kosningafyrirkomulag. Þar er mælt svo fyrir, að kosningarnar skuli vera leynilegar, að kosning alþingismanna í Reykjavík og tvímenningskjördæmum skuli vera hlutbundin og að þar skuli jafnmargir varamenn kosnir samtímis og á sama hátt. Þar er og ákveðið, að deyi þingmaður, kosinn í einmenningskjördæmi, eða fari frá á kjörtímanum, þá skuli kjósa þm. í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans. Um uppbótarþingmenn segir, að þeir geti verið allt að 11 til jöfnunar milli þingflokka og að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði þá kjósendur atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista. Frambjóðendur þess flokks, sem landslista hefur í kjöri og nær jöfnunarþingsæti, taka þá sæti eftir þeirri röð, sem þeir eru í á listanum að lokinni kosningu. Skal a. m. k. annað hvert sæti tíu efstu manna á landslista skipað frambjóðendum flokksins í kjördæmum utan Reykjavíkur. Að öðru leyti fer um skipun jöfnunarþingsæta eftir kosningalögum. Samtímis og á sama hátt eru kosnir jafnmargir varamenn og jöfnunarþingsæti eru.

Önnur fyrirmæli um alþingiskosningar eru ekki í stjórnarskránni. Í 3. málsgr. 33. gr. stjórnarskrárinnar segir, að kosningalög setji að öðru leyti nánari reglur um alþingiskosningar. Stjórnarskrárgjafinn gefur því almenna löggjafanum næsta frjálsar hendur um kosningatilhögun og ákvörðun um kosningaúrslit. Í kosningalögum má setja ákvæði um, hver útreikningsaðferð skuli höfð við hlutbundnar kosningar og hvernig úrslit skuli ákveðin í einmenningskjördæmum. Almenni löggjafinn getur því ákveðið, að horfið skuli frá þeirri hlutfallskosningaaðferð, sem nú er lögboðin, og önnur aðferð upp tekin. Almenni löggjafinn getur mælt svo fyrir, að sá skuli vera réttkjörinn þm. í einmenningskjördæmi, sem fær flest persónuleg atkvæði. En löggjafinn getur líka skipað þessu á þann veg, sem nú er gert, þ. e., að við persónuleg atkvæði frambjóðanda skuli leggja atkv., sem í því kjördæmi eru greidd landslista flokksins, og að sá frambjóðandi skuli vera réttkjörinn þm. einmenningskjördæmis, sem hefur hæsta atkvæðatölu á bak við sig, er lögð hafa verið saman persónuleg atkv. hans og landslistaatkvæði flokksins í því kjördæmi, sbr. 114. gr. kosningalaganna svo og 115. gr. Af þessari skipan leiðir, að sá getur verið réttkjörinn þm., sem hefur mun færri persónuleg atkv. heldur en sá frambjóðandi eða þeir frambjóðendur, sem falla. Þar sem leggja má þannig saman persónuleg atkv. og landslistaatkv., virðist, að eins hefði mátt ákveða, að ef fleiri en einn frambjóðandi eru í kjöri fyrir sama flokk í einu kjördæmi, þá skyldu atkv. þeirra lögð saman og teljast þeim þeirra, sem flest hefur atkv.

Í ákvæðum um kosningabandalög í áður nefndu frv. er mælt fyrir um tilhögun kosninganna og þann atkvæðaútreikning, sem kosningaúrslit skulu byggð á. Verður ekki séð, að þar sé breytt neinum ákvæðum stjórnarskrárinnar um alþingiskosningar, heldur er þar um að ræða efni, sem einungis eru ákvæði um í kosningalögum. Þeim ákvæðum má því breyta með almennum lögum.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði um það, hvernig atkv. skuli talin hvorum eða hverjum bandalagsflokki við úthlutun uppbótarþingsæta. Um það segir í stjórnarskránni, að uppbótarþingsætum skuli úthlutað til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Það mætti ef til vill halda því fram, að það bryti í bága við þetta ákvæði, að einum bandalagsflokki eru í sumum tilfellum talin atkv. eða hluti af atkvæðum, sem greidd eru frambjóðanda eða lista annars bandalagsflokks eða flokka.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að kjósandi geti beinlínis valið á milli þess að kjósa flokk sinn eða bandalagið. Ef kjósandi kýs bandalagið, veit hann, að þar með kann hann að ráðstafa atkv. sínu til annars flokks, ef svo ber undir. Það virðist því heimilt að telja bandalagsflokki öll atkv. bandalagsins í því kjördæmi, þar sem hann þeirra vegna hefur hlotið þingsæti. Hin reglan virðist líka geta staðizt, að telja honum aðeins svo mikið af atkvæðum hins eða hinna bandalagsflokkanna, að nægilegt hafi reynzt til þess að fá viðbótarþingmann kjörinn í kjördæminu.

Það er því úrskurður minn, að frv. á þskj. 121, um breyt. á l. nr. 80 7. sept. 1942, um kosningar til Alþingis, feli ekki í sér till. um breytingu á stjórnarskránni og beri því ekki að vísa því frá samkv. 27. gr. þingskapa.

Hv. 5. þm. Reykv. hefur kvatt sér hljóðs, en ég vil benda á, að umr. um þetta mál er þegar lokið og úrskurður forseta er ekki til umr. (JóhH: Ég bið bara um orðið um þingsköp.) Hv. 5. þm. Reykv. tekur til máls og talar um atkvgr.