19.11.1953
Neðri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2616)

85. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég viðurkenni, að það er rétt að forsetaúrskurður sé ekki til umr., og get ég vel skilið það, að forsetanum sé annt um það. Hæstv. forseti hefur fellt úrskurð um það, að efni frv. þessa, sem hér liggur fyrir, samrýmist stjórnarskránni. Hæstv. forseti hefur fært fyrir því sín rök, sem hins vegar nægja ekki til þess að breyta þeirri skoðun minni um þetta atriði, sem ég hef áður gert grein fyrir, en út í það fer ég ekki, af því að ég fellst á þá skoðun forseta, að efni málsins sé ekki til umr. Hins vegar get ég þó ekki annað en bent á eitt, að þar sem hæstv. forseti segir, að í kosningalögum megi mæla fyrir um úrslit kosninga í einmenningskjördæmum, þá hefur hann í raun og veru sagt með því, að það mætti mæla fyrir í kosningalögum, að sá, sem fæst fengi atkvæðin, skyldi kjörinn á þing. Nú, það er hins vegar hæstv. forseta að úrskurða, og hann er sá, sem valdið hefur í þessu efni, og við það verður að sitja að sinni.

En fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna í deildinni vil ég aðeins lýsa því yfir, að af slíkum úrskurði leiðir, að við munum nú fylgja þessu máli til nefndar. Er það vegna þess, að við lítum svo á, að sé efni þessa frv. talið samrýmanlegt stjórnarskránni, skapist vissulega ný viðhorf um athugun ýmissa annarra hugsanlegra breytinga á þeim reglum, sem gilda um skipun Alþingis og kosningar til þess, án þess að áður þurfi að leita úrskurðar kjósenda um þau í kosningum að afstöðnu þingrofi, eins og ráðgert er um stjórnarskrárbreytingar. Tel ég rétt, að slíkar leiðir séu kannaðar í nefnd í þessari deild, úr því sem komið er, hvað sem verða kann síðar um afgreiðslu þessa einstæða máls.