16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

86. mál, sveitarstjórnarkosningar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins ein spurning, sem ég vildi beina til hv. flutningsmanna. Hvernig stendur á því, að þeim finnst rétt að flytja þetta frv. í því formi að binda þessi kosningabandalög eingöngu við samþykkt þess frv. til laga, sem við vorum að ræða hér áðan, um kosningar til Alþ.? Sannleikurinn er, að sá háttur að hafa kosningabandalög við bæjarstjórnarkosningar er alveg tvímælalaust löglegur að öllu leyti og engir þeir erfiðleikar í sambandi við framkvæmd hans, sem eru í sambandi við alþingiskosningar, getur ekki að neinu leyti valdið þeim deilum, sem orðið hafa núna um málið í sambandi við alþingiskosningarnar. Ég álit þess vegna, að það hefði verið miklu heppilegra — og það getur þá verið ábending til þeirrar nefndar, sem fengi þetta til meðferðar — að smíða upp úr þessu frv. alveg hreint kosningabandalagafrumvarp viðvíkjandi sveitarstjórnarkosningum, án þess að binda það við alþingiskosningarnar. Það er að öllu leyti mögulegt, og ég held, að það hefði verið miklu heppilegra. Ég vildi eindregið mælast til þess, að hv. flm. athuguðu þetta og líka sú nefnd, sem þetta mál fer til.