16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

86. mál, sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er öldungis rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á, að það er auðvitað ekki hægt að telja ákvæði um kosningabandalög í lögum um kosningar til sveitarstjórnar brot á stjórnarskránni. Þau ákvæði, sem eru í kosningalagafrumvarpi okkar, hlytu að hafa fullt gildi í sveitarstjórnarkosningalögum. Höfuðrök andmælenda kosningalagafrumvarps okkar, þ. e., að ákvæðin brjóti í bága við stjórnarskrána, hefðu auðvitað ekkert gildi sem andmæli gegn þessu frumvarpi. Þetta er fullkomlega rétt sjónarmið. Hitt er annað mál, að við flm. frv. töldum eðlilegt, að það giltu sams konar meginreglur um kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna. Við erum sannfærðir um, að í því frv., sem hér var til umr. áðan, felast engin ákvæði, sem ganga hið minnsta á snið við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er bjargföst sannfæring okkar og styðst við álit ýmissa sérfróðra manna á því sviði. Við teljum eðlilegt, að það gildi sömu grundvallarreglur í þingkosningum og sveitarstjórnarkosningum, og þess vegna höfum við borið bæði frumvörpin fram samtímis. Útreikningsaðferðin í kjördæmum við hlutfallskosningu er sú sama núna í þingkosningum og sveitarstjórnarkosningum. Ég teldi því dálítið óeðlilegt að breyta hlutfallstöluútreikningsaðferðinni eingöngu í sveitarstjórnarkosningum, en ekki í þingkosningum, eða öfugt. Ég tel stjórnskipunina verða traustasta og heilbrigðasta með þeim hætti, að sömu grundvallarreglur gildi um hvort tveggja. En ef í ljós kemur, að frv. til breytinga á kosningalögum til Alþingis á að sæta sérstakri andspyrnu á þeim grundvelli, að það sé ekki í samræmi við stjórnarskrána, og yrði fellt einvörðungu af þeim sökum, þá mun ég taka það til athugunar að endursemja þetta frv., þannig að inn í það fari alveg nákvæmlega hliðstæð ákvæði og eru núna í því frv., sem við vorum að ræða áðan, og láta það frv. koma til atkvæða hér á hinu háa Alþingi, enda má að vissu leyti segja, að meira liggi á að setja skynsamlegri reglur en nú gilda um sveitarstjórnarkosningarnar, vegna þess að nú eftir nokkra mánuði fara fram kosningar til allra sveitarstjórna á landinu.