09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2630)

89. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. um olíueinkasölu ríkisins flutti ég í hv. Ed. á þinginu 1946 ásamt hv. 1. þm. N-M. (PZ). Nú er frv. flutt nálega óbreytt af þm. Alþfl. í þessari hv. deild.

Þegar málið var flutt í fyrra sinn, stóðu sakir þannig, að olíuverzlun landsmanna var í höndum þriggja olíufélaga, nefnilega h/f Shell, Olíuverzlunar Íslands h/f og Hins íslenzka steinolíuhlutafélags. Auk þess hafði hið erlenda hlutafélag B. P. á Íslandi átt hér nálega allar þær eignir, sem þurfti til verzlunarrekstrar Olíuverzlunar Íslands h/f með olíu. Svona hafði þessum málum verið skipað í öllum aðalatriðum síðan 1927, eða þá um 20 ára skeið. Allan þennan tíma höfðu hlutafélögin Shell og Olíuverzlun Íslands haft langmestan hluta af olíuverzluninni, eða ekki minna en 4/5 hluta hennar. Á árinu 1946 var nýstofnað fyrirtækið Olíuverzlun Íslands h/f, og keypti það mestan hluta af hlutafé Hins íslenzka steinolíuhlutafélags og tók við rekstri þess. Olíudreifingarkerfin voru þá, þegar frv. var flutt í fyrra sinn, tvö, og var sýnt, að Olíufélagið h/f mundi hyggja að byggja upp hið þriðja dreifingarkerfi, en það virtist sannarlega vera óþörf ráðstöfun. Um þessar mundir átti íslenzka ríkið olíustöðina í Hvalfirði, sem var vel til þess fallin að vera heildarbirgðastöð fyrir landið allt. Olíuflutningaskip ágætt fylgdi Hvalfjarðareignunum, og var það einnig í eigu ríkisins. Undir þessum kringumstæðum virtist það vera einsætt, að ríkið ætti að taka í sínar hendur alla olíuflutninga til landsins og taka dreifingarkerfi og aðrar eigur hinna erlendu olíufélaga eignarnámi og byggja upp úr báðum olíudreifingarkerfunum eitt fullkomið kerfi. Með þessu móti hefði þurft tiltölulega lítið fjármagn til nýrrar fjárfestingar og þó komið í hið æskilegasta horf olíuverzlun landsmanna. Vegna þessara aðstæðna var frv. flutt á þinginu 1946. En frv. náði ekki samþykki hins háa Alþ. Þriðja olíudreifingarkerfið var byggt upp, og bæði hin, sem fyrir voru, voru endurbætt með ærnum kostnaði vegna þeirrar samkeppni, sem nú hófst. Af þessu leiddi nýja fjárfestingu fyrir milljónatugi. Tankakerfi voru byggð fyrir öll félögin þrjú, og þrjár benzíndælur voru settar upp í röð á hlaðvarpa ýmissa sveitabæja, jafnvel úti um land, þar sem öll félögin vildu hafa aðstöðu til benzínsölu. En samtímis því, sem þetta gerðist, var átakanlegur barlómur í stjórnarvöldunum vegna gjaldeyrisskorts. Neyðarráðstafanir þótti þurfa verða að gera til þess að draga úr fjárfestingu, þar á meðal varð að neyðast til að banna húsnæðislausu fólki að byggja yfir sig nema með torfengnu náðarsamlegu leyfi stjórnarvalda. Samtímis voru svo tankakerfin byggð og dælustöðvarnar reistar, þrennt á hverjum stað.

Síðan hafa engar verulegar breytingar átt sér stað í olíuverzlun okkar Íslendinga. Ríkið losaði sig við olíubirgðastöðina í Hvalfirði. Það á enn þá olíuflutningaskipið Þyril. Og olíuverzlunin er í höndum þriggja aðila, Olíufélagsins h/f, Shell h/f og Olíuverzlunar Íslands h/f. Shell h/f er a. m. k. að hálfu leyti eign erlendra manna og félaga, og árið 1928 þótti leika svo mikill vafi á því, að þetta væri íslenzkt félag, sem hefði hér réttindi til atvinnurekstrar innanlands, en til þess þurftu íslenzkir aðilar að eiga að minnsta kosti helming hlutafjárins, að ríkisstj. sá þá ástæðu til að fyrirskipa rannsókn á því, hvort íslenzkir aðilar ættu meira en helming hlutafjárins í Shell h/f. Það tókst að vísu ekki að sanna fyrir dómstólunum, að sá hluti hlutafjárins, sem gefinn var upp sem íslenzk eign, væri það ekki, og slapp því Shell og hefur sloppið til þessa með að halda uppi atvinnurekstri hér á landi, en hins vegar þykjast menn vita og hafa þótzt vita frá öndverðu, að hér væri um leppmennsku að ræða og að félagið væri ekki að íslenzkum lögum íslenzkt fyrirtæki. En það er og vitað, að Olíufélagið Shell h/f hefur unnið og vinnur í svo nánu sambandi við brezka olíufélagið Shell, að það jafngildir nákvæmlega fullum eignarrétti hins erlenda félags á öllum hlutabréfum Shell h/f á Íslandi. Um hlutafélagið British Petroleum á Íslandi er það að segja, að þar leikur enginn vafi á um eignarrétt hlutafjárins, vegna þess að það félag er skráð hér á landi sem erlent félag og má þess vegna ekki hafa neinn rekstur með höndum hér á landi, enda mun ekki vera talið, að B. P. hafi neinn slíkan rekstur hérlendis. Hins vegar á þetta erlenda félag — sem líka er heimilt lögum samkvæmt — nærri allar þær fasteignir hér á landi, sem Olíuverzlun Íslands h/f þarf á að halda til þess að starfrækja það umboð, sem það félag hefur fyrir brezka Anglo-Iranian olíufélagið, en það félag eða meðlimir þess munu eiga allflest hlutabréfin í B. P. á Íslandi. Olíuverzlun Íslands h/f gæti ekki rekið olíuverzlun sína án þeirra olíugeyma og annarra fasteigna, sem hlutafélagið B. P. á Íslandi á, og þess vegna ræður Anglo-Iranian hlutafélagið í London að sjálfsögðu alveg yfir verzlunarrekstri Olíuverzlunar Íslands h/f, a. m. k. í öllum meginatriðum. Verzlunarrekstur þessara tveggja olíuhlutafélaga, Shell og Olíuverzlunar Íslands, hlýtur því að vera háður því, sem hin erlendu olíufélög, Shell og Anglo-Iranian, mæla fyrir um á hverjum tíma, og þannig má segja, að allverulegur hluti olíuverzlunar á Íslandi sé raunverulega í höndum erlendra aðila.

Þegar S. Í. S., nokkur sambandskaupfélög, einstök olíusamlög og fáeinir aðrir aðilar stofnuðu Olíufélagið h/f, líklega á árinu 1946, keypti þetta félag meiri partinn í hlutabréfum hins danska félags Standard Oil, D. D. P. A., sem hér hafði starfað og hét, eins og ég áðan sagði, Hið íslenzka steinolíuhlutafélag. Rekstur þess hvarf inn í rekstur Olíufélagsins h/f. Olíufélagið h/f keypti Hvalfjarðareignirnar og byggði síðan upp mikið og vandað fullkomið olíudreifingarkerfi og hefur síðan sótt mjög á í olíuverzluninni og hefur nú náð undir sig verulegum hluta af olíuverzluninni, nokkuð á kostnað hinna erlendu félaga, Shell og B. P. Þetta olíufélag, Olíufélagið h/f, fékk sennilega við yfirtöku eigna Hins íslenzka steinolíuhlutafélags söluumboð á Íslandi fyrir Standard Oil félagið, en er þó talið vera því óháð á allan hátt. Mér vitanlega hafa ekki staðið deilur um það, að Olíufélagið h/f væri íslenzkt félag og að öllu leyti löglegt, en þrátt fyrir það héldust tengsli þess við Standard Oil, sem talin eru vera í því fólgin, að það hafi söluumboð á Íslandi fyrir framleiðsluvörur þess. En þegar frv. þetta var flutt í fyrra sinn, þá var það svo, að nálega öll olíuverzlun landsmanna var í höndum hinna erlendu fyrirtækja, og það voru ekki liðin nema tvö ár frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi, svo að maður hefði nú haldið, að það væri nægur sjálfstæðisvindur, a. m. k. í sjálfstæðismönnum, til þess að vilja nú ganga af þessum erlendu olíufélögum dauðum og gera olíuverzlunina innlenda, koma þessum þýðingarmikla þætti verzlunarmálanna á hendur íslenzkra aðila og gera það þá eins fyllilega og vera mætti, með því að íslenzka ríkið sjálft tæki þessa verzlun í sínar hendur. En það reyndist svo, að það var allur sjálfstæðisvindur úr Sjálfstfl. hvað þetta snerti, og umboðsmenn B. P. og Shell stóðu upp hver á fætur öðrum, einnig upp úr röðum sjálfstæðismanna á Alþ., og mæltu hinum erlendu olíufélögum bót og vildu í engu hagga við hinni sérstöku aðstöðu þeirra í olíuverzluninni.

Síðan 1946 hafa olíuviðskipti landsmanna margfaldazt, og sætir það nálega undrum, hversu olíunotkun þjóðarinnar hefur stóraukizt á stuttu tímabili. Árið 1940 er talið, að það hafi ekki verið nema 23200 tonn, sem Íslendingar keyptu af olíum. Árið eftir var þetta komið upp í 28400 tonn, og 1942 voru þetta 33600 tonn, 1943 31200 tonn, 1944 35900 tonn, 1945 40 þús. tonn, 1946 52 þús. tonn, og núna er talið, að olíuverzlun landsmanna nemi yfir 200 þús. tonnum og fari enn ört vaxandi.

Hvaða ástæða er til þess sérstaklega nú að flytja á ný frv. um olíueinkasölu ríkisins? Það eru litlar líkur til þess, að hv. stjórnarflokkar vilji fallast á olíueinkasölu. Þó væri það kannske hugsanlegt, að Framsóknarflokkurinn teldi ekki ástæðu til að hlynna að hinum erlendu olíufélögum hér á landi. Það er ekki vitað, að sá flokkur eða menn í honum eigi þar sterkra hagsmuna að gæta, og má því segja, að það sé ekki alveg útilokað, að einhver hluti stjórnarliðsins teldi ástæðu til að gera þennan þýðingarmikla þátt íslenzkrar verzlunar innlendan. Hins vegar hef ég gefið upp alla von um, að Sjálfstfl. vilji á nokkurn hátt stíga á strá Shell eða B. P. En meginástæðan til þess, að þetta frv. er flutt hér nú, er sú, að íslenzka ríkið hefur á þessu ári orðið að gera samninga um heildarinnkaup á öllum olíuvörum fyrir íslenzku þjóðina, og síðan hefur sú sorglega saga gerzt, að íslenzka ríkið hefur orðið að framselja þessa samninga sína, þessa söluvöru sína, til olíufélaganna þriggja, sem vitanlega taka allan milliliðagróða, sem vitanlega getur ekki bitnað á öðru en atvinnuvegum landsmanna og er þannig fengur, sem hefði verið betur kominn sem gróði ríkissjóðs af slíkri verzlun og síðan verið notaður til almennra framkvæmda í landinu eða látinn renna til sjávarútvegsins og einkasalan, eins og eðlilegast væri, verið rekin sem ágóðalaus þjónusta fyrir atvinnulífið sjálft, sem er það einasta, sem viðhlítandi er og vitanlega verður sífellt að klifa á og stefna að, þangað til veldi þeirra flokka, sem halda verndarhendi yfir hinum erlendu olíufélögum, er brotið á bak aftur, sem auðvitað gerist fyrr eða síðar. Þetta er vitanlega meginástæðan fyrir því, að frv. er flutt nú á Alþ. um nauðsyn á olíueinkasölu ríkisins. Ég hygg, að það muni vefjast fyrir flestum að gera grein fyrir því, að það sé eðlilegt, að ríkið kaupi inn allar olíubirgðir, sem þjóðin þarf á að halda í sambandi við atvinnulífið, og að síðan sé þessi samningur framseldur olíufélögum, sem að nokkru leyti eru þá deildir úr hinum erlendu heimshringum í olíuverzluninni.

Hin meginástæðan til þess, að frv. er nú flutt, er sú, að fyrir síðustu alþingiskosningar urðu miklar og heiftúðugar deilur milli núverandi stjórnarflokka út af olíufarmgjöldum. Bróðernið fór í bili út um þúfur, annaðhvort af því, að það þótti henta fyrir kosningarnar, ellegar af því, að bróðurkærleikurinn hafði ekki enzt út kjörtímabilíð, og þá brigzluðu þeir hvor öðrum um stórþjófnaði í sambandi við olíuverzlun og olíumál. Oliufélagið h/f virtist hafa gert hagkvæma samninga um olíufarm til Íslands. Olíuverðið lækkaði þarna. Þá gaus upp kvittur um, að það hefði verið ætlun Olíufélagsins h/f að láta þennan gróða ekki renna til íslenzkra sjómanna. Morgunblaðið flutti þennan boðskap, að þarna hefði Olíufélagið ætlað að stela af sjómönnum. Og niðurstaðan varð svo sú, hvort sem það var áform Olíufélagsins strax eða fyrir áróður Morgunblaðsins, — ég skal ekki segja um það, — að sjómönnum var endurgreiddur sá ágóði, sem skapaðist við hið lága farmgjald á olíunni, og þarna var um stórar upphæðir að ræða. Það var sýnt, að þarna gat verið um hundruð þúsunda að ræða á einum olíufarmi. Það gat því verið að ræða um milljónafúlgur, sem öllu eðli samkvæmt áttu að renna til íslenzkra sjómanna, til íslenzkra atvinnuvega, í sambandi við of há farmgjöld á olíum hjá þessum ágætu þremur olíufélögum. Þetta komst upp, vegna þess að hjúin deildu fyrir kosningarnar, og verður aldrei yfir það klórað aftur.

Þetta sýnir í raun og veru, að það er algerlega ómögulegt að fylgjast með því, hvaða okurgróða er skotið til hliðar, jafnvel út úr landinu, í sambandi við olíuverzlunina, meðan hún er á þeim höndum, sem hún er nú. Og það á vitanlega að vera þjóðarkrafa og fyrst og fremst krafa atvinnulífsins, að ríkið taki í sínar hendur olíuverzlunina og annist hana að öllu leyti sem ágóðalausa þjónustu fyrir atvinnulífið. Ef ríkið annaðist kaup á öllum olíuvörum, sem þjóðin þarf á að halda, þá er alveg vitað mál, að olíuflutningur mundi eiga sér stað í geysistórum tankskipum, sennilega mundu aðalolíutegundirnar verða fluttar inn í 16–20 þús. tonna skipum. Það er talið, að farmgjöldin gætu orðið margfaldlega lægri við það, að flutt sé í svo stórum skipum. Að vísu er olían nú flutt inn í nokkuð stórum skipum hjá hinum sérstöku félögum, en þó eru þetta miklu smærri skip, sem Shell og B. P. nota og Olíufélagið einnig, heldur en gert yrði, ef olían yrði flutt inn í einu lagi og innkaupin gerð í heild. Þarna lítur út fyrir, að olían gæti lækkað umfram það, sem meira að segja félögin þrjú hafa efni á að lækka verðið, vegna þess að þau hafa ekki sömu aðstöðu til jafnstórra innkaupa hvert í sínu lagi. Þá er auðsætt, að það dytti engum í hug að dreifa olíunni í gegnum þrjú dreifingarkerfi, sem hafa þrefaldan mannafla í þessari þjónustu sinni á við það, sem þörf er á, og þrefalda fjárfestingu á við það, sem þörf er á, ef dreifingarkerfið væri eitt. Þar er líka um aðstöðumun að ræða, ef einkasala væri í landinu, sem annaðist þessa þjónustu, og aðstaða hennar stórkostlega hagkvæmari en hinna þriggja félaga. Sú fyrirkomulagsbreyting mundi líka geta lækkað olíuverðið í landinu allverulega.

Þá er það í þriðja lagi ágóðahluturinn, sem rennur meiri eða minni og áreiðanlega stærri upphæðir en okkur órar fyrir til hvers olíufélags um sig, en ætti auðvitað enginn að vera. Það ætti engan ágóða að taka fyrir slíka þjónustu. Þetta ætti að vera, eins og ég áðan sagði, ágóðalaus þjónusta við atvinnulífið. Að öllu þessu athuguðu er ekki hægt að ímynda sér annað en verð á olíum hér á landi gæti stórkostlega lækkað, ef íslenzka ríkið tæki þennan þátt verzlunarinnar í sínar hendur. Að svo verði gert, er lagt til í þessu frv., sem hér er til umr., og vil ég vona, að Alþ., hvaða interessur sem eru í flokkunum í sambandi við þau fyrirtæki, sem nú annast olíuverzlunina, beri gæfu til þess að samþykkja einkasölu ríkisins á olíu á þessu þingi. Það er sannarlega kominn tími til þess. að það sé gert, og legg ég til, að þessu máli verði vísað til sjútvn. að lokinni umr.