09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

89. mál, olíueinkasala

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég get lýst því yfir fyrir hönd okkar sósíalista, að við erum fyllilega sammála því frv., sem hér hefur verið lagt fram af nokkrum þm. Alþfl., enda er meginefni þessa frv. það sama og fram hefur komið hér á Alþ. áður af hálfu okkar sósíalista. Ég vil minna á það, að á síðasta þingi flutti einn af þm. okkar frv. um sama efni í meginatriðum, frv. til l. um innflutning og sölu ríkisins á olíu og benzíni. Auk þess höfum við margsinnis áður lýst yfir þeirri skoðun okkar, að þetta mál væri orðið mjög aðkallandi og nauðsynlegt og einn af sjálfsögðustu þáttunum í því að létta nokkuð af hinum mikla milliliðagróða, sem nú hvílir eins og mara á sjávarútveginum.

En það eru hér nokkur atriði í sambandi við þetta mál, sem ég hefði gjarnan viljað nú einmitt við þessa umr. fá upplýsingar um og þá alveg sérstaklega frá hæstv. viðskmrh., og vildi ég mega óska þess, að forseti gæti gert ráðstafanir til þess, að a. m. k. einhver ráðherranna gæti verið hér við umr. þessa máls og þá væntanlega gefið hér upplýsingar um jafnþýðingarmikið verzlunarmál og hér er til umr. Ég vildi mega gera hlé á máli mínu, í von um það, að ráðherrarnir — (Forseti: Það er verið að athuga það.) Þökk fyrir. (Forseti: Ræðumaðurinn sýnir væntanlega þolinmæði. Mér er kunnugt um það, að boðin eru komin til hæstv. viðskmrh., og ég vænti þess, að hann muni koma hér innan stundar.) Nú, hæstv. forseti vill kannske taka fyrir annað mál á dagskrá á meðan, ef biðin þykir of löng, annars tel ég ekki eftir mér að bíða hér. (Forseti: Ég held, að við höfum allir þolinmæði um stund. — Ég vildi vekja athygli ræðumanns á því, að það er ekki á valdi forseta að sækja ráðherrana og flytja þá hingað til d., en eins og ég hef skýrt áður frá, þá hefur hæstv. ráðh. fengið orðin, og ég vænti, að hann komi, ef hann hefur þá ekki sérstök forföll.) Óskar forseti eftir því, að ég haldi áfram með mál mitt, jafnvel þó að ráðherrarnir mæti hér ekki, en ég vildi sérstaklega beina máli mínu til þeirra? (Forseti: Forseti leggur það í dóm ræðumanns, hvort hann heldur áfram, án þess að ráðh. sé mættur í d.) Ég býst við því, fyrst hæstv. ráðh. hefur fengið boðin um það, að óskað væri eftir því, að hann yrði hér viðstaddur við þessar umr. eða einhver af hæstv. ráðherrum, en það tekst ekki að fá ráðherrana hér til að hlýða á mál þm., að þá verði ég að láta mínar fyrirspurnir, a. m. k. að nokkru leyti, koma hér fram í von um það, að þeir muni frétta af þeim og ráða það þá við sig síðar, hvort þeir óska eða vilja gefa þær upplýsingar, sem eðlilegt er, að þm. fái, þegar jafnmikið stórmál er rætt og það, sem hér liggur fyrir. — Nú, það mun nú vera upplýst, að hæstv. ráðh. er hér í húsinu.

Það, sem ég hefði sérstaklega viljað fá upp1ýsingar um í sambandi við þetta mál, þegar það liggur nú upplýst fyrir, að ríkisstj. er í rauninni orðin kaupandi að mestallri olíu, sem flutt er til landsins, — þegar svo er komið, að það er íslenzka ríkið, sem raunverulega er innflytjandi á olíu, en hér liggur svo aftur fyrir frv. um það, að lögleidd verði olíueinkasala, sem fyrst og fremst á að byggjast á því, að ríkið taki að sér innflutninginn á þessari þýðingarmiklu neyzluvöru, þá vildi ég spyrjast fyrir um það, hvernig fyrirkomulagið er á þessu nú. Með hvaða hætti er þetta framkvæmt nú, þessi innflutningur íslenzka ríkisins á olíu? Hjá því verður sem sagt ekki komizt, að innflutningur ríkisins er þegar hafinn á olíu, og það sýndist nú ekki óeðlilegt að vænta þess, að einmitt viðskmrh. landsins væri hér til staðar og gæfi mönnum upplýsingar um það, þegar slíkt frv. liggur fyrir sem þetta, hvernig innflutningi ríkisins á olíu er háttað, fyrst hann hefur þegar verið tekinn upp. Ég vildi t. d. mega spyrja um það: Er fyrirkomulagið þannig nú, að t. d. olíusamlög útvegsmanna eða aðrir aðilar, sem hafa nú með sölu á olíu að gera í landinu, geti gengið inn í þessi innkaup íslenzka ríkisins á olíu og fengið þetta milliliðalaust í sínar dreifingarstöðvar til þess að geta selt olíuna með sem lægstu verði til þeirra, sem olíuna þurfa að nota? Ég minnist þess, að það var hér fyrir nokkrum árum, ég ætla á stríðsárunum, að þá hafði íslenzka ríkið einnig með höndum að forminu til innflutning á olíu, og þá var það svo, að einstök olíusamlög útvegsmanna úti um land þurftu ekki annað en að snúa sér til ríkisstj. og óska eftir því að fá að kaupa beint án milligöngu olíuhringanna; fengu þeir olíuna þá afgreidda á lægsta fáanlegu verði beint í sínar dreifingarstöðvar, og þeir, sem þetta notfærðu sér, gátu selt olíuna á allmiklu lægra verði en almennt þekktist þá í landinu. Er þessi möguleiki nú fyrir hendi? Geta hin mörgu olíusamlög útvegsmanna, sem nú eru starfandi, og t. d. togarafélög eða aðrir þeir, sem kaupa olíu í allstórum stíl, nú fengið að ganga inn í kaup íslenzku ríkisstj. á olíum milliliðalaust? Eða er þessum ríkiskaupum þann veg háttað, að innflutningssamningurinn hafi verið afhentur hinum gömlu olíuhringum, sem hér starfa, og að olíusamtök útvegsmanna t. d., sem starfandi eru, geti ekki fengið olíuna keypta nema fara í gegnum þessa milliliði? Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst, því að þetta er vitanlega mjög veigamikið atriði, þegar svo er komið, að íslenzka ríkið hefur þegar tekið að sér innflutning á olíu.

Þá er einnig hitt atriðið, sem ég hygg að margir vildu gjarnan fá upplýst, ekki sízt með tilliti til þeirra miklu umræðna, sem fóru fram um olíuinnflutning til landsins nú í sambandi við síðustu alþingiskosningar, hvernig er háttað flutningsgjöldunum á olíu nú, eftir að olían hefur verið keypt inn í stórum stíl af íslenzka ríkinu. Hvaða flutningsgjaldataxtar eru þar lagðir til grundvallar? Eru það hinir opinberlega skráðu flutningsgjaldataxtar, sem almennt eru auglýstir og hægt er að ganga að víða í ritum um þau mál, þeir vöruflutningataxtar, sem þannig eru gefnir út og algengast hefur verið, að olíuhringarnir hér á landi hafi lagt til grundvallar við verðlagningu á olíu? Eða eru það hinir raunverulegu flutningataxtar, sem greiddir eru, þegar búið er að semja um afslátt af þessum opinberlega auglýstu töxtum? En það er alveg vitað mál, að a. m. k. allir þeir, sem hafa aðstöðu til þess að semja um flutning á allmiklu magni, eiga kost á því að fá verulegan afslátt af hinum skráðu eða opinberu flutningatöxtum, og það væri gaman að vita um það, þegar íslenzka ríkið hefur keypt svona mikið af olíum, eða ársbirgðir í einu, og það frá sama aðila, hvað hefur þá verið gert til þess að koma flutningsgjöldunum eins langt niður og tök eru á. Eða er það eins og áður: Fá gömlu olíuhringarnir með því að yfirtaka innflutninginn strax í upphafi aðstöðu til þess jafnvel að hirða í sinn vasa alla þá lækkun á flutningsgjöldunum, sem mögulegt væri kannske að fá?

Það annað, sem ég vildi sérstaklega spyrja um í þessu efni, ætla ég að láta bíða, en mér þætti, vegna þess, hvernig hér hefur til tekizt í sambandi við umr. þessa máls, full ástæða til þess að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann sæi sér fært að fresta umr. um málið þar til annaðhvort síðar í dag eða þá til næsta dags í von um, að þá yrði hægt að ræða þetta mál betur en nú er hægt, þar sem ráðh. gætu þá verið viðstaddir.