09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

89. mál, olíueinkasala

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi láta uppi undrun mína yfir því, sem hér kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh. (IngJ) í sambandi við þær fsp., sem ég hafði gert hér áður og hv. 3. landsk. (HV) hafði nú flutt ráðh. hér mjög skilmerkilega.

Hæstv. ráðh. tilkynnir það hér nú, að hann muni ekki svara þessum fsp. undir umræðum um þetta mál, heldur verði þessar fsp. að koma fram — eins og hann segir — í því formi, sem þingsköp mæla fyrir um. Ég ætla, að hann eigi þar við, að það skuli flytja skriflegar fsp., en þá fær fyrirspyrjandi einar fimm mínútur til umráða í ræðutíma, en hæstv. ráðh. getur hins vegar fengið að tala í því máli jafnlengi og hann kýs. Ég vil fyrir mitt leyti algerlega mótmæla því, að það sé réttmætt, þegar veigamikil mál liggja hér fyrir Alþ., eins og t. d. það mál, sem hér er um að ræða, mál um það, hvort taka á í lög, að íslenzka ríkið taki að sér einkasölu á olíu, að þá megi ekki ræða undir umr. þess máls einstaka mikilvæga þætti málsins sjálfs eins og það kann að vera í framkvæmd nú. Ef þannig ætti að fara að, að slíta einstaka þætti út úr, þá væri í rauninni búið að loka fyrir manni eðlilegum umr. um það mál, sem á dagskrá er. Það gefur alveg auga leið, að þegar umr. eru á Alþ. um það atriði, hvort lögleiða á einkasölu á olíu, en það hins vegar liggur fyrir, að íslenzka ríkið hefur nú um sinn tekið að sér innflutning á olíum í stórum stíl, eða að meginefni þess máls, sem liggur fyrir í frumvarpsformi, hefur nú um stundarsakir verið framkvæmt, þá er alveg ómögulegt, að hægt sé að skorast undan því að gefa upplýsingar um það, hvernig þessari framkvæmd er háttað. Ég býst meira að segja við, að afstaða einstakra þm. til þessa frv. eins og það liggur fyrir geti beinlínis farið nokkuð eftir því, hvaða upplýsingar verða gefnar hér á Alþ. undir umr. málsins um þá framkvæmd á olíuinnflutningi ríkisins, sem nú fer fram. En ef það hins vegar er efst í huga hæstv. ráðh. að vilja komast hjá öllum eðlilegum umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, vilja helzt ekki ræða það, þá er hægur vandi að segja við þm.: Við ræðum ekki málið, en flytjið þið fyrirspurnir, þar getið þið fengið einar fimm mínútur, þá er hægt að losna við ykkur og allar umr. um þetta mál á fimm mínútum. — Þetta er alveg ósæmilegt, og ég ætlast ekki til þess, að hæstv. viðskmrh., ef hann lítur á þetta mál í fullri alvöru, geti haldið sér við þessa yfirlýsingu. Ég er líka alveg viss um það, að þær fsp., sem ég flutti hér, voru á engan hátt þannig, að hæstv. viðskmrh. þyrfti að fara til sinna undirmanna í rn. og láta þá finna út þau svör. Ég er alveg sannfærður um það, að hann veit svo vei um gang þessara mála sjálfur, að hann geti gefið þær upplýsingar, sem eru fullnægjandi, við mínum spurningum, það atriði t. d., hvort hin fjölmörgu olíusamlög útvegsmanna, sem nú eru starfandi víða í verstöðvum landsins, hafa nú heimild til þess eða geta fengið að kaupa olíuna beint frá hálfu íslenzka ríkisins í sambandi við þennan innflutning, eða hvort þau eru nauðbeygð til þess að fara með innkaup sín á olíu í gegnum olíuhringana, sem munu hafa staðið í einhverjum samningum við ríkisstj. um þennan innflutning. Þetta ætti að vera auðvelt mál fyrir hæstv. ráðh. að svara hér án nokkurra vafninga eða án þess að óska eftir að fá einhvern undirbúningstíma undir það að svara þessu. Nákvæmlega sama er svo um hitt atriðið, sem ég varpaði hér fram fyrirspurn um, sem er um flutningsgjaldataxtana. Það er ómögulegt annað en hæstv. ráðh. geti gefið svör við því, hvort með fragttaxta af þessum mikla olíuinnflutningi hefur verið farið eftir þessum auglýstu, opinberu töxtum, eða hvort gerðir hafa verið þar samningar sérstaklega um og hvort fengizt hefur allveruleg lækkun þar á.

Ég vil svo aðeins endurtaka það frá minni hálfu, að ég vil eindregið mælast til þess, að hæstv. viðskmrh. veiti hér einmitt við umr. um þetta mál þessar upplýsingar, en fari ekki þá óvenjulegu leið, þegar verið er að ræða hér efnisatriði máls á Alþ., að vísa til þess, að menn verði að flytja þar sérstakar fsp. og það undir þeim dagskrárlið, þegar menn geta ekki rætt málið nema að sáralitlu leyti við ráðherrann. Ég vildi mælast til þess, að hæstv. ráðh. endurskoði þetta, þegar hann athugar betur, hvernig þetta mál raunverulega liggur fyrir, og gefi hér eðlilegar upplýsingar í þessu máli.