09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

89. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég var alveg undrandi á því, að hæstv. viðskmrh. skyldi neita að svara þessum fjórum eða fimm afmörkuðu spurningum, sem hér voru fyrir hann lagðar, spurningum, sem á engan hátt fóru út fyrir ramma þess máls, sem hér var til umr., heldur voru veigamikil atriði viðvíkjandi kjarna þess máls, sem d. var að ræða. Þessar spurningar voru þess eðlis, að það var alveg óhugsandi, að hæstv. viðskmrh. væri ekki við því búinn hvenær sem væri að svara þeim. Hann mætti vera meira en lítið úti á þekju í sínu embætti, sem enginn skyldi ætla honum, þar sem maðurinn er vel að sér í viðskiptamálum, ef hann væri ekki fær um að svara þessum spurningum. hvort sem væri á nóttu eða degi. En hér var það nú á réttum þingtíma, sem spurningarnar bar að, og ég tel það alveg óafsakanlegt og óverjandi að skjóta sér undir það, að þessar spurningar verði að bera fram í fyrirspurnum samkv. 31. gr. þingskapa, að mér skilst, en þar er fyrst og fremst um að ræða fsp., þegar skýrslu er krafizt af ráðh. um sérstök mál, venjulegast önnur en þingmál, í Sþ. Nú erum við á fundi í Nd. og vorum að ræða hér mál, sem við vildum fá frekar upplýst af hæstv. ráðh. — Enn fremur segir í þingsköpunum, með leyfi hæstv. forseta: „Rétt er alþm. einnig að nota sér heimild 54. gr. stjórnarskrárinnar um að beiðast skýrslu ráðh. í þingdeildum.“ Það er annað en hin almennu ákvæði þingskapanna um fsp. í Sþ. Við vorum hér aðeins að óska þess, að hæstv. ráðh. tæki þátt í umr. í þýðingarmiklu máli og upplýsti viss atriði í samningagerð, sem ríkið hefur annazt og hlaut að vera honum og raunar hverjum einasta ráðh. í ríkisstj. kunnugt. Ef þm. hefðu verið að fara einhverjar krókaleiðir að ráðh. til þess að knýja af honum svör óviðkomandi umræðuefninu, þá hefði ég ekkert orðið hissa á því, þó að hann hefði haft þetta undanskot. En undanbrögð af hendi ráðh. áttu hér engin við, af því að við vorum að fara fram á sanngjarnar upplýsingar af hans hendi viðvíkjandi umræðuefninu í deildinni.

Svo kemur hæstv. ráðh. í viðbót við sitt undanskot með það, að hann hafi oft og þeir ráðherrar lagt það á sig að vera hér viðstaddir umr., án þess að græða mikið á þeim. Hvað kemur það málinu við? Eru þeir hér, hæstv. ráðherrar, eða halda þeir það, að þeir séu hér og eigi að vera hér til þess að vera í einhverjum fræðslutíma hjá okkur þm.? Vitanlega fræðast þeir af því oft og tíðum, þó að þeir þykist ekki gera það. En þeim veitir sannarlega ekkert af fræðslu, ef þeir vita ekki nokkurn skapaðan hlut um þau mál, sem þeir eiga að upplýsa, og það lítur helzt út fyrir, með þögninni og þessu undanskoti, að þeir viti ekkert um þessi mál. Þá veitir þeim sannarlega ekki af fræðslu um þau. Þeir eiga ekki heldur að vera hér sér til eintómrar skemmtunar og það má vel vera, að umr. um olíumál séu þessum hæstv. viðskmrh. ekkert ánægjuefni eða skemmtiatriði. En það gerir heldur ekkert til. Það er hans skylda samt sem ráðh. að þola hér súrt og sætt í ráðherrastólnum, að hlusta á leiðinlegar ræður eins og skemmtilegar og fræðandi ræður og þær, sem eru ekki fræðandi, alveg jafnt. Þetta fylgir nú ráðherradómnum, og undan því getur hann ekki skorazt.

Ráðh. átti hér góðan kost, ef hann hafði ekki full tök á að svara þeim spurningum, sem hér höfðu verið lagðar fyrir hann, að óska frests til þess að afla sér upplýsinga um fullnægjandi svör. Það hefði sýnt vilja hans og viðleitni til þess að verða við ráðherraskyldu sinni, en svar hans, eins og það var, var viðleitni til að komast undan sinni ráðherraskyldu gagnvart þingmönnum. Ef hann hefði beðið frests um svör, þá var hægurinn hjá fyrir forseta að fresta umr. málsins, en það er þannig haldið á þingræðinu hér. að þótt mál sé til 1. umr. og til þess hafi verið vitnað af hæstv. forseta, þá er ekki trygging fyrir því, að málið komi til 2. eða 3. umr. Það eru þess dæmi, að stjórnarflokkar leggist á mál og hindri framgang þeirra, þannig að þm. eiga ekki kost að ræða þau oftar en við 1. umr. Þess vegna er ástæða til í svona þýðingarmiklu máli að fá svörin, ganga fast eftir svörum strax við 1. umr. Við eigum það ekki alveg tryggt, að þessu máli verði hleypt úr nefnd. Ég vil því minna hæstv. ráðh. á það, að það er út í hött að vitna til þingskapa um fsp. í Sþ., þegar mál er til umr. í Nd. Það er ákvæði í þingsköpum um það, að þm. eigi rétt á að heimta upplýsingar undir umræðum mála, og það er það, sem hér hefur gerzt.

Ég er sannfærður um það, að hæstv. ráðh. getur svarað þessum spurningum. Spurningarnar eru þess eðlis, að honum er skylt að svara þeim. Þær eru til upplýsinga á veigamiklum atriðum í þýðingarmiklu máli, en ef svo ólíklega skyldi ske, að hann væri ekki viðbúinn og vildi afla sér gagna um einhver atriði spurninganna, þá væri það það eina rétta af hans hendi að óska frests, til þess að hann gæti upplýst málið til fulls við framhald umræðunnar, og óska þá jafnframt eftir, að umr. væri frestað. En ef hæstv. ráðh. óskaði eftir fresti til að svara, þá get ég líka óskað eftir því, að umr. verði frestað þangað til svör hans lægju fyrir, og ég óska, að það verði gert. Ef hæstv. ráðh. skorast enn undan því að svara nú, en gæti fallizt á að svara að fengnum fresti, þá óska ég sem sé eftir því, að umr. verði frestað. Svör vil ég fá áður en umr. lýkur.