09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

89. mál, olíueinkasala

Forseti (HÁ):

Ég vil geta þess, að ég tel ásökun 1. flm., hv. 3. landsk. (HV), ósanngjarna, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að hann hafði að vísu í ræðu, einni af þremur, talað um það, að réttast mundi vera að fresta málinu, og það var í sambandi við þá umkvörtun, sem kom fram hjá ræðumanni, að ekki væri ráðherra til staðar. Þegar umr. var lokið, hafði ráðh. hlýtt á mál manna og tekið þátt í umr. Voru þá eftir tæpar 30 mínútur af umræðutíma, og hafði hv. 1. flm. talað þrisvar. En þegar forseti tilkynnti, að ekki hefðu fleiri kvatt sér hljóðs og umr. væri lokið, kom engin beiðni fram um að fresta umræðum. Það var ekki fyrr en var verið að ganga til atkv., að hv. þm. lét til sín heyra, og þar af leiðandi tel ég ekki þessa ásökun sanngjarna eða þau mótmæli, sem hafa verið framleidd í sambandi við atkvæðagreiðsluna.