15.12.1953
Neðri deild: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

117. mál, ný raforkuver

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég hér flyt, er um nánari skipulagningu á rafvæðingu landsins og aðferðirnar til þess að koma því í gegn.

Ég býst við, að nú sé svo komið, að fleirum og fleirum sé að verða það ljóst, hverja auðlind Ísland á í sínum fossum og sínum jarðhita, en það er saga af langri baráttu að vekja þjóðina til meðvitundar um þetta og sameina hana til þess að hagnýta það og skapa skilyrðin til hagnýtingar þessara auðlinda, og okkur, sem nú höfum möguleikana til þess að hagnýta þessar auðlindir, er gott að gera okkur ljóst, hvaða átök það hefur kostað að gera íslenzku þjóðina sér meðvitandi þess, hve gífurlega auðlind hún á í fossaflinu. Það er ekki aðeins spurningin um að virkja okkar vatnsföll til ljósa og suðu og annarra lífsþæginda, sem á að vaka fyrir okkur, þegar við tölum um rafvæðingu landsins, heldur alveg sérstaklega að skapa á grundvelli rafvæðingarinnar nýja atvinnugrein í landinu, sem gæti orðið sú stórfelldasta og gjöfulasta, sem Ísland á. Hugmyndirnar um stóriðju í krafti okkar vatnsfalla eru alla leið frá aldamótunum, og það er rétt fyrir okkur að gera okkur það sérstaklega vel ljóst, hve löng og hörð sú barátta hefur verið, sem nú raunverulega gerir okkur mögulegt, ef við reynumst því hlutverki vaxnir, að hagnýta þessa gífurlegu auðlind. Um aldamótin vöktu nokkrir af okkar framsýnustu athafnamönnum og skáldum athygli á því, hvern kraft mætti vinna úr skrúða fossanna, svo framarlega sem þjóðin legðist á eitt. Boðskapur skáldanna eins og Einars Benediktssonar var þá, að þarna væri sú auðlind, sem Ísland yrði fyrst og fremst að einbeita sér að, og á fyrstu tveim áratugunum eftir aldamótin deila skáldin og athafnamennirnir um, hvernig fara skuli með þessa miklu auðlind. Margir þeirra óttast, að hún gæti orðið okkur til bölvunar, svo framarlega sem erlent auðvald næði tökum á okkar fossum. Aðrir, sem mestan áhuga höfðu fyrir að virkja fossana, sáu ekki neina möguleika til þess, að íslenzka þjóðin af eigin rammleik gæti unnið slíkt stórvirki. Einar Benediktsson, sá sem djarfast hafði í sínum kvæðum dregið upp myndirnar af því, þegar fossarnir væru látnir þjóna þjóðinni, fór út í það að reyna að fá erlent auðvald til þess að setja fé sitt í fossana hérna heima. Önnur skáld, eins og Þorsteinn Erlingsson, vöruðu við því og sögðu, að það væri betra að láta fossana bíða óvirkjaða heldur en að láta erlent vald ná tökum á þeim, og seinna tóku ýmsir af framsýnustu mönnum borgarastéttarinnar undir þá skoðun, menn eins og Jón Þorláksson og fleiri. Sá djarfasti og framsýnasti af þeim öllum, Stephan G. Stephansson, dró hins vegar upp myndina af því, hvernig Ísland mundi geta virkjað þessa fossa, svo framarlega sem þjóðin réði þeim sjálf og ætti sjálf stóriðjuna, sem reist væri á grundvelli þeirra.

Þegar skáldin og framsýnustu athafnamennirnir höfðu þannig vakið athygli þjóðarinnar á því, hverja auðlind hún ætti þarna; komið málinu á dagskrá, þannig að ekki var talað um annað meira í tvo áratugi, þá kom til kasta stjórnmálamannanna um 1920 að taka sína ákvörðun um það, hvort fossarnir ættu að lenda í höndum útlends valds eða hvort þeir ættu að vera í höndum Íslendinga. Næst á eftir því stóra verkefni að vekja þjóðina til meðvitundar um það, hvern auð hún ætti í fossunum, þá kom nú annað stóra verkefnið að varðveita fyrir þjóðina valdið og eignarréttinn yfir þessum auðlindum. Það voru hörð átök, sem því miður eru allt of fáum kunn, sem háð voru á árunum 1917–1923 hér á Alþingi um þau mál. Meðan fossanefndin sat að störfum, var svo komið, eins og Jón Þorláksson lýsti í einni af sínum ræðum þá, að allir fossar, sem hugsanlegt var að virkja á Íslandi, voru í eigu erlendra auðfélaga nema hluti landsins og Reykjavíkurbæjar í neðri fossunum í Soginu. Þetta var ástandið, meðan fossanefndin var að starfa, og um það var barizt, hvort svona skyldi það vera áfram og hvort þeir, sem höfðu náð eignarhaldinu á þessum fossum, skyldu fá leyfi til þess að virkja þá. Fyrir alla þá, sem vilja fylgjast með því, hve hurð skall nærri hælum ekki sízt hér á Alþingi þá, er rétt að kynna sér vel álit fossanefndarinnar frá þessum tíma. Sú nefnd klofnaði þá í tvennt. Meiri hl. hennar, þeir Jón Þorláksson, Guðmundur Björnson landlæknir og Bjarni frá Vogi, barðist fyrir því, að ríkið eignaðist fossana og að það yrði tryggt, að þeir yrðu ekki virkjaðir af erlendu valdi. Það voru harðar deilur um þessi mál hér á Alþingi þá, og það var deilt hörðum orðum. Meiri hl., sem var í fossanefndinni, eftir að Guðmundur Björnson var farinn þar út úr, og í þeirri nefnd, sem skilaði svo áliti á Alþingi um þessi mál, var með því, að bændurnir héldu eignarréttinum á fossunum og einstakir aðilar fengju leyfi til þess að virkja þá. Síðasta vígið, sem þeir reyndu að verja, Jón Þorláksson, Guðmundur Björnson og Bjarni frá Vogi, var, að ríkið fengi einkaréttinn til þess að virkja fossana.

Það er fróðlegt að rifja það upp nú, hvaða afstöðu færustu og framsýnustu menn íslenzkrar borgarastéttar tóku á þeim tíma. Þegar útlit var fyrir, að samþ. yrði hér á Alþingi, að það skyldi leyfa erlendum aðilum að virkja þessa fossa, hélt Jón Þorláksson ræðu hér í Nd., það var 3. maí 1923, og var hann þá að tala á móti þeim meiri hl. nefndarinnar, sem þá mælti með því, að útlendingarnir fengju að virkja fossana, og sagði m. a.:

„En nú vill hv. meiri hl. fara þessa leið og gefa útlendingunum allan þann framtíðargróða, sem vér getum haft af notkun fallvatnanna. Ég er ekki fyrir að nota stór orð, en get þó ekki látið hjá líða að flytja þessari hv. d. þá orðsendingu frá fyrrverandi forseta Ed., fyrrverandi meðnefndarmanni mínum, Guðmundi Björnsyni landlækni, eftir beinum tilmælum hans, að hann geti ekki skoðað þetta öðruvísi en föðurlandssvik.“

Og síðan hélt hann áfram.

„Við höfðum og höfum en trú á því, að sá tími komi, að unnt verði að ráða fram úr þeirri fjárhagslegu þraut að nota vatnsorkuna fyrir ljósgjafa og hitagjafa handa landsmönnum, og við förum fram á það, að löggjafarvaldið sýni þá framsýni að taka tillit til nauðsynjarinnar á þessum framkvæmdum og leggi ekki stein í götu þeirra, og við förum fram á það, að þeir jarðeigendur, sem kynnu að hafa gert sér von um að geta selt einhver vatnsréttindi, sleppi þeim vonum vegna nauðsynjar eftirkomendanna.“

Það fór svo á þessu þingi, að af þeim brtt., sem þá lágu fyrir við till. meiri hl. n., var ein þýðingarmesta till. frá Jóni Þorlákssyni og Bjarna frá Vogi samþ., sú till., að það væri ríkið eitt, sem hefði heimild til þess að virkja. Það var fellt, að ríkið skyldi hafa eignarréttinn á vatnsföllunum, en það, að ríkið fékk einkaréttinn til þess að virkja, nægði til þess að eyðileggja í reyndinni eignarrétt útlendu auðfélaganna á öllum fallvötnum Íslands.

Það er rétt fyrir okkur, sem nú lifum og stöndum frammi fyrir þeim vandamálum að finna út aðferðir til þess að virkja þann auð, sem við eigum í okkar fallvötnum, að muna eftir þessum átökum. Það lá fyrir tilboð frá Titan um að virkja Þjórsá í sex áföngum á árunum í kringum 1920. Það þurfti þá um 2 þús. verkamenn í vinnu til þess að virkja Þjórsá. Það var hægt að fá útlent auðvald norskt auðvald — til þess að virkja Þjórsá þá, og við getum nærri, hvort það hafi ekki verið freisting fyrir þá menn, sem höfðu annars tilhneigingu til að einblína á augnablikshagnað. En það var ekki gert. Þeir hafa ekki verið lofaðir sérstaklega mikið, þeir stjórnmálamenn, sem höfðu forustu Íslands á þessum tíma. En þeir björguðu þó frá því, að útlent auðvald næði tökunum á okkar fossum og skapaði útlenda stóriðju hér á Íslandi, sem það réði yfir, og þeir sáu, að það væri betra að fresta því að virkja fossana þá heldur en að láta útlent auðvald verða til þess að virkja þá. Þeim tókst að geyma þessa fossa handa okkur, þannig að við gætum virkjað þá í þjónustu þjóðarinnar. Og nú liggur það verkefni fyrir okkur og hefur hvað eftir annað komið á dagskrá aftur, á hvern hátt slíkar virkjanir skuli framkvæmdar.

Það var áberandi á síðasta ári, hve mikið sérstaklega Framsfl. beitti sér fyrir því, að erlendu auðvaldi væru gefin sérleyfi til þess að virkja okkar beztu fossa. Það er enginn efi á því, að það er nauðsynlegt, að við vekjum eftirtekt á þeirri hættu, sem fyrir hendi er, verði farið inn á það að veita útlendu valdi tökin á okkar auðlindum í fossunum, veita sérréttindi jafnvel til 25 ára, áður en þjóðin er fyllilega búin að átta sig á, hve gífurlegar auðlindir hún á þarna, — að sá aðili, sem fengi tækifæri til þess að virkja þessar auðlindir, mundi þannig um leið verða aðalvaldhafinn á Íslandi. Það mætti ætla, fyrst sú kynslóð, sem var uppi og stjórnaði landinu um 1920, bar gæfu til þess að forða okkur frá því að fá yfir okkur útlenda stóriðju með öllu því, sem henni fylgdi, þá ættum við nú að vera menn til þess að koma í veg fyrir, að dýrmætasta afl okkar Íslendinga lenti í höndum útlendinga. Það væri jafnfráleitt eins og okkur mundi finnast það í dag að leigja útlendum mönnum landhelgina til þess að veiða þar, og komu þó slíkar hugmyndir fram um aldamótin, þegar mönnum þótti það allra fjarstæðast, að Íslendingar gætu sjálfir eignazt togara. Ég held þess vegna, að við verðum að gera okkur ljóst, að við verðum að standa á verði gagnvart þeirri hættu, sem nú skýtur upp höfðinu í stjórnarfl. núverandi, að það verði látið til útlendra aðila sérleyfi á virkjun okkar fossa og þar með leidd yfir okkur sú hætta, sem afstýrt var 1920 og þar í kring.

Verkefnið, sem við verðum að finna lausn á, er að geta virkjað þessar dýrmætu auðlindir í þjónustu þjóðarinnar sjálfrar, undir stjórn hennar sjálfrar og í eigu hennar sjálfrar. Þess vegna verður vandamálið um stóriðju í krafti fossanna á Íslandi það mál, sem alveg sérstaklega kemur til kasta okkar, sem nú höfum fyrst og fremst ábyrgðina í stjórnmálum Íslands. Það var hafizt handa á þessum sama áratug sem þessar deilur allar stóðu um byrjunina á rafvirkjun á Íslandi. Það var virkjað til ljósa, til suðu og ofur lítið til smáiðnaðar, og þó að framfarir hafi verið miklar í þeim efnum síðan, þá hefur það þó aldrei komizt langt út yfir það stig að vera til þægindanna, bættrar lífsafkomu og frekar smárrar iðju, en raforkan er enn þá ekki orðin grundvallarauðlind í atvinnulífi Íslendinga. En það verkefni að varðveita fyrir þjóðina valdið og eignarréttinn yfir þessum auðlindum tókst raunverulega af hendi kynslóðarinnar, sem markaði stefnuna í þessum málum í kringum 1920.

Þriðja stóra verkefnið, sem fyrir þjóðinni lá í þessum efnum, var að rannsaka, hvernig bezt mætti hagnýta þessar auðlindir, rannsaka okkar fossa, rannsaka okkar vatnsföll og gera um það þær áætlanir á grundvelli staðgóðrar þekkingar, mælinga og annarrar athugunar, sem gætu orðið undirstaða þess í fyrsta lagi, að þjóðin skildi, hvaða auðlindir hér voru og hvernig mætti hagnýta þær. Þetta starf, að rannsaka okkar auðlindir og undirbyggja þannig fyrir þjóðina og leggja fram til hennar þekkinguna á því, hve dýrmætar þessar auðlindir væru og hvernig bezt væri að virkja þær, hefur fyrst og fremst verið unnið af okkar vísindamönnum, unnið af þeim sérfræðingum, sem þjóðin á í þessum hlutum, og þá fyrst og fremst á raforkumálaskrifstofunni. Þessir vísindamenn okkar hafa unnið sitt starf í kyrrþey. Það hefur ekki sérstaklega mikið verið um þeirra starf talað út í frá. Það vill vera svo oft um þau störf, sem þýðingarmest eru í þágu þjóðarinnar, að vísindamennirnir, sem vinna að þeim, fá venjulega þakkirnar og viðurkenninguna fyrir slíkt löngu, löngu seinna. Á raforkumálaskrifstofunni hafa unnið ágætir verkfræðingar hver í sinni grein undir stjórn ágætasta embættismanns og eins hæfasta sérfræðings, sem Ísland á, þar sem er Jakob Gíslason raforkumálastjóri. Mér er kunnugt um, hvernig þetta starf hefur gengið undanfarin ár þar á raforkumálaskrifstofunni. Ég veit ekki aðeins, hvernig þaðan hefur verið stjórnað rannsóknunum á fleiri og fleiri af fallvötnum Íslands, þrautprófun á nýjum og nýjum hugmyndum með því fé, sem Alþingi hefur alltaf skorið við nögl sér, þegar veita skyldi til rannsóknanna á þessu þýðingarmikla sviði. Ég veit, hvernig þar er hugsað um möguleikana til að virkja þessar auðlindir fyrir þjóðina. Ég hef fengið innsýn í það, hvernig þessa verkfræðinga, sem við höfum venjulega þá hugmynd um að fyrst og fremst séu tölur og aftur tölur, hefur dreymt um stórfelldar virkjanir, dreymt um að breyta landslagi Íslands til að skapa nógu stórar uppistöður, til þess að skapa nógu góða geyma fyrir þann kraft, sem þarna væri verið að framleiða. Ég veit, hvernig þeir hafa meira að segja helzt ekki mátt tala um þessa drauma sína, á meðan þýðingarmesta fallvatnið, sem Ísland á, Þjórsá, var enn þá í eigu útlendra auðhringa. Við vitum allir, að það eru ekki nema rúm tvö ár síðan Þjórsá varð aftur íslenzk eign. Allan þann tíma, sem Þjórsá var í eigu útlends auðfélags, mátti hér heima helzt ekki minnast á það, hve dýrmæt hún væri okkur, því að hver mæling, hver teikning, hver áætlun, sem okkar verkfræðingar höfðu gert og birt hefði verið á þeim tíma, hefði orðið til þess að hækka Þjórsá í verði um nokkrar milljónir fyrir íslenzka ríkið eða gera það torveldara að fá hana keypta. En þrátt fyrir það að þar á raforkumálaskrifstofunni hafi verið unnið venjulega með allt of lítið fé og nú á þessum síðustu árum hafi framlögin til hennar svo að segja ekkert verið aukin þrátt fyrir vaxandi dýrtíð, þá er þó búið að vinna þarna þá vísindalegu vinnu, sem er undirstaðan undir því, að hægt sé nú að leggja í og ræða af alvöru um rafvæðingu landsins.

Ég veit ekki, hvort menn gera sér fyllilega ljóst, samanborið við aðrar auðlindir, hve dýrmæt auðlind t. d. Þjórsá er okkur. Ég stillti því einu sinni upp fyrir 6 árum, hvernig það kæmi út, þegar við færum að bera saman okkar auð í Þjórsá við þann auð, sem Englendingar telja sér dýrmætastan, kolanámurnar þeirra. Þjórsá mundi nú líklega, eftir nýjustu mælingunum þar, geta gefið okkur 2 millj. hestafla. En allur sá kraftur, sem sjö stærstu árnar gætu gefið okkur, væri um 4 millj. hestafla eða um 2½ millj. kw. Það samsvarar í hitaeiningum 2 millj. tonna af kolum, en sá er munurinn fyrir okkur, að þegar við erum búnir að virkja árnar, þá renna þessi hvítu kol af sjálfu sér, í staðinn fyrir að Englendingar t. d. þurfa að grafa þau upp úr jörðinni hvert einasta ár. Þeirra ársframleiðsla af kolum er um 200 millj. tonna, en þeir eru um 300 sinnum mannfleiri en við, svo að okkar fossorka aðeins í þessum 7 stærstu ám er raunverulega þreföld á við þeirra kolaorku, miðað við íbúatölu. En dýrmætasta gildið, sem vatnsaflið hefur fyrir okkur, alveg eins og kolin fyrir Englendinga, felst þó ekki í því sjálfu, heldur í því að vera undirstaða eða geta verið undirstaða þess iðnaðar, þeirrar stóriðju, sem á því er byggð.

Ég vil aðeins til gamans minna á það, ef við reiknum út, hvað Þjórsá gæti unnið í staðinn fyrir marga menn, ef við reiknum eftir gamla laginu, þegar eitt hestafl var metið á 10 mannsöfl, þá mundu 800 þús. kw. í Þjórsá jafngilda 12 millj. manna til þess að vinna fyrir Íslendinga, ef miðað er við afköst mannsins eins og þau voru fyrir nokkrum öldum. En hvernig sem við nú viljum reikna þetta út og leggja það niður fyrir okkur, þá er okkur nauðsynlegt að skilja, að í þessum auðlindum okkar býr eins dýrmætur auðgjafi og í allri okkar landheigi og gæti raunar orðið miklu meiri og hefur það fram yfir, að þar sem hætta er á, að okkar landhelgi verði þurrausin, ef okkur tekst ekki að knýja fram breytingar á þeirri rányrkju, sem erlendar þjóðir beita gagnvart okkur, þá mun okkar fossamagn halda áfram að geta þjónað okkur, ef við kunnum að hagnýta það.

Okkar vísindamenn, okkar sérfræðingar, bæði í raforkumálaskrifstofunni og annars staðar, hafa á þessum síðustu árum lagt upp í hendurnar á okkur sannanirnar fyrir því, hvernig væri hægt að gerbreyta högum þjóðarinnar með því að ráðast í stórkostlega virkjun á fallvötnum Íslands. Stóra verkefnið, sem nú liggur fyrir, verkefnið, sem tekur til stjórnmálamannanna og er á þeirra ábyrgð, hvernig leyst verður, er nú að tryggja hagnýtinguna á þessu afli, tryggja hagnýtingu þess til fulls, finna hentugustu aðferðirnar til þess að hagnýta það, sjá um féð eða réttara sagt vinnuaflið til þess að beizla fossana og tryggja um leið, að fólkið sjálft, íslenzka þjóðin sjálf, fái að njóta þess, sem fossarnir geta skapað fyrir okkur. Það er ekki til neitt tvíeggjaðra vopn en fossarnir okkar eftir því, hvernig við notum þá. Stephan G. dró upp myndina af því, hvernig fara mætti með þá, svo framarlega sem farin yrði sú leið, sem afstýrt var 1920, sú leið, sem Framsfl. hefur nokkrum sinnum verið að minnast á núna, að veita erlendum aðilum sérleyfi, — hvað það mundi þýða, ef þessir fossar yrðu hagnýttir af útlendu valdi. Stephan G. lætur fossinn segja í kvæðinu sínu um þetta mikla deilumál, Fossaföll, 1910, eftirfarandi:

„En magnið mitt, en iðjuleysið ekki,

til illra heilla gæti sljóva leitt.

Ég kann að smíða harða þrælahlekki á heilan lýð,

ef mér er til þess beitt.

Ég orðið gæti löstur mesti í landi

og lækkun þjóðar — öðrum þannig fer —

sé gamla Þóris gulli trylltur andi,

sem gekk í fossinn, vakinn upp í mér.“

En honum og öllum þeim, sem frá sama sjónarmiði — þá og síðar — hafa lagt áherzlu á, hvernig hagnýta mætti þessar auðlindir í þjónustu þjóðarinnar, er jafnframt ljóst, að hér er um að ræða, þar sem fossaaflið er, ef það er virkjað af þjóðinni sjálfri og í hennar þjónustu, það afl, sem langmest gæti bætt lífskjörin og aukið afköstin af öllum öflum, sem við höfum yfir að ráða á Íslandi.

Það er nú okkar verkefni, þeirra manna, sem geta haft áhrif á, hvað gert er í stjórnmálunum nú, og dómur komandi kynslóða um okkur mun fyrst og fremst hvað atvinnumálin snertir velta á því, hvort við berum gæfu til þess að leysa þessi viðfangsefni þannig, að þjóðin geti sjálfri sér til blessunar hagnýtt þessa auðlind. Það eru tvenns konar viðfangsefni, sem þarna blasa við okkur, og við þurfum að geta aðgreint þau viðfangsefni í huga okkar og gert okkur alveg ljóst, hvernig þeim er háttað og hver tengsl eru á milli þeirra, þegar við erum að taka raforkumálin fyrir. Annars vegar tölum við um raforkuna til ljósa, suðu, til þægindaaukningar, til sveita og við sjávarsíðuna, og hins vegar tölum við um hana sem orkugjafa í atvinnulífinu. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef við ætlum að reynast því verkefni vaxnir, sem núna bíður okkar, þá verðum við að leggja höfuðáherzlu á að skilja gildi raforkunnar til þessa síðara, skilja hana sem aflgjafa og grundvöll að atvinnulífi Íslands.

Við skulum taka landbúnaðinn. Raforkan þýðir ekki aðeins hvað landbúnaðinn snertir ljós, suðu, jafnvel hita, aukin þægindi og aukið heilbrigði, möguleika til heyþurrkunar og annars slíks. Raforkan á líka að þýða fyrir sveitirnar, ef búskapurinn er þar með réttu lagi, möguleika til þess að koma hvað landbúnaðarverkfæri snertir meira og meira í staðinn fyrir benzínið, þannig að hægt sé að reka með rafmagni a. m. k. alls staðar, þar sem þéttbýli er, þau tæki, sem eiga að vera uppistaðan í vélreknum landbúnaðarbúskap.

Við vitum þegar, hvað raforkan þýðir í iðnaðinum, bæði þeim almenna iðnaði og fiskiðnaðinum sérstaklega. En þó erum við aðeins rétt að byrja að sjá, hvað hún komi til með að þýða fyrir raunverulega stóriðju, þar sem raforkan raunverulega verði það afl, sem við flytjum út í mynd fullunninna afurða. Ég skal taka það fram um leið einmitt í sambandi við þær hugmyndir, sem upp hafa komið um möguleikana á því að flytja raforkuna sjálfa til annarra landa, að það væri raunverulega eitt af því hættulegasta, sem við gætum gert, í staðinn fyrir að hagnýta hana til þess að vinna ýmist úr þeir hráefnum, sem við höfum hér heima, eða úr hráefnum, sem við flyttum inn og ynnum úr hér og flyttum út aftur, sem við getum gert að sínu leyti alveg eins og stórþjóðirnar í Evrópu.

Þegar við þess vegna tölum um, hvernig við ætlum að haga okkur í raforkumálum, þá verðum við alltaf að hafa þetta tvennt í huga: raforkuna sem kraftinn í okkar atvinnulíf og raforkuna sem afl til að veita lífsþægindi, auka heilbrigði og annað slíkt. Þetta tvennt verður að fylgjast að, og í þeim fyrirætlunum, sem gerðar verða nú á næstunni, hefur það úrslitaáhrif um, hvort rétt verður stefnt og hvort rétt spor verða stigin, hvort þetta tvennt er haft í huga. Ég segi þetta vegna þess, að ég hef orðið svo mikið var við það, að menn skildu ekki samhengið þarna á milli. Þegar við erum að beizla fossana fyrst og fremst með það fyrir augum að geta veitt mönnum ljós og yl og þægilegri aðstöðu í lífinu, þá þurfum við að gera okkur ljóst, að fyrir slíkum auknum lífsþægindum þurfa að vera ákveðnar þjóðfélagslegar forsendur.

Ef við ætlum að veita okkur meira, ef við ætlum að njóta lífsins betur, þá getum við það ekki, nema því aðeins að okkar afköst, okkar framleiðsla hafi verið aukin. Ef við byggjum upp kerfi, sem fyrst og fremst er miðað við aukin lífsþægindi, án þess að hugsa um leið um að auka okkar afköst og auka okkar framleiðslu, þá erum við að gera yfirbyggingu þjóðfélagsins of þunga fyrir grundvöllinn, sem hún er reist á. Ég tek þetta fram vegna þess, að ég veit, hve ríkar tilhneigingarnar eru til þess að bjóða öllum mögulegum aðilum úti um allt land þau lífsþægindi, sem fólkið vantar þar, þau lífsþægindi, sem það á rétt og kröfu á að fá. En öll þessi lífsþægindi verða einstaklingarnir eða ríkið — þegar öllu er á botninn hvolft, kemur það út á eitt — að borga, og eigi þeir að geta borgað þetta, þá þurfa þeir samtímis því, sem þeir veittu sér þessi meiri lífsþægindi, að hafa aukið sína framleiðslu, aukið sín afköst. Þegar ég tala um þetta, þá á ég þar með við þjóðina í heild. Þess vegna er það, að til þess að standa undir þeim lífsþægindum, sem við fáum með rafmagninu, hefur grundvöllurinn verið aukin framleiðsla í sjávarútveginum, landbúnaðinum og iðnaðinum, og þetta þarf að haldast í hendur. Þau auknu lífsþægindi, sem við veitum okkur þannig með rafmagninu, verða að byggjast á aukinni framleiðslu í sjávarútveginum, landbúnaðinum og iðnaðinum.

Í öðru lagi: Til þess að leggja í stóriðju, til þess að safna fé og hafa efni á að kaupa okkur vélar til landsins til þess að geta virkjað fossana í svo stórum stíl sem stóriðjan krefst, þá þurfum við aukinn erlendan gjaldeyri, og til þess að fá þann aukna erlenda gjaldeyri, þá þurfum við að hafa aukið okkar útflutning, og til þess að auka okkar útflutning, þá þurfum við að hafa aukið okkar atvinnutæki við sjávarsíðuna.

Þegar við á undanförnum áratugum höfum smám saman verið að gerbreyta landbúnaðinum, þá er það fyrst og fremst gert með peningum, sem koma frá sjávarútveginum. Við skulum gera okkur það ljóst, og það er nauðsyn á, að við skiljum það til fulls, ef við ætlum að undirbyggja rétt rafvæðingu Íslands, að það er sjávarútvegurinn, sem er undirstaðan undir því, að við getum aflað okkur fjár til þess að geta rafvætt landið. Það eru fiskimiðin, sem eru sú auðlind, sem við verðum fyrst og fremst að ausa upp af, á meðan við erum að afla okkur fjárins í vélarnar og annað, sem við þurfum til þess að virkja fossana og til þess að byggja verksmiðjurnar til að hagnýta aflið frá þeim í.

Þess vegna var það rétt spor, eina rétta sporið, sem stigið var til þess að undirbyggja rafvæðingu og stóriðju á Íslandi, að ráðast í það 1944 að auka sjávarútveginn eins stórkostlega og þá var gert. Ég segi þetta hér sérstaklega vegna þess, að sá flokkur, sem mest skilningsleysi hefur sýnt á íslenzku atvinnulífi, Framsfl., hefur enn ekki getað fengið það inn í sinn ferkantaða haus, að það sé nauðsynlegt að efla sjávarútveginn til þess að geta þannig aukið okkar gjaldeyrisframleiðslu og fengið þannig féð, sem við þurfum til þess að virkja okkar fossa. Við keyptum 1945 32 togara til landsins. Hver þessara togara kostaði 3 millj. kr., en hver þessara togara framleiddi í þáverandi gjaldeyri andvirði að minnsta kosti 3 millj. kr. og gat framleitt meira, ef framleiðsla hans var rétt hagnýtt. Þessir 30 togarar, sem þá kostuðu um 100 millj. kr., geta nú framleitt erlendan gjaldeyri fyrir yfir 300 millj. kr., og það er ekki fimmti parturinn af kostnaðinum við þessa togara, sem er beint eða óbeint útlendur gjaldeyrir. Vinnuafköst íslenzkra sjómanna, þegar þeim er beitt á togurunum, eru með mestu afköstum, sem þekkjast hjá nokkrum verkamönnum veraldarinnar. Auðsuppsprettan, þ. e. fiskimiðin, með þessum stórvirku tækjum er þess vegna langsamlega praktískasta og raunar um leið eina kleifa aðferðin til þess fyrir eins litla þjóð og okkur að ausa upp öðrum eins óhemju auð og við þurfum til þess að leggja í stórvirkjun í fossunum og stóriðju á Íslandi, þannig að við eigum þessa stórvirkjun sjálfir og þá stóriðju, sem hún er undirstaðan undir. En stórvirkjun og stóriðja getur því aðeins orðið þjóðinni til blessunar, að hún eigi hana sjálf, noti hana í sína eigin þágu og að hún þurfi ekki nema þá að hverfandi litlu leyti að greiða okurvexti til útlendra aðila af lánunum til slíkrar stóriðju.

Þegar ég í huga mínum hugsaði um, hvernig við ættum að reyna að byggja upp okkar atvinnulíf á þessum árum, þá gekk ég út frá því, að við mundum á 5 ára tímabili, frá 1946 til 1951, leggja höfuðáherzluna á að auka okkar sjávarútveg. Það var tillaga nýbyggingarráðs á þeim tíma í þeirri áætlun, sem það lagði fyrir, að það yrðu keyptir 50 togarar til landsins, og það var tillaga Sósfl. hér á Alþ. Hefði það verið gert, mundu 50 togarar nú hafa framleitt á ári fyrir yfir 500 millj. kr., og það mundi hafa þýtt með allri þeirri annarri framleiðslu, sem Ísland hefur af sínum bátaflota, að okkar útflutningur ætti að hafa komizt hátt upp undir 1000 millj. kr. Ég hugsaði mér þá, að frá 1950 til 1955 mundi höfuðáherzlan verða lögð á það af hálfu okkar Íslendinga að byggja upp stóriðju við okkar fossa, einmitt í krafti þess auðs, sem við gætum ausið upp með togaraflotanum, bátaflotanum og öllum þeim fiskiðjuverum, sem þá var meiningin að byggja og að nokkru leyti hefur komizt í framkvæmd. Þegar fjárhagsráð var sett á laggirnar, þá lagði ég þær till fyrir þessa hv. d. og fékk um það útvarpsumr. hér frá þessari hv. d. vorið 1947, og ég hef hér fyrir aftan sem fskj. 3 með þessu frv. birt þau álit mín um þær brtt., sem ég þá flutti, til þess að minna aðeins á það, hvernig við hugsuðum okkur þá, að farið yrði að um þróunina í okkar atvinnulífi. Þegar rætt var um nýja ríkisstj. 1946, lagði Sósfl. það fram í nóvember1946, að virkjanirnar í Soginu og Laxá yrðu kláraðar á árinu 1949 og 5 ára tímabilið, frá 1946 til 1951, hagnýtt til þess að undirbyggja þær stórvirkjanir, sem hægt væri að leggja í frá árinu 1951 til 1955. Allar þær till., sem við komum þá fram með, voru felldar, hver einasta till., sem við fluttum þá um breytingar á fjárhagsráðslögunum, að fela fjárhagsráði alveg sérstaklega að undirbúa þetta, var felld. Þá vildu menn ekki líta við neinu af þessu. Menn þorðu að vísu ekki að nota orðið „skýjaborgir“ um okkar drauma um stóriðju þá, af því að menn höfðu hvekkzt dálítið á því að nota þetta orð, eftir að það hafði verið notað fullóvarkárlega 1944 um okkar hugmyndir um 30 togara. En í ræðum allra þeirra þm., sem töluðu í útvarpið vorið 1947, lá þetta orð svo að segja á vörum þeirra. Öllum fannst þeim það vera allt of stórt og fjarlægt að vera að tala um stóriðju á Íslandi þá.

Ég rifja þetta aðeins upp vegna þess, að Sósfl. hefur haft frá upphafi og hefur enn stórhuga stefnu í raforkumálunum og hann undirbyggir þá stefnu einn allra flokkanna á þann hátt að geta komið henni í framkvæmd með því að láta einmitt sjávarútveginn, sem hefur verið okkar gjöfulasti atvinnuvegur, hjálpa til þess og mynda raunverulega undirstöðuna að því, að þetta væri hægt. Ég rifja þetta upp hér einmitt vegna þess, að það hefur kennt bæði skilningsleysis hjá öðrum flokkum og jafnvel verið reynt að rangfæra að ýmsu leyti þær till., sem við höfum komið með, og reynt að misvirða þá fyrirhyggju, sem við sýndum við að undirbyggja þá atvinnulegu möguleika Íslands með aukningu sjávarútvegsins, möguleikana til að geta lagt í rafvæðingu landsins síðar. Með öllu því skilningsleysi, sem sýnt hefur verið á þessum árum, hefur nú verið tafið um 5–6 ár að leggja í þau stórvirki, sem þurfti að vinna.

Því hefur jafnvel verið haldið fram og það af hálfu Sjálfstfl., að við sósíalistar höfum verið á móti virkjun Sogsins og virkjun Laxár. Það vorum víð sósíalistar, sem lögðum það til, einmitt við Sjálfstfl. og aðra flokka þingsins 1946, 6. nóv., að virkjun Sogs og Laxár yrði hraðað svo, að hægt væri að hefjast handa þá þegar, svo að virkjununum yrði lokið 1949. Þessar till. okkar voru nýlega ræddar hérna í sambandi við annað, og ég þarf ekki að rifja þær upp, þær eru allar prentaðar í Rétti 1946. Fyrsta tillaga okkar þar viðvíkjandi raforku og stóriðju var: „Flýtt sé svo sem verða má nýjum stórvirkjunum Sogsins og Laxár í S.-Þingeyjarsýslu með sérstöku samkomulagi við Reykjavíkurbæ og Akureyri, ef verða mætti, að virkjunum þessum yrði lokið árin 1948–1949.“

Því hefur verið haldið fram af hálfu Sjálfstfl., að við höfum verið á móti virkjun Sogsins og Laxár, af því að við vorum á móti Marshalláætluninni. Og Sjálfstfl. hefur verið svo ósvífinn í þessu sambandi að móðga íslenzku þjóðina með því að halda því fram, að hún hafi ekki getað virkjað Sogið og Laxá án hjálpar frá Bandaríkjunum, m. ö. o., að íslenzka þjóðin á þessum árum væri það miklu aumari en Reykjavíkurbær var 1936, að hún gæti ekki virkjað Sogið og Laxá, sem Reykjavíkurbær hafði þó ráðizt í 1936, eftir að England hafði sett bann á okkur hvað lán snerti og neitað okkur um allt lánsféð og bannað ríkisstj., bannað Eysteini Jónssyni fjmrh. að veita ríkisábyrgð fyrir Soginu. Ég hef sjaldan heyrt aumari gjaldþrotayfirlýsingu en þessa yfirlýsingu frá Sjálfstfl., að við hefðum ekki getað virkjað Sogið og Laxá án amerískrar hjálpar. Ég vil taka það fram hér, að við höfum enga hjálp fengið frá Bandaríkjunum til að virkja Sogið og Laxá. Okkur hefur verið gert það erfiðara og dýrara. Sogsvirkjunin átti að kosta 1947 61 millj. kr. Hvað hafa Ameríkanarnir gert með sínum afskiptum af Sogsvirkjuninni? Þeir hafa hækkað hana upp í 165 millj. með því að fyrirskipa gengislækkunina hérna heima. Þetta er hjálpin, sem Ameríkanarnir hafa veitt okkur. Innlendur kostnaður víð Sogsvirkjunina átti að vera 34 millj. kr., erlendur kostnaður 27 millj. kr. Og ég vil spyrja: Er nokkur sá þm., sem mundi dirfast að halda því fram, að við hefðum ekki haft efni á því á árunum 1948 og þar á eftir að taka af þeim erlenda gjaldeyri meira að segja, sem við framleiddum þá, við skulum segja 5–6 millj. kr. á ári í 5–6 ár, ef við hefðum ekki getað fengið betri samning til þess að borga það, sem við þurftum fyrir vélarnar til Laxár? 1948 var okkar útflutningur í þáverandi gjaldeyri 400 millj. kr. Halda menn, að við hefðum ekki haft efni á því, ef það hefði verið einhver stjórn af viti á okkar þjóðarbúskap, að geta á slíkum árum og árunum þar á eftir smám saman lagt fram 27-millj. kr. til þess að virkja Sogið? Það er sú aumasta bábilja sem til er, að Íslendingar hafi ekki getað leikið sér að því að virkja Sogið og Laxá án þess að fá nokkurn tíma nokkra hjálp frá Bandaríkjunum til þess. Þvert á móti, það hefði orðið ódýrara fyrir okkur, ef Bandaríkin hefðu aldrei komið nærri Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni. Það kostaði okkur bara 100 millj. kr. hækkunin á Sogsvirkjuninni einni saman, sem Bandaríkin knúðu fram. Og ég ætla svo auðvitað rétt að minna á það hérna, að auðvitað varð að taka þeim tilboðum, sem dýrust voru, af því að þau voru amerísk, þegar um var að ræða vélarnar, sem átti að kaupa til þessara virkjana. Hins vegar hefur farið svo, að út af því, hve háðir okkar valdhafar hafa verið amerískum fyrirmælum á þessum undanförnu 6 árum, þá dróst allt of lengi að virkja þessar ár. Við vitum hvernig það var. Það varð að sækja um leyfi til Bandaríkjanna. Ástandið var svipað og fyrir aldamótin, þegar Alþ. samþ. á fjárl. brúna yfir Ölfusá og dönsku yfirvöldin, danska ríkisstj. neitaði okkur hvað eftir annað um að mega verja okkar eigin peningum til að byggja þá brú. Eins var nú komið: Við gátum ekki af sjálfsdáðum án leyfis útlends aðila lagt í þessar virkjanir, vegna þess að okkar stjórnarvöld voru búin að binda sig hvað allar fjárfestingar snerti þannig, að það varð að fá leyfi í Washington til allra slíkra stórframkvæmda, og Washington veitti ekki leyfið, fyrr en búið var að fella gengið á íslenzku krónunni og búið að gera Sogsvirkjunina 100 millj. kr. dýrari en hún ella hefði orðið.

Allar till. okkar sósíalista höfðu sem sé verið felldar, þegar við fluttum þær fram 1946–7 og reyndum að móta stefnuna í atvinnulífinu á næstu árunum, og í staðinn var farið inn á þá leið að gera okkur háða amerískum fyrirmælum um, hvernig við mættum virkja okkar íslenzku fossa. Nú er Marshallplaninu lokið. Nú getum við a. m. k. hvað formið snertir tekið okkar ákvarðanir upp á eigin spýtur, og nú ættum við að geta ákveðið þetta nokkurn veginn sjálfir án þess að þurfa að sækja undir misvitra eða meira eða minna illviljaða erlenda drottna leyfin til hagnýtingar á okkar auðlindum. En þegar við nú hverfum að því að taka sjálfstætt ákvarðanirnar um rafvæðingu landsins nú á næstunni, þá þurfum við að gera okkur það ljóst, að rafvirkjunin á hinum ýmsu stöðum landsins er ekki einangrað fyrirbrigði. Hún þarf að haldast í hendur við framkvæmdirnar í atvinnulífinu á viðkomandi stað. Það er það, sem ég lagði höfuðáherzluna á í mínum brtt. og í mínu nál. um fjárhagsráð 1947, að það væri ekki hægt að stjórna af viti þróuninni í íslenzka þjóðarbúskapnum án þess, að rafvirkjanirnar og aukning atvinnulífsins héldust í hendur og mönnum væri það alveg ljóst, hvernig ætti að verða á hverjum einstökum stað landsins um þróunina í báðum þessum málum. Þessum viðvörunum okkar og þessum till. okkar í þessum málum var engu skeytt 1947. Ég hafði bent á það í mínu nál. frá 1947, að þegar við t. d. hugsuðum um áburðarverksmiðju, þá mættum við ekki láta stærð áburðarverksmiðjunnar ráðast af því, hvað kynni að verða afgangs af rafmagni á því augnabliki, sem hún væri stofnuð eða reist, t. d. hér á Suðurlandsundirlendinu, það yrði að haldast í hendur rafvirkjunin, hvað við hugsuðum hana mikla, og stóriðjuver, áburðarverksmiðjan, í þessu efni. Þessu var engu skeytt. Stærð áburðarverksmiðjunnar í l. frá 1948 var sniðin eftir, hvað afgangs væri af rafmagni, og samt reiknað raunverulega hér á þinginu meira eða minna vitlaust í því sambandi, og þetta er enn þá eitt höfuðvandamálið í sambandi við allt, sem rætt er viðvíkjandi raforkunni í hinum ýmsu hlutum landsins.

Það, að vanta skuli heildaráætlun um þróun þjóðarbúskaparins í þessum efnum, er bókstaflega stórhættulegt og getur orðið til stórtjóns, þegar nú á væntanlega að fara að vinna betur í raforkumálunum en gert hefur verið undanfarið. Ég skal taka sem dæmi: Þegar hugsað er um rafvirkjanir t. d. á Austfjörðum eða á Vestfjörðum og raforkumálaskrifstofan á að útbúa sínar vísindalegu till. um, hvað sé heppilegt, hvað er það þá, sem t. d. raforkumálaskrifstofan og við skulum segja Alþ. hér á að reikna með um atvinnulífið á viðkomandi stað? Á að reikna með því á Vestfjörðum, að fólkinu fari þar fækkandi, að atvinnulífinu hnigni? Og á nú að miða raforkuframkvæmdirnar við það rétt að geta tryggt einhverjar ljóstýrur handa þessu fólki, á meðan það ekki enn þá er farið sömu leiðina eins og í Jökulfjörðunum? Eða á að hugsa hátt, á að láta fara saman aukningu atvinnulífsins í þessum stað? Á af hálfu ríkisins, bankanna og einstaklinga að undirbyggja að reisa þarna ný fiskiðjuver, að gera togurunum, sem hafa Halann og Grænlandsmiðin, sem eru einhver öruggustu fiskimiðin, mögulegt að leggja upp á Vestfjörðum í stórum stíl, þurfa ekki að sigla alla leið suður eða austur fyrir land með aflann? Ef við hugsuðum um slíka aukningu á Vestfjörðunum, sem væri ákaflega skynsamleg frá þjóðhagslegu sjónarmiði, næði þá nokkurri átt að byrja að leggja í virkjun, sem væri svo lítil, að hún yrði rétt strax eins og Elliðaárvirkjunin er hérna fyrir okkur í dag? En hvernig á raforkumálaskrifstofan að reikna út? Hvernig eiga þeir að ákveða, sem eru að hugsa um rafmagn handa þeim fjórðungi, þegar þeir hafa ekki hugmynd um, hvor þróunin á að verða á næstunni — hnignun eða framfarir, og það er vitanlegt, að hér á Alþ. er það ákveðið, hvað á að verða í þessum efnum? Það er hér, sem valdið er til þess að ákveða, hvort það eru framfarir eða ekki. — Eða Austfirðirnir? Á að reikna í sambandi við rafvæðingu á Austfjörðum út frá því, að það sé alltaf svo að segja jafnmargt fólk eða jafnvel að því hnigni, jafnvel að það eigi að fara að flytja menn af Austurlandi á Keflavíkurflugvöll? Eða á hins vegar að reikna með því, að þarna sé hægt að drífa upp mikinn sjávarútveg, stunda síldveiðarnar alla leið upp undir Noregsstrendur eða a. m. k. miðja vegu milli Íslands og Noregs, með bækistöðvum á Austfjörðunum, og jafnvel að ganga út frá því, að virkjun á Austfjörðum verði grundvöllur að stórfelldum verksmiðjurekstri þar eystra? Með hverju á að reikna? Ég vil vekja athygli þeirra hv. þm., sem yfirleitt hugsa um þessi mál, á því, hvaða ákvarðanir á að taka í svona málum, þegar engin heil brú er í neinu af því, sem hugsað er af stjórnarvöldunum um, hvað verða skuli á Íslandi á næstunni. Það hefur ekki verið undanfarið búið til neitt heildarplan um þróun íslenzks atvinnulífs. Það var drepið allt, sem ég lagði til 1947 í þeim efnum, og þess vegna hefur allt starf fjárhagsráðs og allra þeirra ríkisstjórna, sem setið hafa í sambandi við það, orðið ein hringavitleysa hvað snertir íslenzkan þjóðarbúskap, af því að það hefur aldrei fengizt í gegn að hugsa neitt fram í tímann um þetta. Menn hafa hlaupið eftir því, hvað menn hafa álitið praktískt viðvíkjandi kjósendunum fyrir hverjar kosningar, án þess að þora að segja um leið þessum kjósendum, hvað þurfi að gera á hverjum stað og þurfi að gera á öllum sviðunum samtímis, sviðum sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar, raforkuvinnslu og jafnvel stóriðju. Þess vegna er það illa farið, að um leið og menn eru nú að tala um, að e. t. v. sé einhver von um, að meira verði gert í raforkumálum Íslands en verið hefur undanfarið, þá skuli um leið kastað öllu því, sem hugsanlegt var að gæti sett einhverja skipulagningu á okkar þjóðarbúskap í heild, þannig að rafvæðing landsins yrði ekki einangrað, tilviljanakennt fyrirbrigði án þess samræmis við atvinnulífið, sem hún þyrfti að vera í.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um það, sem gerzt hefur í þessum efnum. Það hefur verið tafið í 5–6 ár, sem var hægt að gera, ef nokkurt vit hefði verið í stjórninni á atvinnumálum Íslands og ef nokkur áætlun hefði verið gerð af viti, nokkur áætlun yfirleitt um þróunina í þjóðarbúskap Íslendinga. Nú hins vegar verður ekki komizt lengur hjá því að leggja í eitthvað, það finna menn. Nú eru menn að sannfærast um það, að þær 2–3 þús. Íslendinga, sem bætast við á hverju ári, muni ekki allar geta lifað bara af landbúnaðinum sjávarútveginum og smáiðnaðinum, það verði að skapa nýjar atvinnugreinar, og eigi ekki lífsafkoman að rýrna, eigi ekki lífsstandardinn að lækka, þá verði þær atvinnugreinar, sem skapaðar eru í viðbót, að vera jafnvel enn þá afkastameiri en þær gjöfulustu, sem við höfum skapað undanfarið, eins og togaraútgerðin. Hins vegar er það svo, að ef skapa á nýja atvinnugrein eins og stóriðjuna á grundveili fossavirkjunar, þá krefst hún mikils undirbúnings. Ég sagði 1947, að það væri ekki til neins að ætla minna en 5 ár til slíks undirbúnings, og ég held, að það sé rétt enn í dag. En það er ekki of seint að hefjast handa. Við getum það fyllilega enn þá. En þegar við hugsum um þessi mál og ef við ætlum okkur að byrja á þessu eftir 5 ár eða máske ofur lítið seinna, þá þurfum við að hafa hliðsjón af því, þegar við tökum okkar ákvarðanir í dag. Fyrir okkur, sem höfum sjálfir lifað það, að Elliðaárstöðin og Glerárstöðin voru stór mannvirki, sem við vorum stoltir af, og sjáum báðar þessar stöðvar núna, ætti að vera auðvelt að skilja það, ef við hugsum eitthvað út í málið, að ef samsvarandi stökk eiga að verða núna á næstunni hjá okkur eins og urðu frá Glerárstöðinni til Laxár eða Elliðaárstöðinni til Sogsins, þá er það ekkert smáræðisstökk. Ef við ætlum að halda áfram af fullum krafti þeim framförum, sem orðið hafa á síðustu 2–3 áratugum, þrátt fyrir öll þau bakföll, sem við höfum lifað, þá verðum við að þora að hugsa hátt, og hvort sem okkur sósíalistum hefur tekizt alltaf að framkvæma það, sem við höfum lagt til, þá hafa þó a. m. k. hugmyndirnar, sem við höfum komið með, og áróðurinn, sem við höfum rekið fyrir þeim, alltaf á endanum orðið til þess að vekja þá, sem sofið hafa, kenna þeim að hugsa hærra og fá þá til þess að láta undan þeim þrýstingi, sem góðar hugmyndir skapa hjá fólkinu.

Ég ætla svo að fara örfáum orðum um nokkrar gr. í þessu frv. Það þarf nú ekki sérstaklega mikið, vegna þess að ég hef skýrt þetta í mjög ýtarlegri grg. og fylgiskjölum, sem því fylgja.

Í 1. gr. er heimild um virkjun efri fossa Sogsins. Ég flutti samsvarandi heimildartillögu út af fyrir sig í sambandi við áburðarverksmiðjuna í fyrra. Hún var felld þá. Það þykir kannske nokkur yfirgangur af hálfu sumra hv. þm. hér í þ., að við þm. Reykv. eða ég í þessu tilfelli skuli flytja till. um 90 millj. kr. heimild til virkjunar Sogsins, vegna þess að það kveður stundum við: Ja, hefur ekki allt Marshallféð farið í Sogsvirkjun, Laxárvirkjun, áburðarverksmiðju, allt saman handa Reykvíkingum, og aðrir landshlutar hafa ekki fengið neitt? — Ég vil aðeins taka fram það, sem ég hef tekið fram áður: Sá hluti af Sogsvirkjuninni, sem verður raunverulega fyrir áburðarverksmiðjuna, hefði kostað um 100 millj. kr., ef það hefði átt að reisa það handa áburðarverksmiðjunni sjálfri. 2/3 af öllu því orkumagni, sem nýja stöðin framleiðir, verður handa áburðarverksmiðjunni. Áburðarverksmiðjan kostar 125 millj. a. m. k. Sá hluti raforkuversins, sem fer til framleiðslu handa henni, kostar um 100 millj. Framleiðsla áburðarverksmiðjunnar er fyrst og fremst fyrir íslenzkan landbúnað. Það eru 225 millj. kr., sem þarna fara til áburðarverksmiðjunnar og þess raforkuvers, sem hún þarf á að halda, og mér hefur skilizt, að framleiðsla áburðarverksmiðjunnar væri fyrst og fremst hugsuð fyrir hinar dreifðu byggðir landsins, og hún verður það tvímælalaust. Ég efast ekki um, að það verða ekki mörg ár þangað til íslenzkir bændur nota meginið af þeim áburði, sem þar er framleiddur. Þetta vildi ég aðeins geta um til þess að skapa engan misskilning. Það er engin frekja eða yfirgangur af hálfu Reykvíkinga, þegar lagt er til, að 90 millj. kr. heimild sé veitt til þess að virkja efri fossana víð Sogið. Sannleikurinn er, að strax og áburðarverksmiðjan tekur til starfa, þá fer að þrengja á dalnum. Það mun áreiðanlega eftir 2–3 ár verða orðið sama vandræðaástandið um rafmagnsframleiðslu hér í Reykjavik eins og var áður en Sogsvirkjunin núna tók til starfa, og það mundi þýða fyrir Reykjavíkurbúa, að þeir yrðu þá að fara að reka olíustöðina, framleiða kwst. á 30–40 aura a. m. k. og selja áburðarverksmiðjunni hana á 1 eyri, og það sjá allir lifandi menn, að slíkt er ekki hægt. Ef þannig væri komið, þá mundi að öllum líkindum áburðarverksmiðjan frekar verða að stöðvast meira eða minna, og hennar rekstur er þannig, að ef á að fara að skammta við hana á sama hátt og skammtað yrði við aðra, þá þýðir það meira eða minna að eyðileggja hennar starfsemi. Vegna áburðarverksmiðjunnar sjálfrar og vegna þess að hún er komin upp og tekur svona mikið rafmagn þarf því að vera búið eftir 3 ár að virkja efri fossana við Sogið. — Þessa forsendu eina vildi ég hafa fyrir þessari 1. gr. og vona, að menn skilji það.

Í 2. gr. legg ég til, að breytt sé þeim heimildum, sem verið hafa fram að þessu. Það eru til tvær heimildir í l. um virkjun Grímsár og ein heimild um virkjun Fjarðarár. Þær eru nokkuð mismunandi um hestaflatölu, en síðasta samþykktin í stóru l. frá 1952 var um 2000 hestöfl. Ég held, að þetta sé röng aðferð, að hugsa svona viðvíkjandi virkjuninni þar. Ég held, að það er alveg nauðsynlegt, þegar ráðizt er í virkjun þar austur frá, að hugsa þarna hærra, að láta framleiðslu rafmagnsorkunnar vera það mikla, að hún geti verið undirstaða undir auknum fiskiðnaði þarna, undir vélreknum landbúnaði og undir sérstökum verksmiðjuiðnaði, sem þar yrði komið upp. Núna mun með þeim olíustöðvum og öðru, sem til er í kauptúnum þarna austur frá, vera hægt að ná framleiðslu, sem er upp undir 2000 hestöfl, þannig að það yrði þá fyrst og fremst til þess að breyta úr olíustöðvum yfir í vatnsaflsstöðvar, ef það væri aðeins miðað við 2000 hestafla framleiðslu þar. Það er hins vegar vitanlegt, að eigi að duga sú framleiðsla, sem ráðizt er í, og eigi hún að vera það ódýr, að hún geti verið undirstaða undir iðnaði, þá þarf hún að vera í það stórum stíl eins og hér er talað um. Enn fremur álít ég, að við eigum ekki hér á Alþ. að binda það allt of fast, hvaða ár það eru, sem eru virkjaðar. Við vitum, að það er oft alls konar togstreita hér um slíkt. Ég held, að það sé bezt að láta þá vísindamenn okkar og þá sérfræðinga, sem vinna í raforkumálaskrifstofunni og annars staðar að þessum málum, og hæstv. ríkisstj. hafa þarna sem rýmstar hendur, í fyrsta lagi til þess að þreifa fyrir sér, að mæla og rannsaka og komast að óhlutdrægum niðurstöðum um, hvað bezt sé. Þess vegna hef ég lagt það til þarna að gera það mögulegt að hafa orkuverið allt upp í 6000 hestöfl og geta þar með tekið þá á, sem heppilegust þætti, hvort sem það væri Fjarðará, Grímsá, Lagarfljót, Jökulsá eða hvað sem væri.

Þá er viðvíkjandi 3. gr. Ég minntist áðan á það viðvíkjandi Vestfjörðunum, hvort við hugsuðum þróunina í þá átt að láta þá fara sömu leiðina og nyrzti hluti þeirra er að fara og ætluðum að reyna bara að sætta þá við einhverja ofur litla rafmagnsframleiðslu á hverjum staðnum út af fyrir sig eða hvort við hugsuðum hærra. Hins vegar er það svo, að eigi t. d. að leggja í virkjun eins og Dynjanda, þá er það stórt og mikið fyrirtæki, og ég býst við, að slíkt fyrirtæki mundi ekki geta borið sig, ef maður gengur aðeins út frá núverandi fólksfjölda á þessum stöðvum og núverandi atvinnurekstri. Við yrðum samtímis að hugsa okkur það og setja okkur það, að þarna yrðu að koma upp stærri fiskiðjuver en núna er, að svo og svo mikið af togaraflotanum yrði a. m. k. alveg sérstaklega á ákveðnum tímabilum að leggja upp þarna hvar sem togararnir annars ættu heima á landinu, með tilliti til þeirra sérstöku aðstæðna, sem þarna eru. En þetta eru hlutir, sem við hér á Alþ. þurfum að gera upp við okkur samtímis. Ef við erum allir saman vantrúaðir á möguleika Vestfjarða viðvíkjandi sjávarútveginum og viðvíkjandi verksmiðjuiðnaði í einhverri verulegri mynd, þá mundum við kannske fara inn á þá braut að virkja þarna í smáum stíl á 5–6 stöðum. Ef við værum hins vegar sannfærðir um og ætluðum okkur að leggja í mikla aukningu atvinnulífsins þarna, ekki sízt t. d. í sambandi við kannske Grænlandsútgerðina og við skulum segja líka í sambandi við Halann, þá væri eðlilegast fyrir okkur að hugsa okkur að leggja í virkjun Dynjanda. Ég hef þarna reiknað með, að sú virkjun yrði þó nokkuð dýrari en virkjunin á Austfjörðum. Ég býst við, að hún mundi verða það m. a. vegna aðalorkuveitnanna. En við skulum líka gera okkur ljóst, að þarna erum við að heyja baráttu fyrir því að gera ekki aðeins þessa firði áfram byggilega, heldur líka rifa þá upp úr þeim erfiðleikum, sem þeir svo lengi hafa átt við að stríða. En eins og ég gat um áðan, þarf samfellt átak í sambandi við þetta. Rafvæðingin er ekki einhliða fyrirbrigði. Hún er þáttur í alhliða eflingu atvinnulífsins og á helzt að vera samferða henni. Hins vegar eru, eins og hv. þm. vita, mjög margar heimildir í lögunum frá 1952 um virkjanir á Vestfjörðum sitt á hverjum staðnum, og þær náttúrlega yrðum við að nota, ef ekki þætti fært að ráðast í Dynjanda. Hér læt ég það standa opið, í hvort yrði farið. En hins vegar er ekki til nú sem stendur í lögum heimild til virkjunar Dynjanda. Það eru aðeins til lög um smávirkjanirnar. Heimildin til þeirra mundi jafnt haldast með þessu, en heimildin til Dynjanda bætast við.

Í 4. gr. er umskrift og aukning á því fjármagni, sem ætti að leggja þarna til út frá þeirri breyt., sem síðan hefur orðið. Það er raunverulega aðeins tekið upp það, sem er í gamla frv. frá 1952. Eina breyt., sem ég þar geri, er viðvíkjandi Húnavatnssýslunni. Það var gengið út frá virkjun t. d. Víðidalsár í gömlu lögunum. Ég geng þarna út frá aðalorkuveitu til Hvammstanga og nálægra byggða. Jafnvel sú orkuveita er hugsanleg út frá þeim raforkuverum, sem nú þegar er verið að reisa og að nokkru leyti búið að reisa í Austur-Húnavatnssýslunni, og út frá þeim hugmyndum, sem ég seinna kem inn á viðvíkjandi Blöndu, þá fyndist mér eðlilegra að veita heimild til rannsókna þar heldur en að halda áfram heimildinni til virkjunar á Víðidalsánni.

Þá er í 5. gr. heimild til fullvirkjunar Laxár, svo og til að framkvæma allan undirbúning í því efni, sem vafalaust mun taka nokkurn tíma og við vitum að raforkumálaskrifstofan þegar er komin nokkuð á veg með og nauðsynlega þarf líka meiri peninga til.

Þessar till. í I. kaflanum eru þar með um ýmis ný raforkuver, sem yrði þá lagt í á næstu fjórum, fimm árum og flest eða mikið af þeim vonandi klárað. Í II. kaflanum fer ég með það, sem snertir undirbúning undir stærri virkjanir í framtíðinni, raunverulega út frá því, sem ég ræddi um í upphafi og meginmáli míns máls hér.

Þar er í fyrsta lagi heimilað ríkisstj. að láta hefja nauðsynlegan undirbúning viðvíkjandi stórvirkjun í Þjórsá og Hvítá í Árnessýslu. Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hefur komið fram með ákaflega interessant hugmyndir í þessu sambandi og flutti um það mjög merkilegt erindi á fundi í Verkfræðingafélagi Íslands, sem mér þar gafst tækifæri til að hlýða á og hann hefur góðfúslega lofað mér að birta hér sem fskj., um leið og ég vil taka það fram að einmitt hans hugmyndir og hans þekking í þessum efnum er fyrir mér undirstaðan að því að koma fram með till. eins og þessar og þær, sem við fluttum 1947 um virkjun Urriðafoss þá. Það, að Hvítá er tekin þarna með, er vegna þess, að við allar þær mælingar og alla þá ljósmyndun úr lofti, sem þyrfti að fara fram á öllu því vatnasvæði, þá er það vatnasvæði bæði Hvítár og Þjórsár, sem yrði að taka saman, og enn fremur af hinu, að ein af till. Sigurðar, eins og hér er sagt, er að veita Hvítá í Þjórsá, þannig að Urriðafoss mundi við það verða miklu stórfelldari en nú er, og þarf auðvitað að taka tillit til þess, hvort slíkt á að gera, áður en farið væri að hugsa um virkjun Urriðafoss. Við virkjun Þjórsár er það eitt höfuðatriðið, og það er nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst, þegar menn ræða það mál, að hugsað sé fyrir vatnsuppistöðunum. Jökulárnar hafa þann eðlilega erfiðleika hvað virkjun snertir, að þeirra vatnsmagn er misjafnt, og eina ráðið til þess að geta tryggt þess vegna jafnt og stöðugt vatnsmagn úr fossum jökulánna er, að við höfum svo gífurlegar uppistöður, að við getum byggt virkjun við hvern foss á miklu meira vatnsmagni en mundi renna þar á þeim tíma, sem áin er minnst, ef engin jöfnun væri. En þetta þýðir, að ef af viti á að vinna í á eins og Þjórsá, þá þarf að planleggja fyrir fram uppistöður, sem bókstaflega breyta þannig landslaginu á þessum stöðum, að við sköpum gífurlega stór ný stöðuvötn, stærstu stöðuvötn á Íslandi, uppi í óbyggðunum. Ég tek þetta fram vegna þess, að t. d. þegar útlendingar eða menn, sem hefðu litla fyrirhyggju um rétta hagnýtingu á auðlindum Íslands, færu í virkjun á einstökum stöðum í ám eins og Þjórsá, þá er hæglega hægt að eyðileggja fyrir okkur svo og svo mikið af þeirri orku, sem við gætum fengið úr slíkri á, með vitlausum virkjunum, hagnýta fossana við skilyrði, þar sem við aðeins fáum notað þá að nokkru leyti, miða við minnsta vatnsmagnið, sem í þeim er frá náttúrunnar hendi. M. ö o.: Það að undirbyggja svona stórvirki eins og virkjun á Þjórsá krefst gífurlegs undirbúnings, fyrirhyggju og hugsunar, og mér er kunnugt um, að í því starfi, sem raforkumálaskrifstofan og einstakir verkfræðingar hafa verið að vinna á þessum sviðum, eru þegar uppi stórkostlega merkilegar og glæsilegar hugmyndir um, hvernig mætti fullnýta þessa miklu orkulind okkar.

Þá er í 7. gr. heimild um rannsóknir á möguleikum til stórvirkjunar í Blöndu og Vatnsdalsá. Það er hugmynd, sem Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hefur komið fram með, um að veita Blöndu í Vatnsdalsá og skapa uppistöðu, stórt stöðuvatn, þar sem Friðmundarvötn nú eru. Með því má fá vatnsfall niður í Vatnsdalinn, sem mundi gefa upp undir 200 þús. hestafla orku. Það mundi þýða fyrir Húnavatnssýslurnar möguleika til stórvirkjunar, og ég vil hér aðeins benda á það, að slík virkjun þarna í Vatnsdalnum mundi um leið vera einn hentugasti áfanginn í því að tengja saman raforkuvirkjanirnar á Íslandi frá Laxá og smærri virkjununum norðanlands til Andakílsvirkjunarinnar, Sogsvirkjunarinnar og komandi Þjórsárvirkjunar hér syðra. Og í sambandi við þá auðlind, sem við eigum í Dalasýslu, kolalögin þar, sem ég sé nú að farið er þegar að gera samning um að verja til að brenna, þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að slík kolalög eins og þar eru eru hvað innihald snertir einhver þau hæfustu til að vinna úr þeim öll þau tjöruefni, sem mynda grundvöllinn að efnaiðnaði nútímans, eins og að vinna efnin, sem notuð eru í nylon eða annað slíkt. Við vitum, að allur sá kemiski stóriðnaður nútímans byggist fyrst og fremst á mókolum og brúnkolum, sem unnin eru við ódýrt afl. Auðhringurinn mikli, þýzki IGF, byggði sitt heimsveldi og byggir það raunar enn á slíkum brúnkolum unnum með kolunum í Ruhr. Við, sem höfum fossana, og við, sem höfum þessi efni þarna, ef við aðeins hefðum vit og þekkingu til þess að hagnýta þetta á réttan hátt, höfum þarna möguleika til þess að skapa stórkostlega bætta lífsafkomu og aukna framleiðslu okkar einmitt á þessum sviðum, þar sem sérþekking og skynsamleg hagnýting orkunnar er höfuðatriðið. Það er enn fremur ekki eðlilegt að einbeita allri stóriðjunni á Íslandi aðeins á Suðurlandsundirlendinu. Við þurfum að hugsa til Norðurlandsins ekki síður og ekki hvað sízt héraða, sem gætu orðið með beztu landbúnaðarhéruðum landsins, eins og Húnavatnssýslurnar og Skagafjörðurinn, og við skulum gera okkur ljóst, að stórvirkjun í Vatnsdalnum hefur sama gildi fyrir t. d. Skagafjörðinn, því að það að tengja línurnar þarna saman er ákaflega auðveldur hlutur og ódýr. Það er enginn efi á því, að gnægð rafmagns á þessum stöðum mundi gera þeim bændum, sem þarna byggju, mögulegt að þaulrækta og nota síðan rafknúin tæki við vinnuna á þaulræktuðu landi. Við skulum muna, að benzín og olía er núna sjötti parturinn af innflutningi Íslands, og rafknúin tæki til okkar vinnslu, og ég tala nú ekki um í framtíðinni til að knýja farartækin líka, er hlutur, sem við verðum að hugsa fyrir af alvöru sem sjálfsögðum hlut, jafnsjálfsögðum hlut og mönnum fannst það hér fyrir 30 árum, að við settum okkur það að vera búnir að koma á vegakerfi a. m. k. um aðalpartinn af Íslandi 1940, — mig minnir, að það hafi verið takmarkið, sem sett var á þriðja áratug aldarinnar. Það að leggja út í þessa hluti er fyrir okkur sannarlega ekki meira en var fyrir þá kynslóð að hugsa um að leggja brýr, vegi og síma út um landið. Við þurfum bara að vera jafnstórhuga. Og við höfum margfalt betri möguleika en sú kynslóð hafði til þess að framfylgja miklu stærri hugmyndum en hún gat látið sig dreyma um. Allar þessar hugmyndir um stóra virkjun eru auðvitað alveg óhugsandi án þess, að samtímis sé skipulögð sú stóriðja, sem eigi að standa í sambandi við hana. Það nær engri átt að fara að tala um, rannsaka eða skipuleggja svona stórvirkjanir án þess að setja sér það um leið og trúa á það, að hægt væri að koma hér upp stóriðju, sem Íslendingar réðu sjálfir.

1947, í þeim till., sem ég þá flutti, minntist ég sérstaklega á aluminiumvinnsluna og áburðarvinnsluna. Ég held, að aluminiumvinnslan sé ein sú allra þýðingarmesta nú, og þeir ágætu verkfræðingar, sem við eigum á öllum þessum sviðum, menn eins og Gunnar Böðvarsson, Baldur Líndal og aðrir slíkir, — allir þessir menn hafa verið að athuga, hvað hægt sé að gera í þessum efnum. Þeir hafa haft til þess lítið fé. Þeir hafa haft til þess slæm skilyrði hvað það snertir, að þeir hafa ekki verið hvattir til þess. Það hefur engan veginn verið gott samband á milli þeirra hugvitsmanna, sem hafa vísindalega þekkingu á því, sem hægt sé að gera á Íslandi, og þeirra manna, sem hafa ráðið því, hvað gert sé á Íslandi, og það þarf að breytast. Það þarf að hvetja þessa menn og það þarf að láta þá finna það, að valdhafarnir vilji láta þeim í té nægilegt fé til þess að vinna að þessum hlutum og til þess að rannsaka þá Við þurfum nú þegar að skipuleggja, að ákveðnir, helzt einhverjir efnilegustu stúdentar og verkfræðingar, sem við höfum, fari í aðrar eins sérgreinar og hinar ýmsu greinar efnaverkfræðinnar og efnafræðinnar, til þess að við höfum hér heila, sem séu færir um að glíma við þessi viðfangsefni með allri þeirri sérþekkingu, sem nútíminn hefur yfir að ráða í þessum efnum og gerir kröfu til. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, t. d. viðvíkjandi aluminium, einmitt út frá því, sem ég birti hér, þeirri greinargerð, sem verkfræðingurinn Baldur Líndal birti í Íslenzkum iðnaði í apríl 1953 um vinnslu aluminium-oxyds við jarðhita, — ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að Ísland er eitt af þeim fáu löndum, sem hefur þá aðstöðu, að geta unnið úr bauxitleirnum í fyrsta lagi aluminium-oxyd við jarðhitann hérna og í öðru lagi hreinan aluminiummálm úr alumíniumoxydinu við rafmagn. Í öðrum löndum sumum er þetta þannig, að bauxitið er flutt úr einu landi til þess að vinna þar t. d. við kol eða jarðgas eða annað slíkt aluminium-oxyd úr því og það aluminium-oxyd er flutt til annars lands, þar sem mikið er af raforku, til þess að vinna þar hreinan aluminiummálm. Hér getur hvor tveggja þessi efnafræðilegi process farið fram hér heima að öllum líkindum. Og sjálft bauxitið er ekki nema, ja, líklega tíundi hlutinn af verðmæti þess hreina aluminiummálms, þegar búið væri að vinna hann. Við gætum þess vegna hagnýtt þessa gífurlegu aðstöðu, sem við höfum með vatnið sjóðandi upp úr jörðinni og fossana, til þess að framleiða þarna þann málm, sem nú er að verða langsamlega eftirsóttasti málmur veraldarinnar og verður það áreiðanlega til allrar hamingju ekki bara í hernaðarlegum tilgangi, heldur jafnvel fyrst og fremst til allra friðsamlegra starfa. Það er alveg óútreiknanlegt, hvað langt við kunnum að komast enn þá í þessum efnum. Það er bæði farið að smíða báta og hús og annað slíkt úr aluminium, og það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast vel með í þessum hlutum, sjá um, að við eigum slíka sérfræðinga, að við vitum bókstaflega, hvað sé að ganga fyrir sig, og að við vitum, hvernig hægt er að hagnýta okkar auðlindir. Annars stöndum við, með þeim gífurlegu framförum, sem vísindin nú á tímum hafa tekið, næstum eins og villimenn gagnvart þrumum og eldingum. Þess vegna eru þessar till. mínar um fjárveitingar þarna, bæði til rannsóknanna á stóriðjunni í 8. og 9. gr., 2 millj. í annarri, ½ millj. í hinni á ári á næstu 4 árum, alveg bráðnauðsynlegar, ef við eigum að geta skapað okkur einhverjar raunhæfar hugmyndir um, hvað við getum í þessum efnum. Og í 10. gr. geng ég út frá, að úr öllum þessum rannsóknum vinni raforkumálaskrifstofan og raforkumálastjórnin og það sé miðað við það að reyna að leggja niðurstöðurnar fyrir Alþ. í síðasta lagi á árunum 1957–58, og ég veit, að það gæti aldrei orðið fyrr, þó að þetta yrði samþykkt.

Ég held, að samtímis því að efla okkar sjávarútveg og landbúnað sé þetta, sem þarna er lagt til, eitt raunhæfasta skrefið, sem við getum stigið til þess að undirbyggja það nýja atvinnulíf, sem við þurfum að skapa handa þeirri þjóð, sem við sjáum að kemur til með að tvöfaldast á næstu 4–5 ánatugunum. Ég veit ósköp vel, að allar rannsóknirnar í þessum efnum kunna að verða það umfangsmiklar, vandamálin það erfið og framfarirnar í þessum efnum það miklar í veröldinni á næstu árum, að við stöndum kannske frammi fyrir því eftir 4–5 ár að verða enn þá að fresta þessum hlutum til þess að geta gengið úr skugga um nýja möguleika, sem skapazt hafa, en við þurfum samt að reyna að flýta okkur það mikið við þetta, að við getum áður en allt of langur tími liður lagt í þessi stóru verkefni.

Í III. kaflanum ræði ég svo um okkar möguleika efnahagslega til þess að leggja í þetta. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það, á hvern hátt við leysum okkar innanlandsvandamál í sambandi við fjárframlög til svona hluta. Fyrir mér eru það alltaf tiltölulega auðveld viðfangsefni, vegna þess að ég lít á þessa hluti frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar. Frá þjóðarheildarinnar sjónarmiði eru allar virkjanir eins og þessar spurning um vinnuafl, þ. e. spurning um það, hvort við höfum vinnuafl afgangs, þjóðin sem heild, til þess að láta koma upp hvort það er virkjun eins og Laxá, til þess þurfum við um það bil 125 menn í 3 ár, eða virkjun eins og Þjórsá, til þess þurfum við máske eins margar þúsundir manna og hundruð við Sogsvirkjunina, og svo hitt spursmálið, hvernig við getum unnið okkur fyrir gjaldeyrinum, sem við þurfum í það, sem við getum ekki framleitt sjálfir, vélarnar í stóriðjuna og túrbínurnar og annað slíkt. Ég álít, að við getum unnið okkur fyrir þessum vélum með því að geta haft alla okkar atvinnuvegi — og þá fyrst og fremst sjávarútveginn — í fullum gangi, með því að geta aukið nokkuð okkar skipastól, eins og Sósfl. nú þegar hefur lagt til, og látið vinna fullkomlega úr fiskinum sem vöru. Ég er ekki í neinum efa um, að það er hægt að gera við ríki, sem við nú þegar höfum stóra samninga við, samninga til 5 eða 10 ára um að kaupa vélar eða andvirði þeirra og selja í staðinn okkar fiskafurðir, jafnvel kannske að einhverju leyti okkar stóriðjuafurðir, og undirbyggja þannig, að þjóðin sem heild geti annars vegar látið nokkuð af sínu vinnuafli hér innanlands í það að vinna að virkjununum og hins vegar nota nokkuð af sínu vinnuafli á sjónum, sem sé nokkuð af þeim fiski, sem við framleiddum, til að kaupa fyrir andvirði hans vélarnar, sem við þurfum í þessi orkuver.

Ég er viss um, að þessa hluti er hægt að gera. Ég hef áður skrifað greinar til þess að sýna fram á, hvernig við getum gert slíka 10 ára samninga. Ég vil benda á, að það er t. d. þessa dagana verið að gera svona samninga milli landa eins og t. d. Indlands og ýmissa sósíalistísku landanna. Það er þannig engum efa bundið, að ef við aðeins getum tryggt okkur eitt, og það er að fá að vinna að okkar framleiðslustörfum, fá að vinna af fullum krafti að því að framleiða okkar fisk, hagnýta hann fullkomlega eða vinna úr honum fullkomlega hér innanlands, þá getum við af eigin rammleik komið þessari stóriðju upp, a. m. k. þannig, að þó að við yrðum að taka einhver ofur lítil lán um tíma til þess, þá yrðu þau okkur ekki fjötur um fót. En hitt veit ég, að svo framarlega sem við látum kreppu dynja hér yfir núna, þá verður ekki lagt í neina stórfellda hluti á sviði raforkunnar.

Ég vil aðeins minna þá, sem muna það langt, á, að þegar kreppan dundi yfir Ísland 1931, þá var eitt af því fyrsta, sem gert var af hálfu þess stórveldis, sem þá hafði mest tök á okkur, Englands, að banna ríkisstj., og það þeirri ríkisstj., sem þá hafði hugsað sér að gera ýmsar stórar framkvæmdir, ríkisstj. Framsfl. og Alþfl., sem tók við 1934, að ganga í ríkisábyrgð fyrir þeim stóru hlutum, sem þá var verið að hugsa um, eins og hitaveitunni í Reykjavík og Sogsvirkjuninni. Þá átti að hindra framfarirnar hér á Íslandi af hálfu brezku stórveldastefnunnar. Þá átti að velta byrðum kreppunnar af Englandi m. a. yfir á herðar okkar Íslendinga. Og ef kreppa dynur yfir Ameríku, eins og útlit er fyrir nú, þá er ég hræddur um, að ef við eigum að vera fyrst og fremst upp á hana komnir um viðskiptamálin, þá verði ekki mikið úr stórum hlutum í rafvirkjunum.

Ég held þess vegna, að við þurfum að undirbyggja okkar viðskiptalíf þannig, að við getum tryggt okkur að geta rekið allan okkar skipastól — og það meiri skipastól en við eigum — með fullum krafti og unnið úr því öllu saman hér innanlands og selt það allt saman. En ég er líka ekki í neinum vafa um, að ef við gerum það og notfærum okkur þá möguleika, sem eru til viðskiptasamninga, og við höfum nú þegar séð á þeim samningi, sem gerður hefur verið við Sovétríkin, hvað stóra viðskiptasamninga er hægt að gera, þá er engum efa bundið, að við getum með því lagt traustan grundvöll að rafvæðingu Íslands.

Í IV. kaflanum legg ég til, að andvirði þess söluskatts auk annarra gjalda, sem ríkissjóður hefur fengið af vélum til Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar, þ. e. 25 millj. kr., eða eins mikið af því og er til, sé lagt í sérstakan raftækjasjóð, sem sé notaður til þess að gera íslenzku alþýðuheimilunum mögulegt að fá sér þau raftæki, sem heimilin þarfnast, með góðum aflborgunarskilmálum. Það er vitanlegt, að þegar t. d. farið verður að leggja rafmagnsveiturnar út um sveitirnar, þá er alveg brýn nauðsyn frá verzlunarlegu sjónarmiði virkjananna, að notkunin á rafmagninu verði sem fyrst sem mest á öllum þessum heimilum. Ég ætla ekki að tala um, hvaða þýðingu það hefur fyrir fólkið á þessum heimilum að geta frá upphafi notið allra þeirra gæða, sem raforkan býður. Nú stendur svo á hér heima. að við getum sjálfir framleitt í verksmiðjum, sem ríkið á í, eins og Rafha í Hafnarfirði, raftæki svo að þúsundum skiptir á ári, — ég tala nú ekki um, ef við tökum upp tvískiptar eða þrískiptar vaktir þar, — þá getum við framleitt öll þau raftæki, sem þarf handa þessum heimilum, og náttúrlega er framleiðslan mun ódýrari, þegar verksmiðjan getur gengið þannig af fullum krafti. En það, sem áreiðanlega mun á skorta á þessum stöðum mörgum, er, að þegar bóndinn verður búinn að leggja fram sitt heimtaugargjald til þess að fá línuna heim til sín, þá hefur hann ekki sérstaklega mikla peninga afgangs til að kaupa öll þau tæki, sem þarna þarf til. Og ég minnist hér sérstaklega á bóndann og á sveitafólkið, ekki sízt vegna þess, hve brýnt það er að geta gert störf sveitakonunnar léttari en þau eru núna. Ég býst við, að af öllu vinnandi fólki á Íslandi sé hún ef til vill sú, sem á erfiðast, og með því að tryggja sveitaheimilunum þannig strax þessi tæki, þá mundu þessi umskipti fyrst verða slík sem þau raunverulega ættu að verða fyrir fólkið þar. En þó að ljótt sé frá að segja, þá er það ekki aðeins í sveitunum, sem þessi tæki skortir. Í fjöldanum öllum af kaupstöðum Íslands, þar sem rafmagn þegar er, eiga fátækustu fjölskyldurnar, oft barnflestu fjölskyldurnar, húsmæðurnar, sem erfiðast hafa það og verst búa, minnst af tækjum eins og þvottavélum, hrærivélum og öðru slíku, jafnvel stundum ekki neitt.

Ég held þess vegna, að því fé, sem ríkissjóður fékk, 25 millj. kr., í söluskatt og önnur gjöld af Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni og vélunum til þeirra, væri bezt varið með því að nota það til þess að gera íslenzkum húsmæðrum bæði í kaupstöðum og sveitunum mögulegt að fá sem allra fyrst með afborgunarfresti, sem stæði í mörg ár, allar þær vélar, sem þarf í þessum efnum. Ég efast ekki um, að slíkir samningar ríkisstj. við raftækjaverksmiðjuna Rafha um slíka fjöldaframleiðslu mundu líka um leið efla þá verksmiðju stórum og þann iðnað, sem í sambandi víð það stendur. Þeim, sem eru nógu efnaðir til þess að geta keypt þetta og borgað það út, er að vísu eftir sem áður leyfilegt að fá það á þann hátt. En ég held, að þetta mundi gera það að verkum, að það yrði enn þá fljótar það gagn af rafvirkjuninni, bæði í kaupstöðunum og sveitunum, sem þarf að verða.

Ég hef nú orðið langorðari en ég ætlaði mér upphaflega, rakið nokkuð þessar till. mínar og komið í samband við það almennt inn á stefnu Sósfl. í raforkumálunum. Ég vil vonast til þess, að þessar till. mæti skilningi hjá hv. þm., og ég vildi líka mega óska, þegar að því kæmi, að hæstv. ríkisstj. færi að athuga þessi mál, að hún tæki nokkurt tillit til og hefði nokkra hliðsjón af þeim hugmyndum, sem hér eru settar fram. Það hefði verið gott, ef það hefði verið gert 1947, þegar við fluttum okkar till. þá, en það er aldrei of seint að læra í þessum efnum.

Höfuðatriðið er, að það, sem við gerum í þessum málum, gerum við á þann hátt, að sú auðlind sem okkar vatnsmagn er, verði hagnýtt af þjóðinni sjálfri í hennar eigin þágu og henni sjálfri til blessunar, að engin af þessum auðlindum verði auðs- og gróðauppspretta fyrir útlenda aðila, sem notuðu þetta afl til þess að fjötra Íslendinga og gera okkur að þrælum í okkar eigin landi.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og — ja, ég býst við, að það sé nú að sumu leyti eðlilegast, að það fari til iðnn., slík frv. hafa líklega verið þar lengst af. Annars er náttúrlega ákaflega mikið í frv., sem er hreint fjhn.-mál. En ég býst samt við og vildi skjóta því til hæstv. forseta, að það væri líklega réttast, að það fari þó til iðnn.