08.02.1954
Neðri deild: 42. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

125. mál, húsaleiga

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 302, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Rang. (BFB), er borið fram að beiðni hæstv. félmrh. og í samráði við hann. Frv. er samið af nefnd, sem félmrh. skipaði, og var frv. nálega samhljóða því, sem hér liggur fyrir, lagt fram á Alþingi 1951, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu.

Það er eftirtektarvert. að árið 1884, eða þegar Alþingi hafði haft löggjafarvald aðeins um 10 ára skeið, voru sett hér lög, svonefnd ábúðarlög, sem fjalla um skipti jarðeigenda og leiguliða á lögbýlum í landinu. Þessi lög, ábúðarlögin, hafa síðan verið endurskoðuð og færð til samræmis við gildandi venju og lögð alúð við að hafa þau í því formi, sem bezt hentaði bæði eigendum jarðanna og leiguliðum. En nú er því svo háttað, að leiguíbúðir eru miklu fleiri en leigðar jarðir eru í landinu. Lögbýli í landinu munu alls vera 6–7 þúsund og ekki nema nokkur hluti, áreiðanlega mikill minni hluti þeirra, er í leiguábúð. Á árinu 1950 fór fram athugun á því, hve margar leiguíbúðir væru í stærstu kaupstöðum landsins. Þá kom í ljós, að í Reykjavík voru 6280 íbúðir seldar á leigu, á Akureyri 631 og í Hafnarfirði 406 o. s. frv. eða m. ö. o., að í þessum þremur kaupstöðum, sem ég hef nefnt, voru leiguíbúðir 1950 yfir 7000, eða fleiri en öll lögbýli í landinu. Þrátt fyrir þetta og þó að þróunin gangi í þá átt í þjóðfélaginu, að leiguíbúðir verði æ fleiri, þá er engin allsherjar löggjöf í gildi um húsaleigu. Þau húsaleigulög, sem hafa verið sett, hafa fjallað um viss atriði, þau hafa verið sett í sambandi við dýrtíðarráðstafanir, vegna styrjaldarástands og kveðið á um ýmis atriði, jafnvel skerðingu á umráðarétti húseiganda, hámark húsaleigu o. s. frv., en almenn ákvæði um samskipti leigusala og leigutaka eru ekki til í íslenzkri löggjöf.

Þegar á þetta er litið, virðist alls ekki að ófyrirsynju, að félmrn. beitti sér fyrir því á árinu 1951 með skipun nefndar, að samið væri frv. um þessi efni, og var það frv. lagt fram á þingi 1951, eins og ég gat um áðan, og er nú flutt hér að nýju með litlum breytingum.

Í I. kafla þessa frv. er að finna nokkur almenn ákvæði um leigumála, þar sem gert er ráð fyrir, að prentuð séu eyðublöð undir slíka leigusamninga og þau eyðublöð séu yfirleitt notuð.

II. kafli frv. fjallar um leigufardaga og uppsögn húsnæðis, og eru þar aðeins staðfestar þær reglur um uppsagnartíma og fleira, sem venja hefur skapazt um.

Í III. kafla er fjallað um afhendingu leigðrar íbúðar eða húsnæðis, og eru þau ákvæði, sem sá kafli hefur að geyma, einnig í samræmi við þær reglur, sem fylgt er og venja hefur skapazt um.

IV. kaflinn er um stað og stund leigugreiðslu. Þar er gert ráð fyrir, að það verði ákveðin sem meginregla, að húsaleiga verði greidd fyrir fram.

Í V. og VI. kafla frv. er fjallað um skyldur leigusala og leigutaka og þar á meðal viðhaldsskyldu húsanna. Þar er svo fyrir mælt, að leigusali skuli greiða skatta af húseign sinni, eins og venja er, en um viðhaldið er gert ráð fyrir, að þær reglur verði lögfestar, að leigusali annist viðhald allt utanhúss og á þeim hlutum íbúðarinnar, sem eru til sameiginlegra afnota, en leigutaki taki að sér viðhald íbúðarinnar innanhúss, og er þetta ákvæði miðað við það, að á þann hátt skapist meiri ábyrgðartilfinning hjá leigjanda um að ganga vel um íbúðina, ef hann sjálfur á að bera kostnað af viðhaldi þess, sem aflaga fer innan íbúðarinnar sjálfrar. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að þegar skipti verða á leigjendum, fari fram úttekt á íbúðinni á svipaðan hátt og ákveðið er í ábúðarlögum, þegar leigjendaskipti verða á jörðum.

VII. og VIII. kafli hafa að geyma ákvæði mjög almenns eðlis, og eru þau í samræmi við það, sem helgazt hefur af gildandi venju. En í IX. kafla er fjallað um rétt leigusala til að rifta leigumála húsnæðis. Fullyrða má, að ákvæði þessa kafla, ef að lögum yrðu, mundu koma í veg fyrir margvísleg málaferli. Mörg af ákvæðum 44. gr. eru að sönnu í samræmi við þær reglur, sem nú eru taldar gilda, en í frv. eru ákvæðin sett glögg og afmörkuð. En nú er þetta svo í framkvæmd, að ágreiningur um þessi efni verður að metast hverju sinni, og kemur í því efni oft til úrskurðar dómstóla um hvert mál fyrir sig.

X. og XI. kafli frv. fjalla um atriði, sem ágreiningur hefur verið um, þ. e. um sérstakar ráðstafanir af hálfu stjórnarvalda, ef um húsnæðiseklu er að ræða, en slíkum ráðstöfunum fylgir að jafnaði nokkur skerðing á rétti húseigenda til að ráða húsum sínum að öllu leyti sjálfir. Í þessu frv. er svo frá þessu gengið, að þessi ákvæði eru heimildarákvæði, og með frv., ef að lögum verður, verður algerlega lagt á vald hlutaðeigandi bæjarstjórnar, hvort þessi ákvæði verði látin koma í gildi á hverjum stað eða ekki. Má þá ætla, að samkomulag geti orðið um að afgreiða málið í þeim búningi.

Nefnd sú, sem undirbjó frv. um þetta efni 1951, sagði svo um efni þessa máls í grg., sem fylgdi því frv.:

„Það leiðir af líkum, að á sviði húsaleiguréttar er þörf á ýmsum sérreglum, er víkja frá almennum reglum kröfuréttar, en slíkar sérreglur verða einungis settar með löggjöf frá Alþingi. Nauðsyn ber til, almenningi til öryggis, að setja ýmsar reglur, er takmarka hið almenna samningsfrelsi. Reynsla annarra þjóða staðfestir þetta. Hefur víða um lönd verið sett heildarlöggjöf um lögskipti leigusala og leigutaka, og virðist eigi síður nauðsyn á slíkri löggjöf á Íslandi en í grannlöndum vorum.“

Þessi orð eru vissulega í fullu gildi enn í dag, og eru þau vottur þess, að frv. um þetta efni er engan veginn að ófyrirsynju fram borið.

Ég mun svo ekki hafa þessa framsögu lengri, nema sérstakt tilefni gefist til að taka aftur til máls, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.