08.02.1954
Neðri deild: 42. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (2675)

125. mál, húsaleiga

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, en mér þótti þó rétt að segja aðeins örfá orð við þessa umr. málsins, af því að svo vildi til, að ég átti sæti í þeirri nefnd, sem á sínum tíma hafði með þetta mál að gera og samdi það frv., sem hér er nú flutt af tveimur hv. þm. í þessari deild. Þetta er í þriðja sinn, sem frv. þetta er lagt fyrir Alþingi, og hefur ekki til þessa náðst samkomulag um afgreiðslu málsins. Liggja til þess ýmsar ástæður.

Eins og hv. frsm. málsins gat hér um áðan og lauk ræðu sinni með — og vitnaði í grg. n., sem undirbjó frv., þá er það vitanlega mikil nauðsyn og mjög æskilegt, ef hægt væri að setja almenn lög um samskipti leigusala og leigutaka, vegna þess að eins og nú standa sakir eru í íslenzkum lögum engin ákvæði um þetta efni í löggjöfinni sjálfri, heldur er þetta svo að segja eingöngu byggt á venjurétti. Þetta leiðir auðvitað af sér það, að oft og tíðum rísa ýmis vandamál, sem erfitt er að leysa úr, jafnvel fyrir dómstólana, og því væri að mörgu leyti mjög æskilegt, að hægt væri að setja um þetta efni heildarlöggjöf. Um þetta atriði er ekki heldur ágreiningur að meginefni til, og hygg ég, að allir séu um það sammála, að æskilegt væri, að slík löggjöf væri sett. En það, sem hefur valdið því, að málið hefur ekki náð fram að ganga og sætt allmikilli mótspyrnu, er það, að í X. og XI. kafla frv. er tekin upp mjög mikil takmörkun á umráðarétti húseigenda yfir sínum húsum og það miklum mun meiri takmörkun en gilti jafnvel í húsaleigulögum stríðsáranna, þar sem eru ákvæðin í XI. kafla um húsaleigumiðstöð. Ég hirði ekki um að fara nákvæmlega út í þessi atriði á þessu stigi málsins, en vildi aðeins til leiðbeiningar fyrir þá hv. n., sem fær málið, geta þess, að það eru þau atriðin, sem ágreiningur varð um í n. á sínum tíma og hún klofnaði um. Það var sjónarmið sumra nm., að það væri óeðlilegt að taka upp slík ákvæði í almenn lög, heldur ætti, ef sérstakt neyðarástand bæri að höndum, svo sem venja er til, þegar þannig er ástatt, eins og á stríðstímum, — þá eru sett ýmis sérstök lög, sem eingöngu eru miðuð við það ríkjandi ástand, — að þá gæti verið ástæða til að setja slíka löggjöf, en slík löggjöf gæti aldrei gilt nema um stundarsakir vegna þeirrar miklu réttarskerðingar, sem í henni fælist. Það þótti sýnt, enda hefur reynslan þegar staðfest það, að hin ströngu réttarskerðingarákvæði, sem giltu í þeim húsaleigulögum, sem nú eru úr gildi fallin, hafa beinlínis orðið til þess að draga úr áhuga manna að eiga leiguhúsnæði, enda hefur reyndin orðið sú, að leiguíbúðum hér í Reykjavík hefur stöðugt farið fækkandi, en þar hefur húsnæðisskorturinn verið mestur, og það er einnig vitað, að sú staðreynd, að þetta frv. hefur sífellt verið til meðferðar hér í þingi, með þessum miklu réttarskerðingum, og alger óvissa um afdrif þess hefur beinlínis leitt af sér það, að ýmsir hafa ekki viljað leigja út frá sér húsnæði, sem þeir ella hefðu gert, af ótta við, að þeir yrðu þá að sitja uppi með þá leigjendur um ófyrirsjáanlegan tíma.

Það kom fram það sjónarmið við samningu þessa frv:. að það væri eðlilegt að hafa hliðsjón af ábúðarlögum í sambandi við leigu á almennu íbúðarhúsnæði. Að minni hyggju er þar um ákaflega óskylda hluti að ræða, og þó að geti verið sterk rök fyrir því og nauðsynlegt að hafa þær miklu hömlur sem eru í ábúðarlögum um uppsögn á jarðnæði, þá sé ekki neinu svipuðu til að dreifa varðandi íbúðarhúsnæði og aðstæðurnar þar að mörgu leyti aðrar, enda mundi slíkt beinlínis leiða af sér það, að leiguhúsnæði mundi smám saman eða fljótlega hverfa úr sögunni. Út í það atriði skal ég ekki nánar fara í einstökum atriðum.

Ég vildi aðeins í framhaldi af því, sem hv. fyrri flm. málsins gat um lauslega, benda á það, að í þessum almennu ákvæðum frv. er ein sérstök nýjung, en það er í sambandi við viðhaldsskylduna og úttekt húsnæðis, og ég vildi sérstaklega beina því til hv. nefndar, að hún athugaði þetta mál rækilega, vegna þess að það er vissulega margt, sem mælir með því, að ákvæðið sé haft og viðhaldsskylda lögð á leigutakann, en hins vegar með það í huga, að það verði betri umgengni um íbúðir. Hins vegar ber þess einnig að gæta, að hætt er við því, að það verði mjög þungt í vöfum og kostnaðarsamt, ef á að taka út íbúðir í hvert skipti, sem skipt er um leigjanda. Að vísu er nú fyrir þessu séð að nokkru leyti í frv. á þann hátt, að það er hægt að semja sig undan þessu ákvæði og ákveða það með samningi, að viðhaldsskyldan skuli vera á leigusala, eins og nú er í gildi. En þetta atriði væri ástæða til að taka til nokkurrar athugunar í hv. nefnd. Að öðru leyti hygg ég, að meginefni hinna almennu ákvæða frv. sé aðeins staðfesting á þeim atriðum, sem nú gilda og hefur verið framfylgt og praktiserað af dómstólum, og eins og hv. þm. sjá, þá er gert ráð fyrir því í frv., að lögin séu obligatorisk, þ. e. a. s., að það er ekki hægt að semja sig undan þeim nema þar, sem það er beinlínis fram tekið.

Mín skoðun er sú, að það gæti verið farsælt og leitt þetta mál til skynsamlegra lykta, ef samkomulag gæti verið um það að lögfesta hin almennu ákvæði laganna, sem eru raunverulega þau atriði, sem máli skipta sem heildarlöggjöf í sambandi við samskipti leigutaka og leigusala, en fella niður X. og XI. kafla frv.

Ég vil taka fram, að það kom fram beinlínis í n. á sínum tíma, að það var andstaða gegn því hjá sumum sveitarstjórnum og þá fyrst og fremst hjá bæjarstjórn Reykjavíkur að fá þetta sem heimildarákvæði, X. og XI. kafla. eins og hér er ráð fyrir gert, heldur vildi bæjarstjórnin miklu frekar hafa það sem bundið ákvæði, ef það á annað borð ætti að vera í lögum, heldur en að eiga sífellt yfir höfði sér, að það væri verið að leggja þá ábyrgð á sveitarstjórnina sjálfa að taka þá ákvörðun, sem hér um ræðir, enda hefur það hingað til verið sett með lögum frá Alþ. sem bindandi ákvæði, þegar jafnveigamiklar ráðstafanir hafa verið gerðar eins og hér um ræðir og um er að ræða jafngeysimikil inngrip í réttarstöðu borgaranna og yfirráðarétt þeirra yfir sínum eignum. Mér hefði því sýnzt skynsamlegt og vildi beina því til hv. n., hvort ekki væri athugandi að reyna að afgreiða þetta mál í því formi, að samkomulag gæti orðið um að afgreiða hin almennu ákvæði frv., en fella þessa kafla niður. Ég játa fúslega, að það gæti vissulega verið það ástand ríkjandi, að nauðsynlegt væri að hafa takmarkanir ýmsar í gildi í þessu efni. En hins vegar er nú reyndin sú, og ég hygg, að flestir séu sammála um það nú orðið, að eina heilbrigða lausnin á húsnæðisvandræðunum sé að reyna að byggja yfir fólkið, en ekki taka upp jafnóheilbrigt ástand og ríkti á stríðsárunum, þegar húsaleigulögin voru í gildi, og með öllum þeim ósköpum, sem þeim víða fylgdu í sambúð fólks í húsum, þar sem um slíkt nauðungarsambýli var að ræða, þannig að það mundi ekki leiða til neinnar heppilegrar úrlausnar á þessum húsnæðismálum, þó að slík ákvæði yrðu sett, heldur reynt að einbeita kröftunum að þeirri varanlegu og heilbrigðu lausn málsins, að sem allra flestir gætu eignazt sína íbúð sjálfir. Það skilst mér að menn séu sammála um og að hæstv. ríkisstj. muni einnig hafa nú til athugunar það mál, hversu reynt verði að greiða fyrir því, að frambúðarlausn fáist á þeim vanda. Slík frambúðarlausn hlýtur vitanlega eingöngu að vera á þeim vettvangi, að það sé reynt að stuðla að því, að sem allra flestir geti orðið sjálfstæðir húseigendur, en ekki að leysa málið með þeim gerviráðstöfunum að fara að taka upp nauðungarsambýli og þvingunarákvæði eins og hér er gert ráð fyrir í þessum tveimur köflum.