25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2680)

125. mál, húsaleiga

Frsm. 2. minni hl. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í nál., hefur heilbr.- og félmn. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Hv. þm. A-Sk. (PÞ) og hv. 2. þm. Rang. (BFB) leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en ég og hv. þm. Ísaf. mælum með frv. þannig breyttu, að þrír síðustu kaflar þess verði felldir niður, þ. e. a. s. 48. 76. gr. frv., að báðum gr. meðtöldum. Við höfum áskilið okkur rétt til þess að flytja brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Hv. 1. landsk. var ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í nefndinni, og hefur ekki skilað sérstöku nefndaráliti.

Frv. þetta er svo til alveg samhljóða frv., sem flutt var á þinginu 1951 af hv. allshn. Frv. hafði verið samið af n., sem félmrh. skipaði á sinum tíma til þess að semja frv. að almennri húsaleigulöggjöf. En frv. náði ekki fram að ganga. Má segja, að því hafi fyrst og fremst valdið ágreiningur út af X. kafla þess, sem heimilaði sveitarstjórnum, ef sérstaklega stæði á, að taka upp og láta gilda bindingarákvæði húsaleigulaganna gömlu, og ákvæði XI. kafla, sem gengu enn lengra, þar sem sveitarstjórnum var heimilað að koma upp húsaleigumiðstöðvum, sem önnuðust leigu á öllu nýju húsnæði og eldra húsnæði, sem losnaði eftir að húsaleigumiðstöðin tæki til starfa. Í frv. var gert ráð fyrir því, að heimildarákvæði X. og XI. kafla skyldu þó ekki vera lengur í gildi á Akureyri, Hafnarfirði og Reykjavík en til 14. maí 1953. Heimildarákvæðið í frv., sem deilan stóð um árið 1951, er nú að nýju tekið upp í frv. það, sem hér liggur fyrir. En nú eru þar engin tímabundin ákvæði varðandi þrjá stærstu kaupstaði landsins, og verður því ekki annað séð en að frv. að þessu sinni gangi mun lengra en upphaflega var árið 1951.

Um það getur ekki verið ágreiningur, að fullkomlega tímabært sé að setja almenna og ýtarlega löggjöf um samskipti leigutaka og leigusala. Um þau viðskipti hafa enn engin sérlög verið sett, nema þá undir óvenjulegum kringumstæðum eins og á ófriðartímum og þá til þess að draga úr vandræðaástandi, sem skapazt hefur vegna húsnæðiseklu. Hefur sú löggjöf og beinzt að því að takmarka mjög rétt húseigenda yfir leiguhúsnæði, en verið afnumin, er úr hefur raknað og greiðara hefur orðið um innflutning á byggingarefni. Telja má, að leigusamningar um húsnæði, hvort sem þeir eru munnlegir eða skriflegir, séu með allra algengustu löggerningum. Flestallir þjóðfélagsborgarar munu einhvern tíma á ævinni hafa gengið frá slíkum samningum. Vegna þess, hversu algengir þessir samningar eru og raunar mikilsverður þáttur í daglegu lífi fjöldans, hefur verið mjög bagalegt fyrir allan almenning að hafa ekki við neina heilsteypta löggjöf að styðjast í þessum efnum. Fullkomin löggjöf, sem næði yfir þessi algengu viðskipti, mundi koma í veg fyrir óþarfa málarekstur og vandræði, sem oft og tíðum hafa hlotizt af óvissunni um það, hvaða reglur skuli gilda í ýmsum tilvikum, sem ógerlegt er að hafa öll í huga við samningsgerð.

Það er því mjög þakkarvert, að hæstv. félmrh. skyldi á sínum tíma beita sér fyrir skipun n. til þess að semja frv. að almennri löggjöf um húsaleigu. Má segja, að eftir þeirri löggjöf hafi nógu lengi verið beðið. Eins og ég hef tekið fram, getum við, hv. þm. Ísaf., mælt með samþykkt 9 fyrstu kafla frv., sem hafa inni að halda reglur fyrir leigusala og leigutaka, svo sem um uppsagnartíma húsnæðis, afhendingu leigðs húsnæðis, stað og stund leigugreiðslu, viðhaldsskyldu o. fl., sem máli skiptir, er húsnæði er selt á leigu til lengri eða skemmri tíma. Þegar þessi atriði hafa ekki beinlínis verið ákveðin í samningi á milli aðila, hefur til þessa orðið að styðjast við venjurétt, er skera hefur þurft úr ágreiningi. Að sjálfsögðu hafa í þessum efnum skapazt margar venjur, sem dómstólarnir hafa löghelgað, en þær verða í vitund almennings aldrei eins ljósar og bein lagaákvæði. Með skýrri löggjöf verða allir leigusamningar miklu gleggri og auðveldara fyrir þá aðila, sem að þeim standa, að ná saman endunum. Um þetta erum við hv. þm. Ísaf. sammála og teljum, að frv., hvað þessi atriði varðar, miði í rétta átt. Hins vegar erum við andvígir efni X. og XI. kafla frv. og leggjum til, að þeir verði felldir niður. Af því mundi og leiða, að XII. kaflinn ætti ekki heima í frumvarpinu.

Í X. kaflanum er gert ráð fyrir heimild til handa sveitarstjórnum kauptúna og kaupstaða, sem hafa 500 íbúa eða fleiri, að innleiða að nýju bindingarákvæði gömlu húsaleigulaganna, þegar sérstaklega stendur á, þ. e. a. s. þegar um er að ræða mikla húsnæðiseklu.

Í XI. kaflanum er heimild til þess að ganga enn lengra en gert hefur verið í að takmarka umráðarétt húseigenda yfir húseignum sínum, þar sem sveitarstjórnirnar geta sett á fót húsaleigumiðstöðvar, sem annist leigu á öllu nýju húsnæði og eldra húsnæði, sem losnar eftir að húsaleigumiðstöðin er tekin til starfa.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi kynnt sér ákvæði þessara kafla, svo að óþarft sé fyrir mig að lýsa efni þeirra nánar.

Ég geri ráð fyrir því, að flestir hafi litið svo á, að hömlur þær, sem á styrjaldarárunum voru lagðar á ráðstöfunarrétt húseigenda á íbúðarhúsnæði, hafi verið neyðarráðstafanir, sem ættu ekki að standa nema takmarkaðan tíma. Þessar ráðstafanir hafa óhjákvæmilega verið óvinsælar af öllum húseigendum og valdið margvíslegum vandræðum, þótt segja megi, að þær hafi verið óhjákvæmilegar, meðan lítið var um byggingar og ekki var unnt að fullnægja eftirspurninni eftir byggingarefni.

Við, sem stöndum að áliti 2. minni hl. n., erum þeirrar skoðunar, að heimildarákvæðin muni draga úr viðleitni manna til þess að koma upp leiguhúsnæði og því óbeinlínis verða til þess að hindra æskilega þróun í húsnæðismálunum. Þeir menn, sem kunnugastir eru húsnæðismálunum hér í Reykjavík, þar sem vandræðin hafa verið mest að undanförnu vegna fólksfjölgunarinnar, munu flestir vera á einu máli um það, að allar ráðstafanir, sem miða í þá átt að takmarka umráðarétt húseigenda, komi til með að minnka framboð á leiguhúsnæði.

Í þessu sambandi má benda á það, að með núverandi byggingarkostnaði og hámarkshúsaleigu, eins og hún er ákveðin í lögum nr. 30 frá 1952, um hámark húsaleigu, er það síður en svo gróðavegur að byggja íbúðarhús til þess að leigja þau út, því að það er fullvíst, að ný íbúð, sem leigð er út með venjulegum hætti og fyrir leigu, sem setja má upp samkv. lögunum frá 1952, nær því hvergi nærri að renta sig.

Með þessa staðreynd í huga og þá reynslu, sem fengizt hefur af þvingunarreglum húsaleigulaganna, ber að forðast allar þær ráðstafanir, sem komið geta til með að draga úr viðleitni manna til þess að bjóða fram leiguhúsnæði.

Við viljum því leggja til, að nefndir kaflar verði felldir niður, en að frv. verði samþ. að öðru leyti. Heildarmynd frv. raskast ekki að neinu leyti við það, þar sem heimildarákvæðin eru alveg óviðkomandi 9 fyrstu köflum frv.