06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

125. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér sem forseti þessarar hv. d. að taka þetta mál á dagskrá á næturfundi. Ég álít, að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða, sem snertir svo marga menn í landinu, m. a, tugþúsundir manna hér í þessum bæ, að það hefði ekki verið nema eðlilegt og sanngjarnt að ræða þetta að degi til, þar sem menn hefðu haft tækifæri til þess að hlusta á mál manna frá báðum hliðum um svo alvarlegt mál. Og þess utan áleit ég nú, að það væru á dagskránni í dag sum önnur mál, sem frekar þyrftu fram að ganga og ættu fram að ganga, áður en störfum Alþingis lýkur. En með því að hæstv. félmrh. hefur mjög óskað eftir því, að málið yrði tekið fyrir á fundi í dag, þá hef ég orðið við þeim tilmælum, með þeim skilyrðum þó, að hann væri hér við sjálfur til andsvara, þar sem því hefur nú verið lýst yfir, að hann beri alveg sérstaklega umhyggju fyrir þessu máli.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, var rætt aðeins á tveim fundum nú nýlega í heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. Ég bað þá um, að málið fengi þinglega meðferð, og óskaði eftir því, að hv. formaður n. vildi senda það til umsagnar bæði til Fasteignaeigendafélagsins og einnig til Leigjendafélagsins. Þessari sjálfsögðu beiðni minni af hálfu minni hlutans var neitað af formanni n. með þeim rökum eða forsendum, að þetta mál væri svo aðkallandi, sem þó hafði legið í hv. Nd. svo að segja allan þingtímann, að það væri ekki tími til þess að senda það til umsagnar, því að það væri sama sem að svæfa málið. Ég óskaði þá eftir því, að boðnir væru til viðtals þeir fulltrúar, sem ég hef þegar minnzt á, svo að við gætum rætt við þá í n., og jafnframt, að hæstv. félmrh. mætti einnig á þeim fundi til þess að ræða málið við hann og sjá, hvort væri hægt að fá samkomulag í n. um afgreiðslu málsins. Á þetta var fallizt, og virði ég það við hv. formann, að hann féllst þó á þetta atriði. Fulltrúi Fasteignaeigendafélagsins kom til viðræðna á fundinn og mótmælti þar harðlega ýmsum ákvæðum frv., eins og hv. minni hl. hefur þegar skýrt frá. Hann taldi frv. mjög vanhugsað, ýmsar greinar þess, og þó einkum X., XI. og XII. kafla þess. Hann taldi, að frv. mundi torvelda verulega lausn húsnæðisvandamálsins, ef það yrði að lögum, og um það er raunverulega enginn ágreiningur, ekki einasta í þeim félagsskap, heldur hjá fjöldamörgum öðrum aðilum, eins og ég skal koma síðar að. Það mundi fæla menn frá því að festa fé í leiguhúsnæði, þegar yfir héngi slíkt lagasverð eins og hér er verið að hengja yfir höfuð manna, þar sem vitað er, að í frv. eru mörg mjög ranglát fyrirmæli í garð húseigenda. Það mundi þess utan skapa sveitar- og bæjarfélögum veigamikla ábyrgð, ef þau notuðu þá heimild, sem gefin var í X. og XI. kafla laganna, þar sem þau mundu þá verða ábyrg gagnvart borgurunum, ef þau beittu þeirri heimild, fyrir brot á stjórnarskránni, þar sem ákvæði hennar mæla svo fyrir um, að eigi megi taka af mönnum eignarrétt, nema fullt gjald komi fyrir. Ég hygg, að það sé alveg einsdæmi í þingsögunni, að á friðartímum sé öðrum aðila en ríkissjóði sjálfum eða ríkisvaldinu gefin heimild til þess að taka eignir manna eða umráðarétt yfir eignum manna, eins og hér er gert í þessu frv. Það eru a. m. k. alveg nýmæli í íslenzkum lögum.

Fulltrúi Fasteignaeigendafélagsins óskaði þess mjög eindregið, að n. frestaði afgreiðslu á málinu á þeim fundi og a. m. k. formaður n. og helzt n. öll kæmi til viðræðna á fund hjá Fasteignaeigendafélaginu, sem þá yrði haldinn sama dag, til þess að hlusta þar á mál manna og ræða þetta mál við þá, því að óneitanlega er það svo, að þessir menn hafa ýmissa hagsmuna að gæta í sambandi við málið. En hv. formaður n. varð ekki við þessari ósk fulltrúans, og get ég því miður ekki þakkað honum fyrir slíka afgreiðslu á málinu. Ég tel einmitt, að hann hefði a. m. k. átt að sýna þessum margmenna félagsskap þá sanngirni að fresta afgreiðslu málsins á þessum fundi og geyma það þar til fundurinn hefði verið haldinn, sem ég hef minnzt á hér að framan, enda hefði það ekkert komið að sök.

Í sambandi við þetta þykir mér rétt að benda á, að það var þó ekki meiri áhugi hjá meiri hl. hv. n. um að koma þessu frv. fram en það, að þeir voru vel viðmælanlegir um kaup á þessu frv. í sambandi við annað mál. Þá var það ekki orðið lengur alþjóðarmál. heldur var það þá orðið hrossakaupamál á milli tveggja stétta eða flokka í þinginu. Það voru engin vandræði að komast að samkomulagi um að fá þessu máli algerlega frestað, ef samið væri um leið um að svæfa annað mál, sem var réttmætt að samþykkja og kom ekki þessu máli við. En ég hafði sjálfsagt hvorki tilhneigingu, vald né leyfi til þess að gera slík kaup, enda er það alveg gagnstætt mínu eðli að vera að gera slík hrossakaup hér á Alþingi.

Fulltrúi Leigjendafélagsins var einnig kvaddur til viðræðna við n. Hann taldi, að það þyrfti að breyta ýmsum ákvæðum í frv., sérstaklega um viðskipti milli leigusala og leigutaka, og fór ekki dult með það. Hann vildi þó tvímælalaust, að samþykktir yrðu alveg sérstaklega X., XI. og XII. kafli frv., og ég held, að hann hefði, eftir því sem hann talaði, gert sig alveg ánægðan með það, að allt annað hefði verið fellt úr frv. heldur en þessir kaflar. Aðspurður um það, hvort hann liti svo á, að þessi sérstöku ákvæði bættu úr húsnæðisvandræðunum eða örvuðu menn til þess að byggja íbúðir, sem er höfuðatriðið í þessu máli, vildi hann engu svara. Hann vildi alls ekki ræða það atriði, sem er þó ekki einungis mergurinn málsins, heldur blóð og mergur málsins, eins og hv. frsm. meiri hl. talaði um áðan, því að það er vitanlega mergur þessa máls, hvort frv., ef að lögum verður, örvar menn til þess að byggja íbúðir í landinu, svo að húsnæðisvandræðunum verði afstýrt að þeim leiðum. En það taldi hv. formaður n. líka alveg aukaatriði. Hann leit meira að segja svo á, að það væri þegar búið að byggja svo mikið hér af íbúðum í þessum bæ, að það væri engin ástæða til þess að ýta undir það með nýjum lagafyrirmælum, þess vegna væri raunverulega ágætt, ef þau fyrirmæli, sem hér á að lögfesta, gætu stöðvað áframhaldandi byggingar í Reykjavík. Reykjavík hefði fengið svo stóran skerf af byggingarefni og af peningum úr þjóðarbúinu til þess að byggja fyrir, að það væri síður en svo ástæða til þess að halda áfram byggingum þar. Þess vegna væri ekki ástæða til þess að stöðva frv. af þeim ástæðum. Þar er m. a. mjög mikill ágreiningur á milli mín og hv. meiri hl. Ég tel einmitt, að það sé einasta, skynsamlegasta og bezta leiðin út úr þeim erfiðleikum sem hafa verið hér í húsnæðismálunum, að örva menn til þess að byggja bæði yfir sjálfa sig og aðra, m. a. yfir þá, sem hafa ekki efnalega ástæðu til þess að byggja yfir sig sjálfir. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðherra er hér á sömu skoðun eins og hv. formaður n. Væri fróðlegt að heyra, hvort slík speki er komin frá jafnágætum manni og hæstv. félmrh., að það sé þegar ofbyggt yfir fólk hér í Rvík og að það sé bezt að draga heldur úr eða torvelda frekari framkvæmdir. Ég á erfitt með að trúa því, að svo sé, en ég bíð eftir að heyra eitthvað um það frá hæstv. ráðh.

Félmrh., sem boðinn var á fundinn, kom þangað ekki. Ég geri ráð fyrir því, að hann hafi haft fullar ástæður til þess að vera fjarverandi. Ég þekki þann ágæta mann að því, að hann vanrækir ekki skyldur sínar, og ég tel því, að hér hafi verið um að ræða skylduverk, sem voru meira aðkallandi en að koma og ræða um þetta mál á fundi n. Þegar svo var komið, óskaði ég eftir því alveg sérstaklega, að hv. formaður n. frestaði afgreiðslu málsins, þar til tækifæri gæfist til þess að ræða við hæstv. ráðh. um þetta vandamál. Því var einnig neitað. Ég verð nú að segja, að eftir slíka meðferð á máli hjá hv. formanni hefði svo sem ekki verið vítavert af mér sem forseta þessarar hv. d., þó að ég hefði neitað að taka þetta mál á dagskrá á næturfundi. En ég vil ekki heita slíkri einhliða meðferð mála hér á þingi eins og þó hefur verið beitt hér af hv. formanni n. og hans flokki sem nefndarmeirihluta í þessu máli með stjórnarandstöðunni. Mér verður kannske lagt út til lasts að gera það ekki, en ég mun ekki taka upp þann hátt, svo lengi sem mér er falin slík virðingarstaða sem forseta deildarinnar. Ég hef ekki gert það sem formaður nefndar í neinu máli, mundi aldrei gera það og tel það mjög ámælisvert, þegar menn nota slíkt vald til þess að fyrirbyggja, að mál verði upplýst sem bezt á þinglegan hátt.

Nú var það svo, að á þessum fundi var einn nm. ekki mættur. Það var að vísu lýst yfir því af hv. formanni n., að hann hefði rannsakað hjörtu og nýru þess hv. nm., sem fjarstaddur var, þ. e. hv. 4. þm. Reykv. (HG), hann þekkti því afstöðu hans til málsins, það væri ekki ástæða til þess að bíða eftir því, að hann myndaði meiri hl. með einum eða öðrum, þegar n. klofnaði, hann vissi, að hann gæti merkt hann sér í þessu máli alveg ákveðið. Ég tel nú, að það hefði verið næg ástæða til, að sjálfsagt hefði verið að fresta afgreiðslu málsins á þessum fundi, þar til a. m. k. þessi merkingur, sem Framsfl. hefur merkt sér í þessu máli, væri til andsvara í n. En það mátti ekki heldur geyma málið þar til vitað var um hans afstöðu í málinu í nefndinni.

Hv. frsm. hefur nokkuð lýst fyrri meðferð þessa máls, það sé undirbúið af mþn., það hafi verið rætt hér áður á Alþingi og ekki fengizt samþykkt. Og það er líka vitað, að þetta frv. á ekki meiri hl. á Alþingi nema með þvingun í gegnum einhverjar aðrar ráðstafanir, eins og virðist að sé verið að gera hér. Málið sjálft á alls ekki þingfylgi að mæta, nema því aðeins að það sé tengt saman við einhver önnur áhugamál, svo að hér er verið að gera einhvers konar hrossakaup í sambandi við framgang málsins, hrossakaup, sem ábyrgur flokkur hefur ekki viljað taka þátt í, og verður það ekki lagt honum út til lasts, nema siður sé.

Húsaleigulög voru samin og samþykkt á Alþingi á meðan stríðið stóð. Með þeim lögum var tekinn umráðarétturinn af húseigendum. Og það var gert miklu meira. Þeim var neitað um réttláta, nauðsynlega og sanngjarna hækkun á húsaleigu allan stríðstímann. Af hverju voru þeir beittir þessum tökum? Vegna þess að hækkun á húsaleigu hlaut að hækka mjög verulega dýrtíðina í landinu, verðlagsvísitöluna og upphæðir þær, sem ríkissjóður yrði að taka á sig í sambandi við hækkandi vísitölu. En hvaða sanngirni var í því að láta þetta ganga yfir eina stétt þjóðfélagsins, þá stétt, sem hafði tekið að sér að leysa þann vanda, sem þurfti að leysa í þjóðfélaginu, þ. e. að byggja hús og íbúðir yfir menn, sem bæði ríkisstj. og Alþingi nú viðurkenna að sé svo nauðsynlegt, að lagðar eru stórar fjárfúlgur úr ríkissjóði til þess að inna þetta hlutverk af hendi, þegar búið er með óviturlegri löggjöf að takmarka frelsi þeirra manna, sem vildu gera það sjálfir? Þetta var borgunin fyrir það verk, sem þessir ágætu þegnar þjóðfélagsins höfðu innt af hendi í mörg ár. Að beita eina stétt manna slíkum tökum eins og hv. Alþingi og allar ríkisstj. á þeim tímum beittu þessa menn, með því að leggja miklu þyngri byrði á þá af dýrtíðinni heldur en nokkurn annan þegn í landinu, það var sannarlega nóg byrði, þótt ekki yrði haldið áfram að gera þetta eftir að friðartímar voru komnir. Þetta varð til þess, að menn urðu í stórum stíl að hætta að halda við eignum sínum og láta þær grotna niður og lentu svo í því síðar meir, þegar meira frelsi var gefið á þessu sviði, að fara að gera við sínar eignir, halda þeim við í miklu stærri stíl en annars hefði þurft og fyrir miklu meira kostnaðarverð en þeir hefðu getað gert á þeim tíma, sem eignirnar voru í þessu haldi samkvæmt fyrirskipun Alþingis. Einnig það torveldaði mjög áframhaldandi byggingu húsa hér í þessum bæ, þar sem svo mikill hluti af því fé, sem laust var til þess að láta í húsbyggingar, varð að fara í viðhald, miklu stærri hluti en hefði orðið að gera, ef þessir menn hefðu verið frjálsir með eignir sínar á stríðstímunum. Þar með var lagður annar aukabaggi á þessa menn.

Auk þessa, sem ég þegar hef lýst, urðu þessar húseignir mörgum hverjum þessara manna hrein byrði. Þó voru hér fjöldamargir aðilar, sem höfðu raunverulega ekkert annað að lifa á en tekjur af húsunum. Þeir höfðu ekki vaxandi tekjur í krónutölu vegna vaxandi dýrtíðar í landinu eins og allir launamennirnir höfðu, heldur urðu þeir að sætta sig við að skera niður kröfur sínar til lífsframfærslu í það tekjulágmark, sem þeim var skapað með ósanngjörnustu lögum, sem hafa verið samin hér á Alþingi. Þannig var þeim bannað að hagnýta sínar eignir eins og öðrum mönnum.

En lögin gerðu meira en að skapa þetta ástand. Þau sköpuðu sífellt stríð á milli aðila og sumpart beint hatur. Það er alveg óskráð allt það hatur og allt það stríð, sem þessi lög, á meðan þau stóðu, sköpuðu á milli leigusala og leigutaka. Það yrði ófögur saga, ef hún yrði skráð að fullu réttilega og ekkert undan dregið. Og þeir menn, sem stóðu að því, bera ábyrgð á öllu því, sem hér skeði í sambandi við þessi mál. Þeir réttlæta sig með því, að það hafi verið neyðarástand þá, og það má nú nokkuð til sanns vegar færast, þó að það hefði verið eðlilegt, að þetta hefði ekki verið tekið jafnhörðum tökum eins og gert var. En þá er sannarlega mælirinn fullur, þegar á að fara að bæta nú ofan á þetta löggjöf, sem hér um ræðir, eftir að orðnir eru venjulegir tímar í þessu landi. Að loknum ófriðnum kom hin harða barátta hér á Alþingi um afnám laganna. Nokkuð vannst á í þessu máli fyrir harða baráttu sjálfstæðismanna, sem jafnan hafa staðið með þeim mönnum, sem hér hafa verið ofsóttir fyrir skilningsleysi meiri hl. löggjafans á Alþingi. Þó varð ekki að fullu náð árangrinum og er ekki náð enn raunverulega, þó að það sé ákaflega mikið mildað. En nú er snúið aftur við blaðinu. Nú á að fara að herða ólina aftur og beita enn meira ranglæti en nokkru sinni fyrr.

Það komu samt sem áður ávallt fram ákveðnir fulltrúar frá hv. Framsfl., sem vildu halda ranglætinu við. Það voru margir fundir hér, bæði utan þings og innan, þar sem þetta mál bar á góma, og þá var það alltaf Framsfl., sem tilbúinn var til þess að vera fremstur í fylkingu um viðhald á þessu ranglæti, eins og beint kemur einnig fram hér í þessu frv. Þá kom fram hugmyndin um stóríbúðaskattinn og frv. um hann, þar sem enginn mátti lengur búa í sæmilegu húsnæði nema verða að borga stórkostlegan skatt í ríkissjóðinn. Þá sáu framsóknarmenn ofsjónum yfir því, ef nokkur maður átti að búa í stærri íbúð en svo, að hann gæti rétt aðeins hringað sig inni í henni, nema þá að borga stórkostlega skatta til ríkissjóðsins. Ég held þeir hafi þá helzt viljað taka upp rússnesku regluna um að flokka herbergin niður með krítarstrikum, svo að enginn maður fengi meira en örlítinn ferhyrning til þess að búa í, líkt eins og krakkar hafa, þegar þeir eru að leika paradís á götunni, og ef farið yrði út fyrir þetta, þá átti það að kosta stór viðurlög, þ. e. að taka svo og svo mikið af eignum þeirra. Þetta var stórhugur þeirra í sambandi við það mál, og á þennan hátt skyldi knésetja þá, sem leyfðu sér að hugsa svo hátt að skapa sér viðunandi húsakynni og búa í þeim sjálfir. Þetta var æðsta hugsjónamál Framsfl. í mörg ár. Þannig átti að smækka alla menn, sem vildu vera frjálsir og hugsa eitthvað hærra en þrælar. Þetta var stefnan, sem hér var rekin í húsnæðismálunum af hv. Framsfl. um fjöldamörg ár. Mér er náttúrlega alveg ókunnugt um, að hverju slík löggjöf átti að stefna eða hvað á bak við hefur legið, en það er sýnilegt, að þeir drógu hér ekki upp neinn frelsisfána í þessum málum, á meðan þeir börðust fyrir því, sem ég hef hér bent á. En þessari árás var hrundið sem betur fer.

Þá kom hugmyndin um það frv., sem hér um ræðir. Þá var um að gera að reyna að knésetja þessa menn á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, en hafa samt ekki manndóm til þess að láta sjálft ríkisvaldið gera það, heldur vilja setja þetta á aðra menn til þess að taka á sig alla ábyrgðina og allan baggann. Nefnd var skipuð í málið. Framsfl. hafði þar oddamann, mann, sem alla tíð hafði sýnt húseigendum í Reykjavík beinan fjandskap, og þarf ekki að fletta mörgum blöðum Tímans um húsnæðismálin í Reykjavík til þess að sannfæra sig um það. Það fékkst ekkert samkomulag í nefndinni um viturlega lausn á þessu vandamáli. Málinu var því vísað frá hér á Alþingi, m. a. vegna þess, að það var ekki hægt að fá neitt samkomulag við þessa stríðandi aðila um lausn á málinu. Það var ekki heldur óskað eftir því frá Framsfl. að fá neina viturlega lausn á málinu. Það var um að gera að fá lausn, þar sem þeir réðu öllu, þar sem þeirra stefna, sem hafði verið mörkuð áður um að kúga þessa menn, væri ráðandi stefnan í málinu.

Nú taka sig til á ný tveir hv. fulltrúar úr sveitakjördæmi og flytja frv. í fullri óþökk við þá aðila alla, sem við málið eiga að búa, eins og kom fram á viðræðufundunum við fulltrúa tveggja þessara félaga, og einnig í fullri óþökk við þá aðila, sem nota eiga heimildina. Þetta er gert einmitt þegar leyst hafa verið að verulegu leyti ýmis höft, sem haldið hafa niðri íbúðarbyggingum hér í þessu landi. Hvað er eiginlega hér á ferðinni? Hvað er það, sem hæstv. ráðh. ætlar sér með því að hafa slíkan málaflutning í frammi hér á Alþingi? Hvað mundu hv. þm. Framsfl. segja eða málgagn hans, ef t. d. hv. þm. Reykjavíkurbæjar tækju sig nú fram um það að bera fram frv. um, að umráða- og eignarréttur bænda yfir jörðum þeirra yrði tekinn af þeim? Hvað mundu þessir aðilar segja, ef þeir færu t. d. að bera fram frv. um það, að enginn bóndi mætti sjálfur leigja jörð sína, það yrði sett upp leigumiðstöð í hverri sveit, þeir fengju engu um það að ráða, hvort það væri þessi eða hinn, sem færi á jarðirnar, það yrði tekinn af þeim umráðarétturinn á líkan hátt og verið er að gera hér af húseigendum? Og hvað mundu þeir svo segja, ef þeim væri neitað um að senda frv., sem kæmi fram um það, til umsagnar til Búnaðarfélags Íslands? Já, hvað mundu þeir þá segja? Og hvað mundu þeir svo segja, ef neitað væri að fresta afgreiðslu málsins, þar til hæstv. landbrh. fengi tækifæri til þess að ræða það við nefndina, neitað að taka til greina mótmæli bændanna, neitað yfirleitt að hlusta nokkurn hlut á þá aðila, sem að langmestu leyti ættu að búa við slík ákvæði? Mér er sem ég sæi aðalmálgagn Framsfl., Tímann, ef slík meðferð væri höfð á málum bændanna, og ég er sannarlega ekkert að lá þeim það. Slíkt væri þvílíkt gerræði, að það mundi víst engum hv. þm. Reykv. detta í hug að beita því. En þetta er nákvæmlega sama gerræðið sem Framsfl. er að beita hér húseigendur í Reykjavík. Og það verður aldrei þvegin af hvorki hæstv. félmrh. né hans flokki sú smán, sem flokkurinn er að gera sér með þessu frv. á hendur öðrum aðilum, — aldrei, hvernig sem farið verður að. Það verður langsamlega svartasti blettur í pólitískri sögu Framsfl. hér á Alþingi, og á hann þó ýmsa dökka bletti fyrr og síðar.

Já, hvað ætli að bændasamtökin í landinu segðu, ef skellt yrði skolleyrum við aðvörun þeirra um að forða frá öngþveiti, sem slík löggjöf hlyti að skapa, og bent væri á það með rökum, að slík löggjöf mundi jafnvel þurrka út sveitirnar, jarðirnar kæmu til með að standa auðar, grotnuðu niður, og framleiðsla minnka að sama skapi? Við skulum hugsa okkur einnig, að sveitirnar mótmæltu slíkum lögum, svo og sjálfar sveitarstjórnirnar, eins og hér hefur átt sér stað. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að hugsa um það, hvað hann mundi þá segja sem hæstv. landbrh., ef slíkt frv. yrði borið fram hér á Alþingi, ef þeir menn, sem samþ. það, hlustuðu fyrst og fremst á raddir þeirra, sem að vísu kynnu að hafa einhvern stundarhagnað af því að geta komizt á jarðirnar, níddu þær síðan niður, flosnuðu svo upp af þeim að skömmum tíma liðnum og létu síðan sveitirnar standa auðar, eins og logi hefði gengið yfir akur. Væri þetta til blessunar fyrir sveitir landsins, jafnvel þótt það fengjust einhverjir bændur, sem gætu hagnazt af því í bili? Ég hygg, að það mundi engum detta í hug, sem hugsar um framtíð sveitanna eða bændanna, að láta sig dreyma um það, að slík meðferð á eignum bændanna gæti verið þeim til blessunar eða landinu í heild. En þannig er einmitt verið að búa að húseigendum í Reykjavík með þessu frv., þannig er þeim úthlutað réttlæti í þessu máli. Þetta er réttlætishluturinn, sem verið er að skammta þeim í sambandi við þeirra eignir. Og þetta er gert af hálfu Framsfl., þess flokks, sem situr hér nú, og hefur setið alllangan tíma í stjórn landsins. Hann leyfir sér að bera fram slíkt ranglæti gegn tugþúsundum manna hér í höfuðstað landsins.

Hatur framsóknarmanna í garð Reykjavíkur hefur aldrei verið neitt leyndarmál. Það er aðeins þegar Framsfl. þarf að kvabba hér um atkv. Reykvíkinga, að hann fer að dekra við þá á einn eða annan hátt, á öðrum tímum er ekkert farið dult með það hatur, sem Framsfl. almennt hefur borið til Reykvíkinga. Þó hefur það aldrei komið betur í ljós en einmitt í flutningi og meðferð þessa frv. Hæstv. ráðh. hefur nú ekki einu sinni sjálfur fyrir að flytja frv., heldur hefur hann fengið tvo af sínum undirmönnum í flokknum til þess að taka á sig flutninginn og alla þá vömm, sem því er samfara. Ég hefði nú haldið af mínum ágætu kynnum við hæstv. ráðh., sem eru bæði löng og góð, að hann væri meiri drengur og meiri manndómsmaður en svo að láta nú þennan bagga á þessa tvo flokksbræður hans, og ég segi nú eins og sagt var hér einu sinni: „Veldurðu þessu, Pétur?“ Bera þeir þennan bagga yfirleitt, standa þeir undir honum, bagganum, sem hæstv. ráðh. leggur hér á þeirra herðar?

Hér er haldið á vandasömu og viðkvæmu félagsmáli af svo takmarkalausri ósanngirni og skilningsleysi, að maður er bókstaflega undrandi, að hinn ágætasti maður eins og hæstv. félmrh. skuli ekki rísa upp og neita að taka þátt í svo ljótum leik. Og ég veit sannarlega ekki, hvað hefur blindað svo augu þessa ágæta manns, að hann skuli hafa getað fengið sig til að vera meðábyrgur í slíkum leik sem hér fer fram. Hér eru verri öfl og fávísari látin ráða fyrir hinum betri og vitrari. Sigur slíkra afla verður skammvinnur, og hann hefnir sín að lokum. Hið hvassa vopn, sem felst í þessu frv., sem hér um ræðir, getur áður en varið snúizt í höndum þeirra manna og hitt þá sjálfa miklu fyrr og miklu harðar en þeir gera ráð fyrir. Það er óvandur eftirleikurinn, þegar menn í ábyrgðarstöðum taka sig til og beita slíku vopni eins og hér er beitt og það á sjálfu Alþingi Íslendinga. Það yrði harmsaga að innleiða hér á Alþingi slíka meðferð vandamála. — Það er líka vitað, að þessu er beitt af hv. Framsfl. í allt öðrum tilgangi en fram kemur í sjálfu frv. Því er beitt til þess að þvinga fram stöðvun á öðru máli, eins og ég gat um í upphafi. En að hugsa sér það ástand í Alþingi, ef nota á slík vopn í baráttunni að beita aðferðum eins og hér er gert til þess að þvinga fram rangláta, siðlausa löggjöf bara til þess að koma fram öðru máli, þar sem einn ákveðinn flokkur eða fylgismenn ákveðins flokks hafa einhverra hagsmuna að gæta. Þá finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn. En það er það, sem verið er að gera hér. Ef slík meðferð yrði almennt ráðandi á Alþingi, yrði það önnur og meiri harmsaga.

Mér hefur þótt rétt að láta þetta koma hér fram, áður en ég ræði þær brtt., sem ég hef borið fram ásamt öðrum hv. þm. og birtar eru á þskj. 640. Skal ég nú skýra þær nokkuð.

1. brtt. er við 1. gr., að fyrri málsgr. 1. gr. orðist þannig: „Lög þessi taka til leigumála um íbúðir og atvinnuhúsnæði.“ Ég tel, að það sé alveg óþarfi, að hin almennu ákvæði, þótt samþ. verði, nái til annars húsnæðis en leiguhúsnæðis, sem almennt er flokkað undir íbúðir og atvinnuhúsnæði, það sé alveg óþarfi og eiginlega alveg ógerlegt að láta þetta gilda einnig um sérhvert það herbergi, sem leigt er einstaklingum í bæ eða þorpi. Raunverulega hefði 1. gr. frv. átt að falla öll niður, því að hér er gengið svo langt í því að afnema umráðarétt og samningsvenjur, að óþolandi er, en það mundi þó lagast töluvert, ef mín brtt. er samþykkt.

Þá er sagt í 2. gr. frv., að leigumála um íbúðir og atvinnuhúsnæði skuli gera skriflega. Það er m. a. með tilvísun til þessa fyrirmælis, að ég hef gert 1. brtt. mína. Þar er gerður munur á íbúðum og atvinnuhúsnæði annars vegar og húsnæði fyrir einstaklinga hins vegar. Hefur raunverulega sá aðili, sem lét útbúa frv., viðurkennt, að ekki sé þörf á að gera skriflegan samning við þá, sem leigja einstök herbergi, og er þá langeðlilegast að fella það alveg úr frv. og ákveða, eins og ég vil leggja til með minni brtt., að þessi lagafyrirmæli nái ekki til þeirra, sem leigja sér húsnæði, sem er ekki kallað venjulegar íbúðir, heldur eru aðeins einstök herbergi, sem oft og tíðum eru kannske leigð til eins eða tveggja mánaða, og væri raunverulega alveg ógerlegt að uppfylla öll þau ákvæði hér í sambandi við úttektir, viðhald og annað því um líkt, sem fyrir er mælt í þessum lögum, ef slíkt ætti að ná til allra þeirra manna, sem leigja húsnæði með ljósi og hita oft og tíðum, stundum með ræstingu, jafnvel með morgunkaffi o. s. frv., og gera greinarmun þar á milli og fara svo að taka þessi herbergi út, hvenær sem skipt er um leigjanda, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég vil því mega vænta þess, að þessi brtt. mín verði samþykkt.

Þetta frv., sem hér um ræðir, er raunverulega í tveimur efnisflokkum. Annar efnisflokkurinn, sem er frá I. kafla og út að X. kafla, er um almenn ákvæði, sem vel gætu verið nauðsynleg, ef þau væru viturlega samin, en á eru svo margir gallar, að eins og þau eru nú, sýnist mér, að það sé ekki viðlit að samþ. frv. óbreytt, ekki heldur þann kaflann, eins og ég skal nú smátt og smátt koma að.

2. brtt. mín er við 2. gr., þ. e., að aftan við greinina bætist: „Eyðublöð fyrir leigumála skulu afhent án endurgjalds.“ Það er að vísu ekkert um það sagt í frv. Það er sagt, að félmrn. skuli gefa út eyðublöð fyrir venjulegan leigumála um íbúðir, en það er ekkert sagt um það, hvort það á að gera það án endurgjalds eða ekki. En mér finnst ekki nema eðlilegt, þegar félmrn. er að þvinga slíkum fyrirmælum upp á menn, sem vilja ekki taka á móti þeim, að þá beri a. m. k. ríkissjóður kostnaðinn af prentuninni og pappírnum og láti þessa aðila fá gögnin fyrir ekki neitt. Það gætu verið þeir tveir aðilar, sem vildu semja um húsnæði, og það ekki svo fáir, sem þyrftu ekkert annað en drengskaparheit til þess að tryggja þann sáttmála, sem þeir gerðu sín á milli munnlega. En úr því að félmrn. lítur svo á, að slíkt megi ekki eiga sér stað lengur, eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv., þá sé ég ekki ástæðu til annars en að ríkissjóður greiði þá einnig þann kostnað, sem af því hlýzt að gera hér á aðra og óheppilegri skipan. Ég veit nú ekki, — en það getur vel verið, að hæstv. ráðh. geti upplýst það, — hvað það mundi kosta ríkissjóðinn að hafa alltaf fyrirliggjandi nokkra tugi þúsunda eða hundruð þúsunda á ári af slíkum eyðublöðum. Ég veit ekki, hvort það hefur verið reiknað út af því ágæta ráðuneyti, en sjálfsagt væri það fróðleikur fyrir okkur hér í þinginu að fá að vita um það, hvort þeir menn, sem um þetta mál hafa hugsað eða þetta mál hafa undirbúið, hafa gert yfir þetta nokkurt yfirlit eða áætlun.

3. brtt. mín er við 5. gr., að það komi í stað orðanna „að tefla“ í lok 2. málsgr. „að ræða“. Þetta er aðeins leiðrétting á máli, sem ég vænti að ekki þurfi að ræða mikið eða deila mikið um. Og einnig er lagt til, að í stað orðanna „klukkan 13“ í 3. málsgr. 2. tölul. komi „klukkan 1 síðdegis.“ Mig undrar það, þó að það hafi ekki mikla þýðingu, að slíkt orðatiltæki eins og þetta skuli vera komið inn í málið í frv. Það er nú ekki almennt sveitamál a. m. k., og hefur þó um þetta fjallað jafnhagorður maður og hæstv. ráðh., sem ég veit að er mjög næmur fyrir öllu því, er lýtir íslenzka tungu. Hann mun varla fremur kjósa, að hér standi „klukkan 13“ heldur en „klukkan 1 síðdegis.“ Þetta er nú að vísu aðeins um málið sjálft, en ekki um efni gr., en mér fyndist nú, að það væri eðlilegra, að þessi breyting yrði samþ.

4. brtt. mín er við 7. gr. og er eingöngu afleiðing af þeirri breytingu, sem ég hef lagt til í sambandi við 1. gr., og þarf ég þá ekki heldur að ræða það nánar.

5. brtt. er við 8. gr., að gr. umorðist eins og hér stendur og orðist þá þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nú vanrækir leigutaki að flytjast brott, eftir að leigumáli er útrunninn, og getur leigusali þá krafizt þess, að leigumáli framlengist, unz leigutaki segir húsnæðinu upp samkvæmt ákvæðum 7. gr.“ En í 8. gr. stendur nú, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur leigumáli verið gerður til ákveðins tíma, sá tími er útrunninn, en leigusali hefur ekki skorað á leigutaka innan eins mánaðar frá því að leigumáli rann út að flytjast brott, og verður leigumálanum þá einungis sagt upp samkvæmt ákvæðum 7. gr.“ Hvers vegna á að fara að lögbjóða það, að menn séu skyldugir til þess að áminna aðra menn um að halda samninga? Það er búið að gera samning um ákveðinn tíma og sá tími er útrunninn. Samt á að leggja þá skyldu á annan aðilann, að hann verði að vekja hinn manninn, benda honum á það, að hann verði að halda samninginn, og ef hann hefur ekki gert þetta mánuði áður en leigutíminn er útrunninn, þá á hann ekki að hafa rétt til þess að láta leigutaka fara samkv. gerðum samningi. Hvaða siðferði er eiginlega verið að innleiða hér í viðskiptum á milli manna? Hvað ætli menn segðu við því, ef menn skrifuðu upp á víxil, sem gildir í 3 mánuði, bankinn hefði ekki tilkynnt aðila mánuði fyrir greiðsludag, að greiða bæri víxilinn, en viðkomandi aðili segði þá bara: Ja, þú verður að gera svo vel að láta víxilinn standa í aðra þrjá mánuði til, af því að þú hefur gleymt að minna mig á það með mánaðar fyrirvara að greiða víxilinn. — Ég verð að segja, að það hlýtur að vera einkennilegur hugsunarháttur hjá þeim mönnum, sem hafa samið slíkt ákvæði og ætla sér að taka það í lög. Það er ekki til þess að hvetja menn til að venja sig á að vera ábyrgir gerða sinna í viðskiptum almennt. Ég hef því lagt til, að gr. yrði orðuð um, eins og ég þegar hef lýst hér.

6. brtt. mín er við 11. gr., þ. e., að orðin „meindýralaust“ í 1. málsgr. falli niður. Í þessari gr. er sagt og svo einnig tekið upp í 32. gr.: „Leigusali skal á umsömdum tíma afhenda leigutaka hið leigða húsnæði í góðu lagi, hreint og meindýralaust“ og svo síðan „með heilum gluggarúðum“ o. s. frv. Veit nú ekki hæstv. ráðh., að um útrýmingu meindýra gilda alveg sérstök l. og að það eru aðrir aðilar, sem taka að sér að útrýma meindýrum bæði úr húsum og borgum? Hvers vegna á að taka þessa skyldu af þeim aðilum? Ég veit ekki betur en að það séu bæirnir og sveitarstjórnirnar, sem hafa þá skyldu að láta eitra fyrir rottur og önnur meindýr í húsum. Og hvaða afleiðing yrði raunverulega af þessu, ef þetta yrði samþykkt og nokkrum manni dytti í hug að framfylgja því? Nú skulum við hugsa okkur, að það væri útilokað að útrýma rottum að fullu og öllu t. d. úr gömlum timburhúsum eða kakkalökkum eða jafnvel veggjalúsum. Þá ætti viðkomandi húseigandi að láta húsnæðið standa ónotað, þar til hann gæti verið búinn að uppfylla þetta lagafyrirmæli. Ekki mundi það nú bæta húsnæðisekluna í Reykjavík, en hinu gæti ég trúað, að ef þessi l. næðu fram að ganga og þeim yrði beitt, þá væru þeir ekki svo fáir, sem heldur kysu að fylla húsin með meindýrum, með rottum og músum og veggjalúsum og kakkalökkum, heldur en að fá suma af þeim mönnum inn, sem húsaleigumiðstöðin mundi senda inn í húsin gegn vilja eigendanna. Það er kannske til þessa ætlazt af hæstv. ráðh. Það er þó a. m. k. nokkur tilhliðrunarsemi við þessa vesalings píslarvotta, sem hæstv. ráðh. er að ofsækja hér í þessu máli. Ég legg til, að þetta orð verði fellt niður.

7. brtt. mín er við 12. gr., að í stað orðanna „að tefla“ í lok 2. málsgr. komi „að ræða“. Þetta er í samræmi við það, sem ég hef lagt til áður í sambandi við 3. brtt.

Þá er b-liður till., að orðin „eða hefði átt að verða þeirra var“ í niðurlagi síðustu málsgr. falli niður. Í 12. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nú koma síðar fram annmarkar á húsnæði, sem ekki voru sjáanlegir við venjulega athugun, þegar húsnæðið var afhent, og skal leigutaki þá kvarta undan þeim innan 3 vikna frá því er hann varð þeirra var“ — og svo er haldið áfram hér: „eða hefði átt að verða þeirra var.“ Hvaða hugsun liggur nú á bak við svona orðalag eins og hér er ákveðið í löggjöf, og hvaða deilum kemur slíkt lagafyrirmæli til þess að valda, að fyrirskipa, að aðili skuli missa eða fá einhvern rétt frá þeim tíma, er einhver maður hefði átt að verða einhvers var? Ég verð þá að segja það, að það er þó betra, að hann sé ekki fjarverandi allan þann tíma, sé ekki t. d. úti á togara í von um að fá 1/3 af tekjum sínum skattfrjálsan eða á ferðalagi í öðrum löndum eða bara hreint og beint á fylliríi, svo að hann þess vegna hefði ekki haft fulla dómgreind á því að sjá þessa galla. En hann á samt sem áður að vera ábyrgur fyrir þessu, ef bara sú stund er komin, sem hann hefði átt að verða þeirra var að dómi hins aðilans. Ég legg því til, að þessi orð hér í enda gr. verði felld niður. — Ég var, herra forseti, að líta á klukkuna. Ég býst við, að ég verði ekki búinn hér kl. 12, og þykir það mjög leiðinlegt vegna hæstv. ráðh., sem hefur komið hér í kvöld.

8. brtt. er við 15. gr. Fyrri liðurinn, a, er um það, að 2. málsgr. falli niður. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ef hið ólögmæta atferli hefur einungis í för með sér minni háttar skerðingu á leiguafnotum, getur leigutaki ekki rift leigumála.“ Hvers vegna á að vera að setja inn í almennan lagabálk svona ákvæði, sem áreiðanlega hlýtur að valda stórkostlegum deilum og ágreiningi á milli leigusala og leigutaka? Hver á þá að dæma um það, hvað er minni háttar skerðing og hvað er meiri háttar skerðing? Jú, þetta kann að verða til þess að ala lögfræðingana í landinu, svo að þeir geti haldið áfram að skera úr um það, deila um það fyrir undirrétti og hæstarétti, hvað sé minni háttar skerðing og meiri háttar skerðing. Ég legg því til, að þessi ákvæði séu felld niður. Síðari brtt. við þessa gr. er um það, að orðin „og annarra“ í 3. málsgr. falli og niður. Það þarf ekki frekari skýringa við.

9. brtt. mín er við 16. gr., þ. e., að síðari málsgr. falli niður. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ef bannið takmarkar afnotin einungis í minni háttar atriðum, getur leigutaki einungis krafizt hlutfallslegrar lækkunar á leigu.“ Hér er sams konar ákvæði, sem hlýtur að skapa deilur á milli þessara aðila, hlutir, sem þessir aðilar eiga að vera frjálsir að semja um, en á ekki að þurfa að setja inn í almenn lagafyrirmæli. Ég legg einnig til, að þessi málsgr. verði felld niður.

10. brtt. mín er við 18. gr., að aftan við gr. bætist: „nema öðruvísi semji“. Þar stendur í 1. málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Húsaleigu skal greiða fyrir fram mánaðarlega, nema öðruvísi semji.“ Hér er þó ekki tekinn samningsrétturinn af þessum aðilum, en í síðustu málsgr. er samningsrétturinn tekinn af. Þar er sagt: „Nú er húsaleiga greidd fyrir fram um lengri tíma en 6 mánuði, og skal leigusali þá greiða leigutaka 6% vexti af fjárhæðinni.“ Það er alveg sama, þó að vextirnir fari hér í landinu upp í 10%, þá má ekki taka nema 6%, og það er alveg sama, þó að þeir færu niður í 2%, þá skal þó taka 6%. Þess vegna hefði ég viljað láta bæta hér við: „nema öðruvísi semji“. Hvers vegna á að vera að taka samningsréttinn af aðilum í sambandi við vaxtabyrðina, þegar hann er ekki tekinn af þeim í sambandi við fyrirframgreiðslu? Þetta sýnir ljósast, að frv. er samið af handahófi og engan veginn verið hugsað af þeim aðilum, sem hafa verið fengnir til þess að semja það. Það hefur beinlínis verið kastað til þess höndunum.

11. brtt. mín er við 21. gr., þ. e., að aftan við gr. bætist: „Um viðhald íbúða fer eftir samkomulagi milli leigusala og leigutaka.“ Í 21. gr. er sagt, að leigusala sé skylt að halda leiguhúsnæði vel við, að því er tekur til alls utanhúss, svo sem þaki o. s. frv. En þar er einnig sagt: „Leigusali skal einnig hafa í góðu lagi allar leiðslur“ o. s. frv., þ. e. a. s., það er lögð viðhaldsskylda á leigusala um allt það, er lýtur að viðhaldi utanhúss og á öllum leiðslum utan- og innanhúss, og þetta er alveg eðlilegt. En síðan er frekari viðhaldsskylda lögð á herðar leigutaka, og það álít ég að sé rangt, þess vegna er þessi brtt. mín borin fram. En ég kem að því síðar, þar sem ég legg til, að sú gr. verði felld niður.

Næsta og 12. brtt. mín er við 28. gr., og hún er einmitt um viðhaldsskyldu leigutaka. Hér er fyrirskipað, að leigutaki skuli annast á sinn kostnað allt viðhald þess húsnæðis, er hann hefur á leigu og leigusala ber ekki að annast samkvæmt 21. gr., þ. e. a. s., hann á að halda við öllu húsnæði innanhúss. Er hér farið inn á alveg nýja braut, en það hlýtur að skapa ákaflega mikið ósamkomulag á milli þessara tveggja aðila. Síðan á að meta húsnæðið, þ. e. a. s. taka húsnæðið út, þegar leigutaki fer inn, og síðan á aftur að meta ástand íbúðarinnar, þegar hann fer út, og ef hann hefur gert svo mikið við húsnæðið, að það sé meira en eðlilegt viðhald, þá á leigusali að borga mismuninn. Nú skulum við hugsa okkur, að inn í þessa íbúð færi maður, sem hefði nóga peninga. Hann munaði ekkert um að fóðra íbúðina með útsaumuðu veggfóðri, hvert íbúðarherbergi, mála þau með skrautmálningu og gera þetta vel og glæsilega úr garði, sem væri kannske einskis virði fyrir leigusala, en leigusali yrði að gera svo vel að taka við þessu og borga þann mismun eftir mati þessara manna, borga allt það fé, sem þessi maður hefði sett í íbúðina, þó að hann hefði ekki verið í henni nema einn eða tvo mánuði, innan þeirra takmarka, sem þessir tveir menn, sem ættu að meta, kæmu sér saman um. Það sér nú hver maður, hvaða áhrif þetta ákvæði kæmi til með að hafa hér í þessum bæ. Það væri til þess, að það þyrði bókstaflega enginn húseigandi að leigja öðrum manni nema fá fullkomna tryggingu fyrir því, að viðkomandi aðili færi ekki að gera slíka hluti, því að það væri ekki einungis sama og að eyða allri húsaleigunni, heldur yrði leigusali kannske að selja íbúðina eða húsið á uppboði til þess að ljúka greiðslu á þeirri skuld, sem annar hefði þannig stofnað og fært þannig fjárhagskröfur á hendur leigusala með aðferðum sínum. Þetta var líka viðurkennt af fulltrúa leigutakans, hann vildi sjálfur ekki viðurkenna, að þessi gr. ætti að vera í frv. Hann viðurkenndi alveg réttilega, að þetta mundi skapa sífellda óánægju, sífellt stríð, sífellt hatur á milli þessara aðila og að þessi gr. yrði að fara út úr frv. Þetta vissi hv. meiri hl. vel, eða þeir af hv. meiri hl., sem voru á fundinum.

Þá vil ég benda á, hvaða kostnað það hefur í för með sér að þurfa að fara að meta af tveimur mönnum allar þær íbúðir, sem skipta um leigjendur, tvisvar á ári eða oftar. Við vitum, að undir hinu venjulega ástandi fyrir ófriðinn var ekkert óvenjulegt, að menn skiptu hér um tvisvar sinnum á ári, 14. maí og 1. október. Ætli það mundi ekki þurfa eina 2000 menn hér í Reykjavík þessa tvo daga til þess að meta húsnæði? Ætli það gæti ekki vel farið svo, að það yrði flutt úr hér um bil þúsund íbúðum á hvorum flutningsdegi, og kannske meira en það, og ekki þarf minna en tvo menn við hverja skoðun? Það kynni að verða miklu meira en þúsund íbúðir, sem skiptu um íbúa tvisvar á ári. Þær kynnu að fara upp í einar — ja, ég veit ekki hvað margar íbúðir — það er alveg órannsakað, en vitað er, að tveir menn mundu ekki komast yfir að meta meira en 5 íbúðir á dag. Það er ekkert óeðlilegt að reikna það, að þeir þyrftu upp undir tvo klukkutíma til þess að meta hverja íbúð, skrá ástand þeirra og ganga frá því og meta það, og þá segir sig sjálft, hve marga menn þarf til þess að inna slíkt verk af hendi. Það er engin grein í þessu frv., sem sýnir, hversu mikil fávizka þetta er allt saman, eins og einmitt þessi grein hér, því að hún sýnir, að þessir menn, sem sömdu frv., hafa ekki haft hugmynd um, hvað þeir voru að gera. Þeir menn hafa ekki kynnt sér nokkurn skapaðan hlut það ástand í þessum bæ eða í bæjum yfirleitt, sem leyfa sér að setja svona inn í lög og miða þetta aðeins við örfáa menn, sem skipta um jarðir í sveitarfélagi, þar sem kannske kemur ekki fyrir, að sé skipt um nema einn ábúanda eða kannske hæst tvo ábúanda í hreppnum á ári hverju.

Ég sé, að klukkan er orðin 12, en ég á hér töluvert eftir af ræðu minni, svo að ég mun fresta henni. (Landbrh.: Herra forseti. Ég vildi óska eftir að fá að tala hér nokkur orð, áður en fundi lyki.) Í kvöld? (Landbrh.: Já, það verða ekki nema — —) Ja, ég vil gjarnan verða við þeim tilmælum hæstv. ráðh. og fresta minni ræðu og tek svo til aftur, þegar málið verður tekið á dagskrá næst. Ég vil ekki á neinn hátt meina hæstv. ráðh. að tala hér í kvöld og skal þá fresta minni ræðu. [Frh.]