06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

125. mál, húsaleiga

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan vera löghlýðinn maður, og þar sem hæstv. forseti þessarar deildar, sem virðist nú vera allmikill einræðisherra hér í Ed., mælti svo fyrir, að ekki skyldi fundur vera nema til kl. 12, þá vil ég að sjálfsögðu ekki brjóta þá reglu. En af því að ég er nú búinn að vera hér þrjá eða fjóra klukkutíma í kvöld og hef hlustað á meira en klukkutíma ræðu hv. þm. Barð., þá finnst mér, að ég megi til með að segja hér örfáar setningar, áður en þessum fundi er slitið í kvöld.

Ég skal taka það fram, að ég þakka hv. þm. Barð. fyrir þau hlýju ummæli, sem hann hefur haft til mín, um að ég væri greindur maður og fram eftir þeim götunum, en þó hefur mér nú orðið á að gefa út þetta óskaplega plagg, þ. e. frv. til l. um húsaleigu, sem hann hefur nú verið að lýsa og er þó ekki búinn nema að hálfu leyti enn. Þetta er því dálítið einkennilegt að sumu leyti. En það, sem ég vildi taka hér fram núna, er það, að ég tel mér skylt á framhaldsfundi — og geri kröfu til þess, að sá fundur verði á morgun — að gera grein fyrir því, að það eru ótrúlega miklar sögulegar skekkjur í því sem hv. þm. Barð. hefur flutt hér. Og ég verð að lýsa því yfir, að ég er dálítið undrandi yfir því, af því að það liggja fyrir nokkuð glöggar upplýsingar um þetta mál frá upphafi, að hann skuli hafa lýst þessu eins og hann hefur gert. Hann hefur hér mjög talað um það, að þeir vondu framsóknarmenn, sem alltaf eru að ofsækja Rvík, hafi verið óskaplega vondir og verið að ofsækja höfuðborgina með þessu frv. sínu. Þetta er nú ekki neitt nýr söngur hjá Sjálfstfl., og hv. þm. Barð. gengur hér fram fyrir skjöldu, en ég ætla mér við framhaldsumræðu þessa máls hér að færa sönnur á það, að það eru ekki eingöngu framsóknarmennirnir, sem hafa hér verið að vega að Rvík, ef um það er að ræða, heldur eru það fulltrúar helztu ráðamanna Reykjavíkurbæjar, eins og fulltrúi borgarstjórans, eins og maður, sem var fulltrúi Fasteignaeigendafélagsins hér í Rvík, sem hefur unnið að samningu þessa frv. Og ég mun við framhaldsumræðu málsins færa full rök að þessu.

Það var þetta, sem ég vildi leyfa mér að taka hér fram nú, en mun að öðru leyti áskilja mér rétt til þess að vera fyrstur á mælendaskrá við framhaldsumræðu málsins á morgun.