07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

125. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) [frh.] :

Herra forseti. Þegar umr. var frestað hér í gærkvöld, hafði ég gert grein fyrir 10 brtt. mínum á þskj. 640 og skal þá ræða hér um 11. brtt., þ. e. við 21. gr., um það, að aftan við gr. bætist: „Um viðhald íbúða fer eftir samkomulagi milli leigusala og leigutaka.“ Ég minntist ofur lítið á þetta í gær, að ég teldi heppilegast, að það væri samningsatriði á milli þessara aðila, og að það væri mjög óheppilegt að setja það inn í l., að viðhaldsskyldan skyldi ekki hvíla á leigusala, eins og gert er ráð fyrir í 21. gr., og skal því ekki ræða frekar um það atriði.

12. brtt. mín, við 28. gr., er, að gr. falli niður, en hún er um viðhaldsskyldu leigutaka. Ég benti nokkuð á það í gær í minni ræðu, hversu óheppilegt væri að setja slíka kvöð á leigutaka eins og gert er í VI. kafla l., 28. gr., enda hefur þessari gr. verið mjög harðlega mótmælt af fulltrúa Leigjendafélagsins, sem einnig hefur á þessu sama skilning og telur, að þetta ákvæði sé mjög illa þokkað meðal leigjenda í landinu. Að vísu er þetta nokkuð mildað með seinni málsgr., þar sem sagt er þó: „Ákveða má með samningi aðra tilhögun á viðhaldsskyldu en í þessari gr. og 21. gr. segir.“ Liggur þar í viðurkenning fyrir því, að stórkostleg veila sé í þessum fyrirmælum, sem fram eru komin hér í báðum þessum gr., og væri því eðlilegast að fella 28. gr. niður.

13. brtt. er við 32. gr., þ. e., að 32. gr. falli niður, en hún er um þá skyldu, sem lögð er á leigutaka að skila húsnæði aftur meindýralausu, eftir að hann hefur tekið við því. Ég tel, eins og ég tók fram í ræðu minni í gær, að hér sé um að ræða skyldu, sem hvíli á allt öðrum aðilum en leigutaka og leigusala, og þess vegna eigi ekki með nýjum lagaákvæðum að taka neinn hluta af þeirri skyldu af sveitar- og bæjarfélögunum.

14. brtt. mín er við 33. gr., þ. e., að í staðinn fyrir orðin „nákominn ættingja“ komi „nákomna vandamenn“. Ég tel, að það eigi alveg eins að vera heimilt um stundarsakir að taka í húsnæði nákomna vandamenn, svo sem unnustu sína t. d. eða einhverja slíka nákomna vandamenn. Ég sé nú, að hæstv. forseti brosir, og getur það verið siðferðislegt atriði, hvort það ætti að leyfa, en mér finnst nú, að það sé of þröngur stakkur skorinn hér, að það sé endilega átt við nákomna ættingja, heldur geti einnig átt við nákomna vandamenn. Er það að sjálfsögðu ekki neitt stórkostlegt atriði.

15. brtt. er við 34. gr., þ. e. að greinin falli niður. Ef felld verður niður viðhaldsskyldan, þá er það afleiðing, að þessi gr. verði einnig felld niður. Hér er um að ræða heilan hóp manna, sem þarf að starfa að úttekt, eins og gert er ráð fyrir hér í gr., og ég tel, að það sé mjög óheppilegt, að slíkt ákvæði sé bundið í lögum.

16. brtt. er við 35. gr. Það er einnig afleiðing af því, ef aðrar brtt. verða samþ. Hún ákveður einnig um úttektarmenn húsnæðis. Hér er sagt, að það skuli vera aukafasteignamatsmenn, sem hafi slíkt með höndum. Ég sé nú, að hv. meiri hl. hefur borið fram brtt. um þetta og telur, að þetta eigi að vera samningsatriði eða geti verið samningsatriði á milli leigutaka og leigusala, en ég tel, að bezt fari á því, að þessar gr. séu felldar niður að fullu og öllu.

17. brtt. er við 36. gr., í staðinn fyrir „tvær klukkustundir annan hvern virkan dag“ í 2. málsgr. komi „eina klukkustund á viku“. Ég tel, að það sé allt of mikil skylda lögð á leigutaka, að hann sé skuldbundinn til þess að sýna íbúð, sem verið er að leigja öðrum aðila og það kannske gegn hans vilja, — að hann skuli fara frá vinnu eða hafa einhvern mann á launum til þess að sýna íbúð tvær klukkustundir hvern virkan dag. Ég held það sé nægilegt að sýna slíka íbúð eina klukkustund á viku, ef ekki er um það samkomulag að öðru leyti.

18. brtt. mín er við 40. gr., þ. e., að orðin „nema af hendi leigusala séu fram færðar gildar ástæður, er mæla því í gegn“ falli niður. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þetta ákvæði þannig. Það veldur aðeins deilum í sambandi við þessi mál, og flest ákvæði í lögum, sem deilum valda, eiga að hverfa í burtu.

19. brtt. er við 41. gr., um það, að síðari málsl. fyrri málsgr. falli niður, eða sá liður, sem hér segir: „Það hjóna, sem hefur vegna atvinnu sinnar afnot af leiguhúsnæði, skal hafa forgangsrétt til áframhaldandi leigu á því, svo og nauðsynlegrar íbúðar, sem því kann að vera tengd.“ Ég tel, að þetta sé ákvæði, sem eigi að kveða á um með skilnaðarbréfi, og að það sé síður en svo, að löggjafinn eigi að fyrirbyggja það, að konan, sem e. t. v. þarf miklu meira á húsnæðinu að halda fyrir sig og sín börn, verði að víkja úr íbúðinni með barnahópinn. Ég tel, að það sé alveg óviðeigandi, að slíkt sé sett inn í l. Hins vegar er sjálfsagt, að um þetta sé ósamið. Kemur þá til úrskurðar fyrir dómi, þegar svo stendur á, ef ekki næst samkomulag milli viðkomandi aðila. Það er rangt að fyrirskipa með lagafyrirmælum, að konan skuli hér hafa minni rétt til íbúðar. Vitað er, að konan hefur rétt til þess að halda öllum börnunum og að ekki er hægt að dæma þann rétt af henni, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Ég tel óviðeigandi, að það skuli þó vera hægt að taka af henni húsnæðið á þennan hátt, og vænti því, að sú brtt. verði samþ.

20. brtt. er við 44. gr., þ. e., að orðið „stórra“ í síðustu málsgr. falli niður. Þar segir svo nú: „Nú er hegðun sú, sem leigutaka er gefin að sök, ekki stórra víta verð.“ Hér er ákvæði, sem hlýtur alltaf að valda töluverðri deilu og á því ekki að vera í löggjöfinni að mínu áliti.

21. brtt. er við X. kaflann, þ. e. 48.–69. gr., og ég hef lagt til, að sá kafli verði felldur alveg niður úr frv. Ég tel það afar óeðlilegt, að Alþ. sé að gefa sveitarstjórnum í landinu slíka heimild eins og hér er gert í þessu frv. Ég talaði nokkuð um það í gær og skal ekki endurtaka það. Það er alveg nýmæli og tvímælalaust óviðeigandi, að slíkt fyrirmæli sé sett í lög. Sveitarstjórnir fá að sjálfsögðu heimild til þess að gera hluti, sem nauðsynlegt er að gera á hverjum tíma, og verða þá að bæta það að fullu, ef skerða þarf eignarrétt annarra manna. En ég tel óviðeigandi að gefa svona víðtæk heimildarákvæði eins og hér er gert í þessum kafla og alls ekki sæmandi fyrir Alþ. að setja slíka löggjöf.

Sama er með 22. brtt., sem er við XI. kafla, þ. e. 70. 73. gr. Er lagt til, að kaflinn falli niður. Þessir tveir kaflar verða raunverulega ekki aðskildir, enda báðir heimildarákvæði. Með ákvæðunum um húsaleigumiðstöð er verið að taka ráðstöfunarréttinn af húseigendum, eins og ég minntist einnig á í gær og skal ekki endurtaka hér. Tel ég, að það sé algerlega óviðeigandi af Alþingi að láta lögfesta slík ákvæði.

Svo er síðasta brtt. við XII. kaflann, þ. e. 74.–75. gr. Hún er einnig afleiðing af hinum till., ef þær verða samþ., því að það snertir einnig þá kafla, sem ég þegar hef lýst.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins lengja þessar umr. Ég hef gert fulla grein fyrir afstöðu minni í málinu, og ég vænti þess, að frv. verði breytt í það horf, sem ég legg til á þskj. 640, og allar mínar brtt. þar verði samþ.