08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

125. mál, húsaleiga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem fram hefur verið tekið nógsamlega í þessum umr., þá er í þessu frv. í raun réttri um tvö gerólík mál að ræða: annars vegar almenn húsaleigulög, sem eiga að gilda um alla framtíð, taka gildi nú þegar og gilda hvarvetna á landinu, þar sem þau eiga við, hins vegar ákvæði, sem eiga að miðast við sérstakt neyðarástand í tilteknum hlutum landsins, og ég verð að telja, að það sé mjög óheppilegt að blanda þessu tvennu saman. Það er enginn vafi á því, að það er skynsamlegt og æskilegt, að almenn húsaleigulög séu sett, sem verði til uppfyllingar og skýringar á samningum þeim, sem leigusali og leigutaki gera sín á milli, svipað því, sem sams konar lagabálkar hafa verið settir um ótalmörg viðskipti manna.

Hitt er allt annað, hvort menn telja ástæðu til þess að setja sérstök neyðarákvæði, sem eiga að gilda staðbundið og um tiltekinn tíma, og það er alveg ljóst, að þeim, sem hafa áhuga fyrir þeim almennu húsaleigulögum, þeim almennu reglum um viðskipti manna út af húsaleigu, hlýtur að vera gerður ógreiði, ef þeir hafa raunverulegan áhuga fyrir því máli, að blanda hinu atriðinu hér inn i. Ég þykist að vísu vita, að hv. þm. Str. (HermJ) segi, að hér veki ég enn athygli á því, sem hann segir að ég geri oft, að menn blandi saman tveim óskyldum atriðum, en það er vissulega ástæða til þess að gera það hér, vegna þess að í þessu frv. er það gert á átakanlegan hátt og til þess að rugla mál og gera það óljósara og skapa deilur, sem þyrftu ekki að vera varðandi meginefni þessa máls.

Varðandi aðalefni þessa frv., hin almennu ákvæði um húsaleigu, þá tek ég undir það, sem hæstv. forseti þessarar d. sagði í sinni ýtarlegu og skilmerkilegu ræðu, að ef slík ákvæði eru samin skynsamlega og skýrlega, þá séu þau til góðs, og ég tel engan vafa á því, að margt í þessum ákvæðum, sem hér er lagt til að sett verði, sé til góðs. Hins vegar get ég ekki varizt því að telja, að sumt í reglunum hafi ekki verið íhugað sem skyldi og að málið allt þurfi nánari athugun en það enn hefur fengið. Og er þó raunar sumt í því, sem manni virðist að hlyti að vera sett af fljótræði, eftir því, sem nú er komið fram, sett af ásettum hug, en það er þeim mun ískyggilegra. Það var sem sé mjög eftirtektarverð sú yfirlýsing, sem hæstv. félmrh. gaf hér á þingfundi í gær, og hún var sú, að hann teldi, að þessi lög ættu að gegna svipuðu hlutverki og ábúðarlögin varðandi jarðeignir frá 1933, sem hefðu leitt til þess, að jarðeigendur, sem bjuggu ekki á jörðum sínum sjálfir, hefðu yfirleitt neyðzt til þess að selja jarðeignir sínar. Þetta er ákaflega eftirtektarverð yfirlýsing. Ég er því fyllilega sammála, að það sé æskilegt, að sem flestir bændur geti búið á eigin jörðum, og við sjálfstæðismenn áttum einmitt langa hríð við Framsfl. út úr því, að framsóknarmenn voru á þeirri skoðun, að heppilegra væri, að ríkið smásölsaði jarðirnar undir sig, heldur en að þær væru í sjálfsábúð. Þarna erum við á gersamlega annarri skoðun en Framsfl. (Gripið fram í.) Já, sumir. Það er einmitt alveg rétt, sem hv. 1. þm. N-M. hér kallar fram í, að þó að Framsfl. í heild hafi séð sig um hönd í þessu og sé nú kominn inn á þá skoðun sjálfstæðismanna, að það sé æskilegra að hafa sjálfsábúð, þá eru einstaka, sem standa eins og klettar úr hafinu, eins og hv. þm. N-M., sem er óhagganlegur á hinni gömlu skoðun flokksins, að ríkiseign á jörðunum sé betri. En við skulum ekki blanda þessu deilumáli í húsaleigumálið. Það er nógu flókið fyrir því. Ég tek líka undir það, að það sé æskilegt, að sem flestir menn eigi sínar íbúðir, og þess vegna m. a. hafa sjálfstæðismenn haft forustu um langmest af framkvæmdum af hálfu ríkisvaldsins og bæjarfélaga um byggingu smáíbúðarhúsanna. Þetta er stefnt í rétta átt. Af sömu ástæðu beittu sjálfstæðismenn sér fyrir skattfrelsi á þeirri vinnu, sem menn legðu fram til að byggja eigin íbúðir. En jafnframt því, sem við segjum og stöndum við í framkvæmd og beitum okkur fyrir, að einstaklingarnir eigi sem allra flestir að eiga sínar íbúðir, þá gerum við okkur það ljóst, að enn eru þúsundir manna í þessu landi og í þessu bæjarfélagi, sem Alþ. er háð í, sem hafa ekki nein tök á því að eignast eigin íbúðir og eru í algerlega ófullnægjandi húsnæði. Til þess að létta mein þessara manna er nauðsynlegt, að aðrir aðilar hlaupi undir bagga og hjálpi þeim. Meðal annars af þeim sökum beitti ég mér fyrir því, þegar ég var borgarstjóri í Reykjavík, að bæjarstjórnin lét reisa nokkra tugi íbúða við Skúlagötu hér í bænum, þar sem hægt var að hjálpa þeim fátækustu borgurum um húsnæði, sem gátu ekki með neinu móti eignazt hús yfir sig sjálfir, gátu ekki eða höfðu ekki efni á því að taka þátt í byggingu verkamannabústaða og höfðu ekki efni á því að ráðast í þeim mun meiri framkvæmdir í þessum efnum. Þarna varð bærinn að nokkru leyti að hlaupa undir bagga. En það er auðvitað allra sízt ástæða til þess að hindra, að einkafjármagn leiti í þennan farveg til þess að bæta úr þessari brýnu þörf. Þeim mun meira af einkafjármagni sem leitar í að byggja hús, sem fullnægja settum reglum, til þess að leigja þessu fólki undir eftirliti almannavaldsins að öllu leyti, þeim mun minni þurfa aðgerðir sjálfs almannavaldsins að verða til þess að bjarga úr neyð og vandræðum þessara manna.

Það er þess vegna algerlega misráðið og beint afturfararspor í húsnæðismálum, það er tilræði við þá, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, ef sett eru almenn lög, sem samkvæmt yfirlýstri stefnu aðalmannsins, sem beitir sér fyrir löggjöfinni, eiga að horfa í þá átt að gera mönnum ómögulegt að eiga hús til þess að leigja út. Það er beinlínis stefnt gegn þjóðfélaginu með slíkum lögum. Það er gert til þess að draga úr og hindra, að hægt sé að ráða bót á svo sem skyldi því neyðarástandi, sem nú er í húsnæðismálum, ekki aðeins hér í þessu bæjarfélagi, heldur víðs vegar um landið. Því er ekki að neita, að sjálfur aðalkafli þessa frv., hin almennu ákvæði um húsaleigu, mótast um of af þessum hugsunarhætti. Þess vegna tel ég, að jafnvel þó að aukakaflarnir varðandi neyðarráðstafanirnar væru felldir niður, þá þurfi sjálfur aðalkafli laganna miklu betri skoðun en hann enn hefur fengið. Og sannast sagt hafa menn ekki áttað sig til hlítar á þessum rauða þræði, sem þarna gengur í gegn og berlega kom í ljós við þessa yfirlýsingu hæstv. félmrh.

Það, sem menn áður töldu að væri vansmíð á frv., vegna þess að ekki hefði verið nógu vel að gáð, sést nú vera sett af ásettu ráði í því skyni að meina mönnum og hindra, að menn eigi íbúðir til þess að leigja öðrum út, og þetta tel ég vera ákaflega misráðið, fullkomið spor aftur á bak. Um leið og ég legg áherzlu á, að það er auðvitað mjög mikilsvert og má ekki bregðast, að hjálpað sé til, að menn geti eignazt sem allra flestir eigin íbúðir, þá verðum við að horfa á staðreyndirnar eins og þær eru, og þær eru þannig, að þúsundir manna geta ekki komið yfir sig eigin íbúðum og verða að fá leigt, og það er þess vegna fullkomin ástæða fyrir almannavaldið til þess að ýta undir, að fjársterkir aðilar leggi fram fé til þess að byggja skapleg hús yfir þessa menn og leigi þeim það húsnæði út.

Ég tel, að hv. dm. og hv. Nd., þar sem ekki var verulegur ágreiningur um þessa aðalkafla frv., hafi ekki til hlítar áttað sig á því, hvað í þessu felst, sem ekki er von, þar sem ég hygg, að svo ber yfirlýsing sem hæstv. félmrh. gaf hafi ekki komið fyrr fram í málinu en hér í gær, a. m. k. hafði ég ekki heyrt hennar getið áður.

Ég skal nú ekki fara að eltast við einstök ákvæði í þessum lögum. Ákvæðin verða miklu skiljanlegri, þegar menn átta sig á þessari meginyfirlýsingu hæstv. félmrh., og hún sýnir, eins og ég segi, að það þarf að athuga allan fyrri hluta frv. út frá þessu sjónarmiði, og tekur þá ekki að vera að eltast við sparðatíning í þeim efnum. Ég kemst þó ekki hjá því að minnast á, að t. d. 21. gr. frv. er orðuð allsendis ófullnægjandi og þarf mjög leiðréttingar við, jafnvel af hálfu þeirra, sem frv. eru fylgjandi að öðru leyti. En það, sem er eftirtektarverðast í þessu, er annars vegar ákvæðin í 28. gr. og hins vegar 34. gr. Samkvæmt þessum ákvæðum fæ ég ekki betur séð heldur en að það felist í frv., að leigutaki hafi rétt til þess án samþykkis húseiganda að gera endurbætur á húsnæði, sem hann hefur tekið á leigu, og að leigusali verði skyldugur til þess að borga honum þessar endurbætur eftir mati, þegar leigutaki hverfur á braut. Í 28. gr. segir:

„Leigutaki þarf þó ekki að endurbæta húsnæðið, hafi það legið undir skemmdum, þegar hann tók það á leigu.“

Hann þarf ekki að endurbæta húsnæðið. Almenn ályktun lögfræðinga af þessari grein hlýtur að vera sú, að hann megi endurbæta húsnæðið, ef honum svo sýnist. Og svo segir í 34. gr.:

„Úttektarmenn skulu meta til peningaverðs þann mismun, er á húsnæðinu kann að vera frá því, að leigutaki tók það á leigu.“

Þarna kemur berlega fram, að leigutaki má endurbæta húsnæðið eins og honum sýnist og leigusali verður að greiða honum bætur eftir mati, þegar hann fer út, þó að þetta hafi ekki verið borið undir leigusala og jafnvel þó að leigusali hafi mótmælt því, að þessar endurbætur hafi átt sér stað á hans eign. Þetta ákvæði hefur í sér fólgna svo mikla gerbreytingu á réttarsambandi manna í þessum efnum, að ég trúi því ekki, að menn séu reiðubúnir til þess að samþykkja slík ákvæði, ef þeir gera sér grein fyrir, hvað í þeim felst. Ef ákvæðin eiga hins vegar ekki að taka til þessa, heldur aðeins til venjulegs viðhalds, þá er nauðsynlegt, að það komi miklu skýrara fram í sjálfum lögunum, og við verðum að ætlast til þess, að hæstv. félmrh. gefi um það alveg skýrar yfirlýsingar hér í hv. deild, hvað hann telur í þessum ákvæðum felast, vegna þess að samkvæmt venjulegum lögskýringarreglum hygg ég, að það sé erfitt að fá annan skilning út úr þeim heldur en þann, sem ég hef nú greint.

Mér væri ánægjuefni, ef hæstv. félmrh. vildi lýsa því yfir, að ég hefði misskilið þetta, en eins og þetta horfir við og meðan slík yfirlýsing liggur ekki fyrir, heldur einungis sú yfirlýsing hæstv. félmrh., að lögin séu sett til þess, að menn neyðist til að selja húseignir sínar — geti ekki áfram verið húseigendur, þá tel ég þetta vera eitt varhugaverðasta ákvæðið, sem sett hefur verið í löggjöf um langt árabil.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þessa almennu kafla frv. En út af X. og XI. kaflanum, þar sem um er að ræða neyðarráðstafanir, þá er rétt að minnast þess, sem hæstv. félmrh. sagði hér í gær, að hann mundi ekki vilja setja slík ákvæði, ef hann ætti sjálfur að kveða á um það, þó að hann vildi gefa öðrum heimild til þess að setja ákvæðin. Þetta er ákaflega einkennilegt, að flytja heimild og ætlast til þess, að aðrir megi gera það, sem hann vill ekki gera sjálfur. Ég held, að maður eigi sannast sagt að gera í þessu efni ekki minni kröfur til annarra heldur en sjálfs sín og a. m. k. að gera svo miklar kröfur til sjálfs sín, að maður eigi ekki hlut að því, að aðrir geri það, sem maður er sannfærður um að sé rangt. Þessi yfirlýsing hæstv. félmrh. var því í mesta máta einkennileg og með því furðulegasta, sem ég hef heyrt flutt fram til skýringar frv., sem maður sjálfur er aðalhvatamaðurinn að.

Hins vegar er þó eðlilegt, úr því að hæstv. félmrh. segist ekki sjálfur vera fylgjandi því, að sett séu þau ákvæði, sem hann vill heimila öðrum að setja, að spyrja: Hverjir hafa óskað eftir því, að þessi ákvæði væru sett? Hverjir hafa óskað eftir því? Hvaðan kemur sú ósk? Er eitt einasta sveitarfélag, stórt eða smátt, sem hefur farið fram á, að slík ákvæði væru sett? Þarna er um að ræða heimildir til handa sveitarfélögunum. Ráðherrann kemur hér og segir: Ég er sjálfur á móti því, að þessar heimildir séu settar. Getur hann bent á eitt einasta sveitarfélag, sem hefur borið fram ósk um, að þessi ákvæði væru sett? Ég hef ekki heyrt þess getið. Og það minnsta er, úr því að ráðh. sjálfur segist vera á móti því, að þetta sé sett í lög, að áður en þessi honum ógeðfelldu ákvæði eru lögfest, þá sé rannsakað, hvort nokkurt sveitarfélag sé því fylgjandi, að ákvæðin séu lögfest. Einnig af þessari ástæðu virðist mér alveg ótvírætt, að þörf sé á að athuga þetta mál betur og að það sé sent til umsagnar sveitarfélaganna í landinu eða a. m. k. þeirra samtaka. Það mundi enginn skaði skeður, þó að þau fengju málið til athugunar í sumar gegn því fororði, að þau hefðu skilað sínu áliti í haust, svo að þá lægi fyrir, hversu mörg sveitarfélög í landinu óska eftir þeim heimildum, sem hæstv. félmrh. flytur, en segist vera andvígur sjálfur að séu notaðar.

Það verður aftur á móti að taka fram, að ef menn vilja veita þessar heimildir, þá er auðvitað algerlega út í bláinn að binda það við staði, þar sem 500 íbúar eru eða fleiri. Þá er sjálfsagt að láta þetta taka til allra staða á landinu, þannig að öll sveitarfélög, þar sem neyðarástand er fyrir hendi, sem þarna greinir, geti notað þessi ákvæði. Það er engin ástæða frekar til þess að vantreysta íbúunum í hinum smærri sveitarfélögum heldur en í þeim stærri. Hæstv. félmrh. sagðist flytja þessar till. af því, að hann tryði á fólkið og að það misnotaði ekki þær heimildir, sem settar væru. En er það þá þannig, að hann vantreysti fólkinu, sem er í sveitarfélögum undir 500 mönnum að fjölda, en treysti mönnum þeim mun betur, eftir því sem fólkið er fleira saman komið? Ja, það er gott, ef það er orðin stefna okkar góðu vina í Framsókn. Hingað til hefur okkur virzt það væri öfugt. A. m. k. er það ljóst, að fólkið, þar sem það er flest saman komið, vantreystir framsóknarmönnum mest af öllum.

En látum vera, ef menn vildu beita þessum heimildum, að þá er algerlega ástæðulaust að láta sveitarfélag vera skyldugt til þess að beita öllum ákvæðunum í X. kaflanum. Það væri sök sér, að sveitarfélagið mætti þá velja úr, hverjum af þeim píningarákvæðum, sem þar eru sett, það vilji beita, en ég fæ ekki betur séð en ef það vill beita einhverju af því, sem stendur í X. kafla, þá verði það að beita öllu. Hafi ég mislesið þetta, þá er sjálfsagt að leiðrétta. (Gripið fram í: Það er hægt að sjá það í 1. gr.) En ég fæ ekki betur séð. Nú, „að einhverju eða öllu leyti.“ Ég bið afsökunar á því, ég hef mislesið það, en ég tók svo eftir, vegna þess að XI. kaflinn var sérstakur, að þá ætti hitt allt að hanga saman. En ég hef mislesið eða hlaupið yfir þetta ákvæði og þakka hv. þm. fyrir þá leiðréttingu.

Ég skal svo ekki rekja þetta frekar, en ég fæ ekki varizt því, að það er mjög ólíkt búið að leigutaka og leigusala. Samkvæmt því, sem ég sagði áðan, þá er leigusala skylt að endurgreiða endurbætur, sem leigutaki hefur gert á húsnæði hans, jafnvel í hans forboði, en samkvæmt 62. gr. segir:

„Heimilt skal leigusala og leigutaka að semja um viðhaldsskyldu húsnæðis á þann hátt, að leigusali hafi viðhaldsskyldu eignarinnar að meira eða minna leyti. Má þá leiga eftir húsnæðið hækka frá því, er 63. gr. ákveður, sem viðhaldinu nemur, þó aldrei meira en 15% af hámarksleigu þeirri, sem tiltekin er í 63. gr.“ Sem sé, þó að sannað sé, að viðhaldið sé miklu meira en þessum 15% nemur, þá á leigusali sjálfur að standa undir þeim kostnaði. (Gripið fram í: Ja, hann hefur það í hendi sér.) Það má segja, að hann hafi það, en það er þó ástæðulaust, ef hann hefur þarna lagt meira fram, að hann fái það ekki endurbætt. Hinn hefur það í hendi sér að hverfa úr húsnæðinu, ef hann vill, svo að það er ástæðulaust að gera þennan mismun á réttarstöðu manna.

Svo verð ég að segja um XI. kaflann, að það virðist ákaflega hart aðgöngu fyrir húseigendur, leigusala, ef á að neyða þá til þess að selja í hendur leigumiðstöðvar húsnæði, sem þeir hafa ráðstafað, til fullrar nýtingar. Þótt þeir hafi leigjanda, sem er fær um að nýta húsnæðið að fullu, þá fæ ég ekki skilið kaflann betur heldur en að leigumiðstöðin geti engu að siður tekið fram fyrir hendur þeirra og látið allt aðra menn inn í húsnæðið. Og þetta rekst raunar dálítið á við ákvæðið í 3. málsgr. 72. gr., þar sem stendur: „Nú hefur húsaleigumiðstöð leigt húsnæði öðrum en eigandi þess hefur óskað eftir, og skal honum þá heimilt, þrátt fyrir 62. gr. laga þessara, að segja leigutaka upp húsnæðinu, eftir að leigutaki hefur verið í húsnæðinu í 6 mánuði.“ — Á þá að skilja þetta þannig, að eftir það geti húseigandi sjálfur ráðstafað sinni eigin eign? Eða er það þannig, að hann geti sennilega tekið menn burt á 6 mánaða fresti koll af kolli og miðstöðin sett menn inn á hann honum að jafnnauðugu? Ég hygg, að þetta ásamt ýmsu fleiru í þessum lögum þarfnist töluvert betri íhugunar.

Ég verð að telja, að af þeim ástæðum, sem ég hef hér bent á, og vegna ýmissa annarra, m. a. þess, sem hæstv. forseti sagði í sinni ágætu ræðu um þetta mál, sé ljóst, að þetta mál þarfnast — jafnvel betri hluti frv. — miklu frekari íhugunar en það hefur enn þá fengið, og ég mundi telja það langskynsamlegustu meðferðina, að sveitarfélögunum eða sambandi þeirra yrði falið að athuga málið til haustþingsins og að þá tæki þingið það aftur að nýju til athugunar.