08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

125. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Í fyrrakvöld talaði hv. þm. Barð. (GíslJ), frsm. minni hl. félmn., í meira lagi harkalega við umr. þessa máls og fór langferðir út fyrir efni málsins til þess að hrakyrða Framsfl. Ekki var ræða hans beinlínis til þess fallin að tryggja gott samstarf stjórnarflokkanna í framtíðinni, enda sennilega ekki til þess ætluð. Ég skrifaði undir ræðu hv. þm. hjá mér til minnis nokkur atriði útúrdúra og fjúkyrða hans og hugsaði mér að gjalda þau og helzt með rentum — og það helzt hærri rentum en þetta frv. gerir ráð fyrir að goldnar séu fyrir fyrirframgreidda húsaleigu. En í gær hélt hv. þm. ræðu sinni áfram og tók þá upp allt annan tón. Mátti af þeim tón ætla, að hann hefði iðrazt gönuskeiða sinna og væri til muna batnandi maður. Og af því að tími er nú orðinn naumur við afgreiðslu málsins og líka með tilliti til þess, að hæstv. félmrh. veitti hv. þm. allmiklar áminningar í gær, og einnig vegna þess, að batnandi maður virðist eiga í hlut, þá læt ég útúrdúra hv. þm. frá í fyrradag eiga sig og sný mér að efni málsins og till.

Hv. þm. Barð. talaði á móti frv. í heild, og þótt minni hl. leggi ekki beint á móti samþykkt níu fyrstu kafla frv., þá eru brtt. hans á þá leið að ónýta þessa kafla og þar af leiðandi í samræmi við anda þann, sem kom fram í ræðu frsm. Ég vil í þessu sambandi benda á, að önnur var afstaða flokksbræða hans í fjhn. Nd., og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr nál. flokksbræðranna úr Nd., en þar stendur:

„Um það getur ekki verið ágreiningur, að tímabært sé að setja almenna löggjöf um samskipti leigusala og leigutaka. Um þau viðskipti hefur engin löggjöf verið sett nema undir óvenjulegum kringumstæðum eins og á ófriðartímum. Fullkomin löggjöf, sem næði yfir þessi algengu viðskipti, kæmi í veg fyrir óþarfan málarekstur og vandræði, sem hlotizt geta af óvissu um það, hvaða reglur skuli gilda í ýmsum tilvikum, sem ógerlegt er að hafa öll í huga við samningsgerð. Því erum við undirritaðir sammála samnefndarmönnum okkar um ákvæði níu fyrstu kafla frv.“

Í þessu nál. sjálfstæðismannanna í Nd. kveður mjög við annan tón en hjá hv. frsm. minni hl. Undir þennan tón Nd.-þingmanna byrjaði hæstv. dómsmrh. að taka áðan, en fljótt féll hann þó yfir í lagið með hv. frsm. minni hl.

Hæstv. dómsmrh. raupaði dálítið af Sjálfstfl., að hann hefði hjálpað mönnum til að komast í góðar álnir og geta byggt til að leigja fátækum. Og hann kallaði frv., ef að l. yrði, tilræði við fátæklingana. Öðruvísi munu þó fátæklingarnir líta á, þeir sem hafa reynslu í þessum málum.

Hæstv. dómsmrh. fór dálítið út í það að vitna í hæstv. félmrh., sem talaði hér í gærkvöld, hafði sitt hvað eftir honum og m. a. það, að lögin, sem hér liggja fyrir í frv.-formi, séu að hans áliti, félmrh., miðuð við það að neyða eigendur til þess að selja húseignir sínar. Þetta er útúrsnúningur hjá hæstv. dómsmrh. Félmrh. sagði, að ábúðarlöggjöfin, sem hann taldi að nokkru hliðstæða þeirri löggjöf, sem hér um ræðir, hefði leitt það af sér, að fleiri leiguliðar hefðu getað fengið jarðir sínar keyptar, og hann taldi æskilegt, ef heppileg húsaleigulöggjöf gæti unnið í sömu átt. Í þessu kemur ekki fram neinn illvilji til þeirra, sem hús eiga, heldur kemur fram sú skoðun, sem almennt er viðurkennd rétt í landinu nú, að æskilegast sé, að menn eigi hús yfir höfuðið sjálfir.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að félmrh. hefði sagzt vera á móti því, að heimildarákvæðum frv. yrði beitt. Þetta er líka útúrsnúningur. Félmrh. sagðist hefði verið á móti því, ef átt hefði að lögbjóða heimildarákvæðin, þ. e. að fyrirskipa þær aðgerðir, sem þar eru heimilaðar. En hann sagðist telja rétt að gefa sveitarstjórnunum heimild til að hafa slík ákvæði til framkvæmda og sagðist treysta sveitarstjórnunum til að nota þau ekki nema þegar það ástand skapaðist, sem gerði þau nauðsynleg. Þetta er allt annað en hæstv. dómsmrh. vildi túlka að í orðum félmrh. hefði legið.

Ýmislegt var það í ræðu hæstv. dómsmrh., sem benti til þess, að hann hefur enn ekki lesið frv. það, sem fyrir liggur, nógu ýtarlega, en gengið út frá því, að það væri illa gert. Sumt leiðrétti hann í ræðu sinni, sem hann hafði ekki áður gert sér grein fyrir, og fer ég ekkert út í það. En hann talaði talsvert um það, að í kaflanum um húsaleigumiðstöð væri gengið nærri húseiganda, og gerði ráð fyrir því jafnvel, að ógiltir yrðu þeir samningar, sem húseigandinn hefði áður gert, svo mikið væri gjörræði miðstöðvarinnar að heimildum þessa frv. En það er beinlínis tekið fram, að ráðstöfun sú, sem miðstöðin má gera með húsnæði, nær aðeins til nýrra húsa og þeirra húsa, sem losna úr íbúð. Það er líka tekið fram, að leita eigi tillagna húseigenda, þegar leigt er, og enn fremur er það tekið fram, að ef húseigandi er óánægður með leigjanda sinn, þann sem miðstöðin hefur leigt, þá getur hann þrátt fyrir bindingarákvæði sagt honum upp eftir 6 mánuði. Þannig er, að því er bezt verður séð, tekið hæfilegt tillit til húseigandans, þegar neyðarástand ríkir í húsnæðismálum.

Mér datt í hug undir ræðu hæstv. dómsmrh. — svona í stuttu máli sagt — það, sem haft er eftir Bernard Shaw, hinum fræga brezka rithöfundi, að sannir íhaldsmenn séu jafnan á móti því, að hlutirnir séu gerðir í fyrsta sinn, en þegar þeir hafa verið gerðir, haldi þeir í þá dauðahaldi og eigni sér þá og tilveru þeirra. Ég gæti vel hugsað það, að þegar húsaleigulög væru búin að standa nokkurn tíma í svipuðu formi og þau eru sett fram í þessu frv., þá verði þeir, sem nú eru á móti þeim, ákafastir í að halda þeim við og eigni sér jafnvel setningu þeirra.

Þá vil ég minnast á brtt. hv. minni hl. Þær eru á þskj. 640.

1. brtt. er við 1. gr., og ég ætla að biðja hv. þm. að bera hana saman við gr. Hún er um það, að fyrri málsgr. orðist svo: „Lög þessi taka til leigumála um íbúðir og atvinnuhúsnæði.“ Hv. flm., frsm. minni hl., lýsti því, þegar hann gerði grein fyrir till., að þessi till. væri borin fram til þess að rýmka ákvæðin. Það var að heyra á orðum hans, að hann gengi út frá því, að með því orðalagi, sem minni hl. leggur til, væri undanskilið fyrirmælum frv. íbúðarhúsnæði einhleypra manna. En þetta er misskilningur. Till. hefur mistekizt. Í greininni, eins og hún er í frv., er nokkur undanþága frá lögunum. Þar segir: „Lög þessi taka til allra leigumála um húsnæði, nema leigumála um einstök herbergi í gistihúsum, svo og þeirra leigumála, sem áskilja leigutaka að minnsta kosti tvær daglegar máltíðir.“

Ég tel, að með þessu sé t. d. að sjálfsögðu undanskilið það húsnæði, sem tíðkast mjög, að foreldrar leigi börnum sínum eða leigt er öðrum vandamönnum einhleypum, sem hafa fæði í heimilinu. En eftir till. minni hl. er þetta upp hafið og allt íbúðarhúsnæði tekið inn í gr. og lagt undir fyrirmæli frv., því að vitanlega er húsnæði það, sem einhleypir nota, íbúðir, enda talað um íbúðir fyrir einhleypa og fjölskylduíbúðir. Minni hl. hefur ætlað að losa um skrúfu, en í stað þess hert á henni. Þetta er ég viss um að hv. frsm. finnur, ef hann athugar gr. Að minnsta kosti hefði hann fundið það, ef skrúfa þessi hefði verið í skrúfstykki og hann haft fingurinn á milli.

Þá er það 2. brtt. Hún er um það að skylda ráðuneytið til þess að láta í té ókeypis þau eyðublöð, sem þar um ræðir. Mér er sagt og ég þykist hafa reynslu fyrir því, að yfirleitt séu eyðublöð látin í té ókeypis hjá hinu opinbera, og þar af leiðandi er þessi till. óþörf, nema hún ætti að benda til þess, að þegar ekki væri annað fram tekið, þá ætti að selja eyðublöðin, og þá held ég, að hún hafi öfugar verkanir við vilja minni hl. Í öllu falli er hún óþörf.

Þá er það 3. brtt., að í stað orðanna „að tefla“ í lok 2. málsgr. komi „að ræða“. Ég er flm. samþykkur í því, að þetta er betra mál eftir efninu, betri framsetning og eðlilegri, þó að annars virðist það vera orðin einhver venja að hafa „um að tefla“ í frv. þeim, sem koma frá hæstv. ríkisstj., og mætti gjarnan fyrir það taka. Sums staðar hefur þó farið verr á því en í þessari grein. Þetta er a-liður þeirrar brtt. — B-liðurinn er um það, að í stað orðanna „kl. 13“ í 3. málsgr. komi „kl. 1 síðdegis“. Málvöndun er góð, og ég skal manna sízt lasta hana, en þegar farið er út í málvöndun, þá þarf líka að vanda vöndunina, og mér finnst, að það hafi mistekizt í þessu falli. Ég fyrir mitt leyti sé ekki, að það sé veruleg óprýði að því, þó að þarna standi „kl. 13“, það er orðið nokkuð algengt, t. d. í útvarpsmáli, og er að komast inn í mál þjóðarinnar á öllum sviðum. En ég hef aldrei heyrt, held ég, talað um það, að kl. 1 væri komið „síðdegis“. Ég hef heyrt sagt „kl. 1 eftir hádegi“, og ég sé, að skrifstofa Alþ. gefur út dagskrár, þar sem talað er um „kl. 1½ miðdegis“. Síðdegi, held ég, að málvenja leyfi ekki að kallað sé fyrr en eftir nón. Ég held þess vegna, að þetta sé óþörf brtt. og ekki rétt að samþ. hana, hún prýði ekki málið.

4. brtt. er við 7. gr., þ. e., að orðin „einstökum herbergjum“ í 1. tölul. falli niður. Ég býst við, að þessi till. sé fram komin af þeim skilningi, sem minni hl. leggur í 1. brtt. sína, að einstök herbergi liggi utan við ákvæði frv., en það er nú ekki. Ég álit það mjög til skemmdar, ef upphafið væri tekið burt úr frv., að ákveðinn sé uppsagnarfrestur fyrir einstökum herbergjum, því að vitanlega er illt við það að búa, fyrst og fremst fyrir leigjanda, að hafa ekki tryggingu fyrir því að fá ekki uppsögn með fyrirvara, og ekkert í það varið heldur fyrir húseiganda, að einstakur maður geti hlaupið frá leigumála hvenær sem er án fyrirvara. Brtt. er þess vegna á tvennan hátt dauðadæmd.

Þá er 5. brtt., við 8. gr., að gr. orðist svo: „Nú vanrækir leigutaki að flytjast brott, eftir að leigumáli er útrunninn, og getur leigusali þá krafizt þess, að leigumálinn framlengist, unz leigutaki segir húsnæðinu upp samkvæmt ákvæðum 7. gr.“ Ég tel þessa till. til bóta.

Þá er 6. brtt., við 11. gr.: „Orðið „meindýralaust“ í 1. málsgr. falli niður.“ Ég minnist þess, að hv. frsm. spurði fulltrúa Fasteignaeigendafélagsins eftir því, hvort hann teldi það rétt, að þetta orð stæði í gr., hvort hann teldi eiginlega hægt að gera fyllstu kröfu til þess, að hús væru meindýralaus, og taldi þessi maður, að auðvitað yrði að ganga út frá því, að þau væru það. Ég held fyrir mitt leyti, að það sé rétt að ætlast til þess, að hús, sem út eru leigð, séu laus við slík óþrif, og þó að t. d. rottum eigi að útrýma af öðrum aðila, þá þarf vafalaust að vera eftirlit með því og segja til, þegar meindýr taka. sér bólfestu í húsinu, svo að sá, sem á að framkvæma útrýminguna, komi til. Ég tel þess vegna þessa till. óviðeigandi og ekki sízt eftir að þetta er búið að koma fram í frv., því að þá er, ef hún yrði samþykkt og orðið numið burt, eins og væri gengið út frá því, að ekki væri hægt að setja út á það, þó að meindýr væru í húsum, sem leigð eru fullu verði.

Þá er það brtt. við 12. gr.brtt. er, að í stað orðanna „að tefla“ komi „að ræða“. Till. er til bóta.

Þá er b-liður þeirrar till., að orðin „eða hefði átt að verða þeirra var“ í niðurlagi síðustu málsgr. falli niður. Þessi málsgr. hljóðar svo:

„Nú koma síðar fram annmarkar á húsnæði, sem ekki voru sjáanlegir við venjulega athugun, þegar húsnæðið var afhent, og skal leigutaki þá kvarta undan þeim innan þriggja vikna frá því, er hann varð þeirra var eða hefði átt að verða þeirra var.“

Ég hygg, að ástæðulaust sé að nema þessi orð burt: „eða hefði átt að verða þeirra var“, því að ekki er hægt að draga úr því, að menn hafi eftirlit með því húsnæði, sem þeir hafa á leigu, og segi til í tíma, enda er gert ráð fyrir því um alla löggjöf, að menn séu skyldir til að fylgjast með hlutunum, og þetta er ekkert ósanngjarnara þarna heldur en gerist og gengur í lögum. Maður er hiklaust dæmdur, ef hann brýtur lög, þótt hann hafi ekki vitað um, að til var í lögum bann við því, sem hann gerði, en það er litið svo á, að hann hefði átt að þekkja lögin.

Þá er 8. brtt., við 15. gr., a-liður, að 2. málsgr. falli niður, en þessi málsgr. er svona:

„Ef hið ólögmæta atferli hefur einungis í för með sér minni háttar skerðingu á leiguafnotum, getur leigutaki ekki rift leigumála.“

Ég sé ekki betur en það ákvæði, sem þessi málsgr. felur í sér, sé réttmætt og tryggi eðlilega leigusalanum það, að leigutaki geti ekki gengið of langt í kröfum í því efni, sem þarna ræðir um, og ógilt samning fyrir smámuni. B-liðurinn í sömu till. er í nánu sambandi við þá málsgr., sem á að fella burt, og á sú till. ekki rétt á sér frekar en hin.

Þá er 9. brtt., víð 16. gr., að síðari málsgr. falli niður, en hún er á þessa leið og er í sambandi við fyrri málsgr., sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa upp:

Fyrri málsgr. hljóðar þannig:

„Nú lýkur leiguviðskiptum fyrr en umsamið var, sökum þess að handhafar opinbers valds vegna heilbrigðisráðstafana eða af öðrum ástæðum leggja bann við leiguafnotunum, og er leigutaka þá einungis skylt að greiða leigu til þess dags, er bannið gengur í gildi.“

En síðari málsgr., sú sem í till. er lagt til að niður falli, er á þessa leið:

„Ef bannið takmarkar afnotin einungis í minni háttar atriðum, getur leigutaki einungis krafizt hlutfallslegrar lækkunar á leigu.“

Ég hygg, að þetta sé eðlilegt ákvæði, til þess að leigutakanum sé ekki gefinn of hár réttur, þegar um það er að ræða, að atvik þau gerast, sem fyrri málsgr. talar um og ekki eru á valdi leigusalans.

Þá kemur 10. brtt., við 18. gr., að aftan við gr. bætist: „nema öðruvísi semji“. En greinin er um það, að þegar húsaleiga sé borguð fyrir fram, skuli vera greiddir af henni 6% vextir. Ég býst við, að þetta ákvæði muni nú vera þannig, að það muni verða farið í kringum það af þeim, sem á annað borð eru kröfuharðir og setja upp fyrirframgreiðslu. Þó finnst mér ekki fjarstæða, að þessi lög gefi bendingu um það, hvað teljist eðlilegir vextir í þessum viðskiptum, sem sagt er að hafi verið og séu viðskipti allóeðlileg oft og tíðum og hörð fyrir þá, sem eru í húsnæðisvandræðum og neyddir til þess að ganga undir harða skilmála til þess að fá húsnæði. En með því að bæta aftan við þeirri meiningu, sem á að felast í orðum þeim, sem minni hl. leggur til að við verði bætt, er ákvæðið gert alveg þýðingarlaust. — Af því að hæstv. minni hl. sýnir það, að hann vill fegra mál, þá vil ég benda á, að það er mikil mislukkun í þessari framsetningu. Sú er að vísu afsökun, að í 1. málsgr. þessarar greinar er sama mislukkunin, en ég leit á hana eins og prentvillu. Þar segir: „nema öðruvísi semji“. Þarna er vitanlega rangt mál. Sögnin „semji“ getur ekki í þessum hætti notazt þarna. Þarna á að vera miðmynd sagnarinnar: „öðruvísi semjist“, til þess að fullkomin íslenzka sé. Það vantar gerandann í sögnina. Á þetta vil ég benda, af því að „málfegrun“ kemur fram í till. minni hl., eða tilraun til málfegrunar.

Þá er það 11. till., við 21. gr., að aftan við gr. bætist: „Um viðhald íbúðar fer eftir samkomulagi milli leigusala og leigutaka.“ Þetta er nú fyrst og fremst alveg óþarft ákvæði þarna, vegna þess að í 28. gr., sem er um viðhald húsnæðis af hendi leigutaka, segir: „Ákveða má með samningi aðra tilhögun á viðhaldsskyldu en í þessari gr. og 21. gr. segir.“ Sem sé er tekið fram í niðurlagi 28. gr. það, sem hv. tillögumenn vilja bæta aftan við 21. gr. með 11. till. sinni. En þetta mun stafa af því, að minni hl. leggur til, að 28. gr. falli niður. Hún er um það, að leigutaki annist viðhald húsnæðis. Um það sagði hv. frsm. minni hl., að það væri fyrirboðið í 28. gr., að leigusali annist viðhald innanhúss. Þetta er vitanlega misskilningur, eins og sést á niðurlagi gr., sem ég las upp áðan. En þarna í sambandi við 28. gr. virðist vera mikill ásteytingarsteinn, það kom fram, bæði hjá frsm. minni hl. og einnig hjá hæstv. dómsmrh. Þeir álíta, að margt illt mundi af því hljótast, ef leigutakar héldu við húsnæði. Þetta er hliðstætt því, að leiguliðar á jörðum halda við húsum þar og öðru, en það er síðan gert upp í úttekt, hvernig viðhaldið hefur verið, hvort það er umfram fyrningu eða ekki, og það er gert ráð fyrir því í þessum lögum líka, að úttekt eigi sér stað, svo að hliðstæðan er þarna fullkomin. Það er vitanlegt, að um viðhaldið er oft mikill ágreiningur milli leigutaka og leigusala. Margir leigutakar eru ákaflega kröfuharðir um viðhald og síóánægðir í því sambandi. Ef þeim með samningi er gert að halda íbúð við, þá eiga þeir það við sjálfa sig, hvaða kröfur þeir gera um slíkt. Hæstv. dómsmrh. virtist telja hætt við því, að ef leigutakar ættu að halda við, þá mundu þeir leggja í það miklu meira fé en leigusali mundi telja heppilegt, og að það gæti orðið til þess, að við úttekt yrði leigusalinn að borga miklu meira en eðlilegt væri fyrir hús, sem væru of viðhaldin. Reynslan, að því er leiguliða og landsdrottna snertir, er alls ekki á þessa leið. Það er viðurkennt, að það, sem leiguliðar gera fyrir jarðir, fá þeir yfirleitt ekki borgað við úttekt fullu verði. Það er venjulegast, að húsabætur fá þeir ekki greiddar meira en að því leyti, sem efni kostar í húsabæturnar, og það eru engar minnstu líkur til þess, að leigutakar mundu telja heppilegt að leggja fé í að endurbæta íbúðir upp á það að eiga að fá það fé aftur með rentum og renturentum við úttekt. Vatnið rennur ekki af sjálfsdáðum upp í móti, og þetta er svipað. Þetta er reynsla að því er snertir hliðstæð efni í ábúðarlöggjöfinni, og þarf víst ekki að óttast, að annað komi fram.

Þá er 13. till. um það, að 32. gr. falli niður. Hún er á þessa leið:

„Nú kemst meindýr í leigt húsnæði, og ber þá leigutaka að gera ráðstafanir til útrýmingar því. Um rétt leigusala til skaðabóta vegna þess, að meindýr kemst í hús hans, fer eftir almennum reglum.“

Það er að segja: frv. gerir ekki ráð fyrir því, að þarna geti verið um skaðabætur að ræða nema eftir almennum reglum. Hins vegar ber leigutaka að gera ráðstafanir til útrýmingar. Það er eins og hv. minni hl. sé mjög illa við ákvæði, sem snerta það, að þeir, sem í húsum búa eða hús eiga, geri tímabærar kröfur á hendur þeim, sem eiga að hafa á hendi eyðingu meindýranna. Hér er ekki um annað að ræða. Þess vegna er till. mjög fráleit, að það er alveg sjálfsögð skylda þeirra, sem í húsum búa. Ég býst við, að það sé hreint og beint ætlazt til þess af Reykjavíkurbæ hér í Reykjavík, að íbúar segi til, hvar drepa þarf meindýrin.

Þá er það 14. till., við 33. gr., að í stað orðanna „nákominna ættingja“ í lok greinarinnar komi „nákominna vandamanna“. Það er um það, að leigutaki megi framselja að einhverju leyti leigu á því húsnæði, sem hann hefur til umráða. Hér stendur „nákominna ættingja“, en till. er um nákomna vandamenn. Ég sé nú ekkert athugavert við þessa brtt.; hins vegar held ég, að hún sé alls ekki nauðsynleg, því að það mundi vafalaust verði lítið svo á, að þarna væri hliðstæða, þegar um tengdamenn er að ræða, sem eru vandamenn, eins og að skyldmenni væru.

Þá er 15. brtt. um, að 34. gr. falli niður, en hún er um það, að úttekt skuli vera gerð, þegar hús er afhent til leigu, og 16. till. er um það, að 35. gr., sem er í nánu sambandi við 34. gr., falli niður. Rökstuðningurinn fyrir þessu er sá, að hér sé um mikið verk að ræða og lítt framkvæmanlegt. Hins vegar er því ekki móti mælt, að það geti verið gott að hafa á hreinu, við hverju er tekið og hverju er skilað, því að það er ekki hægt að mæla á móti slíku. Ég játa fúslega, að frv., sem gerir ráð fyrir því í 35. gr., að úttektarmenn húsnæðis skuli vera þeir, sem aukafasteignamat hafa með höndum á hverjum tíma, stenzt ekki. Það ákvæði er mjög mislukkað, vegna þess að á aðalfardögum, þegar flutningar eru miklir á fjölbýlum stöðum, er það vitanlega ekki framkvæmanlegt fyrir þessa menn að gera slíkt mat. Þess vegna er það, að meiri hl. félmn. flytur till. um það, sem kemur fram í nál. meiri hl., að hlutaðeigendur sjálfir megi kveðja menn til þess að gera úttekt eða jafnvel gera hana sjálfir, ef þeir koma sér saman um það. Með því er dregið svo úr fyrirhöfninni að því er þetta snertir og málið gert svo auðframkvæmanlegt, að engin ástæða er til að setja fyrir sig þessi ákvæði. Nokkur hluti 35. gr. er svo í nánu sambandi við heimildarákvæðin síðar, og fer náttúrlega um þann hluta gr. eftir því, hvernig heimildarákvæðin eru afgreidd.

Þá er það 17. brtt., við 36. gr., að í stað orðanna „tvær klukkustundir annan hvern virkan dag“ komi „eina klukkustund á viku“. Hér er um það að ræða, að leigutaka, sem hefur sagt upp húsnæði með tilskildum fyrirvara, sé skylt að leyfa það, að húseigandi sýni umsækjendum húsnæðið og hafi rétt til þess að kveðja dyra og koma í húsið tvær klukkustundir annan hvern virkan dag. Þetta virðist ekki vera ósanngjarnt, er til hagræðis bæði fyrir þann, sem á að taka á móti þessum gestum og leyfa umgang um húsið, og líka fyrir þann, sem þarf að sýna húsið, og ég held fyrir mitt leyti, að ein klukkustund á viku geti verið allt of takmarkaður tími í þessu efni. Held ég því, að það ákvæði, sem svo væri þrengt, væri betur ekkert í lögunum.

Þá er það 18. till., við 40. gr., að orðin „nema af hendi leigusala séu fram færðar gildar ástæður, er mæla því gegn“ falli niður. Þetta er um það., að þegar menn falla frá, sem hafa haft hús á leigu, þá megi skyldmenni og venzlamenn, sem hafa verið heimamenn hjá leigutaka, ganga inn í samning með sömu réttindum og skyldum. Ég skil það ekki eiginlega, hvers vegna þykir ástæða til að gera till. um að fella niður: „nema af hendi leigusala séu fram færðar gildar ástæður, er mæla því í gegn“ — gera það undantekningarlaust skylt, að fólk, sem hefur verið í heimilinu, megi ganga inn í samning þess, sem fellur frá. Oft geta verið annmarkamenn í heimili, sem húsbóndi hefur borið ábyrgð á, og það er hart, ef leigusali þarf að gera þá að sínum viðskiptamönnum gegn gildum ástæðum.

Þá er það 19. till., við 41. gr., að síðari málsl. fyrri málsgr. falli niður, en hann er sá, að þegar hjón skilja, þá megi það hjóna, sem hefur vegna atvinnu sinnar afnot af leigðu húsnæði, hafa forgangsrétt til áframhaldandi leigu á því svo og nauðsynlegrar íbúðar, sem því kann að vera tengd. Það virðist vera mjög eðlilegt, að sá aðilinn, sem er starfandi og hefur notað húsnæðið meira eða hefur meiri notaþörf fyrir það, sitji fyrir, og þetta grípur á engan hátt inn á svið þess sáttmála, sem hjón, sem skilja, kunna að gera sín á milli, eins og hv. frsm. vildi þó vera láta. Þetta mundi vera ákvæði, sem um yrði samið, og vitanlega er hægt að afsala sér í slíkum samningi forgangsrétti.

Þá er það 20. till. Hún er við 44. gr., að orðið „stórra“ í síðustu málsgr. falli niður. Ég hygg, að það skipti litlu máli, hvort þessi till. yrði samþ. eða ekki. „Nú er hegðun sú,“ segir í greininni, „sem leigutaka er gefin að sök, ekki stórra víta verð, og getur leigusali þá ekki slitið leigumála án venjulegs uppsagnarfrests.“ Hér mun vera átt við það, þegar eitthvað er gert í ógáti, þá getur það heyrt undir víti, en síður stórvíti. Ég læt mér fyrir mitt leyti í léttu rúmi liggja, hvort þessi till. yrði samþ. eða ekki, mun þó ekki sjá ástæðu til að greiða henni atkvæði.

Þá koma höfuðbrtt., 21., 22. og 23., og eru um það, að síðari kaflar, X., XI. og XIL, í frv. falli niður. Um það er höfuðágreiningur, hvort setja skuli þessi heimildarákvæði eða ekki. Hæstv. félmrh. gerði í gær mjög ýtarlega grein fyrir því, á hverju þessir heimildarkaflar frv. eru byggðir, og það má segja, að þó að hv. frsm. minni hl. spyrði: Hvernig mundu bændur taka því að láta setja um sín málefni svipaða löggjöf? — að þá hafi einmitt verið sett að ýmsu leyti svipuð löggjöf um þeirra málefni, vegna þess að í ábúðarlöggjöfinni eru ákvæði, sem eru hliðstæð þeim ákvæðum, sem eru í þessum köflum, þar sem er forkaupsréttur sveitarstjórna og réttur þeirra til þess að taka undir sín yfirráð jarðir, sem landeigandi nytjar ekki eða lætur ekki nytja. Það er orðinn almennur skilningur hjá fólki nú orðið, að sveitarfélögum sé skylt að sjá fyrir því, að allir íbúar þeirra hafi sæmilegar íbúðir. Og hvernig eiga sveitarfélögin að geta þetta? Það má ekki minna vera en að þeim sé gefinn lagalegur réttur til þess að hafa íhlutun um það, hvernig leiguhúsnæði er hagnýtt. Þann rétt gefur X. kaflinn í frv., ef hann verður að lögum, en ef sú heimild hrekkur ekki, ef svo miklir neyðartímar skapast í húsnæðismálum, þá er nauðsynlegt, að sveitarfélögin hafi rétt til að ráðstafa lausu húsnæði, og þann rétt veitir XI. kaflinn. XII. kaflinn er svo í nánu sambandi við þá, þ. e. um áfrýjunarrétt beggja aðila, og þar eru viðurlög sett. Ef síðasta till., 23. till., t. d. yrði samþ., þá væru öll viðurlög numin burt úr frv., og sjá allir, hvílík fjarstæða slíkt væri.

Ég vil benda á það, að eins og nú standa sakir, þá eru í löggjöf landsins ákvæði um húsaleigunefndir og ákvæði um hámarkshúsaleigu. Í hinum almennu lagaköflum níu eru hvergi ákvæði um, að húsaleigunefndir skuli starfa, eða hámarksákvæði um húsaleigu, en þau eru sett inn í heimildarlögin. Þannig er í raun og veru með þessu frv. lagt til að gera þá löggjöf frjálslyndari á ýmsan hátt, sem nú gildir, en hins vegar eru sett upp heimildarákvæði, er nota megi, þegar skapast það ástand eins og t. d. skapaðist 1917, þegar fyrstu húsaleigulög voru sett hér fyrir Reykjavík, eða 1939, þegar hin almennu húsaleigulög voru sett. Og ég verð að taka undir þau orð hæstv. félmrh., að ég treysti sveitarstjórnunum til að fara með það vald að meta, hvenær það ástand skapast. Heimildarákvæðin þurfa þær til þess að geta fullnægt þeirri kröfu, sem gerð er til þeirra um að sjá fólki fyrir húsnæði.

Hér eru brtt. á þskj. 644 frá hv. 10. landsk. þm. og hv. 6. landsk. Þær eru allar á eina leið, þá leið að gera ráð fyrir því, að ef heimildarákvæðin verða tekin til framkvæmda, þá greiði ríkissjóður, en ekki sveitarsjóður, þann kostnað, sem af leiðir, t. d. með því að ábyrgjast húsaleigu og álag eftir húsnæði, sem tekið er leigunámi, og að ábyrgjast leigu eftir húsnæði, sem leigt er út af húsaleigunefndum, og enn fremur að kosta rekstur húsaleigumiðstöðvar. Ég er starfandi í sveitarstjórn og vil hlut sveitarfélaganna sem beztan, en það þykir mér of langt gengið að heimila sveitarstjórnunum, eins og gert er ráð fyrir í þessum tillögum, að leggja í kostnað og ákveða í raun og veru, hver sá kostnaður er, en gera það í trausti þess og með rétti til þess, að ríkissjóður greiði. Þess vegna er ég á móti þessum tillögum, og þess vegna hef ég líka borið fram ásamt öðrum í meiri hl. félmn. till. um það, að leiðrétt sé prentvilla, sem slæðzt hefur inn í frv. og gengur í sömu átt og þessar brtt. Ég vil benda tillögumönnum á eitt, sem er dálítið athugavert frá sjónarmiði þeirra, a. m. k. þeirra, sem vilja hafa málfarið sem bezt, að þar sem segir hér í brtt. við 72. gr., að í staðinn fyrir „sveitarstjórn“ komi: ríkissjóður, þá verður þeim það á, tillögumönnunum, að kvenkenna ríkissjóð, með því að gera ekki till. um að breyta fornöfnum þeim, sem á eftir fara. (Gripið fram í.) Slíkt eru smámunir náttúrlega. Það má leiðrétta þetta í prentun, en er þó ekki fullkomin aðgát.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði, þegar ég gerði grein fyrir till. meiri hl. félmn., að meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt að öðru leyti en þeim till., sem meiri hl. leggur fram. Hins vegar hef ég tekið fram, að ég fyrir mitt leyti get greitt atkv. og mun greiða atkv. með einum þremur till. frá minni hl., og það eru 5. brtt., a-liður 3. brtt. og a-liður 7. brtt.