08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

125. mál, húsaleiga

Forseti (GíslJ):

Mér hafa sem forseta borizt þau skilaboð frá hæstv. ráðh. Framsfl., að þeir mundu gera mig sem forseta og efri deild ábyrga fyrir að halda þing hér um páskana, ef þessu máli yrði ekki lokið hér í dag. Þess vegna tel ég sjálfsagt, að þessu máli sé haldið áfram, og það þrátt fyrir það, þótt bæði hæstv. félmrh. og hv. frsm. meiri hl. geti ekki mætt hér á þessum fundi. Ég vil ekki láta kenna mér um það sem forseta, að ríkissjóður hafi kostnað af lengra þinghaldi, og ég veit, að hv. þm. Ed. vilja ekki heldur gera það og sætta sig því við það að sitja hér, þó að nokkuð verði liðið á kvöldið.