08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

125. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan úr forsetastóli, þá höfðu mér borizt um það tilmæli frá hæstv. ráðherrum Framsfl., að þessi hv. deild mundi vera gerð ábyrg fyrir því, að halda yrði áfram þingstörfum fram yfir páska, ef þetta mál yrði tekið út af dagskrá í dag eða ekki haldnir um það fundir allt fram til kvölds. Ég vil því byrja með því að þakka hv. deildarmönnum fyrir þann þegnskap, sem þeir sýna með að sitja hér allan daginn yfir þingmáli, jafnvel þótt það sé nú ekki skemmtilegra en það, sem hér er til umr.

Ég get mjög stytt mál mitt efnislega eftir að hafa hlustað á hinar mjög svo sterku og vel fram settu ræður þeirra hæstv. dómsmrh. og hv. 10. landsk. um þetta mál, en get þó ekki látið vera að svara nokkru af því, sem komið hefur fram hér við umr. og beinlínis hefur verið beint að mér annars vegar sem frsm. minni hl. og hins vegar í sambandi við málið sjálft. Mér þykir leitt, að hæstv. félmrh. og hv. frsm. meiri hl. eru ekki hér við, en það er með þeirra vilja og vitund, að þessum umr. er haldið áfram, þótt að sjálfsögðu þurfi að svara þeim hér á þessum vettvangi, og verður þá að líta svo á, að aðrir þeirra flokksmenn flytji þeim það, sem hér verður sagt, ef það þykir ástæða til þess að svara því.

Hæstv. félmrh. lét orð að því liggja í sinni ræðu, að ég hefði gefið tilefni til þess í minni framsöguræðu að halda, að það mundi verða beitt þeirri herferð í þessu máli, ef frv. yrði að lögum, að húseigendur tækju þann kostinn að fylla hús sín með meindýrum, rottum, kakkalökkum og veggjalúsum, eins og hann orðaði það, heldur en að lúta fyrirmælum laganna, og að það væri þá nauðsynlegt, þegar einn aðalforustumaður húseigendafélagsins í Reykjavík bæri fram slíkar hótanir hér á Alþ., að vera viðbúinn að gefa aðrar og nýjar fyrirskipanir til þess að fyrirbyggja slíkan hernað í þessu máli.

Ég verð nú að segja, að ég var undrandi yfir að heyra slík ummæli frá jafnágætum manni eins og hæstv. ráðh. Mín ræða gaf engin tilefni til slíkra hugleiðinga, og hefði hæstv. ráðh. alveg getað sparað sér allar þær hugleiðingar og þau ummæli, sem hann hafði í sambandi við þetta mál. Ég mundi hins vegar harma það, ef það gengi hér út frá Alþ. löggjöf, sem gæfi tilefni til þess, að menn jafnvel óskuðu heldur eftir því, að sín hús stæðu auð, heldur en að fólki væri þvingað inn í íbúðir þeirra, eins og hugsað er að gera hér, aðilum, sem þeir kæra sig ekkert um að búa með, í stað annarra, sem þeir gætu fengið sér bæði skyldari eða umgengnisþýðari til þess að sitja í húsnæðinu. Á það ekkert skylt við þann hernað, sem hæstv. ráðh. minntist á.

Hæstv. ráðh. sagði einnig, að það væri sjálfsagt að taka skynsamlega á þessum málum. Það er einmitt það, sem ég hef verið að reyna að fá hæstv. ráðh. og Framsfl. til þess að skilja, að það væri nauðsynlegt að taka skynsamlega á þessum málum vegna þess, hversu þetta er mikið vandamál annars vegar og hversu þetta er viðkvæmt mál, hins vegar hversu það eru margar tugþúsundir manna, sem eiga að búa við þessa löggjöf. Og það hefur verið bent á það, ekki einungis hér af mér, heldur einnig af hæstv. dómsmrh., hv. 10. landsk. og jafnvel af hv. 4. þm. Reykv., sem þó annars er að ýmsu leyti fylgjandi frv., að það hafi ekki verið tekið á þessu máli með neinni skynsemi, hvað þá með fullri skynsemi. Það er ekkert annað en það, sem við erum að berjast fyrir hér, samanber þá rökstuddu dagskrá, sem hæstv. ráðh. lagði fram hér áðan, — berjast fyrir því, að málinu sé vísað frá nú til þess að fá skynsamlega meðferð og athugun, áður en það er lögfest í þinginu. Ég verð að segja það, að mig undrar það alveg, að jafnprýðilegur og ágætur maður og hæstv. félmrh. skuli vera sleginn þeirri blindu í þessu máli að geta ekki séð, að hér eigum við virkilega samleið í þessu máli.

Hæstv. ráðh. sagði, að árið 1933, þegar ábúðarlögin hefðu verið sett, þá hefðu einmitt komið fram sömu mótbárurnar gegn löggjöfinni af íhaldssömustu þingmönnunum á Alþ. þeirra tíma. Og svo sagði hann: Það vita þó allir, hve mikil blessun hefur orðið af þeirri löggjöf.

Ég vildi nú gjarnan, án þess að ábúðarlöggjöfin komi þessu máli mikið við, mega ræða ofur lítið einmitt þessi ummæli hæstv. ráðh.

Ef litið er á ábúðarlöggjöfina og þá blessun, sem hefur verið henni fylgjandi í sumum atriðum, einmitt í þeim atriðunum, sem miða að því, að menn geti ekki verið raunverulega ráðandi yfir þeim eignum, sem þeir eru þó taldir eigendur að, og ég geri ráð fyrir, að það sé einmitt þessi hluti löggjafarinnar, sem hæstv. ráðh. hefur átt við, þá verður nú ýmislegt upp á teningnum. Með þeirri löggjöf vannst m. a. þetta tvennt, að bændum var gert kleift að kaupa jarðir sínar með vægu verði af ríkinu, því að af öðrum en ríkinu er ekki hægt að kaupa jarðir ódýrt samkv. löggjöfinni, og hitt, að byggingarskylda íbúðarhúsa og peningshúsa er raunverulega lögð á jarðareiganda. Ég hygg að það sé þetta, sem hæstv. ráðh. átti við, þegar hann talaði um þá blessun, sem hefði fylgt alveg sérstaklega þessari löggjöf. Það er nú svo hvað snertir íbúðarskylduna, að henni hefur ríkisstj. á öllum tímum síðan 1933 brugðizt og það undir stjórn bæði hæstv. félmrh. nú, sem jafnframt er hæstv. landbrh., og undir öllum þeim hæstv. landbrh., sem Framsfl. hefur átt í stjórninni alla þessa tíð. (Gripið fram í: Þetta er alrangt.) Þetta er alveg rétt. Það er hægt að fara um allar sveitir landsins og sýna fram á, að það eru ríkisjarðirnar, sem eru langmest niðurníddar, minnst hýstar um allt land, vegna þess að jarðareigandi hefur svikizt um þessa skyldu sína. Hvað er svo hv. 1. þm. N-M. að segja, að það sé rangt, vitandi sjálfur, að þetta er rétt, því að það er enginn kunnugri þeim málum heldur en hv. 1. þm. N-M. (PZ: Þetta er haugalygi.) Það er alveg rétt. Og í þeim fáu tilfellum, þar sem jarðareigandi hefur sýnt lit á því að byggja upp, þá hefur hann þó aldrei gengið lengra en það að láta einhvern hluta af byggingarkostnaðinum til þess að byggja upp jarðirnar og aldrei meira en efniskostnaðinn. Og nú er farið inn á þá braut, sem hv. þm. veit líka vel, að leyfa bændunum að veðsetja jarðir, sem ríkið á, til þess að fá lán út hjá peningastofnunum, svo að þeir sjálfir geti byggt yfir sig, af því að ríkið, jarðeigandinn, hefur svikizt um þetta atriði. Þetta er blessunin, sem ábúðarlöggjöfin á þessu sviði leiddi yfir þjóðina. Jarðirnar, sem eru langsamlega mest niðurníddar í landinu, eru þess vegna, eins og ég sagði áðan, ríkisjarðirnar. Það er hægt að benda á þær, það þarf ekki að spyrja um, hver sé eigandi þeirra, þegar farið er um sveitirnar. Ef það liggja einhvers staðar kot, sem eru illa hirt, þá eru það venjulega 9 af 10, sem eru í ríkiseign. Það er kannske þetta ástand, sem hæstv. félmrh. vill láta skapast hér í Reykjavík og öðrum stöðum, þar sem meira en 500 manns eru saman komnir. Hann sagði, að það hefði nú orðið til þess, að jarðirnar hefðu farið í eigu ábúendanna. Ja, ég get nú einmitt talið hér upp fjöldamargar jarðir, sem enn þá eru meira að segja í einkaeign, þar sem enginn hefur farið á jarðirnar og þær liggja ónotaðar vegna þess, að eigandinn hefur ekki séð sér fært undir ábúðarlögunum að byggja upp og hann hefur komizt upp með að svíkja það á sama hátt og ríkið. Það hafa verið gerðar til hans meiri kröfur, meiri skyldur, og hann hefur ekki átt nein önnur úrræði en að láta jarðirnar liggja ónotaðar, fara í flag, þar til hreppsnefndirnar tækju þær til þess að byggja þær einhverjum eða til þess að selja þær eins og reka á fjörum, eftir að þær eru búnar að liggja þarna árum saman. Ég vil m. a. benda hv. þm. á, að jörð eins og t. d. Vattarnesið, sem er alveg prýðileg jörð, hefur gersamlega verið niður nídd fyrir hin blessunarlegu ákvæði ábúðarlaganna á þessu sviði. Varð að flytja þaðan í burtu símastöð og allt fólk og bústofn, og það var ekki fyrir neitt annað en það, að ábúandinn vildi ekki lúta þessum ákvæðum og ekki hægt að þvinga hann til þess. Hann varð því að láta jörðina níðast niður, og hreppurinn hefur aldrei haft kjark í sér til þess að taka jörðina og selja hana á uppboði. Þess vegna liggur hún ónotuð enn. Og það er ekki eina jörðin. Það er hægt að halda áfram og benda á fjöldamargar jarðir í landinu, sem svona er ástatt um. (PZ: Það var búið vel á Vattarnesi í vor, þegar ég kom þar.) Var búið vel á Vattarnesi? Hvaða Vattarnes talar hv. þm. um? Ef hann er alltaf að tala um eitthvert annað mál en er til umr., þá er ekki furða, þó að ræða hans sé einkennileg í þessu máli.

En langsamlega athyglisverðust voru þó ummæli hæstv. ráðh., þegar hann lýsti því yfir, eins og dómsmrh. hefur skýrt hér frá, að einmitt þessi löggjöf ætti að verða til þess, að leigjendurnir gætu klófest hverja þá íbúð, sem þeir færu í hér í Reykjavík eða á öðrum stöðum, sem lögin ná til, þeir gætu klófest þær undir þessum lagafyrirmælum. Ég þarf ekki að ræða mikið það mál, hæstv. dómsmrh. hefur gert því máli svo vel skil hér í dag, en ég gæti hugsað, að það hafi margir hrokkið við að heyra slíka yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. Og ég verð að segja það, að ég harma, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera hér í kvöld til þess að ljóstra upp fleiri leyndarmálum í sambandi við þessa löggjöf, sem fleiri og fleiri menn hefðu enn hrokkið við að heyra, því að mér dettur svo sem ekki í hug að halda, að þetta sé eina leyndarmálið, sem samið hafi verið um, sem hrökk þannig kannske óvart upp úr hæstv. ráðh. En þá vita húseigendur í Reykjavík og annars staðar, sem lögin ná til, hvers þeir eiga að vænta, þegar lögin beinlínis stefna að því, að hver og einn einasti leigjandi, sem kemur í þeirra hús, kemur með það hugarfar og ætlar að ná því ákveðna takmarki, að héðan skuli hann ekki út fara fyrr en hann sé orðinn eigandi að íbúðinni með réttu eða röngu.

Hæstv. ráðh. sagði hér, að ég hefði kastað hér hnútum að formanni n., Jónasi Guðmundssyni, að hann væri einn mesti fjandmaður Reykvíkinga. Ef orð mín hafa verið skilin þannig, þá vil ég sjálfsagt leiðrétta þau, því að mér hefur aldrei dottið í hug að segja það um jafnágætan mann og Jónas Guðmundsson. Hæstv. ráðh. var nú ekki alveg viss um, að ég hefði átt við hann, og gat sér nú svona til, að þetta skeyti hefði átt að fara til annarra manna í n. Honum var það sjálfum ljóst, jafnvel af þeim orðum, að það voru aðrir menn í þessari nefnd, sem voru fjandmenn Reykvíkinga, heldur en Jónas Guðmundsson. En ég vil hér með lýsa því yfir, að ég hef aldrei meint þessi orð til Jónasar Guðmundssonar og vil ekki, að þau séu skilin þannig, enda ekki mælt þannig.

Þá sagði hæstv. ráðh., að öll mþn. hefði staðið einhuga um frv., að undanskildum X. og XI. kafla. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi bara alls ekki lesið nál. frá mþn. Hér eru sértill. og sérálit Hannesar Pálssonar, ágreiningsatriði í málinu á löngum köflum. Hér eru fleiri ágreiningsatriði á 6. blaði og ágreiningsatriði hér og ágreiningsatriði þar. Hér er sérálit og till. Magnúsar Jónssonar, sérálit og till. Ólafs Sveinbjörnssonar. Yfirleitt er nál. ekkert annað en sértill., sérágreiningsatriði um meira og minna í allri löggjöfinni. Þetta er sannleikurinn í málinu, og hér liggur það í þskj., svo að það er ekki neinn tilbúningur úr mér.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri ofraun af mér að ætla að telja nokkrum þm. trú um það, að þetta mál sé borið fram af andúð Framsfl. til Reykvíkinga. En ég held menn þyrftu ekki annað en lesa hér ágreiningsatriði Hannesar Pálssonar, og væri raunverulega mjög freistandi, ef ekki gerði, að við værum hér á næturfundi, að leyfa hv. þm. að heyra þau. En ég held þeir ættu að kynna sér þetta þskj., nr. 268 frá síðasta þingi, til þess að sjá, hver undirrótin er í öllu þessu máli. Svo sagði hæstv. ráðh., að þskj. hefði verið stjórnarfrv., borið fram sem stjórnarfrv., sem er alveg rétt, síðan er það borið fram af n., sem er líka rétt, og í þriðja skiptið er það nú borið fram af tveim þm., sem er líka rétt. En var þetta þá ekki ábending til hæstv. ráðh. um að stöðva þetta mál, sem hér á Alþ. hafði fengið þá meðferð, því meira sem það var athugað? Fyrst var það hæstv. ríkisstj., sem glaptist á að flytja það, af því að hún hafði ekki kynnt sér málið nægilega vel, hefur trúað þeim mönnum, sem vildu bera það fram. Þegar hún svo heyrir öll rök í málinu, þá vill hún ekki bera það fram á næsta þingi. Þá fer hæstv. ráðh. og fær n. til þess að gera það, sem þó vill ekki taka ábyrgðina á því frekar en venjulegt er, en þegar hún er líka búin að kynna sér málið og hefur heyrt öll rök á næsta þingi, þá er ómögulegt að fá hana til þess að taka málið aftur, ekki nokkur leið. Og þá er hlaupið í þetta skúmaskot, að fá tvo af þm., sem ekkert þekkja inn á kröfur Reykvíkinga eða þeirra manna, sem í þéttbýlinu eru, heldur sjá ekkert út fyrir túngarðinn heima hjá sér í sveitinni og í félagsmálum, sem þar gilda. Þeir eru fengnir til þess að bera þetta mál fram í trausti þess, að þeir hafi aldrei lesið þau rök, sem voru færð fram á fyrri þingum, og ef þeir hefðu heyrt þau, þá aldrei skilið þau. Ja. hvað var meiri ástæða fyrir hæstv. ráðh. heldur en þetta til þess að stoppa nú þetta frv. og láta það ekki koma fram? Það hefur líka komið fram hér við umr., að eftir því sem málið er rætt meira, því ljósara er, að þetta mál á ekki að ná fram að ganga. Það á að fara í eina deild til og athugast af mönnum með einhverjum skilningi á málinu og einhverri þekkingu á málinu, en ekki með fyrir fram dæmdri andúð á ákveðnum stéttum, sem þó verða að búa við þessi lög.

Ég skal ekkert ræða um þau ummæli hæstv. ráðh., að það sé á mínu valdi að færa frv. á betra mál. Hann sagði nú líka, að síðar mætti nú bæta um þetta. Hann viðurkenndi, sem hans var von og vísa, að málið á frv. væri slíkt, að það væri eiginlega varla frambærilegt, en það mætti alltaf laga þau missmíði á þessu frv. síðar meir. Ég skal svo ekki ræða meira um það og þá ekki heldur meira um afstöðu hæstv. ráðh. eða ummæli hans í þessu máli.

Þá skal ég koma nokkuð að ræðu hv. frsm. meiri hl. Já, ofan á þessa sorgarsögu frv., sem ég var að lýsa hér og er staðfest af hæstv. ráðh., þá hefur nú bætzt enn ein ný. Nú hefur hæstv. ráðh. vikið út af umræðusviðinu hér og ekki treyst sér til þess einu sinni að mæta þeim rökum, sem hér eru færð fram. Setti hann í það annan mann, einn ágætasta mann flokksins, til þess að vera fulltrúi sinn, en hann hefur líka verið hrakinn út af þessu sviði hér í kvöld, svo að hvorugur hefur einu sinni þorað að standa hér til þess að mæla því bót. Samt sem áður get ég ekki látið vera annað en hrekja þau ummæli, sem hv. frsm. meiri hl. hefur haldið hér fram í sinni ræðu. Þau sjást þó a. m. k. í þingtíðindunum, og þar getur hv. frsm. meiri hl. lesið þau og þá svarað minni ræðu hér við næstu umr. En fjarvist þeirra beggja mæli ég á þann mælikvarða, að hvorugur þeirra hafi treyst sér til þess að halda hér uppi vörn fyrir þessu máli, enda eðlilegt, þegar maður lítur á forsögu málsins.

Hv. frsm. meiri hl. byrjaði hér með því að segja, að framsöguræða þm. Barð. hefði ekki verið til þess fallin að tryggja samkomulag stjórnarflokkanna. Er þetta frv. hér og meðferð þess hér í þinginu, fyrst í n. og síðan í þessari d., eitthvert mál til að tryggja samstarf stjórnarflokkanna? Ég held, að það sé ákaflega mikill misskilningur bæði hjá hæstv. ráðh. Framsfl. og hv. frsm. meiri hl., að þetta mál verði til þess að tryggja eðlilegt og drengilegt samstarf þessara flokka. Þeir hefðu heldur átt að stöðva þetta mál og beita kröftum sínum til þess að leysa önnur og meiri vandamál, sem meira samkomulag var um og hefði verið betri árangur af, heldur en kasta þessu hér inn til þess að fjarlægja flokkana, svo að þeir gætu síður unnið saman að betri málum. Það er ekki til þess að tengja þá saman. En það var ekki okkar verk, það var verk Framsfl., og þeir taka þá afleiðingunum.

Svo segir hann, að mín síðari ræða hafi nú batnað allmikið í tón, ég hafi verið þar mildari og þá ekki eins ádeiluharður, enda orðið fyrir mikilli hirtingu frá hæstv. félmrh. Í hverju var hirtingin fólgin? Hún var fólgin í því að lýsa mig sem forseta þessarar d. einhvern einræðisherra, sem beitti hér einræðisvaldi. En þegar hæstv. ráðh. var bent á, að hér hefði verið ofmælt, og lesið yfir honum það, sem hann hafði sagt um það atriði, hverju svaraði hann þá? Hann roðnaði. Hann glúpnaði og spurði: Hef ég virkilega haft þessi ummæli? — Og þegar honum var rétt hans eigin ræða, beint tekin af segulbandinu, sem vitað er að ekki breytir orðum, jái í nei, ekki breytir meiningunni, þá gat hann ekkert annað en þagað.

Hann segir líka, að önnur hafi verið afstaða minna flokksmanna í Nd. En þeir höfðu nefnilega ekki heyrt þá yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. hefur nú gefið hér. Þeim var alveg óljóst, hvað var á bak við flutning þessa frv. Mér var það hins vegar ekkert óljóst. Ég þekki ákaflega vel hugsunarhátt þessara manna. Þrátt fyrir allt drenglyndi, sem ég þekki mjög mikið af hjá hæstv. ráðh., þá er þessi tuddaskapur í sumum af þessum mönnum svo mikill, að hann hlýtur alltaf að brjótast upp og þeir ráða ekki við það sjálfir. Þeir ráða ekki sjálfir við þessi vondu öfl í sínum flokki, hversu vel sem þeir vildu ráða við þau. Það þarf ekkert annað en lesa hér þetta verk til þess að vita, að það er einn mikill áhrifamaður í flokknum, sem sí og æ vinnur að því, að m. a. þetta mál sé gert að sundrungarmáli á milli þessara tveggja flokka, sem unnið hafa saman undanfarin ár að öllum þeim beztu málum, sem framkvæmd hafa verið í landinu og ekki hefðu náð fram að ganga, ef þessir tveir flokkar hefðu ekki unnið saman, nema Sjálfstfl. einn hefði haft fullt afl til þess að koma þeim fram. Þetta vita allir menn. Samt sem áður eru þessi öfl alltaf sívinnandi í Framsfl., og hin góðu öfl, bæði hæstv. félmrh. og ýmissa annarra góðra manna í flokknum, verða svo að sveigja undan þessum vondu öflum. Ef mínum flokksmönnum í Nd. hefði verið þetta eins ljóst og mér er þetta ljóst í gegnum fjöldamörg ár, gegnum mikla samvinnu og þekkingu á þessum mönnum, þá hefði sjálfsagt þeirra afstaða verið allt öðruvísi. Auk þess vil ég benda á, að þessir menn gerðu mjög mikinn ágreining í sambandi við aðalkaflana, sem deilt hefur verið um, og einnig, að hv. 2. þm. Eyf. (MJ) vísaði í öllum sínum ræðum í þann ágreining og það sérálit, sem hann hefur gefið á þskj. 268, og það átti hæstv. ráðh. að vera kunnugt um.

Hv. frsm. sagði, að það væri æskilegt, að menn eignuðust sjálfir hús yfir höfuðið. Þar er ég honum sammála. En ég á við, að menn eignist það á drengilegri og ærlegri hátt en þann, sem felst í yfirlýsingu hæstv. ráðh. Ég margspurði einmitt fulltrúa þeirra félagssamtaka hér í Reykjavík, sem mætti á fundinum, hvort það væri virkilega þeirra skoðun, að þessi löggjöf mundi auka og örva húsbyggingarnar og hjálpa mönnum til þess að byggja bæði yfir sjálfa sig og aðra, því að það er vitanlega kjarni málsins. En þeir svöruðu, að það væri alveg aukaatriði, það dytti þeim ekki í hug að hugsa um. Það er alveg aukaatriði að hafa samvinnu við þá, sem eru að berjast við að leysa þann vanda. Og svo sagði hv. frsm. og kom nú með spakmæli eftir Bernard Shaw, „að sannir íhaldsmenn væru jafnan á móti öllu nýju, en halda síðan í það og eigna sér það venjulega síðar og vilja þá ekki sleppa því“, og vildi síðan heimfæra það upp á afstöðu sjálfstæðismanna til þessa máls. Ég held, að hann hefði átt að horfa sér nær og skoða hina almennu afstöðu Framsfl. í raforkumálunum núna, eins og hún birtist venjulega í þeirra málgagni, — mannanna, sem voru langmest á móti öllum rafmagnsframkvæmdum á sínum tíma, en gera nú allt, sem þeir geta, til þess að túlka það fyrir þjóðinni, að þetta sé þeirra mál, og nú vilja þeir halda í það og sleppa því ekki frekar en Bernard Shaw segir um brezku íhaldsmennina.

Þá ræddi hv. þm. mínar brtt. Ég skal nú ekki fara mjög mikið út í þann kafla ræðunnar, vegna þess að það hefur sáralitla þýðingu. Ég vil þó aðeins benda á, að mér sýnist, að það sé einmitt hann, sem misskilur alveg fullkomlega ákvæðin yfirleitt bæði í 1. og 2. gr. frv. Hér er gerður greinarmunur á leigumála um íbúðir, atvinnuhúsnæði og einstök herbergi. Það er að vísu einn af mörgum ókostum frv., að það skuli ekki vera neinn kafli, sem skýrir hin ýmsu ákvæði þess, svo að menn vita ekki einu sinni, hvort þessi orð eða þessar setningar eiga að þýða þetta eða hitt. Það hefði verið miklu aðgengilegra í þessari löggjöf eins og svo margri annarri, en látum það vera. En það kemur alveg skýrt fram hér á þskj. 268. Þar er talið undir einum lið íbúðarhúsnæði, undir öðrum lið einstaklingsherbergi og undir þriðja lið atvinnuhúsnæði, enda er það skiljanlegt, að svo ætti það að vera í frv. Hér er augsýnilega gerður mikill greinarmunur á. Með íbúðum er átt við eitt herbergi og eldhús eða meira, eins og síðar kemur fram í frv., en með einstaklingsherbergi er aðeins átt við það, sem leigt er út til einhleypinga, þ. e. a. s. ekki húsnæði með eldhúsi. Ég held, að engum manni hafi dottið í hug, að það ætti að taka út hvert eitt einasta herbergi í hvert skipti sem leigjandi fer úr því og í, og ef það er hugmynd hv. frsm. meiri hl., að það eigi að skiljast svo, að allar íbúðir eigi að taka út, þegar maður fer í þær og úr þeim, og það gildi einnig um herbergi einstaklinga, þá er nú óhætt að tífalda þá tölu matsmanna eða úttektarmanna, sem hv. 10. landsk. þm. (GÍG) var að tala um, og þá náttúrlega um leið hægt að hækka mikið áætlaðan kostnað, sem af því hlýzt. Þetta er nú bezta sönnunin fyrir því, að ég hef hér á réttu máli að standa og að ég hef hér réttan skilning á þessu máli, en hv. frsm. ekki.

2. brtt. taldi hann óþarfa. — Ég hló nú að því, þegar hv. þm. eyddi allmiklum tíma í að telja hv. þm. og öðrum, er til heyrðu, trú um það, að orðið „síðdegis“ væri ekki íslenzka, það væri ekki síðdegis fyrr en eftir kl. 3. Það er náttúrlega alveg eftir því, hvað snemma menn byrja morgunstörfin. En ég held nú svona í almennu íslenzku máli, að þá sé það alltaf talinn síðari hluti dagsins, sem er eftir hádegi, og fyrri hluti dagsins, sem er fyrir hádegi, og ég hef nú aldrei heyrt það fyrr, að t. d. kl. 1 eftir hádegi gæti verið árdegis. Ég held því, að það sé alveg óhætt fyrir hv. þm. að samþykkja mína till. um það, þó að sumum hverjum, sem fara seint á fætur á morgnana, þyki dagurinn ekki vera liðinn að hálfu fyrr en komið er undir kvöld.

Um 4. brtt. sé ég ekki ástæðu til þess að vera að þrátta við þm. En hann lýsti því yfir, að hann mundi geta greitt atkv. með minni 5. brtt., og þykir mér vænt um, að hann hefur þó fundið, að einhverju þyrfti að breyta, og það svo nauðsynlegt, að hann vildi jafnvel vera með að breyta því, þótt málið þyrfti að fara fyrir það til Nd. á ný. Hann sagði hins vegar, að það mætti ómögulega samþ. mína brtt. um það að fella niður orðið „meindýralaust“ í 6. brtt. minni, það væri sjálfsagt að halda því í lögunum, að leigusali bæri alla ábyrgð á því að afhenda húsið meindýralaust, en það feldist þó ekkert í þessu annað en tilkynningarskylda. Ég held, að það væri nú rétt að breyta þá greininni þannig, að það væri ekki deilt um það, því að það er ákaflega mikill eðlismunur á því, hvort húseigandi hefur tilkynningarskyldu til bæjarins um það, að meindýr séu í húsinu, eða hvort honum beri skylda til þess að sjá sjálfur um að útrýma þeim meindýrum og taka þá skyldu af þeim aðilum, sem hún er lögð á herðar í dag.

A-lið 7. brtt. vildi hv. frsm. samþykkja, en sagði, að það væri alveg óþarfi að samþykkja b-liðinn. Ég benti á og skal ekki endurtaka það, að ég teldi, að þetta gæti valdið síðar ágreiningi og því væri rétt að samþykkja hann einnig.

Um 8. brtt. mína, við 15. gr., sagði hv. frsm., að sjálfsagt væri að halda þessu ákvæði óbreyttu, en ég hef lagt til í þeirri till., að 2. málsgr. falli niður, af því að slíkt ákvæði gerir aðeins að auka á óánægju milli aðila, en ekki að draga úr henni. — Hann sagði, að 9. brtt. mína, sem er við 16. gr., ætti ekki að samþ., þetta ákvæði í frv. væri eðlilegt og mætti ekki fella niður. En sú brtt. er um, að síðari málsgr. 16. gr. falli niður, þ. e., að ekki megi rifta samningum, ef eitthvað minni háttar er að íbúðum. Þetta ákvæði er einnig eingöngu til þess að valda deilum og ekkert annað, og slík ákvæði á að fella í burtu.

En það skemmtilegasta við aths. hv. frsm. var þó það, sem hann sagði um 10. málsgr., að þetta ákvæði í l. mætti fara í kringum, það væru engin vandræði að brjóta l. þarna, það hefði ekki neitt að segja og það mætti ákaflega vel fara í kringum þetta. Ja, ég verð nú að segja það, að þá eru nú löggjafar orðnir langt leiddir, þegar þeir fara að lýsa því yfir á Alþ., að þeir séu sammála því, að í frv. standi og verði að lögum gerð ákvæði, sem mjög auðvelt sé að fara í kringum, og þess vegna þurfi ekki að vera að berjast fyrir því, að þau séu felld niður.

11. brtt. mín sagði hann að væri alveg óþörf. Ég skal ekki ræða um það nánar. Ég hef lýst því áður.

12. brtt. mína, sem er við 28. gr. frv., um að gr. falli niður, en sú grein snertir viðhaldsskyldu leigutaka, taldi hv. frsm. óverjandi. Hann vill þó láta breyta þessu ákvæði nokkuð í sambandi við úttektina. En ég hef bent á, og það hafa og aðrir gert, að þetta atriði er einmitt meginágreiningsatriðið í frv., ekki einasta milli hæstv. félmrh. og minni hl. nefndarinnar, heldur og milli hans og allra þeirra, sem við lögin eiga að búa. Hvorugur aðilinn vill hafa þetta ákvæði í lögunum. Það kom greinilega í ljós við umr. í n., að hvorki fulltrúar leigusala né leigutaka vilja hafa þetta ákvæði í l., en það upplýstist einnig í n. af fulltrúa leigutaka, að það var Hannes Pálsson, sem barði í borðið í milliþn. og sagði: Ég vil hafa þetta ákvæði inni í l., og ef ég ekki fæ því ráðið, þá ætla ég ekki að standa sem fulltrúi fyrir leigutaka hér í sambandi við þessa löggjöf. — Það er svo sem ekki að furða, þó að hv. frsm. vilji ekki fella það niður. Sagði hann, að þetta væri hliðstætt því, að leiguliðar yrðu að halda við jörðum sínum, sem síðan eru metnar við úttekt, og sagði, að venjulega fengju ábúendur ekki allt það fé, sem þeir leggja í endurbætur. Er það þá hugsun hv. meiri hl. og hugsun Framsfl., — það er gott að fá yfirlýsingu um það, — að það eigi alls ekki að greiða leigutaka það, sem hann kann að leggja í íbúðirnar til viðhalds, ef það er meira en þurfi að gera að dómi úttektarmanna? Er það skoðun þeirra, að þær till., sem fram hafa komið til breyt. við þessa grein, séu alveg óþarfar, vegna þess að leigutaki eigi raunverulega aldrei að fá annað eða meira upp borið heldur en einhvern hluta af því, sem hann leggur í viðhald? Ég hygg, að það séu fjöldamargir leigutakar, sem leggja í þetta allt annan skilning, og ég hygg, að dómstólarnir mundu leggja allt annan skilning í þetta þrátt fyrir ummæli hv. frsm., og ég held, að það væri ákaflega auðvelt fyrir t. d. málara að komast á léttan hátt yfir íbúð, ef hann kæmist inn í íbúð, sem væri heldur lélega máluð, hefði sjálfur lítið að gera, tæki sig svo til og málaði alla íbúðina hátt og lágt, setti í hana svona 20 þús. kr., sem vel er hægt að gera nú með því að mála íbúðir upp, reiknaði þetta ríflega, sumt í eftirvinnu og sumt í dagvinnu, gæti svo fengið þetta að fullu greitt. Það þyrfti ekki lengi að bíða, þangað til hann gæti komizt yfir íbúðina á þennan hátt. Þannig eru nú þessi fyrirmæli. Sé hins vegar ætlun þeirra manna, sem fylgja þessu frv., að það sé aðeins lítill hluti af þessu, þá er bezt, að það sé tekið fram í frv., svo að menn viti þá, hverju þeir eru að ganga að. En það sýnir þá einmitt, hversu kastað hefur verið höndunum til þess að semja þessi ákvæði, sem snerta þó tugþúsundir manna. Annars þýðir ekkert fyrir menn að vera að bera saman hér ábúðarlöggjöf og viðhald jarða og peningshúsa í sveitum og húsnæðismálin hér í fjölbýlinu. Þetta er svo óskylt, og menn, sem ekki geta haft stærri sjóndeildarhring heldur en það að sjá aðeins það, sem snertir þeirra eigin túnblett, eiga ekki að vera að ræða um svona vandamál eins og hér er til umræðu. Það er svona alveg sama eins og að við Reykvíkingar færum að kaupa okkur kýr og beita þeim út á götuna og halda bara, af því að þær væru látnar út fyrir húsið, þá geti þær haft nægilegt gras og nægilegt fóður og mjólkað eins vel, því að þetta gerðu þeir í sveitinni. Ég hygg, að það yrði heldur svona hlegið að okkur. En nákvæmlega sama er hér að koma fram og það hjá jafngóðum og glöggum manni eins og hæstv. ráðh., að hér þurfi ekki að hugsa á annan hátt en hugsað er undir allt öðrum viðhorfum.

Um 13. brtt. sagði hv. frsm., að hér væri aðeins átt við tilkynningarskyldu. Það er þá nauðsynlegt, að þetta sé skýrt tekið fram í frv., því að það er sannarlega mikils virði, ef leigutaki getur fært sig undan þeirri skyldu að hreinsa íbúðina af meindýrum aðeins með því að hringja niður á bæjarstjórnarskrifstofurnar hér í Reykjavík og tilkynna þeim að gera það. Er sannarlega nauðsynlegt, að þetta komi skýrt fram, svo að menn misskilji ekki þetta ákvæði. Þessi skylda er svo þung á leigutaka í dag eftir ákvæðum frv., að það er gersamlega ótækt fyrir leigutaka að búa við hana, nema því aðeins að hún eigi að skiljast á þann hátt, sem hún er túlkuð hér, og þá verður að breyta því í frv.

Um 15. brtt., sem er um það, að 34. gr. falli niður, þ. e. að taka skuli út íbúðina, segir hv. frsm., að þessu megi engan veginn breyta, það megi engan veginn fella þetta niður. Hins vegar vísaði hann til þeirrar brtt., sem meiri hl. hafði borið fram á sérstöku þskj. Ég skal ekki ræða frekar þetta atriði, það hefur verið gert af öðrum, sem hafa gert því full skil, svo að það er engu við að bæta, og hygg ég, að hv. þm. sé það ekki fullkomlega ljóst, hvaða tjóni fyrirmæli þessarar gr. hljóta að valda, nema því aðeins að stofnað sé til þess gífurlega kostnaðar, sem hv. 10. landsk. (GÍG) benti á hér fyrr í dag, og mundi þó aldrei vera hægt að útiloka óánægju og alls konar málaferli og stríð í sambandi við þessi ákvæði laganna.

16. brtt., við 35. gr., um að hún yrði felld niður, vildi meiri hl. heldur ekki láta samþ. og vísaði þar einnig til brtt. sinnar. Ég þarf ekki að ræða frekar um það, en vil þó benda á, að honum þótti sanngjarnt, að menn eyddu tveimur klukkustundum á dag til þess að sýna húsnæði, sem þeir fengju ekki lengur leyfi til þess að búa í. Ef nú um væri að ræða, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, að hér ætti orðið „íbúðir“ að skiljast þannig, að það væru ekki einasta íbúðir með eldhúsi, heldur einnig einstök herbergi, hvernig er þá hugsað sér að leggja þá kvöð á einhleyping, sem hefur engan heima til þess að vera í herberginu, að vera heima tvær klukkustundir hvern virkan dag til þess að sýna þessa íbúð? Ja, þó að maðurinn ætti nú aðgang aftur að vinnu, þá er þó a. m. k. hér um að ræða svo sem 25–26 krónur á hverjum degi, sem hann eyðir í að sýna fyrir annan húsnæði, sem hann má ekki lengur vera í sjálfur, eða hann verður að leigja einhvern annan mann til þess að sitja í þessu fyrir þá ekki minna gjald til þess að sýna það. Sé hins vegar hér um að ræða, að þetta gildi aðeins um íbúðir, þá hefur hv. frsm. meiri hl. viðurkennt minn rétta skilning á frv., að það gildi annað um íbúðir en einstök herbergi. En eftir hans skilningi á þessi kvöð þó að hvíla á þeim, sem leigja aðeins einstök herbergi. Ég vildi gjarnan sjá þá hv. þm., sem sætu þar tvo tíma á dag, og það þá daga, sem heimtuð er af þeim 16–18 klukkutíma vinna hér í Ed.; loksins ættu þeir að sitja tvo klukkutíma um miðjan daginn til þess að sýna herbergin. (Gripið fram í.) Ég vildi, að þær prófastsnætur lentu fyrst á hv. þm. S-Þ.

18. brtt. mín, sem er við 60. gr., er um, að niður falli orðin: „nema gildar ástæður séu fyrir hendi“. Hv. þm. spurði: Hvers vegna á þetta að vera ótakmarkað? — Hafi venzlamenn hins látna yfirleitt verið í húsum hæfir, þá sé ég ekki, hvers vegna það á að vera leyfi til þess að segja samningunum upp, þó að einn úr fjölskyldunni hafi horfið yfir landamærin. — Annars skal ég ekki eyð:a tíma hv. d. til þess að ræða um það.

Um 19. brtt. mína, sem er við 41. gr., og 20. brtt. skal ég heldur ekki ræða. Það er eins og ég segi, þessi orð valda misklíð á milli aðila, og það er þess vegna, sem ég hef lagt til, að þau yrðu felld niður.

Höfuðágreiningurinn er um 21.–23. brtt., eins og hv. frsm. gat réttilega um.

Hv. frsm. sagði, að ég hefði spurt, hvað sveitabændur mundu segja um það, ef þeim yrði fyrirskipað að lúta slíkum ákvæðum. Ég spurði nú ekki þannig. Ég spurði, hvað sveitabændur almennt mundu hafa sagt um það að eiga að lúta slíkri meðferð á málum eins og hér hefur verið höfð, og það er nokkuð annað atriði, — ef þm. hér úr Reykjavík eða öðru fjölbýliskjördæmi hefðu samið og flutt frv. til ábúðarlaga í sveitum landsins, það hefði verið óskað eftir að senda það til Búnaðarfélagsins, og það hefði ekki fengizt, það hefði verið óskað eftir að ræða við landbrh., og það hefði ekki heldur fengizt, mótmæli frá Búnaðarfélaginu hefðu ekki verið tekin til greina. Það var þetta, sem ég spurði um, og ég veit, að þeir hefðu ekki sætt sig við það, og þeir hefðu heldur ekki átt að sætta sig við það frekar en Reykvíkingar eða aðrir fjölbýlismenn eiga að sætta sig við þessa meðferð á frv. því, sem hér um ræðir. Og svo sagði hann, að þeir lúti einmitt sömu ákvæðum, sbr. forkaupsrétt ábúanda og sveitarfélaga og rétt sveitarfélaga til að byggja jarðir þeirra. Ég veit ekki, hvað hv. þm. er að fara. Hver er að tala hér um forkaupsrétt? Ég held, að það sé ekkert óeðlilegt, þó að ábúandi hafi forkaupsrétt að jörð, sem eigandinn vill selja. Við höfum ekki neitt við það að athuga, þó að inn í þetta frv. væri sett ákvæði um það, að leigjandi skyldi hafa forkaupsrétt að leiguíbúðinni. Slíkt er ekki nema eðlilegt. Og ef við getum sætzt á að samþ. allar mínar brtt. gegn því, að inn sé sett, að leigjandinn skuli hafa forkaupsrétt að íbúð, sem eigandinn vill selja, þá eru engin vandræði að afgreiða þetta frv. hér í dag. Þó að sveitarfélag hafi forkaupsrétt, þá er það ekki nein kvöð út af fyrir sig á þann, sem vill selja jarðirnar. Honum er nákvæmlega sama, hver kaupir og hver hefur forkaupsréttinn, ef hann aðeins fær það verð fyrir þær, sem hann vill hafa, svo að það er ekki hægt að bera þetta saman. Þetta er nú aðeins til þess að flækja málið. — Ég læt þá lokið hér að ræða meira við hv. frsm. meiri hl.

Ég vil aðeins benda á í sambandi við það, sem hv. 10. landsk. sagði, að hann hefur undirstrikað í sinni ræðu allt það, sem ég sagði í minni framsöguræðu hér fyrr. Hann sagði: Það vantar mjög á, að tekin séu upp í l. öll þau atriði, sem nú eru orðin að venju fyrir dómsniðurstöður eða fyrir hefð. Þessi atriði eru ekki einu sinni tekin upp. — Þetta er maður, sem er kunnugur málunum af embætti því, er hann situr í. Hvort sem nú hv. 2. þm. S-M. (VH), sem alltaf er að brigzla mér um alls konar óþinglega meðferð og ósannsögli og annað því um líkt, eins og kom fram hjá honum áðan, vill trúa mér eða ekki, þá kannske vill hann trúa þessum ágæta manni, sem þekkir þetta út í yztu æsar, en hann undirstrikaði í sinni ræðu allt, sem ég hafði sagt hér. Og ef hv. þm. Framsfl., m. a. hv. form. n., þykir eitthvað ljúfara að trúa því, eftir að það kemur af hans munni, þá er það líka til samkomulags við mig, ef það getur leitt hann í allan sannleika, bara af því að sömu orð koma frá öðrum manni. Hins vegar sagði hann, að það væru mörg ákvæði í frv., sem dómstólarnir mundu ekki viðurkenna, nema um þetta yrðu sett föst lagafyrirmæli. Er það ekki einmitt þetta, sem ég var að halda fram? Er þetta ekki kjarni málsins, að það eru mörg ákvæði, sem dómstólarnir viðurkenna vegna hefðar, sem ekki eru tekin upp í frv., og það eru mörg ný ákvæði tekin upp í frv., sem enginn dómstóll mundi vilja viðurkenna réttlát í dag, nema þau væru fyrirskipuð af Alþingi? Hvað er hægt að fá þyngri dóm frá bæjarfógeta og sýslumanni og þm. og ágætis lögfræðingi og hæstaréttarmálafærslumanni heldur en þessi orð? Svo lýsti hann því mjög skýrt og skilmerkilega, hversu mikils þyrfti við til þess að geta uppfyllt þau fyrirmæli, sem eru í frv. í sambandi við úttekt, og þarf ég ekki að endurtaka það, en allt það var undirstrikun á því, sem ég hafði sagt áður. Hann tók nú svo djúpt í árinni, að hann sagði: Úttektarákvæðin eru einhver þau furðulegustu, sem ég hef séð í löggjöf fyrr og síðar. — Þetta voru ekki mín orð, en það er undirstrikun á því, sem ég hafði sagt. Það var undirstrikun á mínum orðum um það, að þetta mál hefur fengið svo lélegan undirbúning, að það er ekki sæmandi fyrir Alþ. samþ. frv. óbreytt. Ég er nú alveg viss um það, að þegar búið er að framkvæma úttektirnar á þann hátt í nokkur ár, jafnvel ekki einu sinni nokkur ár, á þann hátt, sem nauðsynlegt er samkv. skýringum hv. 10. landsk., þá verður ríkissjóður að leggja til mikla fúlgu til þess að byggja nýtt safnhús hér í Reykjavík fyrir öll þessi gögn, ef þau eiga ekki að glatast, og mun kosta mörgum sinnum meira en höllin yfir fornritin, þó að við fáum þau heim. Þetta er stefna, sem þessir menn vilja marka.

Þá vildi ég aðeins segja hér nokkur orð við hv. 4. þm. Reykv. Hann sagði, að hann vildi óska þess, að gerð yrði frekari grein fyrir þeim ummælum, er ég hefði haft hér, að það hefði verið reynt að semja um þetta mál. Ég veit ekki, hvort hv. þm. má heyra hér mitt mál, en úr því að hann spurði, skal ég svara honum. Hann sagði, að slík ummæli mætti ekki hafa eftir, nema það væri einhver fótur fyrir því. Í fyrsta lagi hélt ég nú, að hv. þm. hefði hlustað á það, sem hefur verið talað hér í dag, sumpart úr ræðustólnum og sumpart úr forsetastóli, að það yrðu stöðvuð önnur mál á þessu þingi og afbrigði ekki veitt, ef ætti að stöðva þetta mál. Það er m. ö. o., að ef forsetar deildanna og meiri hl. þm. vilja láta þetta mál ná fram að ganga, þá er enginn þröskuldur settur fyrir önnur mál, sem nú eru stöðvuð beinlínis vegna þess, að þetta mál gengur ekki nógu hratt fram. Er þetta nú ekki nægileg sönnun fyrir mínum ummælum. Þetta er það fyrsta. En að öðru leyti vil ég segja hv. 4. þm. Reykv. það, að ef hann hefði sjálfur verið á fundinum, þá hefði hann ekki þurft að spyrja mig um þessi mál, og það var ekki mín sök, að hann var ekki á þeim fundi. Form. n. þóttist hafa verið búinn að rannsaka hjörtu og nýru hv. þm. í þessu máli, hefði því getað gefið honum frí og merkt hann meiri hl. í nefndinni. En sjálfur hefði hann getað heyrt, um hvað var rætt þar í þessu máli, og þá komizt hjá að spyrja þannig, ef hann hefði verið þar. Þetta er mitt svar við hans fyrirspurn. (Gripið fram í.) Það er nú ekki allt bókað, sem rætt er um á fundunum. (Gripið fram í.) Það fer ekki allt inn á segulbandið, sem þar er talað, eins og hv. þm. veit.

Þá sagði hv. þm., að hann furðaði á því, hve lítið hefði verið rætt um hinn eiginlega kjarna þessa máls og það ástand, sem komið hefði þessu máli af stað. Ja, hvað sem má segja um mína ræðu, þá verður því, held ég, ekki núið um nasir hæstv. dómsmrh. og hv. 10. landsk., að þeir hafi ekki rætt um kjarna þessa máls. En er nú hv. 4. þm. Reykv. alveg viss um, að þetta frv., ef að lögum verður, bæti úr húsnæðiseklunni? Ég er alveg viss um það, að það torveldar að leysa þann vanda, og ég hef varað hv. meiri hl. við því að setja þetta frv. fram og gera það að lögum einmitt vegna þess, að það torveldar að leysa þann vanda, sem hefur skapazt hér í húsnæðismálunum og hv. 4. þm. Reykv. alveg rakalaust hefur kennt um núverandi hæstv. ríkisstj., því að ef hans stjórnarstefnu og hans flokks hefði verið fylgt í þessum málum, þá átti án efa að halda enn öllum þeim böndum, sem torvelduðu það að halda áfram byggingunum, öllum þeim böndum, sem torvelduðu það, að menn geti aflað nýrra verðmæta til þess að geta byggt sér hús. En einmitt það að halda þeirri stefnu, sem hér hefur verið haldið í fjármálum þjóðarinnar, síðan Alþfl. hrökklaðist úr stjórninni, hefur hjálpað til þess að leysa þennan vanda, og það hefur örvað menn til þess að byggja eins mikið og þeir hafa getað fengið fé til og eins mikið og þeir hafa fengið leyfi til að byggja. Það er hins vegar eftir einn möguleiki enn í þessu máli, og það væri kannske vert að reyna hann, og það er að gefa öllum húseigendum skattfrelsi á því fé, sem þeir fá fyrir að leigja út íbúðir sínar til annarra nú á meðan húsnæðiseklan er í bæjum. Þá gæti vel verið, að menn reyndu að þrengja meira að sér en þó gert er í dag, og það væri ekki nema réttlæti ofan á allt það ranglæti, sem búið er að sýna þessum mönnum, og alla þá byrði, sem þeir urðu að taka á sig, á meðan stríðið stóð og allt var hneppt í fjötra. Það eru til ýmsar leiðir til þess að leysa þennan vanda enn, en þetta verður aldrei leiðin, að taka eignarréttinn af mönnum eins og hér er gert með þessu frv.

Hv. þm. sagði einnig, að aðalkafla frv. væri að mörgu leyti ábótavant. Hann viðurkenndi það og undirstrikaði þar með mín ummæli. Hann segir hins vegar, að þetta megi laga allt saman síðar, þó að þetta sé lögfest. Ja, það er nú sannarlega hægara sagt en gert að laga sum lög aftur, þegar búið er að koma þeim á, og einkum eftir að búið er að lýsa því yfir af hæstv. félmrh., að þessi lög skuli vera stærsta sporið í þá átt að taka eignirnar af mönnunum. Það er ekki alveg víst, að það sé hægt að laga þetta strax aftur. Ég hefði hins vegar talið, að það væri miklu heppilegra að setja þessi lög þannig nú, að aðalkaflinn yrði mjög rúmur rammi, sem uppfylla mætti síðan með sanngjörnum reglugerðarákvæðum, sem hægt er að breyta að fenginni reynslu án þess að breyta lögunum sjálfum, en setja ekki löggjöfina á þann hátt, sem hér er ráð fyrir gert. En þá þarf, eins og ég hef tekið fram, að semja kaflana upp, og til þess vinnst ekki tími á þessu þingi. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég er nú í þann veginn að ljúka þessum mínum aths., vil þó aðeins segja nokkur orð við hv. form. heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. Hann sagði hér, að hann hefði átt dálítið erfitt með að átta sig á því, hvað ég hefði átt við, að málið hefði ekki fengið venjulega meðferð í n. Ég þarf ekki að endurtaka það hér, sem ég lýsti hér í minni framsöguræðu. Þá tjáði ég þessari hv. d., hvernig meðferð málið hefði fengið, og ég tel það alveg óþinglega og óvenjulega meðferð í sambandi við mjög mikið deilumál eins og hér er á ferðinni, að ekki sé gefið tækifæri til þess að bíða eina nótt, eins og farið var fram á, eftir því að heyra afstöðu þeirra aðila, sem áttu hér allmikið undir þessum lögum. Hitt hafði ég aldrei látið mér um munn fara, og getur hv. þm. fullvissað sig um af segulbandinu, að ég hafi ekki sagt þau orð, að það hafi verið höfð einhver svívirðileg meðferð á málinu. Það hefur farið fyrir honum eins og hæstv. ráðh., að hann hefur ekki vitað, hvað hann var að segja, og mætti því spyrja líkt og hann: Sagði ég þetta nú virkilega? — Ég er alveg viss um, að ef hv. þm. les mína ræðu eða ef hann hlustar á segulbandið, þá mun hann ekki finna það, að ég hafi sagt, að það hafi verið svívirðileg meðferð á þessu máli. Ég lýsti því, hverja meðferð málið hefði fengið, og þarf engu þar við að bæta. Hv. form. taldi, að það þyrfti að flýta því svo mikið, að það mætti ekki fá — eins og ég segi — hina þinglegu meðferð, og það hafði málið ekki fengið. Ég er ekki að segja, að það sé af því, að hv. þm. hafi viljað hafa þessa málsmeðferð á. En það má þá segja, að andinn hafi að sönnu verið reiðubúinn, en holdið veikt, hann hefði nefnilega gert þetta á móti vilja sínum raunverulega að fara með þetta mál þannig. Ég get fyrirgefið honum það. En hitt, að ég hafi núíð honum því um nasir, að hann hafi farið hér svívirðilega að, er alveg misskilningur. Hefur hann þar misskilið mín orð fullkomlega.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera að ræða þetta mál meira, nema það gefist sérstakt tilefni til. Ég legg að sjálfsögðu til, að allar mínar brtt. verði samþykktar. Ég mun fylgja sumum af þeim brtt. öðrum, sem fram eru komnar. Kemur það fram við atkvgr. Og lýk ég þá hér með máli mínu.