12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

125. mál, húsaleiga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en vil aðeins leyfa mér að bera fram brtt. Ég gat þess við 2. umr., að ef frv. á annað borð ætti að ná fram að ganga, þá væri með öllu meiningarlaust að láta það ekki taka til allra sveitarfélaga, þannig að hvarvetna þar sem húsnæðisskortur væri, væri mögulegt að beita heimildum frv. eða þeim köflum, sem eru heimildarkaflar. Ég skal ekki ræða það frekar, það liggur í augum uppi að mínu viti, að þetta er réttlætismál, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, bera fram brtt. við 48. gr., að 1. málsgr. orðins svo: „Þegar mikil húsnæðisekla er í sveitarfélagi, getur sveitarstjórn ákveðið með sérstakri samþykkt, að koma skuli til framkvæmda í sveitarfélaginu að einhverju eða öllu leyti ákvæði þessa kafla“; við 49. gr., að orðið „bæjarfélagi“ í 4. málsgr. verði „sveitarfélagi“ og orðin „kaupstöðum og kauptúnum“ í 5. málsgr. verði „sveitarfélögum“; og við 70. gr., að orðin „kaupstað eða kauptúni með 500 íbúa eða fleiri“ verði „sveitarfélagi“.