13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

125. mál, húsaleiga

Frsm. 1. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í d., var gerð nokkur grein fyrir efni frv. og því, hvernig undirbúningi málsins hefði verið háttað.

Þetta frv. er ekki samið í neinum flýti, heldur liggur á bak við það vinna nefndar, sem félmrn. skipaði til þess að athuga þessi málefni. Frv. var að sönnu flutt af mér og hv. 2. þm. Rang. að beiðni hæstv. félmrh., en málið er algerlega undirbúið á vegum ráðuneytisins, en ekki af okkur, sem tókum það til flutnings. Nefndarmennirnir, sem undirbjuggu þetta frv., voru 5, og félmrn. hefur vissulega leitazt við að velja til þess starfs menn, sem kunnugir eru þessum vandkvæðum, sem til staðar eru í sumum kaupstöðum landsins um samskipti leigusala og leigutaka. Í n. voru valdir 2 menn, sem hafa mjög góða þekkingu á bæjarmálefnum Reykjavíkur, þ. e. Ólafur Sveinbjörnsson og Þórður Björnsson. Enn fremur var fulltrúi í n. frá Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur, hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem hélt ræðu hér um málið fyrir skömmu nú við þessa umr. Fjórði maðurinn var Hannes Pálsson, sem fer með fasteignamat eða millimat á vegum fjmrn., og form. n. var þáverandi skrifstofustjóri í félmrn., Jónas Guðmundsson. Þessi n. hefur vissulega gengið að því starfi, sem henni var falið, með það í huga að finna lausn á viðkvæmu vandamáli, sem til staðar er í þjóðfélaginu, og niðurstaðan af starfi þessarar n. var frv. það, sem nú liggur hér fyrir til umr.

Það er rétt, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Eyf. (MJ), að nm. urðu ekki alls kostar sammála um einstök atriði frv., en frv. sem heild er þó sent rn. af n. En einstakir nm. gerðu grein fyrir afstöðu sinni og sértill. í grg. þeirri, sem fylgdi frv., þegar það var fyrst flutt hér á Alþ. á þinginu 1951, og ef litið er á þessa sérstöðu nm., þá kemur það í ljós, að t. d. hv. 2. þm. Eyf. hefur fyrir sitt leyti fallizt á þetta frv. í meginatriðum. Sá fyrirvari, sem hann gerði í sínu nál., er um það, að það falli niður úr frv. nokkrar vissar greinar, þ. e., að 61. gr. falli niður, að 62. gr. falli niður, að 64. gr. verði umorðuð að nokkru leyti, 67. gr. og 68. gr. falli niður og loks að XI. kafli frv. falli niður, þ. e. kaflinn um húsaleigumiðstöð. Þetta eru þau ágreiningsatriði, sem hv. 2. þm. Eyf. hafði í sambandi við frv., og það er næsta eftirtektarvert, einkum í sambandi við þau orð, sem féllu hjá hv. þm. í ræðu hans hér áðan, að niðurstaða hans, þegar þessu máli var skilað í hendur rn., er, með leyfi hæstv. forseta, þetta:

„Ég vil að lokum taka það fram, að ýmis þeirra ákvæða, sem ég hef lýst mig andvígan í X. kafla frv., hefði ég ekki talið óeðlilegt að hafa í frv., ef X. kaflinn hefði einungis verið heimildarákvæði.“

En nú var þessu frv., áður en það var lagt hér fram á þinginu í vetur, breytt einmitt í þetta horf, að X. kaflinn og XI. kaflinn eru heimildarákvæði.

Þetta frv. er gert af tveim meginþáttum. Annars vegar eru almenn ákvæði, sem fjalla um réttindi og skyldur leigusala og leigutaka. Um þann kafla, virðist mér, eftir að hafa kynnt mér nokkuð gögn málsins, að hafi ekki verið ágreiningur í n., sem samdi frv., eða að ágreiningur hafi komið fram á vegum rn. í meðferð þess á málinu, enda hygg ég, að það sé álit flestra manna, að það væri ávinningur að fá þessi ákvæði lögfest, og í heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. kom það greinilega í ljós, að fulltrúar Sjálfstfl. í n. voru þess albúnir að fallast á þennan þátt frv. óbreyttan. Ágreiningurinn, sem komið hefur fram um frv., hefur snúizt um hinn þátt málsins, þ. e. þau ákvæði, sem eru í frv. í heimildarformi og fjalla um vissa skerðingu á rétti manna til ráðstöfunar á húsnæði, þegar um mikla húsnæðiseklu er að ræða.

Ég verð að láta þá skoðun í ljós, að mér finnst því, að ég hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum í sambandi við þetta mál hér á þingi, að ýmsir þm. í hv. Ed. — og það einkum þm. úr Alþfl. og Sósfl. — hafa lagt sig fram um það að koma inn í frv. breytingum, ekki aðeins í þann kafla, sem ágreiningur hefur verið um, heldur einnig í hinn kaflann, sem geymir almennu ákvæðin, er ekki hafa verið ágreiningsatriði. En einmitt að tilhlutun þessara hv. þm. í Ed. hefur verið komið inn breytingum á almenna kaflanum, sem að mínum dómi eru sízt til bóta.

Þó virðist mér fyrst kasta tólfunum, þegar fram kemur brtt. sú, sem nú liggur fyrir frá hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Sú brtt. er um það að taka inn í þetta frv. ákvæði úr öðrum lögum, sem eru í eðli sínu stórfellt fjárhagsmál og ekki hefur vakað fyrir neinum, sem að undirbúningi þessa máls hafa staðið að ættu heima í þessu frv. Það er alveg ljóst, að það, sem helzt veldur ágreiningi í þessu máli, eru þau ákvæði eða þær greinar frv., sem miða að því að bæta nokkuð aðstöðu þeirra, sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu, ekki eiga þak yfir höfuðið, en verða að leita á náðir annarra í því efni. Þessu er varla hægt að ná nema á þann hátt að reisa nokkrar skorður í löggjöfinni við því, hvernig menn, sem húseignir eiga og leigja út, geti farið að ráði sínu í því efni. Ég hafði nú ætlað, að það mundi sízt vera von á því frá hv. 2. þm. Reykv., að hann flytti till., sem miðaði að því að torvelda afgreiðslu þessa máls á þann hátt, að ekki næðust fram þau ákvæði, sem miða að því að auka rétt þeirra, sem höllum fæti standa, en ég sé á þeirri brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. hefur flutt, að þessu er ekki þannig farið, heldur flytur hann till., sem hver einasti maður sér að ekki á heima í þessu frv. og mun ekki greiða fyrir framgangi málsins í heild, ef hún verður samþykkt.

Ég ætla að leyfa mér að bera fram brtt. við brtt. hv. 2. þm. Reykv. Mér hefur ekki tekizt að koma þessari till. í prentun, því að hér gerast margir atburðir í senn á síðustu dögum þingsins, og verð ég því að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till. minni. En sú till., sem ég ber fram, er þannig, að við meginmál 1. tölul. í brtt. Einars Olgeirssonar bætist nýr málsl., svo hljóðandi: „Um fjárframlög samkvæmt þessari málgr. fer eftir ákvæðum fjárlaga.“