20.11.1953
Neðri deild: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þskj. það, nr. 175, sem hér er til umræðu, frv. til laga um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o.fl., er nú hér til 1. umr. Með frv. eru lög um fjárhagsráð afnumin. Fjárhagsráð hefur starfað frá því á árinn 1947. Hefur það samkvæmt lögum haft víðtækt valdsvið í innflutnings- og gjaldeyrismálum og ekki síður í fjárfestingarmálum og öllum framkvæmdum. Almenningur í landinu hefur unað illa því ófrelsi og höftum, sem á hann voru lögð með fjárhagsráðslögunum og framkvæmd þeirra. Engar framkvæmdir mátti gera án leyfis fjárhagsráðs, ef framkvæmdirnar kostuðu yfir 10 þús. kr. Byggingarefni var skammtað, og hefur það kostað mikla vinnu og fyrirhöfn þeirra, sem í byggingu stóðu, að fá leyfi og skömmtunarseðil fyrir byggingarefni. Sá tími og orka, sem í þetta hefur farið, ásamt allri skriffinnskunni, sem því fylgdi, hefur kostað þjóðina mikið í þau nær 5 ár, sem fjárhagsráð hefur starfað. Það munu því fáir sakna fjárhagsráðs, þegar það hættir störfum, en flestir fagna því, að stigið er stórt spor til afnáms hafta og aukins frelsis í athöfnum og framkvæmdum, sem almenning varðar.

Ríkisstjórnin hefur í samráði við stjórnarflokkana komið sér saman um flutning þess frv., sem hér er til umr.

Samkvæmt 1. gr. frv. skal vera frjáls innflutningur til landsins á þeim vörum, sem ríkisstj. ákveður hverju sinni með reglugerð. Enn fremur ákveður ríkisstj. á sama hátt, hvaða gjaldeyrisgreiðslur skuli vera frjálsar. Gert er ráð fyrir, að nokkur hluti innfluttra vara skuli enn vera háður innflutnings- og eða gjaldeyrisleyfum, sem stafar af því, að gjaldeyrisástand þjóðarinnar er ekki enn þannig, að fært þyki að hafa allan innflutning frjálsan. Má einnig segja, að fleira komi hér til en gjaldeyrisástandið eitt, svo sem takmarkaður innflutningur á ýmsum iðnaðarvörum til verndar iðnaðinum í landinu, og munu flestir telja það eðlilegt og sjálfsagt, að því leyti sem innlendur iðnaður getur leyst erlendan iðnaðarvarning af hólmi. Þá ber einnig að geta þess, að vegna milliríkjasamninga er oft nauðsynlegt að beina viðskiptum til vissra landa eftir því, hvernig og hvert framleiðsla þjóðarinnar er seld. Oft hefur þótt nauðsynlegt að selja vörur til þeirra þjóða, sem gera kröfur til jafnvirðiskaupa (clearing), og verður þá ekki hjá því komizt að beina vörukaupum til þeirra landa, sem kaupa framleiðslu þjóðarinnar. Þetta hefur einnig verið framkvæmt að nokkru af millibankanefndinni með þær vörur, sem komnar voru á frílista. Höftin hafa því, síðan vöruhungrið var mettað, legið helzt í því að ákveða, hvaðan varan var keypt, fremur en að takmarka vörumagnið, eins og lengi hefur tíðkazt.

2., 3. og 4. gr. frv. þurfa ekki skýringa við. 2. gr. er um tollafgreiðslu vara, svo sem sjálfsagt er í lögum, 3. gr. er um, að Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands hafi einkarétt til þess að verzla með gjaldeyri, og 4. gr., að útflytjendum og öðrum hérlendum mönnum sé skylt að selja Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands þann gjaldeyri, sem þeir kunna að eignast, o.s.frv.

Samkv. 5. gr. frv. skal stofna innflutningsskrifstofu, sem hefur með höndum leyfisveitingar fyrir þeim vörum, sem háðar eru innflutningsog gjaldeyrisleyfum. Tveir menn, skipaðir af ríkisstj., veita innflutningsskrifstofunni forstöðu og ráða nauðsynlegt starfsfólk. Innflutningsskrifstofan fer yfirleitt með það, sem eftir stendur af störfum fjárhagsráðs. Mun sparast við hina breyttu skipan húsnæði, fólkshald og ýmiss konar kostnaður, sem fylgdi fjárhagsráði og störfum þess. Forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar taka sameiginlega ákvarðanir um afgreiðslu mála, en hafa hvor um sig rétt til að vísa ágreiningi til ríkisstj. Forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar fara einnig með verðlagsákvarðanir samkvæmt lögum um verðlag og verðlagsdóm frá 1950. Verðgæzlustjóri skal annast birtingu verðlagsákvæðanna og aðra afgreiðslu verðlagsmála. Fjárhagsráði hafa alla tíð stjórnað 5 menn, og voru þeir alltaf, að því er virtist, störfum hlaðnir. Innflutningsskrifstofunni stjórna aðeins 2 menn og er það í samræmi við það, að störfin minnka í stofnuninni með minnkandi höftum og auknu frelsi.

Mikið er dregið úr fjárfestingareftirliti. Má segja, að allt það, sem snertir almenning, sé gefið frjálst. Íbúðarhúsnæði er frjálst upp að 520 m'. Munu fáir hafa áhuga fyrir að byggja stærri íbúðir. Útihús í sveitum og ýmsar fleiri byggingar í sveit og við sjó eru einnig frjálsar. Hvers konar byggingar og framkvæmdir, sem ekki kosta yfir 40 þús. kr., þótt þær teljist ekki bráðnauðsynlegar, eru einnig frjálsar.

Almenningur mun fagna þessari ákvörðun ríkisstj. og finna þá miklu breytingu, sem orðin er frá því að byggingarefni var skammtað og bann og sektir lágu við, ef menn gerðust svo djarfir að gera nokkuð í byggingarmálum án leyfis fjárhagsráðs. Byggingarnefndir í kaupstöðum og kauptúnum og oddvitar í sveitum hafa eftirlit með þeim framkvæmdum, sem háðar eru fjárfestingareftirliti, eins og fram er tekið í 8. gr. Takmarkanir á byggingum og öðrum framkvæmdum eru nú bundnar við það, sem kalla má stærri framkvæmdir og ekki snerta einstaklinga eða almenning. Þótti ekki rétt að afnema fjárfestingareftirlit með öllu, enda eðlilegt, að slíkar ákvarðanir séu ekki teknar í einu. Sjálfsagt er að athuga síðar, hvort heppilegt þykir að ganga lengra í afnámi fjárfestingareftirlits og annarra takmarkana á athafnafrelsi manna.

Gert er ráð fyrir, að Framkvæmdabanki Íslands fylgist með fjárfestingu í landinu og verði ríkisstj. til ráðuneytis um fjárfestingarmál. Er gert ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn semji áætlun um þjóðartekjurnar, myndun þeirra, skiptingu og notkun. Í öllum menningarlöndum þykir nauðsynlegt að fylgjast með fjárfestingunni og semja skýrslur og áætlun um þjóðartekjurnar. Eru þjóðhagsreikningar á því byggðir. Liggi slíkir reikningar fyrir, er ríkisstj. og öðrum þeim, sem vilja fylgjast með og gera sér grein fyrir efnahagsástandinu, gert léttara fyrir. Slíkar skýrslur og reikningar geta talizt nauðsynlegir, til þess að unnt verði að taka réttar ákvarðanir í atvinnumálum og fjármálum þjóðarinnar.

Innflutningsskrifstofan innheimtir 1% leyfisgjald af fjárhæð þeirri, sem innflutningsleyfi hljóðar um. Gjaldi þessu skal verja til að standa straum af kostnaði við innflutningsskrifstofuna og framkvæmd þessara laga. Hrökkvi þær tekjur ekki til, greiðir ríkissjóður það, sem á vantar. Verði tekjuafgangur, rennur hann í ríkissjóð. Leyfisgjaldið er jafnhátt og það hefur verið áður. Mun ýmsum finnast, að gjaldið hefði átt að lækka, um leið og kostnaður er lækkaður til muna við framkvæmd innflutnings- og fjárfestingarmála. En ástæðan til þess, að gjaldið er ekki lækkað, byggist á því, að stefna ber að því að fækka þeim vöruflokkum, sem háðir eru innflutningsleyfum. Takist það í framkvæmd, munu tekjur innflutningsskrifstofunnar minnka, þótt leyfisgjaldið verði óbreytt frá því, sem það hefur verið.

Millibankanefndin verður lögð niður, og munu bankarnir annast allar gjaldeyrisyfirfærslur, hvort sem um frílistavörur er að ræða eða gjaldeyrisgreiðslur, sem háðar eru sérstökum leyfum.

Heimild til vöruskömmtunar er niður felld með frv. þessu að undanskildu því, að niðurgreiðsla á smjöri og smjörlíki er takmörkuð með skömmtun.

Framkvæmd laga þessara byggist að öðru leyti á reglugerð, sem ríkisstj. mun gefa út og tekur gildi um n.k. áramót.

Frv. þetta er í samræmi við stefnu ríkisstj. að stefna að frjálsri verzlun og auknum framkvæmdum og frelsi til athafna. En um leið og rætt er um frjálsa verzlun og auknar framkvæmdir, er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því, hvað þarf að ske, til þess að slíkt verði raunhæft og tryggt í framkvæmdinni. Þjóðin þarf að framleiða meira, afla meiri verðmæta, auka gjaldeyristekjurnar og sparifjármyndunina í landinu. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér ljóst, að allar framfarir, athafnafrelsi í viðskiptum og öðrum atvinnugreinum byggjast á því, að þjóðinni með aukinni gjaldeyrisöflun og framleiðslu takist að mynda fjármagn og afla meira en eytt er á hverjum tíma, svo að raunveruleg verðmæti verði til og geti staðið undir þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegar eru, til þess að þjóðin verði efnalega sjálfstæð.

Á seinni tímum hefur átt sér stað talsverð sparifjármyndun í landinu og þó mest á líðandi ári. Sparifé banka og sparisjóða hefur aukizt sem hér segir:

1950 ..................... um 16 millj. kr.

1951 ..................... um 16 millj. kr.

1952 ..................... um 92 millj. kr.

1953 (9 mán. af þessu ári) um 140 millj. kr. Sparifjáraukningin gæti, ef rétt væri á haldið, gert mögulegt að standa undir ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum, svo sem sementsverksmiðju, raforkuframkvæmdum o.fl., ef nokkur hluti af sparifjáraukningunni væri látinn ganga til þessara framkvæmda. Atvinnuvegir landsmanna eru fábreyttir og því nauðsynlegt að byggja upp nýjar atvinnugreinar. Til þess að gera það kleift þarf sparifjármyndun eða erlendar lántökur. Það er þó mikið álitamál, hversu langt smáþjóð getur leyft sér að ganga í lántökum erlendis.

Ég sagði áðan, að nauðsyn bæri til að auka framleiðsluna. Er ólíklegt, að nokkur hér í hv. þingdeild sé í vafa um þá nauðsyn. Koma mér í því sambandi eigi að siður í huga skrif nokkurra blaða á s.l. hausti, þegar ríkisstj. gerði ráðstafanir til, að sú rýrnun, sem hefur orðið á fiskibátaflota landsmanna, yrði bætt fyrir n.k. vetrarvertíð. Liggur í augum uppi, að þetta var rétt og sjálfsagt, enda þótt til þess þyrfti að grípa að þessu sinni að flytja inn erlenda báta, vegna þess að innlendir bátar hefðu ekki komið til nota fyrr en á seinni hluta næsta árs eða á vetrarvertíð 1955.

Framleiðslan hefur selzt sæmilega að þessu sinni. Eru nú litlar birgðir í landinu óseldar. Er enginn vafi á því, að möguleikar væru á því að selja mun meira af fiski og fiskafurðum, ef þær væru fyrir hendi.

Þannig mun það einnig vera á öðrum sviðum framleiðslunnar, að möguleikarnir virðast vera fyrir hendi. Það getur því tekizt að skapa hér það gjaldeyrisástand og fjármagn í landinu, að verzlunin og æskilegar framkvæmdir mættu vera með öllu frjálsar. Íslenzka þjóðin er fámenn og því nauðsynlegt, að vinnuaflið nýtist. Það er nauðsynlegt, að þeir, sem vilja og hafa getu til þess að koma upp atvinnutækjum, sem veita atvinnu og skapa verðmæti fyrir þjóðina, verði ekki heftir og hindraðir í þeirri viðleitni.

Frv. það, sem hér er til umr., markar tímamót í viðskipta- og atvinnulífinu. Frv. boðar frelsi og nemur í burtu ýmis höft, sem lögð hafa verið á einstaklinga og fyrirtæki. Það er ástæða til að ætla, að haldið verði áfram á þeirri braut, sem nú er mörkuð, og ekki verði numið staðar fyrr en fullt frelsi er fengið í verzlun og viðskiptum, framkvæmdum og öðrum æskilegum athöfnum. Mun þá ekki þurfa að óttast atvinnuleysi. Framleiðslan og gjaldeyrisöflun mun vaxa og þjóðin geta lifað á eigin afköstum án Keflavíkurvinnu og erlendrar aðstoðar, eins og verið hefur um sinn, meðan ekki eru til í landinu þau atvinnutæki og sú fjölbreytni í atvinnulífinu, að framleiðslan nægi til þess að standa undir þeim kröfum, sem þjóðin gerir hverju sinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. að svo stöddu, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. allshn.